Category Archives: Vantrú Og Siðanefnd HÍ

Einelti Vantrúar

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Til eru margar mismunandi skilgreiningar á einelti fullorðinna. Á Íslandi, eins og annars staðar, hafa menn aðallega beint sjónum að vinnustaðaeinelti og skilgreining þess er svona, í reglugerð:
 

Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda sé skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur hvorki viðvarandi né endurtekinn kerfisbundið. (Feitletrun mín.)

Nokkrar aðrar skilgreiningar á vinnustaðaeinelti/starfsmannaeinelti má sjá á vefsíðunni Einelti, á vefnum Siðblinda / geðvilla og er þar vísað í heimildir hverju sinni. Í þeim koma fram nokkurn veginn sömu aðalatriði og í þeirri sem vitnað er í hér að ofan.

Andlegt ofbeldi tengist einelti fullorðinna mjög og virðist að oft sé þetta tvennt lagt nokkurn veginn að jöfnu. Engin samþykkt íslensk skilgreining er á því hvað andlegt ofbeldi er en e.t.v. mætti nota víða skilgreiningu Patriciu Evans á illmælgi í garð einhvers (verbal abuse), hugtaki sem hefur miklu víðari skírskotun í ensku en íslensku og nálgast mjög það sem við köllum andlegt ofbeldi. Patricia Evans hefur skrifað margar bækur um efnið en hefur ekki formlega menntun sem sálfræðingur. Skilgreining hennar á „verbal abuse“ er svona (snarað á íslensku og lítillega stytt):

Illmælgi/andlegt obeldi getur falið í sér að leggja fólk í einelti, ófrægja, ómerkja eða gera lítið úr fólki, áreita, drepa málum á dreif, yfirheyra, ásaka, kenna um, virða ekki viðlits, snúast gegn, ljúga, húðskamma, spotta, niðurlægja eða tæta í sig, nota hrakyrði dulbúin sem brandara, hunsa, ógna, kalla ónefnum, æpa og bölsótast.

Þeim sem hafa sérstakan áhuga á net-einelti og andlegu ofbeldi á internetinu er bent á yfirlitssíðu Wikipediu um efnið, þar sem vísað er í ýmsar heimildir og rannsóknir á fyrirbærinu, bæði því sem beinist gegn börnum og unglingum og fullorðnum. Í greininni er líka fjallað um eltihrella á netinu (cyber-stalking).

   Í undanförnum færslum hef ég nokkuð rakið málatilbúnað Vantrúar í kærum gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni. Allt frá því að Óli Gneisti Sóleyjarson lýsti því yfir á frægu innra spjalli félagsmanna Vantrúar þann 2. september 2009 að hann hafi hvatt nemanda utan guðfræði- og trúarbragðafræðideildar til að sækja námskeiðið Nýtrúarhreyfingar í von um að það verði „gullnáma“ (sjá Börkur Gunnarsson. Heilagt stríð Vantrúar í Morgunblaðinu 4. des. 2011, s. 18, bein tilvitnun í Óla Gneista er hér auðkennd með rauðu) til þess að málinu lauk formlega af hálfu Vantrúar, þegar félagið dró kæruna til baka þann 28. apríl 2011, beittu forsprakkar og fylgismenn Vantrúar sér af megni gegn Bjarna Randveri, á þeim vígstöðum sem boðaðar voru í yfirlýsingunni um heilaga stríðið (með meðfylgjandi broskarli) , þ.e. „á vefnum, í blöðum, með bréfum og jafnvel í fjölmiðlum.“
  

„Heilagt stríð“ á Vefnum
 

Aðalvettvangur félagsins Vantrúar hefur frá stofnun verið Vefurinn og þar var hið heilaga stríð mest áberandi. Það kom aldrei til greina af hálfu Vantrúar að láta afgreiða það sem þeir kjósa oftast að kalla „erindi“ sín til siðanefndar, rektors og forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar í friði heldur hóf félagið birtingu á fjölda greina um málið og sín „erindi“ ellefu dögum eftir að „erindin“ voru afhent, fyrsta greinin birtist 15. febrúar 2010. Undir umfjöllun félagsins Vantrúar tóku forkólfar Vantrúar á sínum bloggum og auglýstu umfjöllunina. Sem dæmi má nefna færslu Óla Gneista Sóleyjarsonar, formanns Vantrúar 2009, AF AKADEMÍSKUM VINNUBRÖGÐUM Í HÁSKÓLA ÍSLANDS, birt 25. febrúar 2010 (hér er vísað í færsluna á Vefsafninu því Óli Gneisti hefur nú eytt henni af blogginu sínu) og færslu Matthíasar Ásgeirssonar, fyrrv. formanns Vantrúar, Skondnir trúvarnarmenn, birt 26. febrúar 2010. Einn af stofnendum Vantrúar og löngum stjórnarmaður, Birgir Baldursson, var hættur að reka eigið blogg en skrifaði þess í stað greinina Helgi Hóseasson var ekki geðveikur á vef Vantrúar 26. febrúar 2010 (hún er ekki flokkuð með í sérstaka greinaflokknum um glærurnar, sem Vantrú hafði hleypt af stokkunum, en má ætla að kveikjan að henni séu nokkrar af þeim glærum sem Vantrú móðgaðist yfir). Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar, tengdi svo samdægurs umfjöllun þessarar greinar og greinaflokkinn með athugasemd sem lýkur á: „Að þessu loknu er ekki úr vegi að menn kynni sér hvernig guðfræðingi nokkrum í Háskóla Íslands þótti sæma að „kynna málstað hans“ nýlátins í kennslu í kúrsinum Nýtrúarhreyfingar.“

Færsla vantrúarfélagans Valgarðs Guðjónssonar, Er svona í lagi í HÍ? sem birtist 27. apríl 2010 er áhugaverð því þar er ekki einu sinni vísað í umfjöllun Vantrúar heldur dregin upp mynd af háskólakennslu, greinilega byggð á einhliða umfjöllun Vantrúar, án þess að geta nokkurra heimilda og spurt hvort svona sé í lagi? Í umræðuþræði við færsluna kemur svo fram að meirihluti þeirra sem tjá sig veit nákvæmlega um hvaða deild færslan snýst en líklega lítið um hvað málið snýst, t.d. Pétur Tyrfingsson, formaður Sálfræðingafélags Íslands, sem segir m.a.: 

Já mér þykir þetta „allt í lagi“ að viðgangist í HÍ einmitt vegna þess að um Guðfræðideildina er að ræða. Um að gera að þessi endaleysa komi fram í dagsljósið og afhjúpi að hér má efast um akademískan standard viðkomandi deildar. Er þá hægt að ræða hvort slíkar deildir eigi yfirleitt rétt á sér.
[- – -]
Fyrirlestrar á vegum froðuguðfræðinnar um guðleysi getur aldrei verið málefnaleg eðli málsins samkvæmt því markmiðið er ekki einhver málefnaleg niðurstaða eftir samanburð röksemda eða skilningur á rökheimi „andstæðingsins“.

Greinar gegn Bjarna Randveri á vef Vantrúar og bloggum helstu forsprakka Vantrúar héldu svo áfram að birtast og birtast enn. Hér er engin ástæða til að tína þær allar til.
 

Á meðan kærandinn, þ.e. félagið Vantrú, og einstakir félagsmenn og velunnarar þess tjáðu sig heilmikið um málið gat sakborningurinn, Bjarni Randver Sigurvinsson, eðlilega ekki tjáð sig á opinberum vettvangi meðan mál hans voru til umfjöllunar bæði hjá siðanefnd HÍ og guðfræði- og trúarbragðafræðideild. (Raunar virðist siðanefnd HÍ aldrei almennilega hafa greint hver var kærður, þ.e.a.s. hvort það var stundakennarinn Bjarni Randver, umsjónarmaður námskeiðsins sem hann kenndi, Pétur Pétursson deildarforseti, eða guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ. En fyrir þessu og fleiru fimbulfambi siðanefndar verður gerð betri grein síðar.)

Félagið Vantrú lýsti sem sagt yfir heilögu stríði með broskarli og einhenti sér síðan í að fylgja áætluninni í yfirlýsingunni, sem var að hampa sínum málstað sem víðast (sjá um þetta fyrri færslur), meðan hinn kærði eða hin kærða deild gat ekki tjáð sig opinberlega.
 
 

Aðför háskólakennara að félaginu Vantrú og árás þeirra á vammlausa siðanefnd
 

Til að byrja með stóð Bjarni Randver einn í þessu máli og var ekki virtur viðlits af siðanefnd HÍ. Eftir að siðanefnd HÍ hafði lagt fram sakfellandi sáttatillögu sem guðfræði- og trúarbragðafræðideild átti að samþykkja leitaði Bjarni Randver til Guðna Elíssonar í íslensku- og menningardeild. Þeir þekktust ekkert fyrir. Guðni Elísson kynnti málið, einkum meðferð siðanefndar, fyrir öðrum kennurum á hugvísindasviði og seinna kynntu kennarar í öðrum deildum og öðrum háskólum sér þetta mál. Eins og minnst var á í síðustu færslu fylgdust vantrúarfélagar eftir mætti með iðju háskólakennara sem kynntu sér málið.

Þegar mál voru komin í algert óefni og félagið Vantrú hafði dregið kæru sína til baka þann 28. apríl 2011 lagði félagið einnig til stuðningsmanna Bjarna Randvers. Sem dæmi má nefna greinarnar á vef Vantrúar: Þrautarmein Háskóla Íslands, 5. maí 2011, Aðför Guðna Elíssonar að siðanefnd HÍ og Vantrú, 11. maí 2011, Opið bréf til 40 háskólakennara, 12. maí 2011. Í þessum greinum er ítrekað að félagið Vantrú hafi frá því að „erindin“ voru send inn verið tilbúið til sátta en Bjarni Randver Sigurvinsson hafi staðið í vegi fyrir öllum sáttatilraunum. Jafnframt eru tekin upp atriði úr fyrri umfjöllun Vantrúar um hinar frægu glærur, einkum dæmi um úrfellingar úr beinum tilvitnunum sem að mati félagsins Vantrúar eru ekki akademísk vinnubrögð. Það að siðanefnd HÍ hafi ekki vísað málinu frá í upphafi þykir Vantrú sýna að „erindi“ þeirra hafi verið réttmætt og full ástæða til að taka á því mark. Það var ekki Vantrú að kenna að siðanefndin fékk engan frið til að fjalla um þetta réttmæta erindi. Sá vægir sem vitið hefur meira segir Vantrú og þess vegna drógu forkólfar Vantrúar „erindi“ sín til baka í skiptum fyrir loforð um að óháð nefnd tæki út málarekstur innan HÍ. Má kannski segja að athugasemd Baldvins 12. maí 2011 (sem er líklega Baldvin Örn Einarsson varaformaður Vantrúar fremur en Baldvin Zarioh vantrúarfélagi og deildarstjóri á vísindasviði HÍ) við eina af þessum færslum endurspegli viðhorf Vantrúar: 

Teljum okkur vita betur en stjórnendur Háskólans? Um hvað ertu eiginlega að bulla, maður?

Það voru einmitt stjórnendur Háskólans sem voru komnir í meiri háttar vandræði út af þessu upphlaupi.

Þegar það liggur fyrir að önnur siðanefndin í málinu komi til með að losna upp án þess að geta fjallað um málið og að ekkert lát er á stanslausum áróðri og ólátum ákveðins hóps starfsfólks háskólans þá er nokkuð ljóst að siðanefnd kemur ekki til með að fá frið í þessu máli. Hún hefur ekki fengið frið í 15 mánuði og ekkert bendir til þess að það hefði breyst.

Málið var komið í algjöran hnút og við ákváðum að skera á hann með þessum hætti gegn því m.a. að ferill málsins yrði skoðaður af óháðum aðilum [feitletrun mín].

Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar, lýsti því yfir í athugasemd við sömu færslu, Aðför Guðna Elíssonar að siðanefnd HÍ og Vantrú, að báðir formenn siðanefndar í þessu máli væru „vammlausir“ og gjörðir þeirra hlytu því að fría Vantrú af hvers kyns óheilindum: „Það mega vera mikil býsn ef Vantrú hefur tekist að vefja þessum vammlausu mönnum um fingur sér og nota sem strengjabrúður í ofsóknum og einelti á hendur kórdreng með geislabaug.“

Vantrúarfélagar hafa haldið því víðar fram að erindið hafi átt fullt erindi til siðanefndar, að Bjarni Randver og stuðningsmenn hans hafi hindrað eðlilegt starf siðanefndar og stundum að Vantrú hafi dregið kæru sína til baka gegn því að óháð rannsóknarnefnd skoðaði feril málsins innan Háskóla Íslands. T.d. sagði Matthías Ásgeirsson fyrrverandi formaður Vantrúar þetta í viðtali í Harmageddon þann 9. desember síðastliðinn:
 

Sko við skulum orða þetta þannig: Formaður siðanefndar mætir til starfa og hann kíkir á glærurnar og hann sér að við erum að kæra fyrir brot á siðareglum og þúst [þ.e. þú veist] hann gæti ekki vísað þessu frá, þúst hann gæti vísað þessu frá og sagt að við segjum bara „hann var vondur“ en við vísum alveg í siðareglur og færum rök fyrir þessu. Þannig að hann lítur á þetta og honum finnst sjálfsagt eitthvað athugavert þannig að hann sem sagt fer af stað og byrjar á því sem er oft gert að bara reyna að ljúka málinu með sáttum í staðinn fyrir að dæma manninn sko og síðan fer hann bara að tala við aðilana og spyrja sko eigum við ekki að finna einhverja lausn? Og sko þetta er sem sagt það sem hann gerir. Hann talar við Pétur Pétursson hjá guðfræðideild og svo talar hann við formann Vantrúar. Og þetta gerir hann í einkasamtölum.
[- – -]
Sko stuðningsmenn Bjarna Randvers verða brjálaðir yfir því að það sé sáttatillaga þar sem eitthvað er tekið undir gagnrýni okkar. En það hefðu náttúrlega aldrei verið neinar sættir nema eitthvað hefði verið tekið undir gagnrýni okkar vegna þess að við vorum ekki sáttir. Annars er það bara þrái ég meina sáttatillaga felur í sér að það er tekið undir ég meina við hörmum eitthvað.
[…]
Bjarni Randver vill ekki harma neitt. En sko reyndar fer tvennum sögum af því vegna þess að í svarinu frá guðfræðideild kemur fram að þeir séu tilbúnir til að breyta einhverjum glærum. […]
[- – -]
Þannig að það endaði með því að í samráði við rektor þá fer bara Vantrú, við drögum málið til baka, algjörlega og í staðinn fyrir var skipuð þessi rannsóknarnefnd sem hefur verið að rannsaka málið. Svo var hún skipuð og rannsakar málið og okkur finnst það vera óttalega rugl vegna þess að …
 

Vantrú óttast fréttaskýringu í Morgunblaðinu

Fyrrnefnt viðtal Mána Péturssonar við vantrúarfélagana Matthías Ásgeirsson og Frosta Logason (sem er raunar annar af stjórnendum þáttarins Harmageddon) var tekið skömmu eftir að fréttaskýring Barkar Gunnarssonar, Heilagt stríð Vantrúar, birtist í Morgunblaðinu þann 4. desember 2011. Áður en fréttaskýringin birtist var Matthías Ásgeirsson búinn að frétta af henni og reyndi að hafa áhrif á hana, eins og kemur fram í þessu sama viðtali á Harmageddon: 

Málið er að ég þekki Börk. Við spilum fótbolta reglulega. Börkur Gunnarson er ágætur Garðbæingur. Og hérna hann sem sagt fær hérna upplýsingar frá Bjarna Randveri og þeim og hann trúir því allan tímann að við höfum bara lagt hann í einelti. Og hann er með afrit af þessu innra spjalli. Og hann er með nota bene hann er að fara að birta grein í síðasta sunnudagsmogga án þess að tala nokkurn tíma við Vantrú. Við bara fréttum útí bæ að hann sé að skrifa um okkur. Og þar sem ég þekki hann þá sendi ég honum bara tölvupóst og sagði Hey, ertu að skrifa um Vantrú? Já, segir hann. Hérna bíddu ætlarðu ekki að tala við okkur? Nei, segir hann og svo verður úr að ég fer að tala við hann. Ég næ þó örlítið að rétta okkar hlut en hann hefur bara játað fyrir mér sko þegar þarna var komið stöðu, hann var búinn að heyra þessa sögu, um vonda fólkið sem skipulagði herferð og ætlaði að leggja þennan mann í einelti og þá bara hélt hann að við værum trítilóð. Þannig að sko það, ég veit ekki hvort hann nær einhvern tímann að sko sjá ljósið í þessu máli …
 

Viðbrögð félagsins Vantrúar við fréttaskýringunni í Morgunblaðinu og umfjöllun sem af henni spratt
 

Í kjölfarið á fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar var viðtal við Bjarna Randver Sigurvinsson í Kastljósi þann 5. desember 2011 og mikil viðbrögð urðu á Vefnum. Stjórn Vantrúar reyndi að fá birta grein til andsvara í Morgunblaðinu en tókst ekki og birti í staðinn á vef Vantrúar, sem og fleiri andsvör, eftir að þessi fréttaskýring Barkar (sem raunar var birt framhald af viku síðar, Einelti Vantrúar, þann 11. desember 2011, sú grein er ekki aðgengileg öðrum en kaupendum Morgunblaðsins).

Greinar Vantrúar heita Hvaða einelti?, eftir Egil Óskarsson, birt þann 6. desember 2011, Hvað gekk á í guðfræðideild?, birt sama dag, Banntrúarmaður svarar fyrir sig eftir Egil Óskarsson birt 9. desember 2011 (greinin er andsvar við grein Guðmundar Andra Thorssonar, Banntrúarmenn, í Fréttablaðinu 5. desember 2011), Yfirlýsing frá Vantrú, 13. desember 2011, og Um “Heilagt stríð” og “einelti” Vantrúar birtist 29. desember 2011. (Tvær síðarnefndu greinarnar eru eignaðar ritstjórn Vantrúar.) Að auki kom félagið Vantrú frétt um sín sjónarmið á Eyjunni, Einelti fjarri lagi segja Vantrúarmenn. Hafna málatilbúnaði stundakennara, þann 6. desember 2011 og í Morgunblaðið 13. desember 2011, Málið snúist um útúrsnúninga. (Mögulega hafa birst fréttir af sjónarhóli Vantrúar víðar í fjölmiðlum, ég leitaði ekki mjög nákvæmlega að slíku). Ennfremur vöktu einstakir vantrúarfélagar athygli á málstað sínum og greinum á vef Vantrúar á eigin bloggum, s.s. Matthías Ásgeirsson í Nokkrar eineltisgreinar þann 10. desember 2011 og Valgarður Guðjónsson í Kæri Guðmundur Andri, 7. desember 2011, Hið illa félag, 9. desember 2011, Já, já, háskólakennarar, þetta er í góðu lagi, 13. desember 2011 og Kennarinn sem hélt sig stjóra Liverpool, 27. desember 2011.
 

Í þessari baráttu Vantrúar „á vefnum, í blöðum, með bréfum og jafnvel í fjölmiðlum“ var ekki barist til sigurs heldur til varnar. Í flestum greinanna er dregið mjög úr aðgerðum Vantrúar í málinu gegn Bjarna Randver: Vantrú ætlaði sér aldrei í neina herferð gegn neinum; Biðlað er til skilnings lesenda á að eðlilega hafi vantrúarfélagar orðið sárir þegar þeir sáu glærurnar, fundist þær meiðandi fyrir sig, ekki sæma Háskóla Íslands og því borið upp erindi sín við þá aðila sem þeir töldu best að leita til; Vantrú virðist líta á siðanefndina/siðanefndirnar sem bandamann en telur Bjarna Randver og háskólakennara sem fylktu sér um hann (og voru orðnir á annað hundrað fyrir rest) vera óvini sína því Vantrú ásakar þessa aðila um að hafa fokkað upp málum, þ.e. komið i veg fyrir að siðanefnd fengi að starfa í þeim friði sem Vantrú segist einmitt hafa verið fylgjandi. Af þessum kennurum ber Guðni Elísson þyngsta sök í að ráðast gegn Vantrú og siðanefnd HÍ. Sem dæmi um málflutning má nefna: 

  • Öllu tali um „herferð“ Vantrúar gegn Bjarna Randveri er vísað til föðurhúsanna. Einu raunverulegu aðgerðir félagsins hafa verið að leggja fram erindi til siðanefndar Háskóla Íslands, en félagið taldi Bjarna hafa farið á svig við þær siðareglur sem HÍ hefur sett sér, og að fjalla á vefriti sínu um þá mynd sem Bjarni dró upp af félaginu á glærum sem hann notaði í kennslu sinni. (Egill Óskarsson. Banntrúarmaður svarar fyrir sig, 9. desember 2011.)
  • Kröfur Vantrúar voru ekki miklar. Félagið vildi að sýndur yrði skilningur á umkvörtunarefnum sínum og að tryggt yrði að bragarbót yrði gert á. Hvort að um formlega áminningu yrði að ræða var ekki aðalatriðið. (Egill Óskarsson. Hvaða einelti? á vef Vantrúar 6. desember 2011.)
  • Hópur háskólafólks hefur þyrlað upp miklu moldviðri í kringum þetta mál, ráðist að Vantrú og siðanefnd, svo aldrei hefur í raun tekist að fjalla um sjálft umkvörtunarefnið. Ef ekkert er að glærunum, af hverju fékk siðanefnd ekki að kafa ofan í saumana á málinu? (Um “Heilagt stríð” og “einelti” Vantrúar, á vef Vantrúar 29. desember 2011.)
     

