Author Archives: Harpa

Glæsir

Undir miðnætti einhvern tímann í vikunni settist ég niður með Glæsi eftir Ármann Jakobsson og hugðist gluggað aðeins í hana undir svefninn. Raunin varð sú að ég gat ekki slitið mig frá bókinni og las hana í beit, hugfangin!

Eins og komið hefur fram í mörgum ritdómum byggir söguþráðurinn á Eyrbyggju og talsvert hefur verið hampað hinni merkilegu stöðu sögumanns, sem er ýmist naut, lifandi maður eða draugur. Nautið heitir Glæsir en maðurinn í lifanda lífi hét Þórólfur og hlaut viðurnefnið bægifótur (vanskapaður fótur) – raunar er Þórólfur haltur á fæti eftir hólmgöngu. Ég var dálítið hugsi yfir því hvort lesandi sem ekki hefur lesið Eyrbyggju myndi botna vel í þessari sögu en skv. ritdómi á Druslubækur og doðrantar er slíkt ekki nauðsynlegt.

Glæsir er enda margslungin saga og ætti hver að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og sinn skilning. Þeir sem hafa lesið einhverjar Íslendingasögur kannast væntanlega við fleira en Eyrbyggju í þessari bók, t.d. er ein glæsiklæðnaðarlýsingin á Arnkeli goða (óskilgetnum syni Þórólfs bægifótar) fengin að láni af Bolla Bollasyni í Laxdælu o.fl. tilvísanir má finna til þeirrar sögu. Fyrir þá trúhneigðu eru tilvísanir í ýmis trúarbrögð, kannski einkum vangaveltur um vald Hvítakrists og hinna gömlu guða, sem og vald örlaganornanna. En þótt Þórólfur margvitni í ýmislegt þess lags virðist hann innst inni algerlega trúlaus (á hvaðeina). Lýsingar á valdabrölti höfðingja við Breiðafjörð minna kannski svolítið á okkar gömlu bissnissmenn, pólitíkusa og útrásarvíkinga. Ekki hvað síst vekja lýsingar á íburði goðanna ungu slík hugrenningatengsl. Og í bakgrunninum er sífelld barátta um völd, eignir og mannaforráð, í samræmi við Eyrbyggju og í samræmi við nýliðna tíma útrásar. Þegar á söguna líður fá unnendur hryllingsbókmennta svo heilmikið fyrir sinn snúð.

Ég las þessa sögu fyrst og fremst sem sögu um illsku. Þótt Ármann gefi því undir fótinn að hrikalegt uppeldi eða fötlun Þórólfs síðar á lífsleiðinni kunni að hafa ýtt undir skapbresti hans upplifði ég Þórólf sem illskuna holdi klædda frá fyrstu stundu. (Menn eru endalaust ósammála um vægi uppeldis og erfða, „nurture versus nature“ og gefur sagan fylgismönnum hvors nægan efnivið til sinnar túlkunar, sem sýnir auðvitað hvað þetta er vel skrifuð saga.) Sögumaður segir sjálfur: „Líf mitt hefur verið einn langur sundurlyndisvetur …“ (s. 28) og má til sanns vegar færa; en sundurlyndinu hefur hann sjálfur valdið.

Frá upphafi er Þórólfur samviskulaust kvikindi, erkisiðblindingi. Hann gerist víkingur á unga aldri, vegur menn og pyntar, karla, konur og börn. En það snertir hann ekkert sérstaklega, hann tekur fram að þetta hafi einfaldlega tilheyrt starfinu og verið unnið eftir skýrri áætlun  Starf víkingsins átti vel við hann enda snérist það fyrst og fremst um að komast yfir fé og dýrgripi. Eiginlega minna lýsingar Þórólfs á víking dálítið á lýsingar nasista af skelfilegum ódæðum sínum; Þetta var nauðsynlegt og dráp og pyndingar tilheyrðu starfinu; þeir voru einungis að framfylgja skipunum (eins og  Þórólfur er einungis að framfylgja góðri starfsáætlun). Og Þórólfur er jafnlangt frá því að vera hetja með hugsjónir og t.d. Adolf Eichmann; Lesandinn kemst á svipaða skoðun og Hanna Arendt eftir að hún var viðstödd réttarhöldin yfir Eichmann til að reyna að skilja eðli illskunnar en uppgötvaði einungis lágkúru illskunnar („Banality of Evil“). Þetta eru smámenni, vesælir karlar með ómerkilegan þankagang en því miður öðluðust þeir vopnavald. Ég er raunar ósammála Arendt sem útilokaði félagsblindingja – sósíópata – í sinni bók en bókin kom úr 1963 og það er ekki fyrr en eftir 1990 sem almennilegur skriður kemst á umfjöllun og flokkun sækópata – siðblindingja.  Ég held að fyrst og fremst séu framantaldir siðblind kvikindi sem telja sér trú um að þeir hafi einhvern málstað en eru einungis að fá útrás fyrir illskuna sem í þeim býr. A.m.k. á það mæta vel við Þórólf bægifót.

Það er m.a. þetta sem veldur því hve erfitt er að lesa Glæsi. Sögumaðurinn er Þórólfur (í ýmsu líki) og sem sækópati er hann auðvitað hraðlyginn og reynir að snúa öllu sér í vil, réttlæta sig og réttlæta eigin ódæði, gera fórnarlömb að sökudólgi og sjálfan sig að fórnarlambi o.s.fr. Það er ekki oft sem maður les bækur þar sem þarf að passa sig á að taka öllum upplýsingum sögumanns með fyrirvara.
 

Kominn til Íslands, um tvítugt, skrúfar Þórólfur upp sjarmann dagstund á Þingvöllum sem dugir honum til að ná sér í konu. En hann reynist henni auðvitað illa eins og öðrum konum í lífi hans, þær eru ekki einu sinni nafngreindar nema dóttir hans Geirríður, fordæðan, sem mögulega líkist föður sínum eitthvað, t.d. í illgirni. Fyrir utan þennan látbragðsleik á Þingvöllum sýnir hann lítil svipbrigði, hann er maðurinn sem aldrei brosir, enda hefur hann fengið þá flugu í höfuðið að raunverulegir höfðingjar tái helst ekki tanna og allt sitt  líf er hann að reyna að herma eftir þessum gömlu höfðingjum (t.d. Þorsteini þorskabít og föður hans, Þórólfi Mostraskegg). Hann langar svo til að vera talinn til höfðingja eða mikilmenna. Aukalega má svo geta þess að eðlileg svipbrigði eru siðblindum erfið af því þeir búa yfir svo fátæklegum tilfinningum. Í ellinni skilur hann ekki nýju höfðingjana, sem brosa gleitt og vingast við mann og annan. Sjálfur vingast hann ekki við neinn en reynir að hanga utan í þeim sem hann telur valdamestan í það og það skiptið, einkum fyrrnefndan Þorstein.

