Fljótlega tók ellin að segja til sín og Egill var orðinn hálf sjónlaus og heyrði afar illa. Líkaminn var einnig farinn að gefa sig, fæturnir voru orðnir slappir, allar hreyfingar orðnar hægari og stirðari og einnig var hann farinn að titra örlítið, eins og gengur og gerist hjá gömlu fólki.
Nú, ekki er hægt að segja að fólk hafi hjálpað honum mikið, þvert á móti hæddust t.d. konurnar að honum. Sem dæmi má segja frá því þegar hann var að klöngrast eitthvað þarna úti og datt um spýtu sem lá í vegi fyrir honum. Nokkrar vinnukonur stóðu þar rétt hjá og hlógu og gerðu grín að honum. Egill orti þá vísu sem fjallaði m.a. um það að getnaðarlimur hans væri orðinn "ónýtur"!
Annað dæmi var það þegar hann sat við arineldinn og var að ylja sér. Matseljan skipaði honum þá að hunskast í sæti sitt í stað þess að sitja bara þarna og flækjast fyrir. Þetta var mjög niðurlægjandi fyrir aumingja Egils, þegar kvenfólk var farið að skipa honum fyrir!
En Egill var nú ekki alls kostar laus við grimmdina, þrátt fyrir þetta allt saman. Það var sumar nokkurt að hann vildi fá að koma með á þing. Þórdís, fósturdóttir hans, spurði hann þá hver ástæðan væri fyrir þessari beiðni hans og kom þá í ljós að hann langaði til að kasta öllu silfri sínu yfir mannfjöldann og hlusta svo á bardagann um auðinn. Til allrar hamingju fékk hann ekki leyfi til að fara.
Nokkru seinna fór Egill með tvo þræla með sér að kvöldi til og lét þá hjálpa sér að fela silfrið. Hann drap síðan þrælana svo þeir gæti ekki kjaftað frá. Líklegast hefur hann ekki viljað láta Þorstein son sinn erfa það, en eins og fyrr sagði kom þeim mjög illa saman. Enn í dag er silfrið ekki fundið.
Haustið eftir veiktist Egill og lést skömmu síðar. Hann var jarðaður í Tjaldanesi með vopnum sínum. Seinna var líkið svo flutt og grafið einhvers staðar rétt hjá Mosfelli.