Útskýring vantrúarfélaga á heilögu stríði og einelti

Félagið Vantrú hefur hafnað því alfarið að hafa nokkru sinni ætlað í stríð (heilagt, með broskarli) gegn Bjarna Randveri eða leggja hann í einelti, í fréttum, mörgum greinum, bloggfærslum félagsmanna og athugasemdum sem félagsmenn hafa skrifað við hin og þessi blogg. Má sem dæmi nefna orð Matthíasar Ásgeirssonar, fyrrum formanns Vantrúar, í viðtalinu í Harmageddon þann 9. desember 2011 þegar hann hann svarar fyrst spurningu Mána Péturssonar um hvort heilagt stríð hafi verið boðað:

Já, tökum þetta þrennt til sko, byrjum á hérna heilagt stríð sko. Nú er ég að fjalla um þetta allt eftir minni, sko. Við erum að tala um þessa umræðu sko, sem Bjarni Randver hefur undir höndum, og sem var stolið sko og lekið mjög víða. Hérna það, þær eru ná yfir heilt ár og þetta eru 1500 athugasemdir og sem fjöldi manna tekur á, í rauninni er þetta ekki mikið þegar þú deilir þessu á árið, sko. En svo fer hann og velur úr og sem sagt heilagt stríð kemur þannig til að þegar að hérna Vantrú er búið að senda inn þessi erindi, sem sagt við tökum okkur þarna einhverjar vikur til að semja erindið og tala um þetta og þetta er hópur fólks sem er að semja og gera athugasemdir og kommenta og svo er þetta tilbúið og hann fer og skilar þessu öllu inn ókei og þá er það komið og svo hérna byrjum við á greinaflokkunum, við setjum fyrstu greinina og þá kemur Reynir sem sagt á vefinn og segir eitthvað einsog: „Jæja, heilagt stríð er hafið“ og svo kemur hlæjandi broskarl. Gott ef næsti segir ekki eitthvað sko: „Hver ætlar að koma með mér í sjálfsmorðsárás“ og þriðji sko: „Allah Akbar“ og eitthvað. Svo AUGLJÓST HÁÐ svo augljóslega EKKI heilagt stríð að það ÞARF sko að vera eitthvað AÐ blaðamanni Morgunblaðsins að túlka þetta þannig. En sko þarna er hann kominn með fína fyrirsögn. Svo er hann sko með það að það sé skipuleg herferð. Vantrú er hópur fólks. Það var ekki ég sem kvartaði undan kennslunni heldur sko hópur í félagi. Og, ég meina, þegar hópur í félagi gerir eitthvað þá má alltaf segja að það sé skipulagt, ég meina það er fólk að taka sig saman um eitthvað. Ég veit ekki sko, efnislega held ég að málið væri nákvæmlega ekkert öðruvísi þó ég hefði einn staðið í þessu, ég meina, þetta er, það er alltaf hægt að segja ef hópur fólks gerir eitthvað, ég meina ef þið tveir takið ykkur saman um að fara í viðtal og svo segiði „Svo spyrð þú að þessu og ég að hinu“, ég meina, er það þá skipulögð herferð? Já, nei, að sjálfsögðu ekki. Það er bara fólk að leggja línurnar. Og í þessu  lögðum við línurnar fram og til baka og spáðum í, fengum viðbrögð og sögðum, bíddu við, hvað eigum við að gera, hvernig eigum við að svara, hvað haldið þið að þeir segi, er gott að gera þetta eða hitt. Eigum við að nota þetta orð eða hitt þegar við erum að semja þetta.

Máni Pétursson spyr: „En skipulögð … þegar menn eru að skipuleggja einelti er það ekki full langt gengið?“

Matthías: Já það er nefnilega tvennt í þessu. Annars vegar er það nefnilega að orðið einelti, ég get alveg, það nefnilega tengist ykkur, gaman að segja frá því. Að hérna eftir að ég var hérna hjá ykkur á sínum tíma og talaði um þetta þá hérna kom Stefán Einar Stefánsson ekkert löngu síðar og var að tala og kynna einhverja bók síðan. Og í lok þess viðtals þá rædduð þið aðeins við hann um málið. Og, ég meina, við hlustuðum á þetta viðtal og svo ræddum við það. Og hérna okkur þótti margt í því svona frekar gagnrýnivert en að … vorum svona eitthvað að ræða það sem hann sagði og hvort við ættum að svara því og ég spyr: „Hvað segið þið? Á ég að skrifa grein og svara þessu hérna á Vantrú?“ Og hann hérna sem sagt Reynir segir: „Jájá við megum ekki skilja þarna þennan mann útundan í einelti okkar“ …
[Þáttarstjórnandi stingur inn í: Hann orðaði þetta ekki alveg svona …]
Efnislega segir hann þetta. Þarna er … Þetta er EINA sem þeir hafa í höndunum um að við séum að tala um einelti gegn Bjarna Randver. Þetta er sagt í háði en með, nota bene, miðað við það sem fram kemur á glærunum sem kennt er í Háskóla Íslands er einelti, það er ein glæra um einelti. Það er eftir því að við erum dónalegir að þá er farið að tala um að við séum að leggja fólk í einelti. Og hérna þannig að þetta orð var sagt í svona samhengi og til að bæta sko gráu ofan á svart að það sé verið að nota þetta orð í eineltisumræðunni er að greinin, sem ég spurði hvort ég ætti að skrifa, og formaðurinn hvatti mig til að skrifa var aldrei skrifuð. Neinei og af hverju? Bara vegna þess þú veist að ég bara … ég er latur.

Þannig að þú veist ei … sko menn geta talað um þetta, jú það  er verið segja eitthvað inn á spjallborðinu og menn geta tekið einhver orð úr samhengi. Skoðið það sem Vantrú gerði. Var eitthvað einelti í gjörðum okkar? Þú veist, nei! Við sendum erindi til siðanefndar …
 
[- – – ]

En þetta, þetta kemur í ljós þarna um jólin og þá er allt komið í háaloft náttúrlega og við, þú veist, og nota bene hann er að dreifa punktum úr spjallinu og taka alveg STÓRKOSTLEGA úr samhengi. Ekki bara sem við vorum að tala um hérna um einelti heldur  …

Þáttarstjórnandi: „En þá er hann ekki bara að taka af persónulegum bloggsíðum heldur er hann að taka af persónulegu lokuðu spjallsvæði og taka þaðan úr samhengi og …“

Matthías: og taka þaðan …
Þáttarstjórnandi: Og mála Vantrú …
Matthías: Og mála okkur sem brjálað fólk og hérna og þarna er þetta komið í þessa stöðu og við förum og tölum við siðanefnd og bara hvað er í gangi? og hann vildi og leggja þetta fram sem mála [?] Því var hafnað. Ég hérna … Svona heldur þetta áfram og það er verið að tala um …
[ – – – ]

Þáttarstjórnandi minnist á umræðuna í vikunni (sem sprottin er af fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar í Morgunblaðinu)

Mattías: Sko, ég er sko ýmsu vanur en það er sko svakalegt hatur í garð okkar það er sko ég hef sko sjaldan séð annað eins og þarna maður snýr því ekkert við á einhverjum smátíma. Ég meina við þurfum að tala við fólk. Við þurfum að tala við sko við þurfum að tala .. sko, til dæmis stendur bara í siðareglum Háskóla Íslands að sá sem leggur fram rökstudda ásökun um brot á siðareglum það má aldrei bitna á þeim sem færir hana fram […] Þetta hefur svo sannarlega verið brotið fram og til baka.

Fleiri forkólfar félagsins Vantrúar hafa haldið fram sömu sjónarmiðum og túlkun á atburðarás:

  • Ef samhengi athugasemdarinnar er skoðuð, þá er það rangt að Stefán Einar hafi ekki “tengst þessu máli nokkurn skapaðan hlut”, hann hafði tjáð sig um þetta mál í útvarpsviðtali. Það var stungið upp á því að birta upptöku af viðtalinu ásamt gagnrýni. Þegar Reynir segir “Go for it”, þá var hann að svara þeirri uppástungu. Það er “eineltið” sem átti að hefjast gegn Stefáni.

Það er auðvitað skiljanlegt að hvorki Bjarni Randver né blaðamaður Morgunblaðsins skilji einkahúmor á lokuðu spjallsvæði Vantrúar. En það er frekar ömurlegt að sömu menn skuli notfæra sér það í áróðri sínum gegn Vantrú. Og ég verð að segja að þegar sömu menn túlka tal um “heilagt stríð” sem alvöru, og slengja því upp í fyrirsögn, þá tel ég að það sé bara um óheiðarleg vinnubrögð að ræða. (Hjalti Rúnar Ómarsson, fyrrum stjórnarmaður í Vantrú. Ímyndað einelti á vef Vantrúar 27. desember 2011.)

  • Í þessu máli hefur BRS ekki bara látið sér nægja að verjast siðanefndarkærunni, sem hefði þó átt að vera aðalatriðið. Þvert á móti hefur aðalatriðið verið að reyna að koma höggi á félagið Vantrú og einstaka félagsmenn. Meðlimir í félaginu hafa þegar fundið fyrir því, en trúnaðargögnin virðast hafa fengið mikla og nánast kerfisbundna dreifingu um háskólasamfélagið og víðar. (Egill Óskarsson, næstötulasti greinarhöfundur á vef Vantrúar 2011. Hvaða einelti? á vef Vantrúar 6. desember 2011.)
     

Af ofantöldu sýnist mér að vantrúarfélagar haldi því fram núna þegar einelti berst í tal að Bjarni Randver Sigurvinsson, fjöldi háskólakennara og Börkur Gunnarsson blaðamaður Morgunblaðsins hafi með óskiljanlegri kergju, húmorsleysi, stolnum trúnaðargögnum og óheiðarlegum vinnubrögðum lagt félagið Vantrú í einelti. Það sé eineltið. Félagið Vantrú sé hið raunverulega fórnarlamb í þessu máli.
 

Að lokum er rétt að geta þess að Óli Gneisti Sóleyjarson, formaður Vantrúar árið 2009 sem fékk vin sinn til að afhenda sér glærurnar úr Nýtrúarhreyfingum og varð kveikjan að kærumálinu gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, og Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar 2010-2011, sem rak kærumálið gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni fyrir hönd Vantrúar, hafa hvorugir tjáð sig um málið eftir að fréttaskýring Barkar Gunnarssonar birtist og umfjöllun á Vefnum og í fjölmiðlum fylgdi í kjölfarið. Síðasta greinin sem Reynir Harðarson skrifaði á vef Vantrúar er Guðfræðilegar bollaleggingar frá 28. ágúst 2011 og síðasta athugasemd sem ég fann eftir Reyni er frá 6. október 2011. Eftir það ríkir þögnin ein af hans hálfu. Skv. upplýsingasíðu á vef Vantrúar, Um Vantrú, er Reynir Harðarson enn formaður félagsins en undanfarna mánuði virðist Matthías Ásgeirsson aðallega hafa verið í forsvari fyrir félagið Vantrú.
 
 
 
 
 
 

Aðrar aðgerðir Vantrúar gegn Bjarna Randveri og stuðningsmönnum hans

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

  
 

Svo virðist sem ekki þurfi mikið til að baka sér óvild forkólfa Vantrúar og jafnvel vinna menn sér það eitt til óhelgis að styðja Bjarna Randver Sigurvinsson eftir að mál Vantrúar gegn honum tók á sig æ furðulegri mynd í meðförum siðanefndar HÍ (en gerð verður betri grein fyrir þætti siðanefndar síðar). Hér verða rakin dæmi um þetta.

Leggja fleiri í einelti?

Frægt dæmi, sem m.a. er rakið í fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar, Heilagt stríð Vantrúar, í Morgunblaðinu 4. desember 2011, s. 20 (hér er krækt í greinina á mbl.is), er þegar Vantrúarfélaginn Frosti Logason hafði tekið viðtal við Stefán Einar Stefánsson viðskiptasiðfræðing og guðfræðing í útvarpsþættinum Harmageddon þar sem þetta mál bar á góma, þann 11. mars 2010 (hér er krækt í hljóðskrá með viðtalinu á vef Vantrúar. Vantrú hefur nú gert þessa hljóðskrá óaðgengilega). Stefán Einar sagði m.a.:

Kennarinn sem þarna á í hlut upp í Háskóla er sérfræðingur í nýtrúarhreyfingum, ekki bara hérlendis heldur erlendis á því sviði og ég hef sótt fyrirlestra þar sem hann tekur til umfjöllunar þennan félagsskap Vantrú, útskýrir með hvaða aðferðafræði hann hefur greint þá, þeirra umfjöllun og annað og ég held að þeir séu þarna [Frosti grípur hér fram í fyrir Stefáni]

Stefán Einar rekur svo í viðtalinu fyrri samskipti sín við félagsmann í Vantrú og raunar er það ekkert leyndarmál að sumir stjórnarmenn í Vantrú og Stefán Einar hafa lengi eldað grátt silfur saman. Útgáfu Matthíasar Ásgeirssonar fyrrum formanns Vantrúar á dæminu sem Stefán Einar nefnir í þessu viðtali má sjá á bloggfærslu hans Sértrúarsöfnuðurinn Stefán Einar þann 17. mars 2010 og styðja félagar Matthíasar hann dyggilega í umræðuþræðinum við færsluna.

Á spjallþræði Vantrúar „Söguskoðun Bjarna Randvers“ var rætt um Stefán Einar og viðtalið og honum ekki vandaðar kveðjurnar. Í umræðunni er „stungið upp á að hefja líka einelti gegn Stefáni Einari Stefánssyni […]. Reynir [Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar] skrifar strax: „Go for it. Megum ekki skilja svona plebba útundan í einelti okkar.““ (Börkur Gunnarsson í Morgunblaðinu 4. des. 2011, s. 20. Ég auðkenndi beina tilvitnun Barkar í orð Reynis með rauðu.) Nú er mér ekki kunnugt um hvort vantrúarfélagar eyddu miklum tíma og orku í að leggja Stefán Einar Stefánsson líka í einelti en af orðum Reynis Harðarsonar mætti skilja að hann liti á hið áður boðaða „heilaga stríð“ sem einelti og vilji bæta Stefáni Einari við sem fórnarlambi.

Í grein Barkar er á sömu síðu vitnað í bréf Reynis Harðarsonar til Siðanefndar HÍ 4. janúar 2011: „Ég hafna því alfarið að um einelti af okkar hálfu sé að ræða, hvað þá heilagt stríð. … Þetta er hreinn þvættingur og meiðyrði.“
 

Eftir að greinin birtist hafa vantrúarfélagar lagt sig í líma í að sverja af sér einelti og „heilagt stríð í alvöru“ en verður gerð betri grein fyrir því í næstu færslu.
 

Njósnir

Í fyrrnefndri grein Barkar Gunnarssonar er sagt frá því að Baldvin Zoriah, deildarstjóri á vísindasviði í HÍ og félagi í Vantrú, hafi lekið „upplýsingum af framgangi málsins [kæru Vantrúar í meðförum siðanefndar HÍ] á innri vef þeirra.“ (Morgunblaðið 4. des. 2011, s. 20.) Talsverð óformleg samskipti formanns siðanefndar, Þórðar Harðarsonar, og Reynis Harðarsonar formanns Vantrúar eru löngu kunn, sem og upplýsingagjöf hins fyrrnefnda til Reynis og verður þeim gerð betri skil síðar á þessu bloggi. Mögulega hefur Vantrú haft eða ætlað sér að nota fleiri starfsmenn HÍ í sína þágu, um það get ég ekkert fullyrt að svo stöddu.

En annars konar vöktun var einnig viðhöfð. Matthías Ásgeirsson, fyrrverandi formaður Vantrúar, stundaði nám í tölvufræði til BS-gráðu í Háskóla Íslands veturinn 2010-2011. Hann hafði að sjálfsögðu eigið háskólanetfang sem nemandi og virðist hafa farið í reglulega göngutúra um Háskólalóðina. Matthías hefur að eigin sögn haft eitthvert eftirlit með því hvað Bjarni Randver Sigurvinsson aðhafðist, sjá færsluna Í skrifstofu á þriðju hæð á bloggi Matthíasar, Örvitanum, þann 20. janúar 2011 þar sem segir m.a.:
 

Í kvöld sat hann á þriðju hæð aðalbyggingar Háskóla Íslands og dundaði sér í tölvunni á skrifstofu doktorsins. Þar hefur hann verið af og til síðustu mánuði og unnið að málsvörn sinni, leitað á netinu að skrifum sem hann gæti snúið út úr og mistúlkað eins og honum er einum lagið (eins og mörgum öðrum með sama heilkenni!). […]

Reiknistofnun Háskóla Íslands rekur tölvukerfi HÍ og hefur hver útstöð (borðtölva) fasta rekjanlega ip-tölu og sérstakt heiti. Að auki er kerfið þannig uppbyggt að með einni einfaldri Unix/Linux skipun er hægt að inna nafnaþjón (DNS-þjón) háskólanetins eftir því hvaða notandi er skráður fyrir hverri ip-tölu. Föstudaginn 21. janúar 2011 kl. 17:37 birti Matthías þessa athugasemd við sömu færslu: 

Halló Guðni. Halló Höskuldur. Halló Gauti. Hvernig hafið þið það? Af hverju segið þið aldrei hæ?

Matthías lætur með þessu vita að hann hafi borið kennsl á Guðna Elísson prófessor, Höskuld Þráinsson prófessor og Gauta Kristmannsson dósent þegar þeir heimsóttu einn af öðrum bloggið hans skömmu áður af skrifstofum sínum.

Guðni Elísson hafði fyrr um daginn sent póst á hóp kennara þar sem hann benti þeim á greinina „Í skrifstofu á þriðju hæð“ Þegar Benedikt Hjartarson aðjunkt fór inn á vefinn skömmu eftir heimsóknir Guðna, Höskuldar og Gauta uppfærði Matthías færsluna og bætti inn staðfestingu á að borin hafi verið kennsl á Benedikt. (Matti – 21/01/11 17:37 #) Haft var samband við aðra kennara sem höfðu fengið póstinn frá Guðna og þeir beðnir að fara ekki að svo stöddu inn á blogg Matthíasar.

Morguninn eftir bað Guðni Bergljótu S. Kristjánsdóttur prófessor að fara inn á blogg Matthíasar af heimili sínu og vottaði Matthías komu hennar nokkrum mínútum síðar:
 

Halló Bergljót. Velkomin. (Matti – 22/01/11 12:04 #)
 

Haft var samband við aðra starfsmenn af Hugvísindasviði HÍ sem ekki höfðu fengið fyrrnefndan tölvupóst Guðna Elíssonar, fyrst Ástráð Eysteinsson forseta Hugvísindasviðs og síðan Pétur Knútsson dósent og þeir beðnir að fara inn á blogg Matthíasar Ásgeirssonar. Matthías staðfesti heimsókn þeirra inn á bloggið skömmu síðar. 

Sæll Ástráður, gaman að sjá þig. Hæ Pétur, nice to see you! (Matti – 22/01/11 16:05 #)

Bergljót S. Kristjánsdóttir, Ástráður Eysteinsson og Pétur Knútsson skoðuðu Örvitann, blogg Matthíasar Ásgeirssonar, úr heimilistölvum sínum en þær eiga það allar sammerkt að vera þjónustaðar af Reiknistofnun HÍ. Ekkert þeirra hafði nokkurn tíma farið inn á þetta blogg áður. (Þess ber að geta að Reiknistofnun HÍ útvegar nemendum og kennurum hugbúnað til að tengjast háskólanetinu gegnum heimilistölvur. Þetta er m.a. til þess að nemendur og kennarar geti skoðað greinar í tímaritum þar sem aðgangur er takmarkaður við HÍ. Mögulega eru slíkar tölvur skráðar eins og hver önnur útstöð á háskólanetinu og því jafn auðvelt að finna ip-tölur og eigendur þeirra og væru þær á Háskólasvæðinu.)

Á vef Vantrúar var staðfest að ip-tala skrifstofutölvu Péturs Péturssonar prófessors var vöktuð. Þegar skrifstofutölva Péturs var notuð og farið inn á spjallþráð vefjar Vantrúar sem opinn er almenningi, þann 20. janúar 2011, komu upp eftirfarandi skilaboð:
Skjámynd af vef Vantrúar

Þótt uppfletting notenda og ip-talna á neti HÍ, þ.m.t. mögulega á heimilistölvum kennara sem tengjast neti HÍ, sé sáraeinföld þá virtust einhverjir fyllast aðdáun á hæfileikum Matthíasar til að snuðra uppi ip-tölur og vakta innkomu á eigið blogg eða vef Vantrúar. Má þar nefna Steindór J. Erlingsson sem spyr: „Ertu að grínast eða þekkir þú ip-tölu Bjarna?“ Og Matthías svarar að bragði: „Ekkert grín. Þarna sat hann, kíkti tvisvar á þessa færslu.“

Það er ótrúleg elja sem Matthías Ásgeirsson sýnir að fletta upp ip-tölum allra kennara Hugvísindasviðs og heimilistölva einhverra þeirra að auki! Það hlýtur hann að hafa gert úr því hann þekkti jafnt ip-tölur prófessora og aðjúnkta og kennara í mismunandi deildum. Á vorönn 2012 eru skráðir kennarar á Hugvísindasviði 106 talsins og má ætla að svipaður fjöldi hafi starfað þar á vorönn 2011. Hafi Matthías líka lagt á sig að fletta upp öllum þeim sem starfa á skrifstofum hinna fjögurra deilda sem tilheyra Hugvísindasviði hækkar talan umtalsvert.

Að mínu mati er aðalspurningin ekki hvort þetta sé löglegt eða ólöglegt heldur: Af hverju í ósköpunum að leggja á sig að snuðra uppi allar þessa ip-tölur? Var þetta einhvers konar tilraun til að sýna háskólakennurum „mátt sinn og megin? Leika Lísbet Salander fyrir félaga sína og blogglesendur? Eða hvað?