Það sem hann skilur ekki (t.d. skáldskap eða vináttu eða tilfinningatengsl) gefur hann skít í. Það hve illa honum tekst að leika sig mannlegan sem verður til að menn líta hann hornauga skrifar hann á reikning fötlunar sinnar, hann telur sig smækkaðan í fatlaðan fótinn og gerir sér almennt ekki grein fyrir að aðrir forðast hann af því hve geðstirður og illgjarn hann er. Þó skynjar hann að einstaka maður sér í gegn um hann og forðast þá, fremstur þar í flokki er Snorri goði en síðar á ferli Þórólfs er það afgömul karlæg kerling sem veit upp á hár hvernig nautið Glæsir er innrætt, veit að það er í rauninni sækópatinn Þórólfur. Mætti kannski segja að barn (Snorri er tveggja ára þegar þeir hittast fyrst), fárveikt gamalmenni og lífreynd kona, Guðrún Ósvífursdóttir, sjái í gegnum gervi Þórólfs, annars vegar hið mennska gervi yfir illskuna og hins vegar nautshaminn sem hylur illskuna. Sjálfur skynjar Þórólfur líklega mann af sama tagi og hann er sjálfur, Víga-Styrr, sem hann hefur vit á að abbast ekki upp á því það stafaði af honum kulda.

Þórólfur gumar af því að fara betur með þræla sína en aðrir. Það er ekki af mannkærleika, það er vegna þess að þrælarnir eru eign og Þórólfi er, eins og öðrum siðblindingjum, annt um eigur sínar, vill eignast sem mest. Þegar hann telur sig verða að refsa þeim beitir hann útspekúleruðum pyndingum, í anda þess sem hann nam í víking: „Ef refsingin er nógu hrikaleg þarf ekki að  útdeila henni nema örsjaldan. Ég lærði af meisturum.“ (s. 103)

Fyrstu ár sín á Íslandi náði hann landareign með því að skora gamlingja á hólm, Úlfar kappa. Þórólfi var ekkert sérstaklega illa við Úlfar, gamlan kappa úr liði frænda Þórólfs, en: „Ég þurfti land.“ (s. 67) Hólmgangan er skrumskæld háðsútgáfa af hólmgöngu Egils Skallagrímssonar við Úlf inn óarga, meira að segja finnst sveitungum Þórólfs þetta athæfi hans svo ómerkilegt og ómaklegt að enginn mætir til að horfa á. Þórólfur finnur auðvitað skýringu sem honum hentar og er eins og snýtt úr siðblindufræðum: „Yfirleitt var fjölmenni mætt að fylgjast með hólmgöngum en þó að enginn styddi Úlfar hafði honum tekist að æsa fólk upp gegn mér þannig að allir bændur í héraðinu sniðgengu þetta eina einvígi.“ (s. 68.) Það er aldrei neitt Þórólfi sjálfum að kenna. En í þessum ójafna leik brennimerkti Úlfar gamli Þórólf fyrir lífstíð, hann náði að stinga hann í ökklann um leið og Þórólfur hjó hann banahögg. Þórólfur átti nú „eigið land,  fallegan stað. … En í hvert sinn sem ég gekk af stað og þurfti að draga á eftir mér fótinn, fylltist ég vonsku sem dreifðist ört um allan líkamann. Það var sú illska sem að lokum heltók mig. … Síðan var ég Bægifótur. … Um mig var ekkert sagt nema þetta. Ég var fótur minn.“ (s. 69-70). Þótt þessi klausa gefi möguleika á skýringunni að fötlun Þórólfs hafi valdið illskunni er jafnframt gott að hafa í huga að Þórólfur er sjálfur sögumaður eigin sögu og valt að treysta honum um of, hann snýr flestu sér í hag. T.a.m. hafði Þórólfur sjálfur gefið leysingja nokkrum, Úlfari, jörðina Úlfarsfell, en fylltist svo öfund í garð þrælsins því honum búnaðist betur en Þórólfi sjálfum. Þórólfur ákvað að hirða hey Úlfars og magnast af þessu illdeilur. Sjálfur sér Þórólfur ekkert athugavert við að taka nánast gjöfina til baka, fóðrar það fyrir sjálfum sér með að Úlfar sýni sér ekki næga virðingu. Samt hefur hann frásögnina af þessum erjum á: „Ég man ekki lengur hvað mér gekk til. Gekk mér eitthvað til? Er ekki fásinna að halda að allir hafi ævinlega tilgang með gjörðum sínum? Ég var gamall maður. Mér gekk ekkert til. Hins vegar man ég hvernig mér leið.“ (s. 106) Og þrátt yfir miklar yfirlýsingar um hversu góður bóndi hann hafi verið kemur á daginn að Þórólfur hafði aldrei í fjós stigið fyrr en hann lenti sjálfur bundinn á bás, sem naut.
 

Þegar deilurnar við Úlfar á Úlfarsfelli hefjast er Þórólfur orðinn gamall maður og „lifði lífinu aleinn og jafnvel mínir nánustu fyrirlitu mig og smáðu. Oft lá ég andvaka um nætur og hugleiddi einsemd mína. … Hvorug þessara kvenna sem ég gekk að eiga í fljótræði sýnd mér neina rækt í hjónabandinu eftir fyrsta veturinn. Ekki varð ég var við virðingu barna minna“ (s. 102). Hann veltir þessu fyrir sér um nætur og dettur helst í hug að þetta stafi af óvild eða bölvun guðanna (sem hann þó trúir ekki á). „Þannig var ég sanngjarn og mildur húsbóndi. Sannarlega verðskuldaði ég ekki fyrirlitningu minna nánustu“ er niðurstaða hans á næstu síðu (s. 104). Skrifuð hefur verið fræg grein um einsemd sækópata á efri árum og satt best að segja smellpassar Þórólfur í þá lýsingu, sem og greiningarlykla og greinar um sækópata. Hann er illskan holdi klædd, reynir að leika mennskan mann en tekst illa upp, grípur þá til þess ráðs að kenna öllum öðrum um óhamingju sína og gera sjálfan sig að óverðskulduðu fórnarlambi. Eins og ég hef áður nefnt þá þarf lesandinn að vera á sífelldu varðbergi og fylgjast með hártogunum Þórólfs á sannleikanum og hvernig hann snýr honum og skrumskælir sér í hag því hann er sjálfur sögumaður. Og af því bókin er svo vel skrifuð liggur þetta ekki í augum uppi.
 