(Heimild mín fyrir ofangreindum heimsóknum og prufum háskólakennara á Örvitanum og vef Vantrúar er Ýmis skjöl frá hinum kærða. Vegna kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (kærumál nr. 1/2010), s. 53-55. Þetta er óopinbert skjal í vinnslu, sem ég vitna í með leyfi höfundar, Bjarna Randvers Sigurvinssonar.)

Ég reikna svo með að neðanmálsgrein við bloggfærslu Matthíasar Ásgeirssonar, Sáttfýsi, þann 28. apríl 2011, eigi að vera dæmi um hið fræga skopskyn vantrúarfélaga, sem félagarnir taka svo undir á stuttum umræðuþræði – eða til að ganga í augun á einhverjum?

Næsta færsla verður líklega síðasta færslan um aðgerðir félagsins Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni. Í henni verður velt upp þeirri spurningu hvort um skipulagt gróft einelti gegn Bjarna Randver hafi verið að ræða eða skiljanlegt erindi Vantrúar til þeirra aðila sem félagið taldi rétt að kvarta, undan meiðandi glærum um sig o.fl.. Einnig verður drepið á viðbrögð vantrúarfélaga við fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar.
 
 
 
 

Sókn Vantrúar gegn Bjarna Randver í fjölmiðlum

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Tilkynning 1. febrúar 2012: Nú er ég búin að fletta upp nokkrum Hæstaréttardómum og sé ekki betur en mér sé heimilt að vitna í tilvitnanir í tilvitnanir í það sem Vantrú kallar innra spjallið. Sérstaklega áhugaverðir dómar í þessu sambandi er dómur nr. 472/2008, þar sem staða jafningjanets er að nokkru skilgreind í lagalegu tilliti, og dómur nr. 541/2005, sem fjallar um friðhelgi einkalífs versus rétt til að birta upplýsingar sem varða almenning. Ég kem því bloggfærslunum tveimur í fyrra horf, þ.e. set aftur inn tilvitnanir í tilvitnanir í spjallþráðinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“. Þær eru auðkenndar með rauðum lit. Sem fyrr er heimild mín fyrir tilvitnunum í spjallþráðinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“ á spjallborði Vantrúar, sem einungis félagar í Vantrúar höfðu aðgang að (á annað hundrað manns), skjalið Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010). Þetta er vinnuskjal sem ekki er opinbert en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í. Þetta sama skjal er líka meginheimild mín fyrir hvaða umfjöllun Vantrú reyndi og tókst að ná í fjölmiðlum.

Um innra spjallið/lokuðu spjallþræðina segir félagið Vantrú í greininni Aðalfundur Vantrúar þann 18. janúar 2011:

 Ef forsíðan er andlit okkar er innra spjallið hjartað. Á það hópumst við eins og dýr að vatnsbóli (eða mý á mykjuskán) og sækjum þangað félagsskap, stuðning og styrk (eða nýjasta slúðrið og hneykslið í heimi bullukollanna). Innra spjallið lýtur eigin lögmálum sem ekkert okkar hefur stjórn á en hver sem þau eru er ljóst að þau svínvirka.“ (Feitletrun mín.)
 

Margt bendir til að búið hafi verið að ræða aðförina að Bjarna Randver Sigurvinssyni stundakennara í Háskóla Íslands um nokkurt skeið áður en félagið Vantrú kærði hann til þriggja mismunandi aðila innan HÍ. Um leið og kærurnar höfðu verið sendar var farið að huga að því hvernig mætti valda Bjarna Randveri sem mestum skaða og hluti þess líklega tilbúinn áður en hin fræga áríðandi tilkynning Reynis Harðarsonar sálfræðings, formanns Vantrúar barst. Aðalheimildi mín er skjalið Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010). Þetta er vinnuskjal sem ekki er opinbert en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í.

„Við munum berjast […] í fjölmiðlum þar til fullur sigur er unninn“

lesið dagblaðÞann 8. febrúar 2010 kynnti Reynir Harðarson á spjallþræðinum um Bjarna Randver uppkast að grein til Fréttablaðsins þar sem því er m.a. ranglega haldið fram að Bjarni Randver Sigurvinsson haldi því fram í kennslu að málflutningur trúlausra gegn trúarbrögðum sé vatn á myllu haturshreyfinga. Greinin fékkst ekki birt.

 Eftir yfirlýsinguna um heilaga stríðið 12. febrúar 2010 einbeittu forsvarsmenn Vantrúar sér um hríð að því að birta greinar gegn Bjarna Randveri á eigin vef, daglega þann 15.-19. febrúar, auk þess að tjá sig ítarlega um þær, sem og aðrir félagsmenn og áhangendur félagsins. (Sjá greinar I-V í efnisflokknum Háskólinn á vef Vantrúar og umræðuþræði við þær.)

Þann 18. febrúar 2010 sendi Vantrú grein um smán HÍ til  Fréttablaðsins ásamt glærunum um „Frjálslyndu fjölskylduna“ og bréfum félagsins til Péturs Péturssonar deildarforseta en ekkert af þessu fékkst birt.

Þann 18. febrúar mætti Reynir Harðarson í viðtal hjá Ævari Kjartanssyni hjá Ríkisútvarpinu. Þessum þætti, Okkar á milli, var útvarpað 3. mars 2010 (krækt er í upptöku þættinum). Í viðtalinu er Reynir einkar yfirvegaður, hljómar einlægur og slær jafnvel á létta strengi. Hann minnist ekki sérstaklega á Bjarna Randver eða glærurnar í kúrsinum Nýtrúarhreyfingar. En í ljósi þess sem sjá má eftir Reyni annars staðar er dálítið merkilegt hve hann málar hlutskipti Vantrúarfélaga dökkum litum, þeir eru nefnilega mikil fórnarlömb:
 

 33.30 mínúta
 En við megum þola það að sko … kannski er það vegna þess að kirkjunnar menn halda úti þeim áróðri að við séum hættulegir menn og siðlausir að fólk hefur jafnvel illan bifur á Vantrú: Þetta eru orðljótir menn og bara dónar og frekjur. Ég mátti finna fyrir þessu þegar ég fór að berjast gegn Vinaleiðinni í skólum. Skólastjórinn lét hafa eftir sér í blaði að það að fetta fingur út í veru prests í skólanum væri ofstæki sem jaðraði við frekju, nei það var öfugt,  frekja sem jaðraði við ofstæki. Og hérna, það eru svo margir sem skilja ekki hvernig í ósköpunum geturðu verið á móti því að börn fái aðstoð í skólum? Það er eins og þarna fólk getur ekki … fólk skilur ekki hvað maður getur haft á móti skírn eða hvernig geturðu verið að fetta fingur út í skírn. Það er af því fólk hugsar ekki alla leið!
 […]
 34.00 mínúta
 Jújú, ef að einhver vogar sér að tjá sig um … um trúmál þá er stutt í ofstækisstimpilinn í rauninni í hvora áttina sem er, sko hvort sem þú ert að mæla með henni eða á móti henni. En ef þú ert á móti henni þá ertu siðlaus í þokkabót!

Undir lok þáttarins spyr Ævar Kjartansson hvort Reynir ætli að leggja einhverjar sérstakar áherslur, sem nýr formaður Vantrúar.

 Ævar Kjartansson: […] Nú ert þú tekinn við forystu í Vantrú – hvernig sko sérðu baráttuna fyrir þér? Það liggur þetta orð á ykkur að vera ofstækisfullir, dónalegir jafnvel í ykkar skrifum og því sem þið haldið fram. Ætlar … ert þú … hvernig ætlarðu að sigla þessari skútu?

 Reynir Harðarson: Ég svosem sigli ekki skútunni – við erum ekki með svona hírarkí eins og venjulegar stofnanir. Þetta er mjög sundurleitur en um leið samstilltur hópur og hérna hver og einn fær að gera það sem honum sýnist meira og minna. Ég ætla ekki að vera sko… þagga niður í mönnum eða breyta stíl á einn eða neinn hátt … ég ætla að halda áfram og ég ætla að hvetja menn tilsað hugsa málið og benda á villur þegar þær koma fram.

 Ævar: Er það hið gagnrýna viðhorf sem sameinar ykkur fyrst og fremst, það að vera gagnrýninn?

 Reynir: Ég held það. Og þetta er ákaflega heillandi og skemmtilegur félagsskapur. Þarna innan Vantrúar eru menn sem eru með mikla þekkingu á ólíkum sviðum, meirihluti ábyggilega háskólagenginn mmmm nokkrir sálfræðingar, það eru þjóðhátta .. eh, já, þjóðfræðingur, tölvunarfræðingar, eðlisfræðingar, stjörnufræðingar, líffræðingar og svo framvegis og svo framvegis. Og það er mjög gaman að sjá semsagt hversu samstilltur svona hópur er. Það hefur nú oft verið talað um það að trúleysingjar séu svo miklir einstaklingshyggjumenn eða skrítnir kallar, að ætla að reka þá í hóp sé eins og ætla að smala köttum. En það er ekki okkar reynsla í Vantrú, við náum ótrúlega vel saman og aldrei hefur komið upp sundurþykkja eða deilur um áherslur og hvar þær eiga að liggja. Þetta er … skútan siglir sig nokk sjálf, merkilegt.

hópur menntamannaÓneitanlega er þarna dregin upp lokkandi mynd af félaginu og Vantrú virðist vera hið ákjósanlegasta kompaní skv. lýsingu Reynis. Félagar í Vantrú eru að vísu ofsóttir af kirkjunnar mönnum og jafnvel stimplaðir siðlausir af því fólk skilur þá ekki en vilji menn vera í góðum fórnarlambafélagsskap virðist Vantrú kjörinn klúbbur gagnrýninna menntamanna þar sem aldrei kemur upp sundurþykkja. Er ekki dálítið skrítið að svoleiðis félagsskapur mæli með „all out attack“ á Bjarna Randver Sigurvinsson og skipuleggi þá árás, m.a. með „einhvern háðs-gjörning“ í janúar 2010? (Sjá tilvitnanir í orð Reynis í fyrri færslu, Bardagaaðferðir Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni.) Og ef Vantrúarskútan er á sjálfstýringu, af hverju þurfti þá Reynir formaður að skipuleggja aðförina gegn Bjarna Randveri og leggja sitt af mörkum til að hrinda henni í framkvæmd? Og eru orð Reynis Harðarsonar daginn eftir að viðtalið var tekið ekki dálítið á skjön við hinn rólega, viðsýna menntamann sem hljómaði í viðtalinu?

 Hversu ómerkilegir geta menn verið? Að vega að manni berskjölduðum úr launsátri í fílabeinsturni sínum með skykkju menntagyðjunnar á öxlum sér, og svara svo ekki fyrir skítkastið þegar upp um það kemst eða biðjast afsökunar.

 Eftir þessa brunnmigu guðfræðingsins hefur orðið hlandspekingur öðlast nýja merkingu í mínum huga.

 Og mærðarlegt mal um þvertrúarleg samskipti aumkunarvert aðhlátursefni og hræsnin ein.
 

Það er líka áhugavert að skoða ummæli Reynis Harðarsonar í athugasemdaslóða daginn eftir að þátturinn fór í loftið en Vantrú vakti sérstaka athygli á þættinum þann 4. mars 2010.

Þann 24. febrúar 2010 mætti Matthías Ásgeirsson fyrrverandi formaður Vantrúar í viðtal hjá vantrúarfélaganum Frosta Logasyni í útvarpsþættinum Harmageddon. Því miður hefur mér ekki tekist að hafa upp á því viðtali en efast ekki um að Matthías hafi verið álíka yfirvegaður og mikill ljúflingur og Reynir var í viðtalinu við Ævar Kjartansson.

Á spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“ þann 25. febrúar 2010 talaði Reynir Harðarson svo um að auka þrýstinginn á „þessa lúða“ í gegnum fjölmiðla þegar aðalgreinaherferðinni gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni á vef félagsins væri lokið. Óli Gneisti Sóleyjarson, fyrrverandi formaður Vantrúar, stakk upp á þeim möguleika á innri vefnum að gera grein fyrir gagnrýni félagsmanna í Stúdentablaðinu og á student.is þann 26. febrúar 2010 og daginn eftir vildi Óli Gneisti greinaskrif í dagblöð sem myndu skila sér inn á póstlista allra starfsmanna HÍ.

Þann 12. mars 2010 birti DV frétt um viðbrögð Péturs Péturssonar deildarforseta við kæru Vantrúar. Traustsyfirlýsingunni í garð Bjarna Randvers Sigurvinssonar, sem finna mátti í bréfi Péturs Péturssonar til Vantrúar, er ekki getið, enda heimildin bersýnilega vefur Vantrúar. (Bréf Péturs Péturssonar var birt á vef Vantrúar 10. mars 2010 en stuðningsyfirlýsing Péturs við Bjarna Randver, hér auðkennd með fjólubláu var felld út, án þess að auðkenna það: „Niðurstaða mín er þessi: Tekið verður mið af athugasemdum félagsins Vantrúar við einstaka glærur og kynningu á því ef námskeiðið verður kennt aftur. Um þetta erum við Bjarni Randver sammála. Ég vil einnig taka það fram að hann nýtur fulls trausts míns sem kennari í trúarbragðafræði.“ Þann 14. mars endurbirti DV sömu frétt með sömu úrfellingu, undir fyrirsögninni Vantrúarmenn beygja guðfræðinga og fylgdi ljómandi falleg mynd af Reyni Harðarsyni sálfræðingi, formanni Vantrúar.

Þann 16. apríl 2010 hringdi Þórður Harðarson, formaður siðanefndar HÍ,  tvisvar í Reyni Harðarson og áttu þeir „mjög hreinskilið samtal“. Reynir kallar Þórð enda „eðalkarl“. Þórður benti Reyni á að „sáttatillaga“ siðanefndar HÍ (þar sem guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ er neydd til að sættast við Vantrú) muni verða birt á vef háskólans þar sem fjölmiðlar hafi aðgang að henni og geti vantrúarfélagar notað hana eins og þá lysti. Kennarafundur í guðfræði-og trúarbragðafræðideild hafnaði hins vegar „sáttartillögu“ Siðanefndar HÍ og breytingartillögu þann 21. apríl 2010.

TékklistiÞann 7. júní 2010 sendi Reynir Harðarson formaður Vantrúar ítarlega greinargerð, frá sjónarhóli félagsins, um kæruna og gagnrýni á Bjarna Randver Sigurvinsson á alla helstu fjölmiðla, m.a. Smuguna, Fréttablaðið og Ríkissjónvarpið. Aðeins Smugan brást við með fréttaumfjöllun. Þar birtist frétt um kæruna og eina glæru daginn eftir. Í fréttinni eru margar villur, t.d. í fyrirsögninni. Í umræðuþræði kemur fram að blaðamaðurinn studdist aðallega við 5 síðna greinargerð Vantrúar. Reynir Harðarson upplýsir að Þórður Harðarson formaður Siðanefndar HÍ sé svo vammlaus að hann hafi í hyggju að segja af sér sem formaður vegna þess hvernig guðfræði- og trúarbragðafræðideildin hafi haldið á málinu. Þorsteinn Vilhjálmsson siðanefndarfulltrúi varpar allri ábyrgðinni á töfum í málinu á guðfræði- og trúarbragðafræðideild sem hafi verið svo lengi með það. Í umræðuþræðinum kemur fram að mörgum finnst kæra Vantrúar fráleit en félagið á sér einnig málsvara. Frétt Smugunnar var svo kynnt á forsíðu Eyjunnar.

Þessi ítarlega greinargerð Reynis Harðarsonar er athyglisverð í ljósi þess að á þriðja degi eftir að hann sendi hana í fjölmiðla, þann 9. júní 2010, tilkynnti Reynir félögum sínum á spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“ að Þórður Harðarson hafi beðið sig um að tilkynna ekki afsögn sína „fyrr en við hefðum heyrt frá öðrum svo fréttirnar verði ekki raktar til hans“. Væri áhugavert að vita hvort félagarnir á spjallþræðinum hafi yfirhöfuð tekið eftir þessu misræmi í gerðum og tilmælum síns formanns.

Um sumarið verður þeim forsprökkum Vantrúar sem skipulögðu og hrintu „heilaga stríðinu“ í framkvæmd smám saman ljóst að málum þeirra kunni að vera komið í óvænt efni. 21. júní 2010 segir  Reynir Harðarson, formaður Vantrúar, á spjallþræðinum um Bjarna Randver, að ef Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ svari ekki félaginu sé „mál að taka upp kyndla og heykvíslar“. Í framhaldi af því dettur spjallendum í hug að þrýsta á menntamálaráðherra og talað er um á spjallþræðinum „að ráðast á ALLA fronta samtímis, fjölmiðla, HÍ, ráðherra“ um haustið.

Í herbúðum Vantrúar er svo hljótt fram á haust. En 21. september 2010 skrifaði Reynir Harðarson formaður Vantrúar grein í Fréttablaðið þar sem hann staðhæfði aftur (með röngu) að Bjarni Randver Sigurvinsson héldi því fram að málflutningur Vantrúar fordæmdi m.a. minnihlutahópa á borð við gyðinga. Grein Reynis Harðarsonar gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni var einnig birt á vef Vantrúar, sjá Skinhelgi kirkjunnar.
 
 

Um hálfu ári síðar syrti verulega í álinn fyrir félagið Vantrú

Þann 28. apríl 2011 hélt Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ fund með fulltrúa/fulltrúum Vantrúar og Ingvari Sigurgeirssyni formanni siðnefndar HÍ í þessu máli. Á þeim fundi féllst Vantrú á að draga kæru sína til baka.

13. maí 2011 birtist frétt í Fréttablaðinu um þá ákvörðun Háskólaráðs að skipa óháða nefnd til að rannsaka vinnubrögð siðanefndar HÍ í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni. Dregin er fram gagnrýni á störf Þórðar Harðarsonar fyrrverandi formanns Siðanefnar HÍ í kærumálinu sem síðan hafi verið skipaður aftur formaður hennar til þriggja ára. Þó svo að rannsóknarnefndin hafi ekki enn hafið störf segir Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ að Þórður njóti hennar „fyllsta trausts“.
 
 

En félagar í Vantrú voru þó ekki alveg af baki dottnir og settu nú traust sitt á annars konar aðför að Bjarna Randver Sigurvinssyni

LöggaÞann 26. maí 2011 hringdi vantrúarfélagi í Bjarna Randver Sigurvinsson og sagðist hafa þurft að beita félaga sína þrýstingi til að fá að gera það áður en þeir létu til skarar skríða gegn honum. (Þessi vantrúarfélagi og fyrrum stjórnarmaður í Vantrú er fyrrverandi nemandi Bjarna Randvers.) Hann sagði Bjarna Randveri að vantrúarfélagar myndu fara til lögreglunnar á hádegi daginn eftir til að kæra hann og yrði það stórmál sem færi í alla fjölmiðla. Bjarni Randver gæti þó gert tvennt til að koma í veg fyrir það. Í fyrsta lagi verði hann að gefa upp nafn þess einstaklings sem lak gögnum af innri vef Vantrúar til hans. Sá einstaklingur muni engan skaða hljóta af því. Í öðru lagi verði Bjarni Randver að sjá til þess að öllu efni af innri vefnum (spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“) verði eytt. Ef hann geri það verði hægt að leysa málið farsællega og vantrúarfélagar muni ekki beita sér gegn honum. Lekinn sé alvarlegur og hefði t.d. stórskaðað Reyni Harðarson formann Vantrúar og fyrrverandi formennina Óla Gneista Sóleyjarson og Matthías Ásgeirsson. Bjarni Randver neitaði.
 

Forsprakkar Vantrúar gerðu svo alvöru úr því að kæra til lögreglu. Skv. upplýsingum Þórðar Ingvarssonar, stjórnarmanns í Vantrú, kærðu þeir innbrot á vefþjóninn sinn og þjófnað á trúnargögnum. Mér er ókunnugt um hvort þeir kærðu einhvern tiltekinn aðila fyrir þennan þjófnað og einnig ekki ljóst hvort þeir hafi kært einhvern fyrir að dreifa þessum gögnum. Það væri ágætt ef forsvarsmenn Vantrúar upplýstu um það finnist þeim það skipta máli. 

Þann 3. desember 2011 birtist svo ítarleg fréttaskýring Barkar Gunnarssonar um kærumálið og afdrif þess í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins (dagsett 4. desember 2011) undir fyrirsögninni „Heilagt stríð Vantrúar“. Eftir að hún birtist og viðtal við Bjarna Randver Sigurvinsson í Kastljósi í kjölfarið má segja að forsprakkar Vantrúar hafi dregið hratt í land og haldi nú annars vegar fram að erindi þeirra til hinna þriggja aðila innan HÍ hafi verið sárasaklaust og hins vegar að þeir sjálfir séu hin raunverulegu fórnarlömb í málinu. Þeir telja sig hafa ekki átt greiðan aðgang að fjölmiðlum, sem passar ágætlega við fórnarlambshlutverkið sem þeir nú gegna en raunveruleg skýring er væntanlega einfaldlega sú að greinarnar sem þeir vilja koma í fjölmiðla eru of langar miðað við skilyrði sem sett eru aðsendum greinum.

Þann 29. desember 2011 birti félagið Vantrú grein á sínum vef og þykjast félagarnir illa sviknir af því að hafa ekki komið henni í Morgunblaðið:

 Vantrú fékk vilyrði fyrir því frá blaðamanninum að félagið fengi birta grein þar sem ásökunum yrði svarað og rangfærslur leiðréttar. Svar Vantrúar átti að birtast í sunnudagsblaði Morgunblaðsins þann 18. desember. Ritstjórn Morgunblaðsins hefur neitað að birta greinina og þess í stað boðið félaginu að senda inn lesendabréf og birta það undir liðnum umræðan. Við sögðum pass og birtum greinina því hér á Vantrú. (Sjá Um „Heilagt stríð“ og „einelti“ Vantrúar)
 

Nánar verður fjallað um þessa grein og fleiri greinar og ummæli félaga í Vantrú á Vefnum eftir að fréttaskýring Barkar um kærumálið og afdrif þess birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þann 4. desember 2011 síðar.