Eftir dauðann hverfur hið mennska yfirbragð Þórólfs og innrætið, illskan ein, blasir við. Meira að segja Þórólfi sjálfum bregður í brún er hann lítur sjálfan sig í spegli örlítils polls: „… upp úr pollinum reis kolblár vígamaður, heldur ósællegur, andlitið afmyndað af heift, öll mennska úr því horfin. Holdið rotnandi jafnt á höndum sem hálsi. … Nú hrökk ég ekki til baka heldur horfðist í augu við sjálfan mig.“ (s. 147).  Þessi lýsing er Narcissus-sagan með öfugum formerkjum!

Illskan tekur nú öll völd og  Þórólfur þarf ekki lengur að þykjast neitt, hrekur fólk úr dalnum sínum og drepur og safnar í sitt lið hópi afturgenginna fórnarlamba sinna. Eftir dauðann kennir hann samt áfram  öðrum um, í þetta sinn um afturgöngu sína, og finnst heimilisfólkið eiga draugaganginn ógurlega skilinn: „Sjálf voru þau óþokkar. Hvers vegna gátu þau ekki syrgt? Þá hefði ég kannski ekki gengið aftur.“ (s. 151)  Draugagangurinn er einkar magnaður og ætti að falla aðdáendum sígildra hryllingssagna (t.d. aðdáendum Stephens King) mætavel í geð. Þótt lýsingarnar séu  auðvitað að mestu fengnar úr Eyrbyggju.
 

Nú vil ég ekki spilla meiru fyrir lesendum með frekari endursögn. Þó langar mig að benda á hversu hlálegt það er að Þórólfur, sem þráði viðurkenningu og völd (eins og allir sækópatar) en var lengstum aldrei annað en lágvaxinn geðstirður Bægifótur í hugum manna meðan hann var lífs, illmenni og óþokki sem hans nánustu forðuðust, öðlast loks þá tilveru að vera glæsilegur, svo glæsilegur að hann fær heitið Glæsir! En það er ekki fyrr en hið illa innræti (mér er til efs að kalla megi þetta sál, í tilviki Þórólfs) hefur tekið sér bólfestu í nautkálfi og hann dvelur daga langa innan um fretandi kýr! Enn írónískara er þegar rennur upp fyrir Þórólfi /Glæsi, bundnum á sinn bás og ófærum um að tjá sig, að eftirmálinn af þeim verkum sem hann taldi sér trú um að snertu sæmd sína, þegar hann reyndi að ná sér niðri á leysingjanum Úlfari, var í rauninni saminn af öðrum: Þórólfur gamli var flón eða verkfæri í flókinni ráðagerð valdamanns sem var fyrir löngu búinn að reikna Þórólf út, löngu búinn að sjá að karlinn var ekkert nema illskan og illmenni eru oft hvorki skynug né merkileg heldur fyrst og fremst lágkúruleg.

Ég mæli eindregið með bókinni Glæsir enda finnst mér þetta afskaplega glæsilega skrifuð bók. Eins og ég hef rakið geta menn lesið söguna frá mismunandi sjónarhorni og valið sér túlkanir og vísanir. Það er aðall góðra bóka að vera margbrotnar og höfða til mismunandi lesendahópa. Sjálfri fannst mér þetta óhugnalega góð lýsing á holdi klæddri illsku, á sækópata, og það óhugnalegasta er að hún er skrifuð frá sjónarhóli hans. Allir atburðir og persónur eru því séð siðblindum augum. Ég giska á að það hafi tekið mjög á höfundinn að setja sig í þessar stellingar, að þurfa að stíga inn í illskuna sjálfa til að geta sagt söguna á sannfærandi máta. En það hefur honum tekist mætavel.
 
 

P.s. Í lokin bendi ég á útdrátt úr Eyrbyggju sem ég gerði fyrir meir en áratug handa nemendum mínum ef einhver lesandi sem ekki hefur lesið Eyrbyggju skyldi vilja hafa söguþráð og ættrakningar til hliðsjónar í lestri Glæsis. En auðvitað kemur þessi einfaldi útdráttur engan veginn í stað Eyrbyggju sjálfrar sem ég hvet lesendur Glæsis eindregið til að lesa!
 
 
 
 
 
 
 

Forseti bæjarstjórnar hrekur tvo farsæla kennara úr starfi

Hér er því lýst hvernig Sveinn Kristinsson forseti bæjarstjórnar Akraness hefur með framkomu sinni við tvo kennara, sprottinni af illskiljanlegum toga, komið því til leiðar að þessir tveir kennarar, Bjarni Þór Bjarnason og Hrönn Heiðbjört Eggertsdóttir, hafa sagt upp störfum eftir samtals 67 ára farsælan kennsluferil. Myndin sem fylgir færslunni heitir „Mynd tekin úr eftirlitsmyndavél Stjórnsýsluhúss Akraness“, er teiknuð af Bjarna Þór og birt með hans leyfi. Sé smellt á litlu myndina birtist stærri útgáfa.

 
Í upphafi skyldi endirinn skoða og svo verður gert hér

Bæjarstjórnarfundur á AkranesiÁ bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn sprakk blaðran: Þögnin um mál annars grunnskólans í bænum var rofin! Krækt er í fundargerð en hljóðupptaka af fundinum mistókst á óskiljanlegan hátt.1 Því verð ég að treysta á það sem ég man af þeim umræðum sem ég hlustaði á í beinni útsendingu af bæjarstjórafundinum og símtöl við bæjarfulltrúa sem sögðu mér hvað þeir hefðu sagt.