En í næstu færslu verður fjallað um fleiri aðferðir sem félagið Vantrú viðhafði í sínu „heilaga stríði“ gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og síðar stuðningsmönnum Bjarna Randvers.
 
 

Bardagaaðferðir Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni

Tilkynning 1. febrúar 2012: Nú er ég búin að fletta upp nokkrum Hæstaréttardómum og sé ekki betur en mér sé heimilt að vitna í tilvitnanir í tilvitnanir í það sem Vantrú kallar innra spjallið. Sérstaklega áhugaverðir dómar í þessu sambandi er dómur nr. 472/2008, þar sem staða jafningjanets er að nokkru skilgreind í lagalegu tilliti, og dómur nr. 541/2005, sem fjallar um friðhelgi einkalífs versus rétt til að birta upplýsingar sem varða almenning. Ég kem því bloggfærslunum tveimur í fyrra horf, þ.e. set aftur inn tilvitnanir í tilvitnanir í spjallþráðinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“. Þær eru auðkenndar með rauðum lit. Sem fyrr er heimild mín fyrir tilvitnunum í spjallþráðinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“ á spjallborði Vantrúar, sem einungis félagar í Vantrúar höfðu aðgang að (á annað hundrað manns), skjalið Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010). Þetta er vinnuskjal sem ekki er opinbert en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í. Þetta sama skjal er líka meginheimild mín fyrir hvaða umfjöllun Vantrú reyndi og tókst að ná í fjölmiðlum.

Eins og nefnt var í færslunni Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, I. hluti sendi Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar, áríðandi tilkynningu þann 12. febrúar 2010 á lokað spjall félagsins þar sem lýst var yfir heilögu stríði á „hendur Bjarna Randveri og Guðfræði í Háskóla Íslands. […] Við munum berjast á vefnum, í blöðum, með bréfum og jafnvel í fjölmiðlum þar til fullur sigur er unninn.“ (Sjá skjámynd af ummælunum á síðu Vantrúar. Feitletrun í tilvitnun er mín.) Þetta var átta dögum eftir að Reynir hafði afhenti þrjú kærubréf til aðila í Háskóla Íslands, þ.e. rektor, forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og siðanefnd HÍ. Í þessari færslu verður stiklað á stóru yfir hið heilaga stríð, þ.e.a.s. hvernig félagið Vantrú beitti sér í því.

Eftir því sem næst verður komist var það heldur fámennur hópur sem lagði á ráðin um hvernig baráttan færi fram en sú ráðagerð fór fram á lokuðu spjalli félagsins sem á annað hundrað félaga í Vantrú höfðu aðgang að. Umræðuþráðurinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“ var laust eftir miðjan september 2010 orðinn mjög langur, hátt í 600 síður í útprenti. Bloggfærslu Matthíasar Ásgeirssonar á eigin bloggi, Fólk að missa sig, sem birtist 5. desember 2011, fylgir mynd sem á að sýna fjölda ummæla á þessum þræði til samanburðar við ummæli á öðrum þráðum á lokuðu spjallborði Vantrúar. Þetta er óskýr mynd og erfitt að lesa úr henni. Sé haft í huga að í febrúar 2010 birtust yfir 280 skilaboð á umræddum þræði sýnir myndin kannski helst hve óskaplega duglegir þessir 120-130 áskrifendur að lokaða spjallborðinu eru að tjá sig feikimikið um fjöldamargt 😉 Enn áhugaverðara hefði verið að sjá líka hve margir rituðu skilaboð á þráðinn um Bjarna Randver eða öllu heldur fáir, ég hef ástæðu til að ætla að einungis fáir Vantrúarfélagar séu höfundar megnisins af því sem ritað var þennan þráð.
 

Hvernig skipulagði félagið Vantrú sitt „heilaga stríð“?

Allar tilvitnanir í lokaðan umfræðuþráð Vantrúar, „Söguskoðun Bjarna Randvers“, eru fengnar úr skjalinu Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010), vinnuskjali sem ekki er opinbert en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í. 
 

* Forsvarsmenn Vantrúar ákváðu að hæðast að Bjarna Randveri og „jarða hann“, áður en kærurnar voru sendar.

Áður en kærubréfin voru send var þegar farið að leggja á ráðin á fyrrnefndum umræðuþræði á lokuðu spjalli Vantrúar um hvernig „gullnáman“ hans Óla Gneista Sóleyjarsonar, formanns Vantrúar árið 2009, yrði nú best nýtt. Reynir Harðarson sálfræðingur tók við formennsku í Vantrú laust eftir áramót 2010. Dæmi um þessar ráðagerðir eru:

  • 2. október 2009:  Óli Gneisti Sóleyjarson formaður Vantrúar 2009  hvetur til þess á innri vefnum að Bjarni Randver Sigurvinsson sé hæddur á netinu. Þórður Ingvarsson, ritstjóri vefs Vantrúar, talar um að gefa honum „hressilegt pungspark“.
  • 26. janúar 2010: Hjörtur Brynjarsson vantrúarfélagi segir á innri vef Vantrúar að nú sé „um að gera að jarða þennan fávita með háði og alvöru í einni massífri all-out attack“.
  • 27. janúar 2010: Reynir Harðarson sálfræðingur og nýr formaður Vantrúar 2010 segist á innri vefnum hafa ásamt öðrum vantrúarfélögum mælt með „all out attack“ á Bjarna Randver Sigurvinsson og þurfi þeir að skipuleggja hana, m.a. með „einhvern háðs-gjörning“.
  • 29. janúar 2010: Reynir Harðarson sálfræðingur og formaður Vantrúar spyr varðandi Bjarna Randver Sigurvinsson á innri vefnum: „Hvernig hæðumst við best að þessu flóni?

   

„Við munum berjast […] með bréfum“

* Í nafni félagsins Vantrúar voru þrjár sendar kærur samtímis án þess að viðtakendur vissu hver af öðrum. Svo lýst hefur verið í fyrri færslum samdi félagið Vantrú þrjár kærur, dagsettar 4. rómverskur hermaðurfebrúar 2010, til mismunandi aðila innan Háskóla Íslands og voru þær afhentar samdægurs. Rektor framsendi sína kæru til siðanefndar HÍ en Pétur Pétursson, forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, vissi ekki um hinar kærurnar fyrr en þann 18. mars 2010 þegar Þórður Harðarson tilkynnti í misgripum þriðja aðila, Hjalta Hugasyni prófessor við sömu deild, að Vantrú hefði kært Bjarna Randver Sigurvinsson til siðanefndar. (Þórður var staddur erlendis þegar kæran barst siðanefnd og kom til landsins um miðjan mars. Aðrir í siðanefnd áttu að kynna sér erindið á meðan með aðstoð lögfræðinga HÍ, væntanlega sem fulltrúa rektors í málinu. Sjá nánar Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa.)

Siðanefnd HÍ og Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ var teflt gegn gegn Bjarna Randveri samtímis, án þess að þessir aðilar vissu hvor af öðrum, sem verður að teljast ágætlega heppnað herbragð í anda Caesar, þ.e. „deildu og drottnaðu“ (Divide et impera)! Sakborningurinn í málinu, Bjarni Randver, frétti af því að hann hefði verið kærður til siðanefndar þann 18. mars, fékk kæruna í hendurnar rúmum þremur mánuðum eftir að hann var kærður og var ekki boðaður á fund siðanefndar fyrr en tæpum átta mánuðum síðar. (Þannig má segja að sjálfur sakborningurinn hafi verið álitinn algert aukaatriði af hálfu siðanefndar Háskóla Íslands.)

* Þegar félagið Vantrú tók að lengja eftir svörum voru send rukkunarbréf til Péturs Péturssonar forseta guðfræði- og trúarbragðafélagadeildar og Kristínar Ingólfsdóttur háskólarektors (en af því Reynir Harðarson formaður Vantrúar og Þórður Harðarson formaður siðanefndar HÍ áttu í talsverðum prívat samskiptum, eins og nánar verður gerð grein fyrir síðar, var ekki bréfleiðis hamrað á siðanefnd fyrsta kastið). Sem dæmi um slík bréf má taka:
 

  • Reynir Harðarson til Péturs Péturssonar, tölvupóstur 6. febrúar 2010: „[…] Vonandi hefur þú áttað þig á alvöru málsins og að ljósi hennar duga engin vettlingatök í þessu máli eða silkihanskar.“
  • Reynir Harðarson til Péturs Péturssonar, tölvupóstur 9. febrúar 2010: „Hvenær megum við búast við fyrstu viðbrögðum deildarforseta við erindi okkar?“
  • Reynir Harðarson til Péturs Péturssonar, tölvupóstur 12. febrúar 2010: „Gott að þér miðar með þetta. [- – -]“
  • Reynir Harðarson til Péturs Péturssonar, tölvupóstur 24. febrúar 2010: „Nú eru ellefu dagar síðan ég heyrði síðast frá þér og enn hefurðu í engu svarað síðasta pósti. [- – – ] Þarftu virkilega mikið lengri tíma til að átta þig á hvort athugasemdir okkar krefjast ekki einhverra viðbragða eða vefjast viðbrögðin fyrir þér?“
  • Reynir Harðarson til Péturs Péturssonar, tölvupóstur 5. mars 2010: „Enn bíðum við eftir viðbrögðum og svörum. [- – -] Ég á a.m.k. afar bágt með að skilja þennan seinagang og þögn og mér þætti vænt um að fá útskýringar á hvoru tveggja … nú, eða bara viðbrögð við erindinu.“
  • Reynir Harðarson til Péturs Péturssonar, tölvupóstur 8. apríl 2010: „Er komið annað hljóð í strokkinn með aðkomu siðanefndar? Finnst þér ástæða til að ræða málin?“

 (Heimild mín fyrir þessu er skjalið Gögn frá Vantrú. Samantekt á nokkrum mikilvægum gögnum í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Guðfræði- og trúarbragðafræðideild og Siðanefnd HÍ (kærumál nr. 1/2010). Þetta er óopinbert skjal en ég hef leyfi Bjarna Randvers Sigurvinssonar til að vitna í það.)
 
 

„Við munum berjast á vefnum […]“
 

* Bardagi félagsins Vantrúar á Vefnum var strax mjög áberandi. Fyrsta greinin gegn Bjarna Randveri og guðfræði- og trúarbragðafræðideild birtist á vef Vantrúar þann 15. febrúar 2010, I. Guðfræði í Háskóla Íslands : Fúsk, fáfræði eða fordómar og var fylgt eftir strax daginn eftir með annarri grein. Á tæpum þremur vikum frá miðjum febrúar 2010 birti Vantrú 11 greinar gegn sínum andstæðingi í heilaga stríðinu og spöruðu félagar ekki stóru orðin, hvorki í greinaskrifum né á umræðuþráðum. „Bara á vef Vantrúar einum eru útprentaðar blaðsíður af umfjölluninni 221 talsins fyrsta mánuðinn en vantrúarfélagar fylgja skrifunum eftir víða um netheima.“ (Fyrrnefnd Tímatafla Bjarna Randvers við dags. 12. febrúar 2010. Birt með leyfi Bjarna Randvers.)

Þótt félagið Vantrú hafi vissulega fylgt dyggilega eftir áætlun sinni um að „berjast á vefnum“ fannst Matthíasi Ásgeirssyni, fyrrverandi formanni Vantrúar og dyggum bréfritara á spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“, skv. heimildum mínum, hreint ekki að stigið væri þungt til jarðar í herferðinni. Í færslunni Skondnir trúvarnarmenn á bloggi Matthíasar, Örvitanum, segir þann 26. febrúar 2010: „Þegar Vantrú hóf umfjöllun um glærur úr námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar mættu nokkrir trúmenn og gagnrýndu Vantrú harðlega þó ekkert hefði komið fram af því sem við gagnrýnum, við fórum einfaldlega rólega af stað.“ (Feitletrun í tilvitnun er mín.)

* hæðni Stjórn Vantrúar og einstaka félagsmenn gerðu sitt best til að „hæða“ sinn meinta andstæðing. Einn hluti þessa háðs var að útbúa mynd af Bjarna Randveri þar sem hann er táknrænt jarðsettur fyrir framan Háskóla Íslands og ýmis fúkyrði (sem raunar eru beinar tilvitnanir í skrif félaga í Vantrú) virðast streyma frá honum. Sjá má myndina á færslu ritstjórnar Vantrúar þann 12. febrúar 2010, Hvað er verið að kenna þarna í guðfræðideildinni?, þ.e. sama dag og Reynir Harðarson birti hina áríðandi tilkynningu um að hafið væri heilagt stríð gegn Bjarna Randveri og guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Forsvarsmenn Vantrúar eru hrifnir af sinni mynd því þeir endurbirtu hana t.d. á Þrautarmein Háskóla Íslands, grein á vef Vantrúar frá 5. maí 2011, og hafa e.t.v. endurbirt víðar. Ég geri ráð fyrir að listamaðurinn í stjórn Vantrúar, Þórður Ingvarsson, eigi heiðurinn af þessari fótósjoppuðu mynd.

Í þessari bloggfærslu er engan veginn hægt að gera ítarlega grein fyrir bloggfærslum einstakra félaga í Vantrú gegn Bjarna Randveri Sigurðssyni né öllum skrifum á vef félagsins Vantrú (um er að ræða óhóflegt magn slíkra skrifa). Hér að ofan voru einungis nefnd örfá dæmi. Vísað verður í fleiri dæmi síðar eftir því sem tilefni gefst til.
 

Málsvörn félaga og fylgjenda Vantrúar frá því farið var að kalla aðgerðir þeirra gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni einelti hefur í æ ríkari mæli byggst á skefjalaum úrdrætti, t.d. að þeir hafi alls ekki kært manninn og í rauninni hafi þetta verið frekar meinlaust erindi til siðanefndar, rektors og guðfræði-og trúarbragðafræðideildar, þar sem þeir fóru einungis fram á að viss atriði yrðu athuguð. Í ljósi þess að Vantrú datt ekki eitt augnablik í hug að bíða eftir úrskurði neins þessara aðila heldur hóf umsvifalaust fyrirfram skipulagða harða árás á Bjarna Randver á sínum vef og á bloggum félagsmanna (mest áberandi þar eru þeir Matthías Ásgeirsson og Þórður Ingvarsson) er fáránlegt að láta sér detta í hug að félagið Vantrú hafi upphaflega verið í sáttahug eða haft raunverulegan áhuga á að þessi yfirvöld sem kært var til gætu athugað málavexti í friði.
 
 
 

Í næstu færslu verður gerð ofurlítil grein fyrir hvernig félagið Vantrú tók að „berjast í fjölmiðlum“ og hvernig „barátta“ þeirra á netinu tók á sig æ ógeðfelldari mynd.

Ég minni enn og aftur á að athugasemdir við þessa færslu á að gera undir fullu nafni. Af gefnu tilefni tek ég fram að leiðist umræðan út í nagg og níð einstaklinga hverra í annars garð verður þeim eytt.

Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, III. hluti

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Í þessari færslu verður gerð grein fyrir nokkrum fleiri kæruatriðum í kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni vegna glæra í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem hann kenndi á hausmisseri 2009 í Háskóla Íslands. (Sjá einnig síðustu færslu.)

Í kæru Vantrúar vegna umfjöllunar um sig er áberandi þáttur „það sem ekki er“, þ.e.a.s. Vantrú kvartar undan að málsgreinar séu slitnar úr samhengi og félagið telur að eitthvert annað efni eða annars konar tilvitnanir ættu að koma fram á glærunum. Í kærubréfunum sjálfum segir: „Kynningu á félagsskapnum fögnum við en afskræmingu frábiðjum við okkur“ og í meðfylgjandi greinargerð er síðan bent á ýmislegt sem Vantrú telur falla undir afskræmingu. Félagsmenn í Vantrú virðast enn sama sinnis þrátt fyrir allt sem fram hefur komið um þessar glærur og kærur félagsins því í grein á vef Vantrúar sem birtist 29. desember 2011, Um “Heilagt stríð” og “einelti” Vantrúar, segir að þeir frábiðji sér „þá ósanngjörnu og meiðandi umfjöllun, sem jafnvel mætti kalla skrumskælingu á málflutningi félaga, sem birtist í glærum Bjarna Randvers.“

Má sem dæmi um þetta taka klögu undan þeim glærum sem Vantrú kallar nr. 9 og nr. 10 (sjá s. 6-7 í kærubréfinu til forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, sjá einnig umfjöllun ritstjórnar Vantrúar um glærur 9-13 og glæru 21, VII. Guðfræði í HÍ : Um trúarleg efni, og meðfylgjandi umræðuþráð).

Kvörtun Vantrúar yfir glæru 9 er að:
 * Tilvitnanir eru „í einkablogg Matthíasar (fyrir stofnun Vantrúar!)“;
 * Það vantar eina skáletrun;
 * Veigamiklum atriðum er sleppt svo samhengi skekkist.

SkæriÍ síðustu færslu fjallaði ég um mjög einkennilegar hugmyndir forsvarsmanna Vantrúar um einkablogg sem ekki megi vitna í og vísa í þá umfjöllun. Samkvæmt upplýsingum á vef Vantrúar var vefritið Vantrú stofnað í ágúst 2003. Færslan á bloggi Matthíasar er frá 9. ágúst 2003 svo það hefur varla munað mjög mörgum dögum á stofnun Vantrúar og þessari færslu, auk þess sem á upplýsingasíðu Vantrúar kemur fram að áður höfðu einstakir stofnfélagar bloggað um sömu hugmyndafræði og þeir lögðu til grundvallar í stofnun vefrits Vantrúar.

Vissulega vantar á glærunni að skáletra orðið „Við“ eins og Matthías gerir í bloggfærslunni. Mér finnst það álíka stór glæpur og að í kærunni gleymdu Vantrúarfélagar að undirstrika nokkra stafi í sinni tilvitnun í færslu Matthíasar, þ.e. „Ekkert Undo, ekkert Copy-Paste“; Sem sagt alger sparðatíningur!

Ég get alls ekki séð að neinum veigamiklum atriðum sé sleppt úr texta Matthíasar, hvað þá að úrfellingin þjóni þeim tilgangi að „láta fullyrðingar Matthíasar virðast einfaldari en þær eru.“ Auðvitað er textinn styttur því hann á að komast á glæru. Meginatriðin halda sér en smáatriðum er sleppt.

Sama gildir um glæru 10, sem í kæru Vantrúar segir að sé „grófara [dæmi] því textinn á undan tilvitnun Bjarnastangast [svo] á við það sem hann vill sannfæra nemendur um, þar tekur Matthías fram að hann geti ekki fullyrt um „einhvern æðri mátt“.“ Haus beggja glæranna er Fullyrða vantrúarmenn um trúarleg efni? sem gefur til kynna að þetta sé eitthvað sem eigi að velta fyrir sér. Hvernig forsvarsmenn Vantrúar gátu vitað hvað kennarinn vildi sannfæra nemendur um eða yfirleitt að hann vildi sannfæra nemendur um eitthvað með þessari glæru er ofar mínum skilningi. Hér sýna Vantrúarfélagar mjög vel hvernig þeir geta í eyðurnar og spinna upp tóma vitleysu með eigin túlkun.

Í frekari umfjöllun Vantrúar um þessar glærur er bætt við: „Af hverju er leitað fanga á bloggsíðu Matthíasar og Arnar Bárðar? Matthías hefur skrifað fjöldmargar [svo] greinar á Vantrú auk þess hefur hann komið víða fram fyrir hönd félagsins.“ Þetta er eflaust alveg rétt. En Bjarni Randver vitnar víða í síðu Vantrúar og varla halda Vantrúarfélagar að þeir geti pantað í hvað er vitnað og hvað ekki af sínum skrifum, er það? Ég ítreka að um er að ræða pínulítinn bút af kennsluefni í námskeiði í Háskóla Íslands en ekki ítarlega auglýsingaherferð fyrir félagið Vantrú.

Um þessar glærur segir kennari námskeiðsins:

 Þó svo að tilvitnanirnar hafi verið margar er ekki þar með sagt að þær hafi allar verið teknar fyrir í kennslutímanum og lesnar upp. Um flestar þeirra var aðeins fjallað almennum orðum og nemendur hvattir til að leita þær uppi á netinu og kynna sér þær betur. Í þeim tilfellum þar sem ég staldraði við tiltekna tilvitnun ræddi ég um það samhengi sem hún er tekin úr. Ég tók það fram að þó svo að finna megi margvísleg viðhorf meðal vantrúarfélaga (eins og innan allra annarra trúarhreyfinga, jafnvel fastmótaðra sértrúarhópa sem viðhalda markvissu félagslegu taumhaldi) og allavega sumir þeirra hiki við að afneita tilvist vissra trúarlegra hluta eins og hvort einhvers konar „æðri máttur“ geti verið til, væri þó harla margt annað í trúarefnum sem þeir hefðu afdráttarlausa skoðun á og væru mikið til sameinaðir um. Í því sambandi greindi ég frá þeim fyrirvara sem Matthías Ásgeirsson gerði í ritdeilum sínum við sr. Örn Bárð Jónsson á Annáll.is árið 2004 þar sem hann útilokaði ekki tilvist æðri máttar þótt hann tæki fram að honum þætti það „ekki líklegt“ og teldi það raunar „fáránlega hugmynd“. En eins og víða annars staðar gekk Matthías þar mun lengra í yfirlýsingum sínum um trúarefni og hikaði ekki við að fullyrða þar um eitt og annað. Þetta er það sem ég taldi ástæðu til að árétta við nemendur með eftirfarandi tilvitnun í skrif Matthíasar á einni glærunni:

 „Aftur á móti fullyrði ég að kristnar sögur eru mýtur, Guð kristinna
manna fullkomin þverstæða og þar með ekki til og að ekkert bendir til
að Jesús hafi verið raunveruleg persóna og að það er fullkomlega
klikkað að trúa því að hann hafi framkvæmt kraftaverk, dáið á
krossinum og risið upp frá dauðum.“
 (www.gudfraedi.is/annall/ornbardur 18-8-04.)