Svo sem sést í ritaðri fundargerð rýfur Gunnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna, þögnina þegar fundargerð bæjarráðs er lögð fram, og vekur máls á lið 6.8. 1107106 – Brekkubæjarskóli – aðkoma að skólastjórn og starfsmannamálum. Ég veit ekki hvað hann sagði en líklega hefur það verið eitthvað í þá veru að bréf sem stílað er á bæjarstjórn, með ósk um að bréfið verði lesið á bæjarstjórnarfundi, eigi ekki að afgreiða einfaldlega með því að leggja það fram í bæjarráði og síðan ekki söguna meir. Síðan lét hann bóka bréfið frá kennurunum tveimur og einnig sín eigin orð.
Bréfið hljóðar svo og bókun Gunnars Sigurðssonar kemur í kjölfarið:

 Akranesi 3. nóvember 2011.
‘Til bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar.
Við undirrituð fengum bréf með svokölluðum svörum við bréfi okkar frá því í sumar sem varðaði aðkomu Sveins Kristinssonar og bæjarstjórnar að skólastjórn Brekkubæjarskóla. Bréf bæjarstjórnar var snautlegt og fullt af endurtekningum og útúrsnúningum og ætlum við ekki að elta ólar við það meira, sáum að bæjarfulltrúar hafa ekki lagt á sig að kynna sér erindi okkar!!!! Við viljum hinsvegar leiðrétta þann ótrúlega misskilning að sátt hafi orðið við okkur undirrituð, Bjarna Þór og Hrönn. Sátt varð hins vegar á milli Arnbjargar Stefánsdóttur skólastjóra og Sigríðar Skúladóttur í apríl s.l. Sú sátt eða það mál, hefur ekkert með okkur að gera, alls ekkert! Við vorum kölluð til viðtals þann 3. júní, sem reyndust vera yfirheyrslur og ákærur en ekki viðtal! Ákærur m.a. eftir meintum klögum utan úr bæ, sem allir vita sem þekkja undirritaðan Bjarna Þór, að eru ekki sannar! Reynt var að ýja að því að veikindadagar undirritaðrar Hrannar væru ansi margir, sem á sér heldur enga stoð. (meðfylgjandi skjal frá bæjarskrifstofunn i um veikindi Hrannar s.l. 10 ár.) Svo það sem bítur höfuðið af skömminni, að reynt var að ýta við okkur að fara að hætta! OKKUR FINNST VIÐ SMÁNUÐ! Við höfum sagt upp stöðum okkar frá áramótum, viljum ekki vinna undir stjórn fólks sem við treystum ekki lengur! Um leið gengur út úr skólanum 67 ára reynsla, farsæl að því við best vitum.
Bjarni Þór Bjarnason, Hrönn Heiðbjört Eggertsdóttir.’

 Gunnar Sigurðsson óskaði eftir að eftirfarandi verði bókað:
Bókun á fundi Bæjarstjórnar Akraness 22.nóvember 2011
‘Ég undirritaður bæjarfulltrúi lýsi furðu minni á afgreiðslu bæjarráðs Akraness þann 10. nóvember 2011 á bréfi þeirra Hrannar Eggertsdóttur og Bjarna Þórs Bjarnasonar, dagsettu 3. nóvember 2011. Bréfið er stílað á Bæjarstjórn Akraness en einungis lagt fram í bæjarráði án afgreiðslu. Eðlileg málsmeðferð er að vísa bréfum til bæjarstjórnar, til bæjarstjórnar.
Bréf þetta olli undirrituðum miklum vonbrigðum. Á lokuðum fundi bæjarstjórnar þann 29. ágúst 2011 var farið yfir málefni skólans og kynnt greinargerð forseta bæjarstjórnar. Niðurstaða þessa lokaða fundar var að fela starfsmannastjóra Akraneskaupstaðar að fylgja málinu eftir í samræmi við umræður á fundinum. Ég leit þannig á að starfsmannastjórinn ætti að aðstoða skólastjórnendur Brekkubæjarskóla við að vinna bug á þeim starfsmannavandamálum sem þar voru uppi. Undirritaðu hefur ekkert heyrt meira um þetta mál fyrr en hann las bréf Bjarna Þórs og Hrannar. Það er ömurlegt að lesa að þessum kennurum finnst sem þau hafi verið hrakin úr starfi eftir að hafa kennt í samtals 67 ár við skólann.
Þar sem skyldleikar eru með mér og Hrönn Eggertsdóttur læt ég ógert að ræða hennar mál en sem bæjarfulltrúi á Akranesi skammast ég mín fyrir, ef satt er, að Bjarna Þór Bjarnasyni, sem er fyrrverandi Bæjarlistamaður Akraness, finnist sem hann hafi verið hrakinn úr starfi. Það eru ekki margir sem hafa gert jafn mikið fyrir samfélagið hér á Akranesi eins og hann.
Ég vil líka vekja athygli á því að á sama fundi bæjarráðs var tekið fyrir samkomulag um greiðslu bóta til fyrrverandi starfsmanns Brekkubæjarskóla vegna ráðningarmála. Þetta samkomulag er til staðfestingar á þessum bæjarstjórnarfundi.
Ég óska eftir því að starfsmannastjóri Akraness gefi Bæjarstjórn Akraness skriflega skýrslu um aðkomu sína að máli Bjarna Þórs og Hrannar.
Þá vil ég einnig að það komi fram hér að því miður held ég að starfsmannavandamálum í Brekkubæjarskóla sé ekki lokið.
Akranesi 22.nóvember 2011

Gunnar Sigurðsson
bæjarfulltrúi.’2

Næstur tók til máls bæjarfulltrúi framsóknarmanna, Guðmundur Páll Jónsson, sem jafnframt er formaður bæjarráðs. Í símtali í gærmorgun (25. nóv. 2011) sagðist hann hafa:
– Talað um stjórnsýslulega meðferð bæjarráðs á erindinu og með hvaða hætti bréfið barst til bæjarstjórnar; að ekki séu til nein fordæmi með svona bréf og rætt síðan um hvort sér hafi orðið á sem formanni bæjarráðs í meðferð þessa máls;
– Talað almennt um starfsmannamál og með hvaða hætti bréfið og mál Bjarna Þórs og Hrannar bar að og nefnt þar að ákveðnar reglur gildi í stjórnsýslunni um hvernig á að fara með slík mál;
Að nauðsynlegt sé að stjórnsýslan vinni slík mál á formlegan hátt; Að bæjarfulltrúar komi ekki inn í slík mál;
– Harmað málalok í bréfinu og vísað þar til persónulegra tilfinninga sinna í garð Bjarna Þórs og Hrannar.3

Eftir bókun Gunnars hlustaði ég á Árna Múla Jónasson bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, í beinni útsendingu af þessum bæjarstjórnarfundi (á FM 95,0). Hann sagði að hann hefði lýst sig vanhæfan í starfsmannamálum Brekkurbæjarskóla vegna þess að kona sín gegndi þar stjórnunarstöðu og sjálfur væri hann góður kunningi eða vinur skólastjórans og gæti því ekki tjáð sig um mál Bjarna og Hrannar. Aftur á móti væri því til að svara með hitt málið í bókun Gunnars, samkomulag um greiðslu bóta til fyrrverandi starfsmanns Brekkubæjarskóla vegna ráðningarmála4 „að öllum gæti orðið á mistök“ [hann á þar væntanlega við skólastjóra Brekkubæjarskóla] og að það tæki því ekki að láta reyna á málið fyrir dómstólum, maður viti aldrei hvernig það færi, „við gætum jafnvel tapað málinu“.5

Sveinn Kristinsson samfylkingarmaður og forseti bæjarstjórnar talaði á eftir Árna Múla. Hann lýsti óánægju sinni með bókun Gunnars og fann henni það helst til foráttu að í sömu bókun væri blandað saman tveimur óskyldum málum, þ.e. bótum til fyrrum kennara [vegna brots skólastjóra Brekkubæjarskóla á kennaranum en Akraneskaupstaður ber ábyrgðina því grunnskólar heyra undir sveitarfélög] og kvörtunum tveggja kennara um hans eigin málsmeðferð. Gunnar Sigurðsson áréttaði það sem hann segir í bókuninni, ég man ekki hverju Sveinn svaraði og loks tók Ingibjörg Valdimarsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður fjölskylduráðs6 til máls og lýsti þeirri skoðun sinni að svona bréf ætti ekki að fjalla um á bæjarstjórnarfundum.7

En hvernig stendur á því að Sveini Kristinssyni forseta bæjarstjórnar hélst uppi, með fulltingi bæjarstjórnar og bæjarráðs, að kalla þessa tvo myndlistarkennara úr Brekkubæjarskóla á sinn fund í júníbyrjun, ásaka annan um að tala illa um skólann útí bæ (rökstutt með nafnlausum heimildamönnum sem hefðu hringt í sig og látið vita af þessu athæfi Bjarna, ekki fylgdi sögu hvar, hvenær eða nákvæmlega hvernig illmælgin hefði verið) og hinn kennarann um að taka út veikindadaga þegar hún var veik, veikindadaga sem hún átti fullan rétt á skv. kjarasamningum? (Sjá „Erindi frá Hrönn Eggertsdóttur og Bjarna Þór Bjarnasyni“ í Skessuhorni 13. júlí 2011.) Þetta er sambærilegt við að forseti borgarstjórnar Reykjavíkur tæki t.d. tvo handavinnukennara í Austurbæjarskóla á teppið næsta sumar og húðskammaði þá fyrir að tala illa um skólann (skv. Gróu á Leiti) og að hafa fengið flensu á skólatíma! Þætti Reykvíkingum það fullkomlega eðlilegt? Þætti svonalagað yfirleitt nokkurs staðar við hæfi?

Gaf einhver Sveini Kristinssyni veiðileyfi á þessa kennara, sem hafa staðið sig vel í starfi og eru almennt vinsælt og vellátið fólk?
 
 

Til að útskýra þetta þarf að rekja forsögu:

Á haustmisseri fyrir ári síðan kom mál til kasta framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu, Helgu Gunnarsdóttur (sem vill svo skemmtilega til að er einmitt frænka Sveins Kristinssonar, án þess að mér detti eitt augnablik í hug að það skipti máli – þetta er einungis til að skemmta ættfróðleiksfúsum lesendum). Það mál byrjaði með bréfi tveggja kennara við Brekkubæjarskóla, sem óskuðu nafnleyndar og hefur aldrei verið upplýst hverjir eru, þar sem þeir báru þær sakir á þriðja kennarann við sama skóla að leggja skólastjórann sinn í einelti. Vegna trúnaðar get ég ekki endursagt þetta mál. Helga leitaði til síns yfirmanns, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar og þau fóru að vasast í þessu máli en laust fyrir jólin 2010 höfðu þau Helga og Árni Múli Jónasson klúðrað málinu svo kirfilega að ekki var um annað að ræða en taka það af þeim. Árni Múli lýsti sig vanhæfan í málinu (sem hann var væntanlega frá upphafi þótt það hafi ekki runnið upp fyrir honum fyrr en seint og um síðir) og svo virtist sem Helga yrði það sjálfkrafa vegna undirmannahæfis. Málið var aldrei rætt í fjölskylduráði sem skv. erindisbréfi á m.a. að gegna því hlutverki sem skólanefndir gegna í öðrum bæjarfélögum.

Merkilegt nokk var þetta klögumál tveggja kennara, sem óskuðu nafnleyndar og töldu sig hafa orðið vitni að einhverju sem sem þeir töldu einelti, talið heyra undir staðgengil bæjarstjóra, sem á þeim tíma var Sveinn Kristinsson. Heimildir eru fyrir því að hann sé kominn með þetta mál í sínar hendur í febrúar 2011. Þessa er hins vegar að engu getið í fundargerðum, hvorki bæjarráðs né bæjarstjórnar nema á óskiljanlegan hátt, þ.e. í fundargerð bæjarstjórnar frá 26. jan. 2011: „Starfsskyldur forseta bæjarstjórnar – trúnaðarmál“.8
 
 

Um annað sem gerðist þar enginn veit …

Ég spurði Guðmund Pál Jónsson bæjarfulltrúa og formann bæjarráðs um umboð Sveins Kristinssonar í þessu máli, þ.e. hver hefði falið honum að ganga í málið, að frumkvæði hvers og hversu viðtækt þetta umboð til að leysa tiltekið afmarkað mál í Brekkubæjarskóla hefði verið. Svör Guðmundar Páls voru þessi:
 „Frá aðilum berst stjórnsýslulegt erindi til stjórnsýslunnar. Bæjarstjórn fól Sveini það stjórnsýslulega erindi sem þá lá fyrir.“ Ég bað hann að útskýra fyrir mér hvað væri „stjórnsýslulegt erindi“ og Guðmundur Páll sagði: „Erindi sem hafa efnistök og berast stjórnsýslunni eru stjórnsýsluerindi.“9 Guðmundur Páll sagði síðan að stjórnsýsluerindi hefði borist en vissi ekki frá hverjum. Ég spurði hvort erindið hefði kannski verið nafnlaust. Nei, sagði hann, „það var undirritað af ákveðnum aðila“. Ég spurði hvaða aðili hefði undirritað stjórnsýsluerindið.  „Ég veit það ekki“ var svar Guðmundar Páls. En Guðmundur Páll bætti svo við: „Ég hef ekki ástæðu til að ætla að Sveinn hafi farið út fyrir sitt umboð þegar hann talaði við Bjarna og Hrönn.“ Þegar ég spurði hvort Sveinn gæti ekki mögulega talist vanhæfur þegar honum var falið málið í janúar 2011, í ljósi þess að hann starfaði í hlutastarfi sem kennari við Brekkubæjarskóla á haustmisseri 2010, taldi Guðmundur Páll svo ekki vera.