 Sem fyrr lagði ég áherslu á að hvort hægt væri að bendla tilvitnanir á borð við þessa við trúarlega afstöðu væri komið undir því hvernig trúarhugtakið væri skilgreint. Það er hins vegar af og frá að ég hafi með tilvitnuninni viljað „sannfæra nemendur um“ að Matthías hafi verið að fullyrða um tilvistarleysi einhvers konar æðri máttar.
 (Bjarni Randver Sigurvinsson. Svar við kæru Vantrúar. Greinargerð lögð fyrir siðanefnd HÍ 2010, s. 75-76. Feitletranir eru mínar. Þetta er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi höfundarins til að vitna í það. Hér eftir verður vísað í skjalið sem Greinargerð Bjarna Randvers.)

Flest allt sem Vantrú finnur að glærunum um sig er í þessum sama dúr: Bjarni Randver hefur ekki valið réttar tilvitnanir (skv. hugmyndum þeirra að ekki megi vitna í einkablogg, athugasemdir sem félagar í Vantrú hafa skrifað á blogg annarra, ekki neitt áður en Vantrú var formlega stofnuð o.s.fr.); Bjarni Randver fellir úr textanum eitthvað sem Vantrú þykir skipta miklu máli en eru í rauninni alger smáatriði; þar er t.d. á einum stað um að ræða orðið „Já“ sem Vantrú staðhæfir í kæru sinni, s. 9, að skipti máli upp á túlkun [!]:
 

 Í fyrstu tilvitnun sést að Bjarni sleppir upphafi textans. Það sem ekki sést er að Bjarni lengir textann í raun því það sem hann sleppir eru tveir bókstafir, í staðin [svo] koma þrír punktar. Setningin hefst á orðin „Já“. Ef það orð væri með væri ljóst að Matthías er að svara spurningu. Sú staðreynd gæti haft áhrif á túlkun nemenda.
 
 

Kæra félagsins Vantrúar vegna glæra um annað en félagið sjálft

Blekking og þekkingAðallega fóru glærur um Níels Dungal og Helga Hóseasson fyrir brjóstið á félaginu Vantrú. Sjá má glærurnar og umfjöllun um þær á vef Vantrúar, III. Guðfræði í Háskóla Íslands: Níels Dungal og Helgi Hóseasson. Í kæru Vantrúar er glærum um Níels Dungal lýst á s. 3 og Vantrú túlkar þær þannig á sömu síðu:
 

 Þar með lýkur umfjöllun um bókina Blekking og þekking. Sú mynd sem fæst af Níelsi Dungal og riti hans er að þessi prófessor í læknisfræði hafi verið með hæpnar hugmyndir um göngulag Páls postula, talið vináttu óþekkta í Nýja testamentinu (hún er reyndar hvergi nefnd á nafn þar, ólíkt Hávamálum) og verið með undarlegar hugmyndir um mátt „orkutækninnar“. Er þetta ekki háðugleg útreið og skrumskæling frekar en einleig [svo] viðleitni til að koma til skila meginboðskap höfundar?

Um þetta segir kennari námskeiðsins:
 

 Í kæru vantrúarfélaga er ég ranglega sakaður um að gera ekki grein fyrir „megingagnrýni Níels“ því að henni lýsti ég sannarlega fyrir nemendum í kennslustundinni. Hins vegar er það alveg rétt að ég dreg fram gagnrýni frá einkum Páli V.G. Kolka lækni á bók Níelsar Dungals. Slík gagnrýni verður að teljast eiga erindi til háskólanemenda og eru sýnidæmin að hluta til valin í því samhengi […]

 Í fyrsta sýnidæminu sjúkdómsgreinir Níels Dungal Pál postula út frá því nafni sem hann bar fyrir trúarleg sinnaskipti sín, nafninu Sál, og Sigurð Sigvaldason hvítasunnupredikara í Reykjavík sem hann hefur augljósa andúð á. Jafnvel þótt vel geti verið að einhver guðfræðingur hafi einhvern tímann með umdeildum hætti leitast við að sjúkdómsgreina ýmsar persónur Biblíunnar út frá nöfnum þeirra verður það að teljast athyglisvert að prófessor í læknisfræði skuli hafa verið tilbúinn að sjúkdómsgreina biblíulega persónu með þessum hætti og alhæfa út frá því um eðli trúarreynslu.
 [- – -]
 Vantrúarfélagar hafa nýtt sér þessa ritskýringur Níelsar Dungals í málflutningi sínum og er það meginástæðan fyrir að ég vek athygli á henni.[…]
 (Greinargerð Bjarna Randvers s. 35. Feitletrun mín. Bjarni vísar í dæmi af málflutningi eins af forsvarsmönnum Vantrúar, Þórðar Ingvarssonar á eigin bloggi.)

 [- – -]

 Þá er ég gagnrýndur fyrir að birta síðu úr lokakafla bókarinnar, sem jafnframt er að finna í heild á vef Vantrúar, en þar dregur Níels Dungal saman niðurstöður sínar og fullyrðir:

  Í öllu Nýja testamentinu er hvergi minnzt á vináttu …

 Þessi yfirlýsing er merkileg í ljósi þess að fjöldi ritningartexta lýsa vináttu efnislega og eru með sama merkingarsvið, svo sem kærleikurinn í samfélagi bræðranna (eða „systkinanna“ eins og það er orðað í nýjustu biblíuþýðingunni). (Greinargerð Bjarna Randvers, s. 36.)

Bjarni rekur síðan fjölmörg dæmi um þetta og dæmi um að orðið „vinur“ komi fyrir í velþekktum sögum Nýja testamentisins. (Vantrúarmönnum til aukinnar upplýsingar nefni ég að orðið „vinátta“ kemur hvergi fyrir í Hávamálum þótt tönnlast sé á orðinu „vinur“ í nokkrum vísum í Gestaþætti Hávamála.) Hvað síðasta kæruefnið varðar segir kennarinn:

 Loks er ég kærður af vantrúarfélögum fyrir að birta síðu úr lokakafla bókarinnar þar sem Níels Dungal lýsir yfir trú sinni á mátt vísindanna sem leyst hafi trúarbrögðin af hólmi […]
 [Tilvitnun í glæru.]
 Það er merkilegt að einhver geti tekið þessari tilvitnun, sem birtir bjartsýna trú höfundarins á framfarir og aukin lífsgæði fyrir tilstilli vísinda, sem neikvæðri. Sömuleiðis er einkennilegt til þess að hugsa að það er sem ýmsir vantrúarfélagar álíti að kennari við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild líti vísindi og framfarir neikvæðum augum. Það er af og frá að þetta sé „háðugleg útreið og skrumskæling“ á „meginboðskap höfundar“ því hér er um að ræða hluti sem hann dregur sjálfur fram sem þýðingarmikla fyrir málflutning sinn. Meira að segja hafa forystumenn Vantrúar sjálfir áréttað mikilvægi kaflans með því að birta hann í heild á vef félagsins til að sýna að Níels Dungal hafi verið „brimbrjótur fáfræði og endalausrar trúgirni Íslendinga“ og frumkvöðull á sviði læknisfræði og vísinda í landinu.
 (Greinargerð Bjarna Randvers, s. 38. Feitletrun mín. Hann vísar í Blekking og þekking 1948 á vef Vantrúar 2005 en ég kræki hér í nýja útgáfu af greininni á vef Vantrúar. Hún er örlítið stytt frá 2005 en þar er einungis um léttvægar orðalagsbreytingar að ræða.)
 

Hér verður ekki gerð grein fyrir gagnrýni Vantrúar á glærurnar um Helga Hóseasson enda byggist sú gagnrýni mikið til á hinu sama og rakið hefur verið í sambandi við glærur um Níels Dungal, þ.e.a.s. vanþekkingu á efni námskeiðsins og kennslu þar, misskilningi og ótrúlegri túlkunargleði á mjög hæpnum forsendum.

Að lokum er rétt að geta þess að Bjarni Randver Sigurvinsson sendi öllum nemendum sínum bréf laust fyrir próf þar sem hann sagði m.a.:
 

 Þó svo að ég vonist til þess að glærurnar sem ég bjó til fyrir ykkur komi ykkur að gagni ber að geta þess að þær eru yfirborðskenndar í mörgum efnum og þið fáið verulega fyllri mynd af öllu með því að lesa þá bókakafla og þær greinar sem eru að finna í fjölritaða lesheftinu. Þess vegna er alls ekki nóg að lesa bara glærurnar.
 (Bjarni Randver Sigurvinsson: Kveðja og velfarnaðarósk. [Bréf til nemenda í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem sent var á póstlista þess 6. desember 2009.], s. 25 í Greinargerð Bjarna Randvers. Feitletrun mín.)
 
 

Næst verður fjallað um hvernig félagar í Vantrú reyndu að reka á eftir kærunum og hófu ítarlega umfjöllun um þær á vef Vantrúar. Og reynt að svara þeirri spurningu hvort félagar í Vantrú hafi byrjað markvisst einelti gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni fljótlega eftir að þeir sendu inn kærurnar sínar til siðanefndar HÍ, rektors HÍ og forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ.
 

Ég minni enn og aftur á að athugasemdir við þessa færslu á að gera undir fullu nafni. Af gefnu tilefni tek ég fram að leiðist umræðan út í nagg og níð einstaklinga hverra í annars garð verður þeim eytt.
 
 
 
 
 
 

Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, II. hluti

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Glærur í efnisflokknum Frjálslynda fjölskyldan, sem var einn af 20 glæruflokkum (glærusettum) í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar á haustmisseri 2009, liggja frammi á vantru.is, án leyfis glæruhöfundar. Hér er krækt í þær á vef Vantrúar þar sem þær eru birtar sem pdf-skjöl:

ÁsakaÍ stjörnumerktu glæruröðunum eru glærur sem Vantrú sá ástæðu til að kvarta undan, einkum glærum um sig. Vantrú kvartaði/kærði samtímis til þriggja aðila innan Háskóla Íslands. Bréfin eru nær samhljóða. Helsti munurinn er sá að í bréfið til siðanefndar Háskóla Íslands var bætt: „Við gerum einnig athugasemdir við að Bjarni Randver noti myndir af félagsmönnum án þess að geta myndhöfunda“ og „Við teljum ástæðu til að huga sérstaklega að eftirfarandi greinum siðareglna H.Í.: […]“ Sjá má hvaða greinar þetta voru í færslunni Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa. Greinargerðirnar sem fylgja bréfunum til siðanefndar HÍ og Péturs Péturssonar eru samhljóða og má lesa bréfið til Péturs Péturssonar og meðfylgjandi greinargerð á vef Vantrúar. Fylgiskjöl til þessara aðila voru glærur 40-70 og 138-174 úr glærusettinu Frjálslynda fjölskyldan en félagið Vantrú tölusetur hvorn flokk upp á nýtt, þ.e. kallar fyrstu glæru í hvorum flokki nr. 1 o.s.fr. Mér er ókunnugt um hvort greinagerðin og fylgiskjöl fylgdu bréfinu til rektors.

Ritstjórn Vantrúar fjallaði um glærurnar sem félagið kvartaði undan í greinum tölusettum III-XI sem sjá má undir efnisflokknum Háskólinn, neðst á þessari síðu, og uppskar mikil viðbrögð á umræðuþráðum við hverja grein.
 

Námskeiðið Nýtrúarhreyfingar á haustönn 2009

Fyrst er að gera örlitla grein fyrir kúrsinum Nýtrúarhreyfingar. (Vantrú kallar reyndar námskeiðið „áfanga“ undir lok sinna bréfa, sem gæti mögulega bent til þess að félagsmönnum sé ekki alveg ljós munurinn á framhaldsskólakennslu og háskólakennslu.)
 

 Í námskeiðinu er gefið yfirlit yfir það sem margir trúarbragðafræðingar hafa skilgreint sem nýtrúarhreyfingar, þ.e. trúarhreyfingar sem á síðari árum geta talist nýjar af nálinni í viðkomandi þjóðfélagi eða menningarsvæði. Jafnframt er þar gerð grein fyrir helstu kenningum um félagslegar forsendur þeirra, birtingarmyndir og stöðu og fjallað um sögu þeirra, hugmyndafræði og skipulag með hliðsjón af greiningum, einkum félagsfræðinga og guðfræðinga, innan trúarbragðafræðanna. Sérstök áhersla er lögð á að gefa yfirlit yfir þær hreyfingar sem starfað hafa á Íslandi eða fengið töluverða umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum.
     Í upphafi námskeiðsins er áréttað að svo til allt námsefnið sé umdeilt og öll greining háð þeim forsendum sem gengið er út frá í upphafi. Þannig er ágreiningur meðal almennings, fræðimanna og hreyfinganna sjálfra hvernig beri að skilgreina trúarhugtakið og hvort einstaka hreyfingar geti flokkast sem trúarlegar. Í raun er deilt um hverja einustu hreyfingu sem tekin er til umfjöllunar í námskeiðinu hvort hún geti talist trúarleg og er það algjörlega óháð því hvort hún skilgreinir sjálfa sig með þeim hætti eða ekki. Og þeir fræðimenn sem flokka hreyfingarnar sem trúarlegar eru ekki heldur á einu máli um hvort eða að hvaða marki hægt sé að tala um nýtrúarhreyfingar í því sambandi því að færa má rök fyrir því að þær allar eigi sér sögulegar og menningarlegar rætur langt aftur í aldir þegar betur er að gáð. Engar trúarhreyfingar verði til í hugmyndasögulegu tómarúmi heldur séu þær allar viðbrögð við ríkjandi menningarstraumum og hefð þar sem byggt er á eldri grunni eða með hann unnið, jafnvel þótt útfærslurnar kunni að vissu marki að vera nýjar af nálinni.

  
 (Bjarni Randver Sigurvinsson. Svar við kæru Vantrúar. Greinargerð lögð fyrir siðanefnd HÍ 2010, s. 9. Feitletranir eru mínar. Þessi greinargerð er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi höfundarins til að vitna í það. Hér eftir verður vísað í þetta skjal sem Greinargerð Bjarna Randvers.)

Í námskeiðinu var fjallað um fjölmargt. Fyrst var fjallað um trúarhreyfingar á Íslandi, sjónarmið um nýtrúarhreyfingar, nýtrúarhreyfingar í Evrópu og togstreitu milli stjórnvalda og trúarhreyfinga. Síðan voru ýmsar trúarhreyfingar skoðaðar sérstaklega og má sem dæmi taka húmanistahreyfinguna, spíritista- og nýjaldarhreyfinguna/fjölskylduna, moonista, dulspeki, nýheiðni og galdra, búddisma og hindúisma. (Sjá Greinargerð Bjarna Randvers s. 24.)

Af þessu má vera nokkuð ljóst að efni námskeiðsins var afar fjölbreytt og venjulegt fólk myndi kannski frekar tengja efni og efnistök við félagsvísindi en trúfræði (námskeiðið fellur undir trúarbragðafélagsfræði). Ég hef þó grun um að bæði félagið Vantrú og formaður siðanefndar HÍ hafi fyrirfram gefið sér að um væri að ræða trúfræðinámskeið og mun rökstyðja það betur síðar. Nemendur í námskeiðinu voru enda af ýmsum toga og ekkert endilega skráðir í guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Auðvitað voru allar þessar glærur einungis hluti kennsluefnisins, til grundvallar voru lagðar þrjár bækur og fjöldi bókarkafla og greina. Ég vísa í fyrri færslu um hvernig glærur eru yfirleitt notaðar í kennslu en það hvarflar að mér að félagið Vantrú og formaður siðanefndar HÍ hafi einnig gefið sér að glærurnar væri uppistaðan í kennslu- og námsefni og því stórlega ofmetið vægi þeirra.

Kennarinn, Bjarni Randver Sigurvinsson, bendir í sinni greinargerð á að meginatriðin sem hann reyndi að draga fram um félagið Vantrú tengist þeim rannsóknarspurningum lágu námskeiðinu til grundvallar. Rannsóknarspurningarnar voru, endursagðar í mjög grófum dráttum:

 * Hvers konar félagslega hreyfingu er um að ræða?
 * Hvers konar hugmyndafræði liggur til grundvallar?
 * Er um einhvers konar boðun að ræða og þá hverja?
 * Hver er helsta gagnrýni á hreyfinguna?
 * Hver eru helstu sérkenni hreyfingarinnar?
    (Greinargerð Bjarna Randvers s. 58.)
 

Yfir hverju kvartaði Vantrú og kærði?

Það er ekki vinnandi vegur að fjalla um öll klögumál Vantrúar gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni, kennara og glæruhöfundi, á bloggi. Hér á eftir og í næstu færslu(m) verða því einungis valin atriði til umfjöllunar.

Í fyrsta lagi má nefna að víða í kæru Vantrúar kemur fram óánægja með að vitnað sé í eitthvað sem Vantrú kýs að kalla „einkablogg“. Þar er yfirleitt átt við blogg stjórnamanna og félaga í Vantrú þar sem þeir lýsa oft viðhorfum sínum til trúarbragða, kirkjudeilda o.fl þessu tengdu. Nú eru til einkablogg, þ.e.a.s. blogg sem eru læst og einungis sumir hafa aðgang að með lykilorði. En almennt eru blogg opinber og lúta sömu lögmálum og hver önnur opinber birting, svo sem greinaskrif í blöð eða vefmiðla. Mér finnst einkennilegt í ljósi þess hve margir stjórnarmanna í Vantrú eru prýðilega tölvulæsir að þeir skuli virkilega halda að blogg sé einkamál og í þau megi ekki vitna. Á það hefur verið bent að væri þessi skoðun almenn myndi það væntanlega einnig fela í sér að ekki mætti vitna í greinar stjórnmálamanna eða viðtöl við þá heldur einungis í opinberar yfirlýsingar og gögn viðkomandi stjórnmálaflokks. Ef einstökum félögum í Vantrú er í mun að reka einkablogg liggur beinast við að þeir læsi samstundis sínum bloggum og úthluti lykilorðum til þeirra lesenda sem þeir vilja að skoði þau.

Sem dæmi um slíka kvörtun (en þær eru margar) má nefna:

Óli Gneisti Sóleyjarson Glæra 6 og 7 eru skjámyndir af einkabloggi Óla Gneista (formanni [svo] Vantrúar 2009) þar sem hann lýsir yfir mikilli ánægju sinni með trúleysisráðstefnuna 2006 og lýsing á kynnum hans af Richard Dawkins. Þessar tvær færslur virðast hafa verið sérvaldar af fjölmörgum sem Óli skrifaði um ráðstefnuna út frá því að Richard Dawkins er þar í aðalhlutverki. Tilgangur Bjarna virðist vera að sýna að vantrúarmenn sem [svo] lærisveina eða skósveina  Richards Dawkins. Ekki virðist vera að Bjarni hafi talið þörf á að útskýra þessi skrif með hliðsjón af því að Óli Gneisti var í skipulagsnefnd umræddar ráðstefnu og gleði hans skýrist að miklu leyti af því að hafa skilað af sér góðu verki. (S. 4-5 í greinargerð Vantrúar með kærunni.)

Til hægri er lítil mynd af annarri glærunni sem krækir í stærri mynd á vef Vantrúar, hin glæran er þar fyrir neðan. Loks er þriðja glæran á þessari vefsíðu þar sem Vantrú ályktar að verið sé að gera Óla Gneista að lærisveini Dawkins, sem er auðvitað algerlega út í hött því dagsetninga og ártala er getið á glærunni sjálfri. Virðist þar sem Vantrú telji að ef atriði B sé sett undir atriði A á glæru sé verið að meina að B sé afleiðing af A:
 

 Tilvitnunin í Óla [er] sett undir fyrirsögn sem gefur til kynna að hún sé undir áhrifum frá Dawkins sem hún er ekki. Í ágúst 2006 var bókin God Delusion ekki komin út, hún kom ekki út fyrren 2007. Er tilgangurinn að sýna fram á áhrif „hugmyndafræðingsins“ á lærisveininn? (S. 6 í greinargerð Vantrúar með kæru).

Að sögn kennarans var tilgangurinn með birtingu þeirra þriggja glæra, sem Vantrú kallar nr. 6, 7 og 8, fyrst og fremst sá að gefa nemendum sýnishorn af starfsemi Vantrúar í samvinnu við aðrar hreyfingar þar sem jafnframt kæmi fram félagsleg grundvallarforsenda vaxtar allra skipulagðra hreyfinga. Fjöldi trúarlífsfélagsfræðinga hafi bent á að menn hópist saman í hreyfingar á borð við Vantrú vegna þess að þeir finni þar fólk sem er sama sinnis og sjái bæði forystumenn og virka meðlimi í jákvæðu ljósi og sem mögulegar fyrirmyndir. Textinn af glærunum átti einungis að sýna hliðstæðu í jákvæðu ljósi þ.e. hve bæði Óli Gneisti og Dawkins væru stoltir af guðleysi sínu. Í kennslustundinni tók kennarinn svo fram að guðleysingjar hafi einmitt lagt aukna áherslu á að skilgreina sig með jákvæðum hætti fremur en bara út frá einhverju sem þeir eru á móti og benti á að „Dawkins stofnaði t.d. The Out Campaign hreyfinguna árið 2007 sem nokkurs konar hliðstæðu við mannréttindahreyfingar samkynhneigðra til að árétta mikilvægi þess að guðleysingjar komi út úr skápnum og líti sjálfa sig jákvæðum augum.“ (Greinargerð Bjarna Randvers, s. 71-72.)
 