Eftir að Sveinn Kristinsson fékk þetta umboð frá bæjarstjórn, sem ekki mátti bóka opinberlega, að beiðni einhvers sem heimildamaður minn, Guðmundur Páll Jónsson bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs, veit ekki hver var (en samþykkti þó beiðnina og væntanlega aðrir bæjarstjórnarfulltrúar einnig) gerðist það m.a. að málið fékk bæði titil og númer og heitir eftir það, í fundargerðum bæjarins: „1010199 – Starfsmannamál Brekkubæjarskóla“. Það ber örsjaldan á góma í fundargerðum bæjarráðs og bæjarstjórnar en fjölskylduráð er algerlega stikk-frí í þessu máli.

Og þótt ráðinn væri starfsmanna- og gæðastjóri Akraneskaupstaðar í febrúar 2011 var „1010199 – Starfsmannamál Brekkubæjarskóla“ áfram á könnu Sveins Kristinssonar, forseta bæjarstjórnar. Eins og margir bæjarbúar vita og kemur fram í bréfi þeirra Hrannar og Bjarna hér að ofan náðist full sátt milli málsaðila snemma í apríl 2011, þ.e. hins meinta eineltisgeranda og hins meinta eineltisþolanda. Samt sem áður hélt Sveinn Kristinsson áfram að vinna í „1010199 – Starfsmannamálum Brekkubæjarskóla“ en þar sem ekki er hægt að fá upplýsingar um hve víðtækt umboð hann fékk til að garfa í starfsmannamálum þess skóla né heldur hver óskaði eftir því að hann gerði það er í raun ekkert hægt að vita nema að bæjarstjórn fól honum að gera eitthvað stjórnsýslulegt og hefur væntanlega greitt honum fyrir áframhaldandi vinnu í þessu máli (þótt það væri leyst).
 

Þá tók hann hin óþekku angaskinn …

Þann 3. júní lét Sveinn til skarar skríða og boðaði þau Hrönn Eggertsdóttur og Bjarna Þór Bjarnason myndlistarkennara við Brekkubæjarskóla á sinn fund. Raunar lét hann Magnús Vagn Benediktsson, aðstoðarskólastjóra í Brekkubæjarskóla, sem ber þó ekki þann titil heldur er titlaður „deildarstjóri – staðgengill skólastjóra“, sjá um sjálfa boðunina. Magnús sagðist ekki vita fundarefnið og það hvarflaði hvorki að Hrönn né Bjarna Þór að erindi forseta bæjarstjórnar við þau væri neitt tengt Brekkubæjarskóla enda hafa þau ekkert komið nálægt því máli sem vitað var að Sveinn hafði verið að garfa í. Hins vegar hafa þau bæði tekið virkan þátt í listalífi bæjarins og verið ósérhlífin í að leggja sitt af mörkum í alls konar uppákomum sem Akraneskaupstaður hefur staðið fyrir. Þau bjuggust jafnvel við að erindi Sveins væri einhver örlítill þakkarvottur fyrir sjálfboðaliðastarf. En það var nú aldeilis ekki! Um framkomu Sveins Kristinssonar við þessa tvo kennara má lesa í grein sem þau sendu mörgum aðilum og birtist auk þess í Skessuhorni, eins og ég hef áður getið. Hér fyrr í færslunni hef ég minnst á hvað þeim var gefið að sök, þ.e. að Bjarni hefði heyrst baktala Brekkubæjarskóla úti í bæ og að Hrönn hefði orðið veik á skólatíma. Í lok greinarinnar í Skessuhorni beina þau nokkrum spurningum til bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar:

 Hvaða hlutverk hefur Sveinn og hver fékk hann til að ræða við okkur?  Á fundinum sýndi Sveinn ógnandi yfirgang og dónaskap,  m.a. með margítrekuðum spurningum um sama efni, var einhver ástæða fyrir því?
Er búið að ráða Svein Kristinsson sem sérstakan tyftunarmeistara  Brekkubæjarskóla?
Við viljum fá að vita hvort bæjarstjórn Akraness telur að vinnubrögð eins og að ofan er lýst séu eðlileg?
Við könnumst ekki við þær ásakanir sem á okkur eru bornar, þær eru dylgjur einar.

Bæjaryfirvöld svöruðu engu og heldur ekki ítrekun með ósk um svar fyrr en á fundi bæjarráðs 15. september 2011 þar sem er bókað:

 8. 1107106 – Brekkubæjarskóli – aðkoma að skólastjórn og starfsmannamálum
Bréf Hrannar Eggertsdóttur og Bjarna Þórs Bjarnasonar, dags. í júní 2011 varðandi aðkomu forseta bæjarstjórnar Akraness að skólastjórn á Akranesi og ítrekunarbréf þeirra dags. 7.9.2011
Að gefnu tilefni skal tekið fram, varðandi starfsmannamál Brekkubæjarskóla – trúnaðarmál -merkt 1010199, um aðkomu Sveins Kristinssonar, forseta bæjarstjórnar, að málinu er lokið með sátt. Aðkoma hans að málinu var skv. samþykkt bæjarstjórnar Akraness frá 25. janúar 2011, 14. tl. merkt trúnaðarmál, en um málið var fjallað á lokuðum fundi að lokinni boðaðri dagskrá fundarins. Bæjarstjóri hafði lýst sig vanhæfan vegna persónulegra tengsla við aðila máls og einnig var framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu lýstur vanhæfur í málinu sem undirmaður bæjarstjóra.
Varðandi erindi það sem hér er til umræðu samþykkir bæjarráð að fela bæjarstjóra að gera tillögu að að [svo] svari og leggja fyrir bæjarráð.

Þetta er ákaflega undarleg bókun því í henni er þess getið að bæjarstjóri hafi lýst sig vanhæfan en samt samþykkir bæjarráð að fela bæjarstjóra að gera tillögu að að svari og leggja fyrir bæjarráð.“[!] Í sömu bókun kemur og fram að Helga Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu, hafi verið lýst vanhæf sem undirmaður bæjarstjóra. Bæjarráð virðist svo hafa áttað sig á hversu mikil fíflskaparbókun þetta er og reynir að bæta úr skák með því að fela Ingu Ósk Jónsdóttur, starfsmanna- og gæðastjóra Akraneskaupstaðar, að semja svör við spurningum Hrannar og Bjarna en yfirsést að starfsmanna- og gæðastjóri heyrir beint undir bæjarstjóra alveg eins og framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu og ætti því nákvæmlega sama undirmannavanhæfi að gilda um hana. Á fundi bæjarráðs 29. september sl. var síðan bókað:

  3.  1107106 – Brekkubæjarskóli – aðkoma að skólastjórn og starfsmannamálum
 Bréf starfsmanna- og gæðastjóra dags. 26.9.2011 með tillögum að svörum við fyrirspurn Hrannar Eggertsdóttur og Bjarna Þórs Bjarnasonar.
 Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að fyrirliggjandi tillaga með óorðnum breytingum að svari verði samþykkt sem svör bæjarstjórnar við framkomnum fyrirspurnum.

Þann 11. október samþykkti bæjarstjórn þessar tillögur að svörum nema Gunnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem sat hjá í atkvæðagreiðlunni. Um þetta svarbréf bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar segja þau Hrönn og Bjarni Þór í bréfi sínu til bæjarstjórnar sem lesa má í upphafi þessarar færslu og var til umræðu á nýliðnum bæjarstjórnarfundi: „Bréf bæjarstjórnar var snautlegt og fullt af endurtekningum og útúrsnúningum …“ Ég hef sjálf lesið þetta svarbréf bæjarstjórnar, samið af Ingu Ósk starfsmanna-og gæðastjóra kaupstaðarins, og tek undir lýsingu þeirra Hrannar og Bjarna Þórs á því.

Eftir þessa árás Sveins Kristinssonar forseta bæjarstjórnar á þau Hrönn Eggertsdóttur og Bjarna Þór Bjarnason og eftir að hafa margreynt að þýfga bæjarstjórn Akraness um svör, t.d. við því hvers vegna í ósköpunum þau urðu fyrir þessu og eftir að hafa á endanum uppskorið illa stílað, klisjukennt bréf „fullt af endurtekningum og útúrsnúningum“ en enga afsökunarbeiðni – fengu þau Hrönn og Bjarni Þór nóg og sögðu upp störfum. Árangurinn af umboðinu sem bæjastjórn veitti Sveini Kristinssyni til að leysa starfsmannamál í Brekkubæjarskóla (raunar allt annað mál, með allt öðrum persónum og löngu leyst þegar hann hellti sér yfir þessa aðila sem komu hinu málinu ekki nokkurn skapaðan hlut við) er sem sagt sá að Brekkubæjarskóli hefur nú misst tvo kennara sem þekktir eru af farsælu og góðu starfi.
 

Leysti Sveinn eitthvert mál?

Hvernig var svo lausn Sveins á málinu sem honum var falið að leysa og leystist í apríl (þótt hann hefði haft afskipti af því)? Jú, hann skilaði „Stuttri greinargerð vegna starfsmannamála í Brekkubæjarskóla“ á lokuðum bæjarstjórnarfundi þann 29. ágúst 2011, það plagg hefur verið sent málsaðilum og á fundi bæjarráðs 15. september 2011 segir að „starfsmannamál Brekkubæjarskóla – trúnaðarmál -merkt 1010199“ sé lokið með sátt, raunar í sömu efnigrein og bæjarráð er að væflast með hver skuli svara Hrönn og Bjarna Þór og ákveður að fela hinum vanhæfa bæjarstjóra að semja svörin … Í þessari greinargerð Sveins eru hvorki Bjarni Þór né Hrönn nefnd á nafn. Í bókun Gunnars Sigurðssonar sem vitnað er í fremst í þessari færslu kemur svo fram að vafi leiki á að starfsmannavandamálum í Brekkubæjarskóla sé lokið.
 

Til hvers eru kjörnir bæjarfulltrúar?

Hér að ofan hef ég rakið ótrúlegt dæmi um yfirgang forseta bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar í garð tveggja kennara í Brekkubæjarskóla. Sömuleiðis hef ég rakið hvernig stjórnsýsla bæjarins sat hjá og lét sem þetta kæmi sér ekki við uns Gunnar Sigurðsson bæjarfulltrúi sýndi einn manna loks af sér þann manndóm að benda á þennan skandal; hann tekur fram að hann geti ekki tjáð sig um Hrönn vegna skyldleika en segir: „… sem bæjarfulltrúi á Akranesi skammast ég mín fyrir, ef satt er, að Bjarna Þór Bjarnasyni, sem er fyrrverandi Bæjarlistamaður Akraness, finnist sem hann hafi verið hrakinn úr starfi. Það eru ekki margir sem hafa gert jafn mikið fyrir samfélagið hér á Akranesi eins og hann.“
 
 

Ég hvet Skagamenn til að láta okkar kjörnu fulltrúa heyra álit sitt á þessu máli. Gleymum ekki að þetta fólk er kosið af okkur og er í okkar þjónustu. Það á hvorki að haga sér eins og  sjálfskipaðir einræðisherrar né standa þegjandi hjá, hokið af meðvirkni!
 
 


 1 Upptökur bæjarstjórnarfunda á Akranesi eru með tvennum hætti. Annars vegar er notaður búnaður til beinnar útsendingar á útvarpsrás, 95,0. Hins vegar er hljóðupptökuforrit í tölvu fundarritara sem tekur upp og streymir upptöku á netið. Sú upptaka streymir einnig til Nepal, hugbúnaðarfyrirtækis í Borgarnesi sem sér um vef Akraneskaupstaðar. Upplýsinga- og þjónustustjóri bæjarins sagði í símtali þann 24. nóvember að fundarritari hefði prófað upptökubúnaðinn fyrirfram og séð, meðan á fundinum stóð, grænar súlur rísa og hníga í glugga upptökuforritsins. Það kom þeim báðum mjög á óvart að uppgötva snemma þennan sama dag að hljóðupptaka hefði misfarist. Í símtali mínu sama dag við Nepal kom fram: Þriðjudaginn 22. nóvember kl. 15.02 fengu þeir sendan 6 sekúndna bút með hljóði. Þá var fundarritari væntanlega að athuga hvort allt virkaði sem skyldi fyrir bæjarstjórnarfundinn. Sama dag, kl. 17 byrjaði að streyma til Nepal hljóðskrá sem í allt reyndist 41.43 mínútur. Það passar ágætlega við tímann sem bæjarstjórnarfundurinn stóð. Þessi hljóðskrá (14,8 Mb) er þögul, þ.e. á henni er einungis alger þögn. Fimmtudaginn 24. nóvember (daginn sem ég hringdi) hafði Nepal fengið sendar 4 skrár með hljóði, væntanlega prufuskrár.Þetta þýðir að búnaðurinn sjálfur er í lagi. Það sem hefði t.d. getað gerst er: a) slökkt hefur verið á míkrófóni; b) snúran út míkrófóni hefur ekki verið í sambandi við tölvuna; c) stillt hefur verið á Mute (þögult) í upptöku eða í stýrikerfi tölvunnar.Úr því fundarritari sá grænar súlur hreyfast í upptökuforritinu meðan fundurinn fór fram eru skýringar a) né b) fremur ólíklegar.
 