 

Vantrúarfélagar voru þó mun reiðari út af glæru sem sýndi orðbragð nokkurra félagsmanna og fylgismanna Vantrúar. Sú móðgun tengist líka skrítnum hugmyndum þeirra um „einkablogg“ en ber þess aðallega merki að þeir gera sér litla grein fyrir því samhengi sem glæran var í, þ.e.a.s. gera sér ekki grein fyrir um hvað námskeiðið snérist og geta þar af leiðandi ekki tengt glæruna við líklega umfjöllun um félagið Vantrú. Misskilningur þeirra er sá að halda að glærurnar eigi að vera aðlaðandi kynning á Vantrú eða auglýsing fyrir félagið. Má sjá glæruna og umræðu um hana á IX Guðfræði í HÍ: Orðbragðið, á vef Vantrúar.  Í kæru Vantrúar segir:

 Vantrúarfélögum þykir sérlega mikilvægt að glæra 20 sé skoðuð alveg sérstaklega en hún ber titilinn „Orðbragðið“. […] Bjarni birtir lista af dónaskap sem hann hefur dundað sér að safna af vefsíðum tengdum félagsmönnum og hugsanlega Vantrú. Við neitum ekki að við notum oft orðalag sem öðrum finnst óheft [svo] en við teljum óhæfu að birta svona lista án samhengis.[…]

Síðan fjallar Vantrú um að Matthías Ásgeirsson hafi aldrei notað orðið „hlandspekingur“ um nafngreindan einstakling í nokkuð löngu máli og að oftast noti hann orðin „asni“ og „bjáni“ um sjálfan sig. Þessari klausu í kærunni lýkur svona:

 Aftur hljótum við að spyrja hvort hér er um fræðslu að ræða eða einstrengingslegan áróður. Hvaða tilgangi þjónar þessi glæra? Er hún málefnaleg eða sanngjörn? Getur hún rétta mynd af umfjöllunarefni guðfræðingsins?

Í umræðuþræði við umfjöllun mína um Vantrú hélt ég því fram að félagar í Vantrú væru harðir aðgerðarsinnar (aktívistar). Ég er enn þeirrar skoðunar. Partur af þessum aktívisma er ljótt orðbragð. Það hafa fjölmargir bent á slíkt áður og raunar halda Vantrúarfélagar því sjálfir fram í kærunni að þeir noti „orðalag sem öðrum finnst óheft“ (væntanlega eru þeir að meina „óheflað“). Í umfjöllun Vantrúar um þessa glæru sést að Vantrúarfélagar hafa lagt í mikla vinnu við að rekja einstök ummæli, annars vegar á vef Vantrúar og hins vegar á bloggi Matthíasar Ásgeirssonar. Þeir hrósa sigri ef þeir finna dæmi um orðalag sem ekki var notað um nafngreint fólk, til dæmis orðið hlandspekingur (sem mér finnst ljómandi gott nýyrði). En Vantrúarfélögum yfirsést líklega að í þeim færslum sem þeir vísa í máli sínu til stuðnings er að finna mun grófari ummæli, s.s. þegar þeir verja orðalagið „augljóslega snarbiluð manneskja“ og vísa í færslu Matthíasar sem heitir Geðsjúklingurinn Jónína Ben. Annað hvort hefur Bjarni Randver dregið úr ummælum Matthíasar eða Matthías breytt upphaflegum ummælum í „augljóslega snargeðbilaða manneskju“ sem er, frá mínum sjónarhóli séð, síst til bóta.

Að mínu mati skiptir ekki öllu máli hvort hverju einasta dæmi á þessari glæru megi finna stað á bloggi Matthíasar eða vef Vantrúar enda tjá félagar í Vantrú og fylgismenn þeirra sig miklu víðar en þar. Ekkert á glærunni bendir til að eingöngu sé stuðst við þessa tvo vefi og auðvelt er að finna mun grófari dæmi, eins og ég var að benda á.

Skilja ekkiAðalröksemd Vantrúar í kærubréfinu er að listinn sé birtur án samhengis. Þetta er merkilegt kæruefni því Vantrúarfélagar höfðu nefnilega ekki hugmynd um samhengið. Enginn þeirra sem að kærunni stóðu hafði setið námskeiðið. Hvernig áttu þeir að vita hvað fór fram í kennslustundinni? Þeir virðast ekki einu sinni hafa fattað um hvað námskeiðið snérist! Mér sýnist blasa við að þessi glæra, sem líklega var brugðið upp rétt sem snöggvast, hafi verið liður í að ræða seinustu tvær rannsóknarspurningarnar sem lágu til grundvallar námskeiðinu, væntanlega bara einn liður af mörgum í þeirri umræðu. Mögulega tengdist hún fleiri rannsóknaspurningum.

Aðalröksemd Vantrúar sýnir aðallega að þeir sem stóðu að kærunni virðast ekki hafa hugmynd um hvernig glærur eru notaðar í kennslu. Með rök Vantrúar að vopni mætti t.d. kæra hvern þann málfræðing sem tekur dæmi um „mérun“ (þágufallssýki) og ekki getur þess ítarlega á glæru í hvaða samhengi hvert dæmi kom fyrir hverju sinni. Kennari í bókmenntafræði væri í verulega slæmum málum, skv. sömu rökum, ef tekin væru dæmi um myndhverfingar úr ljóðum án þess að sýna öll ljóðin í heild og gera um leið grein fyrir í hvaða ljóðabók þau birtust og hvaða ár, jafnvel höfundum þeirra, þeim stefnum og straumum sem þeir aðhylltust o.s.fr. Hver kennari sér að þetta er rugl og það er dálítið undarlegt til þess að hugsa að Óli Gneisti Sóleyjarsson þjóðfræðingur, sá formaður Vantrúar sem var kveikjan að kærunni, og Reynir Harðarson sálfræðingur, sem tók við formennsku af Óla Gneista, skrifaði undir kærubréfin og lýsti yfir heilaga stríðinu, skuli báðir hafa meistaragráðu. Ég hefði haldið fyrirfram að hver sæmilega háskólamenntaður maður sæi hversu mikið rugl krafan um skilyrðislaust samhengi dæma á glærum er.

  
Fleiri klögumálum Vantrúar verða gerð skil í næstu færslu.

  

Ég minni enn og aftur á að athugasemdir við þessa færslu á að gera undir fullu nafni. Af gefnu tilefni tek ég fram að leiðist umræðan út í nagg og níð einstaklinga hverra í annars garð verður þeim eytt.
  
  
 

Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, I. hluti

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Eins ég gat um í næstsíðustu færslu kærði félagið Vantrú stundakennarann Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir siðanefnd Háskóla Íslands vegna örlítils hluta af kennsluefni í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem hann kenndi í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands á haustönn 2009. Um leið sendi Vantrú kvörtunarbréf til háskólarektors og til deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar.

Óli Gneisti Sóleyjarson, einn af stofnendum Vantrúar, fékk hluta glæra í námskeiðinu frá vini sínum. Það er ekki óalgengt að nemendur skiptist á glærum í Háskóla Íslands og það hvarflaði ekki að nemandanum, vini Óla Gneista, sem sat námskeiðið að glærurnar yrðu það vopn í höndum Vantrúar sem raun varð. Þá hefði hann aldrei látið þær af hendi enda var þessum nemanda vel til kennarans og taldi sig hafa haft mikið gagn af námskeiðinu. Líklega gera menn því almennt ekki skóna að tveggja manna netspjall milli vina og kennslugögn af lokuðu svæði á Uglu væru svo birt á spjallsvæði sem 200 manns hafa aðgang að, hvað þá að þetta yrði rót illinda sem enn sér ekki fyrir endann á.

Til hvers eru glærur?

Allir kennarar vita að glærur eru notaðar með ýmsum hætti. Fyrir daga PowerPoint skjásýninga og skjávarpa voru glærur notaðar heldur sparlega en núorðið skipa þær æ hærri sess í kennslu. Glærur eru stundum glósur, stundum stikkorð til að draga fram aðalatriði, stundum til að ögra og skapa þannig umræðu eða fá nemendur til að líta námsefnið undir öðru sjónarhorni, stundum til að skýra námsefnið, stundum til að festa námsefni í minni o.m.fl. Eftir tilkomu skjávarpa og með greiðum aðgangi að hvers kyns efni á Vefnum reyna kennarar gjarna að ná athygli nemenda með myndskreytingum eða myndum á glærunum.

Til eru viðmiðunarreglur um glærugerð sem kenndar eru í kennslufræði en ég hef aldrei hitt þann kennara sem fer eftir þeim, t.d. þeirri gullnu reglu að aldrei skuli fleiri atriði en sjö á hverri glæru.

Hver kennari túlkar svo sínar glærur með sínum hætti í kennslustund og miðar auðvitað glærugerðina við sína kennslu og ekki annað. Sé ekki um að ræða glærusýningu sem á að nýtast í fjarkennslu (stundum er einnig talað inn á svoleiðis glærusýningar eða kennslustund í staðnámi er tekin upp og fylgir) er nánast útilokað að meta kennslu út frá glærum eingöngu enda hefur það aldrei tíðkast (raunar engum dottið það í hug nema Vantrú).
 

Hver væru eðlileg viðbrögð þætti fólki eitthvað athugavert við kennsluefni?

Mat á kennsluÞað er væntanlega mismunandi eftir skólastigum hverjir sæju mögulega ástæðu til að kvarta undan kennsluefni. T.a.m. gætu foreldrar kvartað ef um væri að ræða leikskóla, grunnskóla og fyrstu ár framhaldsskóla. Nemendur gætu einnig kvartað á þessum skólastigum en eftir að 18 ára aldri er náð væri einna helst að búast við kvörtunum frá nemendunum sjálfum. Í framhaldsskólum eru lagðar reglulegar kennslukannanir fyrir nemendur, í Háskóla Íslands er kennslukönnun lögð fyrir í lok hvers námskeiðs hjá öllum kennurum (eftir því sem ég best veit, þetta á altént við hugvísindagreinar). Í svona könnunum gefst nemendum færi á að meta kennslu og gera athugasemdir við einstaka þætti hennar ef þeir vilja og það undir nafnleynd.

Í framhaldsskólum er það skýrt að kennari ber ábyrgð á kennslu og námsmati. Ég veit ekki hvort það er kveðið jafn skýrt á um þetta í Háskóla Íslands en eðlilegustu viðbrögðin við því ef kennsluefni þykir í einhverju ábótavant eru væntanlega að tala um það við kennarann sjálfan, til vara mætti snúa sér til deildarforseta viðkomandi deildar. Það er væntanlega ekki ástæða til að snúa sér til siðanefndar Háskóla Íslands vegna kennsluefnis nema menn séu þess fullvissir að kennari hafi brotið siðareglur sama háskóla. Má ætla að slíkt sé afar sjaldgæft því á árunum 2007-2010 tók siðanefnd Háskóla Íslands einungis fjögur mál til umfjöllunar (en vísaði öðrum fjórum frá) og lauk í rauninni aðeins þremur þeirra. Óvíst er að þessi þrjú hafi snúið að kennslu því siðanefnd hefur heykst á því að birta útdrætti úr sínum úrskurðum eins og henni ber að gera og því í rauninni ekki hægt að vita um hvað þessi mál snérust (sjá færsluna Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa).
 

Hverjir geta skipt sér af kennsluefni?

Hér að ofan hefur verið gengið út frá því að nemendur Háskóla Íslands kvörtuðu undan kennslu eða kennsluefni. Ég reikna með að það heyri til algerra undantekninga að félagsskapur úti í bæ kvarti undan umfjöllun um sig í námskeiði sem enginn félagsmanna sat, hvað þá kæri slíka umfjöllun til siðanefndar HÍ. Ef þetta tíðkaðist mætti ímynda sér að útrásarvíkingar eða Samtök sauðfjárbænda kærðu umfjöllun um sig í hagfræðikúrsum, skáld kærðu umfjöllun um sig í bókmenntafræðikúrsum eða stykkju upp á nef sér yfir hvernig rit þeirra væru flokkuð og greind eftir bókmenntastefnum o.s.fr. Það sér hver maður að þetta væri út í hött og hlyti að byggjast á þeim misskilningi að umfjöllun um viðkomandi væri einhvers konar kynning eða auglýsing sem lyti sömu reglum og auglýsingabransinn. Svoleiðis kynningar og auglýsingar eru ekki í verkahring Háskóla Íslands og hafa hingað til ekki verið tengdar akademísku námi og akademískri kennslu.
 

Hafði félagið Vantrú forsendur til að meta glærurnar sem fóru svo mjög fyrir brjóstið á einstökum félagsmönnum?

Það er spurninginSvarið við þessu hlýtur að vera neitandi. Einungis einn félagsmanna hafði tekið svipað námskeið áður og það er ekki ástæða til að ætla að hann hafi átt hlut að máli þegar ákveðið var að kæra kennarann og kvarta undan glærunum. Margir sem hafa setið í stjórn Vantrúar hafa stundað háskólanám til lengri eða skemmri tíma og hafa því reynslu sem nemendur. Ég veit ekki til þess að neinn þeirra hafi reynslu af háskólakennslu (og vonast til að Vantrúarfélagar leiðrétti mig ef þetta er rangt).

Af þessu leiðir að kæra og klögumál Vantrúar byggjast á vanþekkingu og misskilningi, meðal annars þeim misskilningi að ætlun Bjarna Randvers hafi verið að standa fyrir sérstakri kynningu eða auglýsingu á félaginu.

Það kom ekki í veg fyrir að Vantrú sendi kvartanir sínar til siðanefndar HÍ, forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ og rektors HÍ, dags. 4. febrúar 2010, og að formaðurinn, Reynir Harðarson sálfræðingur, setti sig í stellingar Churchill o.fl. og tilkynnti á lokuðum spjallþræði félagsins þann 12. febrúar 2010:

 Áríðandi tilkynning

 Kæru félagar. Klukkan 15:00 í dag lýstum við yfir heilögu stríði á hendur Bjarna Randveri og Guðfræði í Háskóla Íslands. Okkur ber skylda til að verja heiður okkar þegar á okkur er ráðist af svo voldugum andstæðingi að ósekju. Við munum berjast á vefnum, í blöðum, með bréfum og jafnvel í fjölmiðlum þar til fullur sigur er unninn. broskarl

 (Sjá skjámynd af ummælum Reynis á vef Vantrúar.)
 

Þess ber að geta að félagar í Vantrú hafa lagt þunga áherslu á að þessari áríðandi tilkynningu hafi fylgt broskarl.
 
 

Til að stytta svolítið einstakar bloggfærslur í þessari færsluröð verður ekki haldið lengra að sinni. Næst mun ég reyna að gera grein fyrir nokkrum þeim klögumálum Vantrúar sem varða þessar glærur og reyna að setja þær í samhengi við efni námskeiðsins. Ég ítreka að athugasemdum sem ekki eru gerðar undir fullu nafni verður eytt.
 
 
 
 

Vantrú

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Í ágúst 2003 stofnuðu nokkrir trúleysingjar vefritið Vantrú. Allir áttu þeir sameiginlegt að hafa stundað trúmálaumræður á netinu, aðallega á spjallþráðum og vefsetrum einstaklinga. Vantrú þróaðist fljótt í mikilvægan vettvang fyrir skoðanaskipti um trúmál og tengd málefni, og má segja að hún hafi öðlast nokkurn sess í vefritaflóru Íslands. Félögum fjölgaði jafnt og þétt og í febrúar 2004 var tilkynnt um stofnun óformlegs félags. Á haustmánuðum sama ár, þegar félagar voru orðnir 20, varð draumurinn um lögformlegan félagskap að veruleika.

 Helsta markmið félagsins er að vinna gegn boðun hindurvitna í samfélaginu. Þessu markmiði hyggst félagið ná með öflugri netútgáfu, blaðaskrifum, fyrirlestrum og rökræðum, hvar sem því verður við komið.  („Um Vantrú“ á vantru.is, feitletrun mín.)

Steðji � HvalfirðiAf því að félagið Vantrú er aðallega sýnilegt á vef/vefriti félagsins er rétt að geta þess að: „Upphaflega var vefritið ætlað til þess að skoða trúmál frá sjónarhorni trúleysingjans. [..] [Það] hefur þó tekið töluverðum stakkaskiptum. […] Hér er einnig tekið á öðrum hindurvitnum, kukli, gervivísindum og ýmsum hugsanavillum.“ („Um vefritið“ á vantru.is.) Raunar virðist félagið vera að hverfa aftur til upprunans miðað við umræðuna árið 2011 sem snýst að mestu um trúmál frá sjónarhorni trúleysingja.

Vefritið Vantrú var sem sagt stofnað 2003 en félagið Vantrú árið 2004. Félögum hefur fjölgað mjög hægt en bítandi þessi tæpu átta ár síðan félagið var stofnað og eru nú 130 – 135 talsins eftir því sem næst verður komist. Í Stúdentablaðinu 1. des. 2008 segir að félagar séu 90-100 en á Wikipediusíðu um félagið segir að þeir séu  80-90 í sömu efnisgrein og stjórnarmenn Vantrúar árið 2010 eru taldir upp. Annað hvort hefur fækkað í félaginu á þessum árum eða nákvæmur fjöldi félagsmanna er eitthvað á reiki.

Helstu forsvarsmenn Vantrúar frá upphafi sjást í töflunni hér að neðan. Einnig má benda á myndir af þeim mörgum á glæru sem félaginu áskotnaðist með nokkuð vafasömum hætti af lokuðu námskeiðssvæði á Uglu (innri vef HÍ). Hér er krækt í glæruna á vefsvæði Vantrúar.
 

2003: Vefritið Vantrú stofnað Birgir Baldursson skrifar stefnuyfirlýsingu þess,

sjá „Lygin um sannleikann“.
 

2004-2005: Stjórn vefjar Vantrúar Óli Gneisti Sóleyjarson ritstjóri
 Birgir Baldursson vefstjóri og ábyrgðarmaður
 Matthías Ásgeirsson ritstjórnarmeðlimur
 Jogus ritstjórnarmeðlimur
 Frelsarinn ritstjórnarmeðlimur
Stjórn félagsins Vantrúar 2005 Birgir Baldursson formaður
 Matthías Ásgeirsson gjaldkeri
 Óli Gneisti Sóleyjarson ritari
 Björn Darri Sigurðsson meðstjórnandi
 

 Hjalti Rúnar Ómarsson meðstjórnandi, ritstjóri vefritins

Stjórn félagsins Vantrúar 2006 Birgir Baldursson formaður
 Matthías Ásgeirsson gjaldkeri
 Óli Gneisti Sóleyjarson ritari
 Björn Darri Sigurðsson meðstjórnandi
 

 Hjalti Rúnar Ómarsson meðstjórnandi, ritstjóri vefritsins

Stjórn félagsins Vantrúar 2007 Matthías Ásgeirsson formaður
 Gyða Ásmundsdóttir gjaldkeri
 Eygló Traustadóttir meðstjórnandi
 Birgir Baldursson meðstjórnandi

 Hjalti Rúnar Ómarsson ritari, ritstjóri vefritsins

Stjórn félagsins Vantrúar 2008 Matthías Ásgeirsson formaður.
 Gyða Ásmundsdóttir gjaldkeri
 Teitur Atlason ritari
 Eygló Traustadóttir meðstjórnandi
 Karl Gunnarsson meðstjórnandi

 Birgir Baldursson tók við ritstjórn vefritsins 2007 og gegndi fram á árið 2008.

Stjórn félagsins Vantrúar 2009 Óli Gneisti Sóleyjarson formaður
 Gyða Ásmundsdóttir gjaldkeri
 Baldvin Örn Einarsson ritari
 Kristín Kristjánsdóttir meðstjórnandi
 Valdimar Björn Ásgeirsson meðstjórnandi

 Þórður Ingvarsson tók við ritstjórn vefritisins árið 2008  og hefur gegnt því starfi síðan

Stjórn félagsins Vantrúar 2010 Reynir Harðarson formaður
 Baldvin Örn Einarsson varaformaður
 Ketill Jóelsson gjaldkeri
 Trausti Freyr Reynisson ritari

 Þórður Ingvarsson ritstjóri vefsins

Stjórn félagsins Vantrúar 2011 Reynir Harðarson formaður
 Baldvin Örn Einarsson varaformaður
 Ketill Jóelsson gjaldkeri
 Birgir Baldursson ritari

 Þórður Ingvarsson ritstjóri vefsins 

Sem sjá má á þessari töflu eru ekki miklar breytingar á stjórn Vantrúar frá upphafi. Og það er áberandi hve hlutur kvenna er rýr, árin 2007-2009 sátu konur í stjórn en annars ekki. Gyða Ásmundsdóttir sem kom inn í stjórnina í formannstíð Matthíasar Ásgeirssonar er eiginkona hans. Eygló Traustadóttir sem sat í stjórn 2007-2008 er maki Óla Gneista Sóleyjarsonar. Ég veit ekki hvort Kristín Kristjánsdóttir, sem sat í stjórn 2009 hefur einhver álíka tengsl við karlana í stjórn. Í hópi greinarhöfunda á Vantrúarvefnum eru konur nánast ósýnilegar (sjá neðar í þessari færslu).

Sumir stjórnarmanna reka eigin blogg og helga þau ósjaldan trúmálum, oftast baráttu gegn þjóðkirkjunni og áhrifum hennar. Sem dæmi má nefna Hjalta Rúnar Ómarsson, Matthías Ásgeirsson og Þórð Ingvarsson. Og sumir stjórnarmanna hafa verið ötulir að skrifa um trúmál og efni þeim tengt frá tvítugsaldri, t.d. Haraldur Óli Haraldsson (sem tók síðar upp nafnið Óli Gneisti Sóleyjarsson) og Reynir Harðarson (hér er krækt í elstu dæmin sem ég fann um slíkt – til gamans má geta þess að afi minn skrifaði greinina fyrir ofan grein Reynis Harðarsonar).
 

Helstu baráttumál Vantrúar

Andlit við Byggðasafnið � GörðumSvo virðist sem Vantrú hafi lagt talsverða áherslu á að berjast almennt gegn „hindurvitnum, kukli, gervivísindum og ýmsum hugsanavillum“ fram undir 2009. Finna má ýmsar áhugaverðar greinar um hjálækningar, vísindi o.fl. í flokkunum „Efahyggjuorðabókin“ og „Kjaftæðisvaktin“, svo dæmi séu tekin. En frá um mitt ár 2009 verður umræðan einsleitari og snýst í æ ríkari mæli um andstöðu gegn þjóðkirkjunni og andstöðu gegn samvinnu skóla og þjóðkirkju, á þeim forsendum að ekki megi troða trú upp á saklaus börn á leikskólum og í grunnskólum. Frá því snemma árs 2010 hefur svo heill greinaflokkur verið helgaður óánægju Vantrúar yfir kynningu á félaginu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar, sem Bjarni Randver Sigurvinsson kenndi á haustönn 2009, og ýmsum málrekstri sem fylgdi í kjölfar kvartana/kæra Vantrúar (sjá „Háskólinn“).

Frá 2006 hefur verið félaginu kappsmál að aðstoða fólk við að segja sig úr þjóðkirkjunni, sem Vantrú kallar „að leiðrétta trúfélagaskráningu“ (en af því þessi síða Vantrúar heitir „Skráðu þig úr ríkiskirkjunni“ virðist nokkuð ljóst að félagið beitir sér nær eingöngu gegn þjóðkirkjunni). Vantrúarmenn hafa mætt á einhverjar samkomur (sjá t.d. hér) eða gengið um með eyðublöð Hagstofunnar og seinna Þjóðskrár, ásamt því að krækja í eyðublaðið hjá Hagstofunni, láta það liggja á eigin síðu sem pdf-skjal og gefa upp faxnúmer o.s.fr. Núna er mönnum bent á þann möguleika að skila skráningareyðublaðinu rafrænt, auk annarra möguleika. Skv. vefsíðunni „Skráðu þig úr ríkiskirkjunni“ í gær, 13. jan. 2012, hefur Vantrú hefur aðstoðað 1328 einstaklinga til þessa á tímabilinu 1. jan. 2006- 14. júní 2011. Raunar er vandséð hvað liggur að baki þessari nákvæmu tölu þegar umræðuþráðurinn fyrir neðan er lesinn: Telst það að tilkynna Vantrú að maður hafi sagt sig úr þjóðkirkjunni vera að hafa þegið aðstoð Vantrúar til verksins? Þótt Vantrú segist hafa aðstoðað á fjórtánda hundrað manns við að skrá sig úr þjóðkirkjunni nýtur félagið þess ekki sérlega mikið því í Vantrú eru núna eitthvað um 130-135 manns, sem áður sagði. Það eru tæplega 1,14% prósent af þeim fjölda sem skráður er utan trúfélaga, skv. tölum Þjóðskrár frá 1. jan. 2012.

Vantrú heldur upp á ýmislegt með sínum hætti. Má nefna að félagið heldur árlegt páskabingó á Austurvelli á föstudaginn langa til að mótmæla lögum um helgidaga. Félagið veitir árlega sérstök skammar- eða háðsverðlaun sem það kennir við Ágústínus kirkjuföður. Heiðursfélagi Vantrúar var Helgi Hóseason. Ári eftir andlát hans, 6. sept. 2010,  minntist ritstjórn félagsins hans og sagði m.a.: „Við erum stolt af því að hafa gert Helga Hóseasson að fyrsta (og enn eina) heiðursfélaga Vantrúar.“ Í sömu grein kemur fram að Vantrú hafi beitt sér fyrir að gerð var minningarhella um Helga á horni Langholtsvegar og Holtavegar, yrði hún afhjúpuð þennan dag og haldin látlaus athöfn til minningar um Helga.
 

Vettvangur og aðferðir

Aðalvettvangur Vantrúar er auðvitað vefritið. Miðað við mannfæð félagsins er ótrúlega mikið efni þar að finna. Enn athyglisverðara er að einungis örfáir félagsmenn standa að megninu af  þessum greinarskrifum og þeim fer fækkandi, þ.e. greinum fækkar milli ára og hlutur örfárra félagsmanna verður stærri. Hlutur kvenna í greinaskrifum er svo lítill að það tekur því varla að minnast á hann. Hér að neðan má sjá skiptingu efnis eftir höfundum árið 2008 og 2011. (Byggt er á listanum „Allar færslur á Vantrú“.)
 
 

Greinar á Vantrú 2008
Árið 2008 voru greinar og tilkynningar 324 talsins. Í hlut ritstjórnar eru bæði tilkynningar og greinar, alls 130 talsins, en aðrir eru skráðir fyrir greinum eingöngu. Af þeim var Reynir Harðarson afkastamestur, skrifaði 27 greinar á árinu. Fast á hæla honum fylgdi Brynjólfur Þorvarðarson með 23 greinar. Í hópnum „Aðrir“ eru þeir sem skrifuðu 1-3 greinar á árinu, alls teljast 33 greinar til þessa flokks. Af þrettán höfundum í þessum flokki sem líklega eru félagsmenn eða áhangendur Vantrúar er ein kona (sú var í stjórn félagsins þetta ár). Að auki eru í þessum flokki sex höfundar aðsendra greina og þar á meðal önnur kona. Þessar tvær eru einu konurnar sem skrifuðu greinar á vantru.is árið 2008.
Greinar á Vantrú 2011
Árið 2011 voru skrifaðar 180 greinar og tilkynningar á vantru.is. Þær skiptust þannig:Ritstjórn: 73
Hjalti Rúnar Ómarsson: 22
Egill Óskarsson: 18
Reynir Harðarson: 17
Frelsarinn: 12
Matthías Ásgeirsson: 6
Þórður Ingvarsson.: 6

Aðrir: 26 greinar. Höfundar voru fjórtán, þar af tvær konur, og auk þess birtust þrjár aðsendar greinar eftir jafnmarga karla.

Af AkrafjalliFyrir utan að skrifa greinar í eigið vefrit er þessi fámenni félagahópur iðinn við að skrifa athugasemdir við þær og svara þeim utanfélagsmönnum sem slæðast inn á vefinn og melda skoðanir sínar. Lausleg athugun á athugasemdum við greinar á vefriti Vantrúar árið 2011 bendir til þess að afar fáar konur leggi þar orð í belg. Lítill hópur félagsmanna virðist einnig vinna ötullega að því að hafa upp á bloggfærslum annarra þar sem Vantrú berst í tal og gera sínar eigin athugasemdir við þær, sjá t.d. athugasemdir við færsluna „Mér ofbauð“ á bloggi Helga Ingólfssonar. Sama gildir um fréttir um Vantrú á vefmiðlum og félagsmenn virðast jafnvel reyna að fylgjast með Facebook-færslum um Vantrú. Þeir sýna ótrúlega elju við þessa iðju en ganga sumir svo langt að kalla mætti þá „tröll“ í netheimum.
 

Hvernig kemur Vantrú manni fyrir sjónir?

Hér á eftir byggi ég vitaskuld einungis á eigin mati. En það sem fyrst stakk í augu þegar ég fór að kynna mér félagið Vantrú, aðallega með því að skoða samnefndan vef/vefritið, var hve mjög Vantrú líktist ströngu, jafnvel öfgasinnuðu trúfélagi, þótt með öfugum formerkjum væri. Má þar nefna eftirfarandi:
 

*  Línan er lögð af körlum: Stjórn félagsins er oftast skipuð körlum eingöngu. Tvær af þeim þremur konum sem hafa setið tímabundið í stjórn eru eiginkonur karla sem sitja eða setið í stjórn. Það eru nánast bara karlar sem skrifa greinarnar á vefnum/vefritinu. Og bæði ritendur og stjórnendur eru aðallega fámennur karlahópur, nánast eins og æðstuprestar eða erkiklerkar í trúfélögum. Þótt í árdaga vefritsins hafi birst greinin „Til kvenna um trú“ þar sem Vantrúarfélaginn Aiwaz fer mikinn þegar hann útlistar kúgun þá sem kirkjan og kristni beita konur; hann endar greinina svo á: „Kæra trúkona, ertu eiginkona, hóra eða sjálfsfróunarvél?“ þá verður alls ekki séð af gögnum Vantrúar sem liggja frammi að þeim sé jafnrétti kynjanna eða hlutur kvenna ofarlega í huga. Satt best að segja datt mér einmitt í hug að konur ættu að þegja og spyrja menn sína heima þegar ég skoðaði hlut kvenna í greinasafni Vantrúar árin 2008 og 2011.
 

* Trúboð (and-trúboð?) er stundað af mikilli elju. Þarna á ég m.a. við hversu ótrúlega miklum tíma nokkrir karlar (raunar mikið til þeir sömu og sitja í stjórn og skrifa greinar) eyða í að elta uppi umfjöllun um Vantrú og leggja þar mörg orð í belg eða hvernig þeir sömu hamast við að skrifa athugasemdir við blogg nokkurra presta (virðist sr. Þórhallur Heimisson í sérstöku uppáhaldi þar).

Hin hlið trúboðsins / and-trúboðsins er svo að hvetja sem mest til að fólk segi sig úr þjóðkirkjunni; ganga jafnvel um garða til þess, eins og hverjir aðrir góðir mormónar eða vottar jehóva eða aðrir sem boða sína trú. Og ekki má gleyma því andtrúboði að vilja banna hvers kyns kirkjulegt starf í leikskólum og grunnskólum, s.s. að prestar fái að hitta börn og unglinga í skólanum (t.d. á aðventunni) eða að Gideon-félagar fái að gefa skólabörnum Nýja testamentið. Um skaðsemi svona háttalags hafa Vantrúarmenn skrifað fjölda greina á sinn vef og í ýmis dagblöð / netmiðla.
 

* Það ríkja ákveðnar kennisetningar um Vantrú, þ.e.a.s. aðeins má fjalla um félagið á ákveðnum nótum. Vei þeim sem brýtur þær dogmur! Þeir eru að minnsta kosti sýndargrýttir í netheimum. Ef brotið er stórvægilegt leggja félagsmenn í krossferð, heilagt stríð.

Í þessu sambandi má og geta þess að Vantrú hefur hina einu sönnu van-trú, aðrir trúlausir eru trúlausir á rangan máta. Greinin „Bjarni Harðar og fyrirgefningin“ lýsir þessari vissu Vantrúar prýðilega. Hún minnti mig pínulítið á ofurlítið sambærilega sögu, um farísea og tollheimtumann …
 

* Haldin er andhátíð á föstudaginn langa. Hugsanlega eru til fleiri andhátíðir sem fylgja helgidögum kristinna, efnið á vef Vantrúar er svo gífurlega mikið að ég skoðaði einungis hluta af því. Og sérstök verðlaun Vantrúar eru kennd við Ágústínus kirkjuföður; eru þannig með sterka skírskotun til kirkjusögu og kristni en eru að sjálfsögðu andverðlaun, því þau eru skammarverðlaun.
 

* Hinn eini sanni heiðursfélagi, Helgi Hóseasson, skipar svipað sæti hjá Vantrú og Jesús meðal postulanna. Vantrúamenn fylgdu honum í lifanda lífi, þeir sjá svo um að tákn til minningar um hann sé sett (gangstéttarhella í stað kross) og minnast dánarafmælis hans. Og af því allt er með öfugum formerkjum hjá Vantrú þá var það ekki postuli sem afneitaði honum heldur afneitaði Helgi sínum postula eins og sést á þessari glæru með tilvitnun í Helga Hóseasson (hér er krækt í glæruna á vef Vantrúar).
 

* Að sögn getur ákveðið píslarvætti fylgt því að vera félagi í Vantrú. Því verða félagsmenn stundum að dyljast eins og kristnir í katakombunum forðum – í nútímanum nota menn ekki katakombur heldur iðka sína (and)trú undir nafnleynd á netinu. Má nefna að einn stofnfélaga Vantrúar, sem enn er virkur í greinarskrifum, hefur frá upphafi til dagins í dag þurft að skrifa undir því ótrúlega dulnefni Frelsarinn. Hér er og glænýtt dæmi um hve Vantrúarmaður þarf að þola endalaust kristið trúboð í daglegu lífi og þráir að öðlast frið frá því. (Sú raun kemur mér nokkuð á óvart því í þau þrjátíu og þrjú eða fjögur ár sem ég var sjálf utan trúfélaga man ég ekki til þess að neinn hafi reynt að turna mér í þjóðkirkjuna eða yfirleitt sóst eftir að ræða við mig trúmál.)

Sjálfsagt mætti tína til fleiri dæmi um hvernig Vantrú speglar hefðbundinn trúsöfnuð en ég læt þessu lokið að sinni.

Af gefnu tilefni tek ég fram að þeim athugasemdum við þessa færslu sem ekki eru ritaðar undir fullu nafni verður eytt.

Myndirnar sem skreyta þessa færslu eru teknar á Stór-Akranessvæðinu.
 
 
 
 
 

Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Hönd eftir RodinGrein Barkar Gunnarssonar, „Heilagt stríð Vantrúar“, sem birtist í Morgunblaðinu 4. desember 2011 (s. 18- 21) vakti athygli mína á þessu undarlega máli. Skrif á ýmsum netmiðlum í kjölfarið urðu svo til að þess að renna stoðum undir greinina, ekki hvað síst æsingarkennd viðbrögð félaga í Vantrú. En um þann félagsskap verður ekki fjallað í þessari færslu heldur sjónum beint að Siðanefnd Háskóla Íslands í „Stóra Vantrúarmálinu“, þ.e. máli 1/2010.

Upplýsingar um gang málsins eru að miklu leyti fengnar úr Skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. September 2011 (hér eftir skammstafað Skýrsla óh.n.) en einnig er stuðst við fleiri heimildir.

Upphaf málsins var að félagsskapurinn Vantrú sendi erindi til siðanefndar HÍ þann 4. febrúar 2010, þar sem kvartað var undan því að nokkrar glærur í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar, sem Bjarni Randver Sigurvinsson hafði kennt á haustönn 2009, gæfu ekki rétta mynd af Vantrú og hugmyndafræði hennar. Kvartað var undan tveimur glæruröðum sem samtals telja 74 glærur. Í kúrsinum voru notaðar 1735 glærur, skipt í 20 glærusett. Vantrú kvartaði því undan rétt rúmlega 4,25% glæra sem notaðar voru í námskeiðinu og fór „fram á að siðferði þessa kennsluefnis verði metið“. Glærurnar voru auðvitað bara hluti kennslu- og námsefnis og raunar hafði Vantrú engar forsendur til að meta hvernig þær voru notaðar í kennslunni því enginn þeirra sem stóð að kærunni hafði setið námskeiðið. Jafnframt vísaði Vantrú í ýmsar siðareglur HÍ sem félagið taldi að kennarinn hefði brotið, með glærugerðinni einni saman.

Það sem flækti málið frá upphafi, fyrir utan ótrúlega meðferð siðanefndar HÍ, var að Vantrú sendi einnig kvartanir til rektors HÍ og til guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ, dagsettar sama dag. Þessi kvörtunarbréf voru ekki samhljóða og virðist þess ekki hafa verið getið í hverju bréfi að kvartað hefði verið til fleiri aðila. Rektor vísaði sínu bréfi áfram til siðanefndar en forseti guðfræði- og trúarbragðadeildar og stundakennarinn ræddu um hvernig mætti koma til móts við Vantrú í glærugerð þegar kúrsinn yrði næst kenndur. Í þessari færslu verður næsta lítið fjallað um gang málsins innan guðfræði- og trúarbragðadeildar heldur sjónum beint að siðanefnd HÍ enda voru þetta þrjú aðskilin erindi sem bárust frá Vantrú og einungis einu þeirra beint til siðanefndarinnar.
 

Siðanefndin og fyrri afgreiðslur á starfstíma hennar

Skuggarnir þr�r eftir RodinÁ þessum tíma var siðanefnd skipuð þannig: Þórður Harðarson þáverandi prófessor í læknadeild var formaður nefndarinnar en auk hans sátu þar  Sigríður Þorgeirsdóttir prófessor í heimspeki og Þorsteinn Vilhjálmsson þáverandi prófessor í eðlisfræði og höfðu væntanlega setið frá árinu 2007 því skipunartími siðanefndarmanna er þrjú ár og var endurskipað í hana sumarið 2010.

Á starfstíma siðanefndar HÍ  frá 27. nóvember 2007 hefur hún fengið til meðferðar átta kærumál, segir í Skýrslu óh.n. (s. 26). Helmingi þeirra, fjórum málum, hefur nefndin vísað frá. Tveimur málum lauk með sátt. Brot var staðfest í einu máli og kæra dregin til baka í einu máli (væntanlega fyrrnefnd kæra Vantrúar). „Að svo miklu leyti sem niðurstaða nefndarinnar byggist á túlkun siðareglna, skal nefndin búa til útdrátt úr umfjöllun sinni og birta sem skýringu við viðkomandi ákvæði reglnanna á háskólavefnum. Þetta á þó ekki við ef ákveðið hefur verið að niðurstaða nefndarinnar sé trúnaðarmál“, segir í 8. grein þeirra starfsreglna siðanefndar sem voru í gildi til 13. október sl. (er nú í 10. grein). Engin merki sjást um útdrátt úr umfjöllun siðanefndar hengdan við siðareglur HÍ svo annað hvort hefur nefndin kosið að hunsa þessa starfsreglu eða litið á allar fyrri afgreiðslur sínar sem algert trúnaðarmál. Þess vegna er ekki hægt að vita hvers eðlis þessi sjö kærumál á undan kæru Vantrúar voru en ljóst að meirihluta þeirra hafði verið vísað frá.

Í fyrstu grein starfsreglna siðanefndar segir: „1. gr. Almennt. Við Háskóla Íslands starfar siðanefnd sem úrskurðar um það hvort siðareglur Háskóla Íslands hafi verið brotnar. […]“  Önnur og þriðja grein fjalla um nefndarskipan og reglur um hæfi nefndarmanna en sú fjórða var svona á vormisseri 2010: „4. gr. Málsgrundvöllur. Siðanefnd kannar hvort framkomin kæra snertir siðareglur Háskóla Íslands. Nefndin vísar frá kærum sem ekki varða siðareglurnar eða eru tilefnislausar. Þá getur nefndin vísað kærum frá, ef um er að ræða meint brot á lagareglum sem hægt er að bera undir úrskurð stjórnvalda eða dómstóla.“ Framan á þá grein hefur verið bætt (og hún umorðuð lítillega): „Áður en siðanefnd tekur mál til umfjöllunar kannar hún hvort framkomin kæra snertir siðareglur Háskóla Íslands.[…]“ Líklega er viðbótin vegna harkalegs dóms Skýrslu óh.n. yfir málsmeðferð siðanefndar í þessu kærumáli Vantrúar gegn stundakennaranum Bjarna Randver Sigurvinssyni. Feitletranir í beinum tilvitnunum eru mínar.
 

Kæra Vantrúar

Skv. Skýrslu óh.n. segir í bréfi Vantrúar til siðanefndar HÍ: 

  „Að okkar mati hefur Bjarni Randver orðið Háskóla Íslands til minnkunar í umfjöllun sinni um trúlausa og félagið Vantrú þar sem meðferð hans á tilvitnunum í félagsmenn, uppsetning o.fl. er hreinn áróður og skrumskæling á afstöðu okkar, sem við teljum ótvírætt brot á siðareglum HÍ.
  […]
  Við förum fram á að siðferði þessa kennsluefnis verði metið í ljósi þeirra athugasemda sem við komum hér á framfæri. Niðurstaða þess mats endurspeglar vonandi faglegan og fræðilegan metnað Háskóla Íslands.“

Vantrú telur í bréfi sínu til siðanefndar ástæðu til þess að huga sérstaklega að nánar tilgreindum greinum siðareglna Háskóla Íslands. Sömu athugasemdir eru gerðar við tvær glæruraðir og önnur atriði og fram koma í bréfi Vantrúar til rektors Háskóla Íslands og getið er hér að framan. (Skýrsla óh.n. s. 30-31.) Greinargerðin sem fylgdi þessu bréfi til siðanefndar er hin sama og fylgdi bréfi Vantrúar til Péturs Péturssonar, forseta guðfræði og trúarbragðadeildar HÍ sem skoða má á síðu Vantrúar. Undir bréfið (og hin tvö) skrifar Reynir Harðarson, formaður Vantrúar og væntanlega talsmaður félagsmanna því í þeim er ævinlega talað í fleirtölu.

Þær greinar siðareglna HÍ sem Vantrú taldi að stundakennarinn hefði brotið voru:

  • Undigrein 1.2.1 í 1.2 Ábyrgð gagnvart Háskóla Íslands
  • Undirgreinar undir 2.1 Ábyrgð gagnvart fræðunum (2.1.1 – 2.1.5)
  • Undirgreinar undir 2.2 Gagnkvæm ábyrgð kennara og nemenda (2.2.1, 2.2.3 )
  • Undirgreinin 2.4.3 undir 2.4 Ábyrgð gagnvart samfélaginu

Strax við fyrstu sýn blasir við að kæra Vantrúar á engan veginn við sumar greinarnar, t.d. þá fyrstu, 1.2.1, sem hljóðar „Starfsfólk Háskólans sinnir störfum sínum af kostgæfni.“ Íslensk orðabók skýrir „kostgæfni“ sem „áhuga“ og í huga almennings er orðið oft tengt „alúð“. Það er ekkert sem bendir til þess að Bjarni Randver hafi ekki sinnt kennslu sinni af áhuga og alúð og út í hött að halda að örlítið brot af kennsluefninu geti skorið úr um það. Eða grein 2.1.5 sem lýtur að rannsóknarfrelsi kennara: „Kennarar, sérfræðingar og nemendur forðast að hagsmunatengsl hefti rannsóknafrelsi og hamli viðurkenndum fræðilegum vinnubrögðum. Þeir upplýsa um þau hagsmunatengsl sem til staðar eru.“ Þessi glærubunki sem Vantrú taldi fram tengdist ekki rannsóknum og hvaða hagsmunatengsl, eða öllu heldur við hverja, hefði kennarinn átt að upplýsa um? Enginn þeirra sem hlut átti að kæru Vantrúar hafði setið námskeiðið sem glærurnar tilheyrðu og því vonlaust fyrir þá að meta hvernig kennslan og samskipti við nemendurnar voru. Enginn þeirra hafði áður setið slíkt námskeið eða hafði menntun í efni námskeiðsins svo á hvaða forsendum áttu þeir að geta metið ábyrgð gagnvart fræðunum út frá broti af kennslu- og námsefninu? Margt annað í kæru Vantrúar til siðanefndar virðist í sama dúr, a.m.k. vafðist það fyrir siðanefnd hinni síðari að greina hvað nákvæmlega væri verið að kæra og hvernig það tengdist siðareglum HÍ (sjá neðar í þessari færslu).
 
 

Viðbrögð siðanefndar

Í stað þess að vísa einfaldlega erindinu frá eins og siðanefnd hafði jú gert við meirihluta þeirra fáu mála sem hún hafði fjallað um áður hófst ótrúleg atburðarás, eiginlega algert flopp frá upphafi.

Formaður siðanefndar HÍ, Þórður Harðarson, var staddur erlendis þegar kæra Vantrúar barst líklega þann 5. febrúar 2010 og það var ekki fyrr en 18. mars 2010 sem Þórður Harðarson hafði samband símleiðis við manninn sem hann hélt að væri forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ, Hjalta Hugason. Hjalti hafði svo samband við Pétur Pétursson forseta deildarinnar, sem þá fyrst frétti að Vantrú hefði kært stundakennarann fyrir siðanefnd HÍ.

Aðrir siðanefndarmenn áttu að kynna sér málin og skoða þessa kæru frá miðjum febrúar, raunar með aðstoð lögfræðings (Jónatans Þórmundssonar) sem er næsta óskiljanlegt því ekkert í kærunni bendir til að málsatvik varði við lög. E.t.v. er skýringin sú að siðanefnd hafi viljað taka af allan vafa um slíkt í upphafi því vörðuðu hin kærðu atriði við lög gat siðanefndin strax vísað málinu frá í samræmi við 4. gr. starfsreglna sinna. En það gerði hún ekki og einhverra hluta vegna héldu lögfræðingar HÍ áfram að starfa með siðanefndinni.

Það var svo ekki fyrr en í lok apríl sem siðanefndin ákvað að kynna stundarkennaranum sem kærður var að hann hefði verið kærður. Tókst ekki betur til en svo að bréfið var sett í rangt pósthólf og barst ekki. Þann 10. maí 2010 tókst siðanefnd HÍ loksins að kynna hinum kærða, Bjarna Randveri Sigurvinssyni, að hann hefði verið kærður og bjóða honum að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri innan viku – rúmum fjórum mánuðum eftir að kæra Vantrúar barst siðanefndinni!

Þótt siðanefndarmennirnir Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson hafi byrjað að skoða málið um miðjan febrúar þá kemur fram í fundargerð fyrsta fundar um málið, 25. mars 2010, að „nefndarmenn hafi farið yfir athugasemdir formanns Vantrúar með hliðsjón af glærunum og voru á einu máli að fjalla ætti um málið út frá faglegu sjónarmiði í guðfræði- og trúarbragðafræðideild, samhliða athugun siðanefndar á því hvort siðareglur háskólans hafi verið brotnar.“  (Skýrslu óh.n., s. 33.) Þrátt fyrir skýrar starfsreglur siðanefndar virtust nefndarmenn alls ekki kveikja á því að fyrsta skrefið er að athuga hvort siðareglur hafi verið brotnar, þ.e. hvort einhver grundvöllur sé fyrir að fjalla um þessa kæru eða hvort vísa eigi henni frá. Siðanefnd getur tæplega ákveðið að deild innan háskólans eigi að fjalla um erindi sem berst til siðanefndar, síst af öllu þegar hún hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort málið eigi yfirleitt erindi til siðanefndar. Maður hlýtur að spyrja sig hvort þessir þrír prófessorar í siðanefndinni hafi kannski aldrei kynnt sér starfsreglur nefndarinnar sem þeir sátu í?

Ég rek áframhaldið ekki í smáatriðum enda er gerð grein fyrir því í Skýrslu óh.n. en í stórum dráttum var það svona:

Eftir Þórður Harðarson formaður siðanefndar hafði klúðrað málum í ótrúlegum mæli, undir því yfirskini að hann væri að leita sátta milli málsaðila (án þess að tala við annan þeirra, þ.e. kennarann sem var klagað undan til siðanefndar en tala þess meir við fulltrúa klagenda og svo menn í guðfræði- og trúarbragðafræðideild sem kom málið mismikið við) sagði Þórður Harðarson af sér formennsku í siðanefnd HÍ í þessu máli í bréfi til rektors dags. 9. júní 2010. Þá hafði siðanefnd HÍ haldið fjóra fundi um málið. Þórður Harðarson sendi frá sér Greinargerð í siðanefndarmáli sem birtist í Morgunblaðinu 8. desember 2011 og er hér krækt í greinargerð hans á vef Vantrúar. Þar skín í gegn að hann hefur haft eitthvað takmarkaðar hugmyndir um hvernig nefndir starfa almennt með formlegum hætti, þ.e. að almennt fer nefndarstarf ekki fram í prívatsamtölum á heimili formanns.
 

Siðanefnd hin síðari

Þann 28. júní 2010 skipaði rektor Ingvar Sigurgeirsson ad hoc formann siðanefndar í máli nr. 1/2010. Í Skýrslu óh.n. kemur hvergi fram hvort Háskólaráð hafi veitt rektor þetta umboð og það sést heldur ekki í fundargerðum Háskólaráðs en skv. 2. grein starfsreglna Siðanefndar HÍ er það Háskólaráð sem skipar formann nefndarinnar samkvæmt tilnefningu rektors. Sömuleiðis voru einu lagaheimildirnar fyrir því að velja nýjan formann eða nefndarmann að þeir fyrri hefðu reynst vanhæfir. (Sjá s. 58 í Skýrslu óh.n..) Sú spurning vaknar því hvort skipun Ingvars Sigurgeirssonar sem ad hoc formanns Siðanefndar HÍ hafi verið ólögleg því Þórður Harðarson hafði ekki lýst yfir vanhæfi og Háskólaráð virðist ekki hafa veitt umboð sitt til skipunar hans.

Af því að siðanefnd hafði aldrei tekið afstöðu til þess hvort klögumál Vantrúar heyrðu undir siðanefnd, þ.e.a.s. snertu á einhvern hátt brot gegn siðareglum HÍ er áhugavert að sjá þess ljós merki að formennirnir í siðanefnd í máli nr. 1/2010 eru ekki einu sinni sammála um hvers eðlis klögbréfið var. Þórður Harðarson segir:

 Hinn 4. febrúar 2010 lagði félagsskapurinn Vantrú fram kæru til siðanefndar Háskóla Íslands, sem beindist að kennsluefni stundakennarans Bjarna Randvers Sigurvinssonar (BRS) í námskeiði um nýtrúarhreyfingar. [- – -] Í byrjun apríl þá Reynir Harðarson (RH) heimboð formanns. Hann tók ekki ólíklega í sættir […] Bæði PP og RH skildu, að einhvers konar tilslökun hlyti að koma til sögunnar hjá guðfræðideild eða BRS í skiptum fyrir, að Vantrú drægi kæruna til baka. Hinn 14. apríl var kæra Vantrúar til umræðu á deildarfundi guðfræðideildar.
 (Sjá Þórður Harðarson „Greinargerð í siðanefndarmáli“ í Morgunblaðinu 8. desember 2011, hér er krækt í greinina á vef Vantrúar. Feitletrun mín.)

Ingvar Sigurgeirsson segir hins vegar í yfirlýsingu sem hann sendi á póstlista kennara í HÍ en hér er krækt í hana á vef Vantrúar:

 Sá sem þetta ritar átti að stýra sérstakri siðanefnd til að fjalla um þetta erindi Vantrúar. Ég tók við málinu þegar Þórður Harðarson hvarf frá því í júlí á síðasta ári.

 Það segir sína sögu um þróun þessa máls að formaður Vantrúar varð hvumsa við þegar hann var boðaður á fund siðanefndar til að útskýra kæru félagsins. Samtökin hefðu aldrei kært neinn, heldur gert alvarlegar athugasemdir við kennslugögn á námskeiði þar sem m.a. var fjallað um félagið og einstaklinga innan þess. Vantrúarmenn töldu þau ummæli meiðandi.

 […]
 Fyrir hinni nýju nefnd vakti að kynna sér málið til hlítar, skoða kennsluefnið, afla nauðsynlegra gagna um námskeiðið og fara í saumana á athugasemdum Vantrúar, sem og að lesa ítarlega greinargerð Bjarna Randvers sem hann hafði lagt fram. (Feitletrun mín.)

Yfirlýsing Ingvars segir kannski þá sögu að hann hafi ekkert verið alltof klár á hvað hann átti að gera. Bréf Reynis Harðarsonar til siðanefndar (sem vitnað er í hér að framan) getur varla kallast annað en kæra. Hafi formaður Vantrúar síðan barasta orðið hvumsa á fundi með Ingvari og haldið því fram að Vantrú hafi aldrei kært neinn heldur einungis gert athugasemdir við kennslugögn á námskeiði vegna þess að Vantrúarmenn töldu ummæli um sig og félagið meiðandi þá bendir það til þess að Reynir Harðarson leggi annan skilning í hvað er að kæra einhvern heldur en þorri fólks. Svipaður virðist skilningur Ingvars því hann kallar kæru Vantrúar „erindi“. Seinni hlutinn í tilvitnuninni í Ingvar bendir til þess að honum hafi ekki frekar en Þórði verið ljóst að fyrsta skrefið í vinnu siðanefndar ætti að vera að taka afstöðu til þess hvort málið varðaði siðareglur HÍ áður en siðanefnd hæfi að rannsaka það. Enda kom í ljós í starfi nefndarinnar undir hans stjórn að siðanefndinni var ekki enn ljóst hvernig kæruefnið eins og Vantrú setti það fram tengdist siðareglum HÍ (sjá neðar í þessari færslu). Loks ruglast hann í ríminu því Þórður Harðarson „hvarf frá málinu” snemma í júní en ekki í júlí 2010 eins og Ingvar segir í þessu bréfi.

Þótt skipaður væri nýr formaður sérstaklega í kæru/klögumáli Vantrúar gegn Bjarna Randveri sátu upphaflegu siðanefndarfulltrúarnir áfram í henni, þau Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. Þar sem þau höfðu látið óátalið að Þórður Harðarson væri heima hjá sér að manga til við Reyni Harðarson og fulltrúa guðfræði- og trúarbragðadeildar um einhvers konar sættir, án þess að hafa fyrst tekið formlega afstöðu til þess hvort málið varðaði siðareglur HÍ,  fór lögmaður Bjarna Randvers fram á að þau vikju vegna vanhæfis. Svarbréf siðanefndar frá 11. mars 2011, þ.e. þeirra tveggja og nýja formannsins Ingvars, auk tveggja fulltrúa í viðbót sem rektor skipaði ad hoc inn í siðanefndina í ágúst 2010 að beiðni Ingvars (sjá Skýrslu óh.n, s. 58) er kostulegt en þar segir m.a.:

 „Rangt er að á framangreindu tímabili sáttaviðræðna [mars og apríl 2010] hafi afstaða siðanefndar til málsins mótast. Siðanefnd hafði ekki aflað gagna í málinu og því voru engar forsendur til að taka afstöðu til kæruefnisins af hálfu nefndarinnar. Liður í sáttatillögu þeirri sem lögð var fram var að kæran til siðanefndarinnar yrði dregin til baka og þótti af þeim sökum eðlilegt að beðið væri með efnislega meðferð málsins þar til niðurstaða sáttaviðræðna lægi fyrir. Í sáttatillögunni kemur ekki fram hvort Bjarni hafi brotið siðareglur háskólans, en það á samkvæmt starfsreglum nefndarinnar að koma fram í áliti hennar ef til þess kemur. Siðanefnd áréttar að hugsanlegar ályktanir félagsmanna Vantrúar um stöðu sáttatillögunnar eða afstöðu siðanefndar til hennar hafa enga þýðingu í málinu.

 Með vísan til framanritaðs er það álit siðanefndar að þau Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson hafi ekki tekið afstöðu til kæru Vantrúar áður en Bjarna gafst kostur á að skýra sína hlið málsins. Sáttatillagan fól að engu leyti í sér álit siðanefndar eða einstakra siðanefndarmanna í málinu. […] “(s. 49-50 í Skýrslu óh.n., feitletranir í tilvitnun eru mínar.)

Borgari � Calais eftir RodinÞau Sigríður og Þorsteinn höfðu sem sagt frá því um miðjan febrúar 2010 (þegar þau áttu að byrja að kynna sér málið) og fram yfir fyrstu viku júní, þegar Þórður Harðarson sagði af sér sem formaður, ekki myndað sér neina skoðun, ekki tekið afstöðu til kæruefnisins en samt algerlega skoðanalaus tekið þátt í eða samþykkt alls konar samningaumleitanir við Vantrú undir stjórn Þórðar. Og af hverju tóku þau ekki afstöðu strax og kæran barst eins og þeim bar að gera skv. starfsreglum siðanefndar?

Þann 1. sept. 2010 var þeim heldur ekki ljóst kæruefnið og voru jafnlangt frá því að taka afstöðu til þess og meir en hálfu ári fyrr. Þá kemst siðanefnd að þeirri niðurstöðu á sjötta fundi sínum um þetta mál að kæruliðir séu ekki nægilega afmarkaðir með vísun til greina siðareglnanna. Annar nýju fulltrúanna og lögfræðingur HÍ voru settir í að reyna að greina kæru Vantrúar, þ.e. lista upp kæruatriðin, gá hvaða greinar siðareglnanna ættu við efni hverrar glæru og hvort um brot væri að ræða í hverju tilviki. Þegar hér var komið sögu eru siðanefnd HÍ og lögfræðingur HÍ að reyna að laga illa orðaða kæru Vantrúar og endurvinna hana einhvern veginn til að sjá hvort yfirleitt sé um brot á siðareglum að ræða! Má líta svo á að siðanefndin sé þarna farin að vinna fyrir Vantrú?

Nýju fulltrúarnir í siðanefnd, Gerður G. Óskarsdóttir og Guðmundur Heiðar Frímannsson, hafa einkum starfað við að mennta grunnskólakennara eða sjá um kennsluréttindanám framhaldsskólakennara (sú fyrrnefnda í HÍ, sá síðarnefndi við HA). Sama gildir um Ingvar Sigurgeirsson, prófessor í Kennardeild Menntavísindasvið. Voru nýju fulltrúarnir sjálfsagt honum kunnug eftir margra ára veru í nokkurn veginn sama faginu og líklega óskaði hann sjálfur eftir að fá einmitt þetta fólk inn í nefndina. Það er því ótrúlegt að eftir að siðanefndin hafði fengið aðgang að kennsluáætlunum, prófum og öðrum gögnum af vefsvæði námskeiðsins, með leyfi stundakennarans kærða, Bjarna Randvers, datt þeim í hug að óska eftir prófúrlausnum nemenda í þessu námskeiði. Ingvar Sigurgeirsson sagði: „Meginrök fyrir þessari beiðni eru þau að svör nemenda við umræddri spurningu (og mat kennara á þeim) kunna að varpa ljósi á umfjöllun um það efni sem kært hefur verið (efnistök, áherslur, heimildir).“ (Tilv. í bréf Ingvars 26. nóvember 2010, s. 44 í Skýrslu óh.n.) Að sjálfsögðu var þessu erindi hafnað enda prófúrlausnir nemenda persónugreinanlegar. Og mér finnst mjög merkilegt, sem kennara, að fólk sem vinnur við að mennta kennara skuli láta sér detta í hug að meta kennsluhætti eftir prófúrlausnum nemenda! Auk þess sem það er augljóst að enginn nemandi kærði, almennt taka nemendur ekki próf með því hugarfari að svör þeirra verði brúkuð í allt öðrum tilgangi en mati á kunnáttu í faginu, prófið í námskeiðinu hafði ekki verið kært o.s.fr. Vinna siðanefndar, á þessu stigi, er farin að líkjast fálmi eftir hálmstráum frekar en formlegri vinnu formlegrar nefndar við æðstu menntastofnun þjóðarinnar.
 

Lokin á fimbulfambi siðanefndar

Þann 28. apríl 2011 hélt Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ fund með fulltrúa/fulltrúum Vantrúar og Ingvari Sigurgeirssyni formanni siðnefndar HÍ í þessu máli. Á þeim fundi féllst Vantrú á að draga kæru sína til baka. Kristín hefur sjálf ekki svarað erindi Vantrúar sem barst henni sem háskólarektor.

Um þessar málalyktir segir í Skýrslu óh.n.: „Að mati nefndarinnar hefur yfirstjórn Háskóla Íslands ekki svarað erindi Vantrúar formlega sem til hennar barst beint með bréfi félagsins, dags 4. febrúar 2010, en kom að ákvörðun Vantrúar að falla frá kærunni.“ (s. 66)
 

Meginniðurstaða Skýrslu óh.n. eftir að hafa farið yfir málið er:

 Nefndin telur það óviðunandi, fyrir Háskóla Íslands og málsaðila, að ekki hafi tekist að ljúka því efnislega. Siðanefndinni hafi borið að taka afstöðu til þess hvort fullnægjandi málsgrundvöllur væri til staðar, þ.e. hvort málið heyrði undir nefndina og ef svo bar undir, að leggja fullnægjandi grundvöll að málinu með sjálfstæðri rannsókn svo úrskurða mætti hvort siðareglur Háskóla Íslands hefðu verið brotnar. Þetta tókst ekki. (S. 9, nánast samhljóða klausu er að finna á s. 73. Feitletrun mín)
 

Niðurlag

Eins og ég hef rakið hér að ofan brást siðanefnd HÍ algerlega hlutverki sínu þegar félagið Vantrú kærði Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir brotabrot af kennsluefni í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem hann kenndi á haustönn 2009. Siðanefndin fór ekki eftir eigin starfsreglum sem var upphaf þeirrar þvælu sem þetta kærumál varð. Ég hef sleppt því að geta afskipta annarra af málinu en bendi enn og aftur á Skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. September 2011. Einnig vísa ég í „Yfirlýsingu vegna kæru á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni“ sem birtist í fjölmiðlum, hér er krækt í hana á visir.is. Þar kemur fram að fjöldi sérfræðinga hefur skoðað þessa kæru eða klögu eða erindi Vantrúar og sér ekki minnsta flöt á að hún hafi neitt með siðareglur Háskóla Íslands að gera. Þar kemur líka fram álit fjölda háskólakennara á störfum siðanefndar í þessu máli.

Frá upphafi virðist því liggja nokkuð ljóst fyrir að siðanefndin hefði átt að vísa málinu frá enda var kæra Vantrúar og tilvísanir í siðareglur afar ruglingsleg og vandséð hvernig hún tengdist siðareglum HÍ (eins og siðanefndinni varð raunar ljóst þegar hún loks kom sér að því að skoða hvort fullnægjandi málsgrundvöllur væri til staðar, tæpum sjö mánuðum og fimm fundum eftir að kæran barst henni).

Lok málsins eru lýsandi fyrir það allt: Þetta var EKKI-mál sem tókst að þvæla þar til EKKI fékkst niðurstaða. Meginábyrgðina ber siðanefndin, þ.e. formennirnir tveir, Þórður Harðarson og Ingvar Sigurgeirsson og aðalnefndarmeðlimirnir Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. Sá sem ákvað að enda málið með því að enda það ekki var Kristín Ingólfsdóttir rektor sem fékk Vantrú til að falla frá kærunni. Hún ákvað svo að hinn kærði, Bjarni Randver Sigurvinsson, skyldi bera sinn lögfræðikostnað sjálfur þótt ótæk vinnubrögð siðanefndar HÍ hafi neytt hann til að fá sér lögfræðing: „Varðandi lögfræðikostnað Bjarna segir Kristín að það gildi almennt um siðanefndir í íslensku réttarfari að lögfræðikostnaður sem stofnað er til vegna kæru til slíkra nefnda sé ekki greiddur af viðkomandi stofnun.“  („Vill að HÍ bæti mannorðstjón og kostnað“. mbl.is, 6. des. 2011. Feitletrun mín).

Hugsuðurinn eftir RodinOg verðlaunin fyrir frammistöðu siðanefndar? Jú, þann 1. júlí 2010 var skipuð ný siðanefnd HÍ sem á að starfa til 30. júní 2013. Í henni sátu fyrst:

Þórður Harðarson, prófessor emeritus í Læknadeild, formaður, tilnefndur af rektor;
Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ og kennari við sagnfræði og heimspekideild, tilnefnd af Félagi háskólakennara;
Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í Raunvísindadeild, tilnefndur af Félagi prófessora, nú orðinn prófessor emeritus í sömu deild.

Skv. síðu HÍ sem síðast var breytt þann 8. desember hefur Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun HÍ, tekið sæti Salvarar. (Sjá „Siðanefnd“ á vef Háskóla Íslands.)

Þannig að hinir vísu öldungar, Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson, halda áfram að höndla kærur til siðanefndar HÍ. Og Eyja Margrét? Er hún e.t.v. vinkona Vantrúar?
 

Myndirnar eru af styttum (heilum eða að hluta) eftir Rodin, talið að ofan: Hönd, Skuggarnir þrír, Borgari í Calais og Hugsuðurinn.
 

Næsta færsla fjallar um kveikju málsins, þ.e. félagið Vantrú og forsvarsmenn þess.