 2  Fundargerð bæjarstjórnar, fundur nr. 1136, 22. nóvember 2011.
 
 

 3 Ég las þessar klausur, sem ég hripaði hjá mér og reyndi að hafa nánast orðrétt eftir Guðmundi Páli, fyrir hann og spurði hvort rétt væri eftir haft, sem hann samþykkti, í símtali okkar 25. nóv. 2011. Ég tek fram að mér tókst ekki að fá skýrari svör en þetta við spurningunni um hvað Guðmundur Páll hefði sagt á þessum fundi.
 

 4 Hitt málið sem Gunnar Sigurðsson vísar í var afgreitt á þessum sama fundi bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar þannig, skv. fundargerð: „2.  1009154 – Stjórnsýslukæra – Ráðning í stöðu kennara
Bréf bæjarráðs dags. 11. nóvember 2011, þar sem lagt er til við bæjarstjórn að samþykkja samning um bætur v/stjórnsýslukæru um ráðningamál í Brekkubæjarskóla og fjárveitingu vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2011.Bæjarstjórn samþykkir samninginn 9:0.“

Þá sjaldan þetta mál hefur borið á góma í fundargerðum bæjarins er það ævinlega kallað Stjórnsýslukæra. Hið rétta er að um er að ræða úrskurð Innanríkisráðuneytisins um að Arnbjörg Stefánsdóttir skólastjóri Brekkurbæjarskóla hefði brotið jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar (almenna óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar) í ráðningu tveggja annarra kennara í störf sem Kristín Frímannsdóttir sótti um. Sjálfri finnst mér talsverður munur á orðalaginu „kæra“ og „úrskurður“ um það sem almenningur kallar lögbrot en kann hugsanlega að vera notað eitthvert annað tækniheiti yfir í lögfræðimáli (brot á stjórnsýslulögum kannski). Og ég ætla rétt að vona að það sé ekki alvanalegt eða hvunndagslegt að Akraneskaupstaður sé fundinn sekur um lögbrot þótt bæjarstjórinn kjósi að tala um þennan úrskurð í hálfkæringi.

Kennurum og mögulega einhverjum íbúum Akraneskaupstaðar þætti kannski áhugavert að kynna sér málavexti í úrskurði Innanríkisráðuneytisins, sem raunar tók einungis lítinn hluta kærunnar til greina enda ómögulegt að sanna með óyggjandi hætti hið fjölmarga fleira sem kemur fram í þessu plaggi.

Úrskurður Innanríkisráðuneytisins er dagsettur 17. mars 2011. Hann var kynntur í fjölskylduráði Akraneskaupstaðar 5. apríl 2011: „6.  1009154 – Stjórnsýslukæra – Ráðning í stöðu kennara
 Fjölskylduráð hefur skoðað úrskurðinn og óskar eftir því að forstöðumenn kynni sér hann og taki tillit þeirra atriða sem þar eru sett fram“ og lagður fram í bæjarráði 7. apríl 2011: „2.  1009154 – Stjórnsýslukæra – Ráðning í stöðu kennara  Bréf innanríkisráðuneytisins dags. 17. mars 2011 þar sem niðurstaða í stjórnsýslumáli nr 56/2010, Kristín Frímannsdóttir gegn Akraneskaupstað, er kynnt. Ráðuneytið beinir þeim tilmælum að úrskurðurinn verði kynntur í bæjarstjórn Akraness. Lagt fram.“

Fundargerð fjölskylduráðs frá 5. apríl var lögð fram á bæjarstjórnarfundi 12. apríl 2011 en enginn bæjarfulltrúi tók til máls um þennan lið. Fundargerð bæjarráðs frá 7. apríl var lögð fram á sama bæjarstjórnarfundi en enginn bæjarfulltrúi tók til máls um þennan lið. Úrskurður Innanríkisráðuneytisins hefur aldrei verið tekinn til umræðu sem sérstakur liður á bæjarstjórnarfundi.

Líklega má segja að farið hafi verið að tilmælum Innanríkisráðuneytisins um að úrskurðurinn hafi verið kynntur í bæjarstjórn Akraness ef maður gefur sér að bæjarfulltrúar hafi lesið hann. Enginn þeirra sá ástæðu til að fara orðum um hann, hvorki í bæjarráði né bæjarstjórn. Fjölskylduráð bókar einungis að þeir þrír bæjarfulltrúar sem þar sitja hafi skoðað úrskurðinn og óski eftir að forstöðumenn [hvaða forstöðumenn?] kynni sér hann. Miðað við bókanir bæjarráðs og bæjarstjórnar (þ.e. algera þögn bæjarfulltrúa um málið) er alls óvíst að þeim tilmælum fjölskylduráðs hafi verið fylgt eftir.

Bæturnar sem bæjarstjórn samþykkti á fundinum 22. nóvember að greiða kennaranum sem brotið var á eru einfaldlega mismunurinn á  þeim launum sem hún hefði þegið hefði hún fengið kennarastöðuna með réttu og atvinnuleysisbótum sem hún þurfti að framfleyta sér á af því hún var snuðuð um starfið. Akraneskaupstaður hefur ekki beðið þennan kennara afsökunar, boðið henni annað starf eða brugðist við með neinum öðrum hætti en þessum.
 

 5 Árni Múli bæjarstjóri var ólíkt borubrattari í frétt Vísis 16. nóvember 2011, „Kennari fékk 1600 þúsund í bætur“ þar sem hann segir: „Við ákváðum að una þessari niðurstöðu, þó að sjálfu sér hafi verið lögfræðileg rök fyrir því að láta [á] þetta reyna fyrir dómstólum“. (Ég skrifa misskilning í fréttinni um hvaða ráðuneyti hafi úrskurðað á reikning fréttamannsins, varla getur hann verið kominn frá bæjarstjóranum.) Árni Múli Jónasson er menntaður lögfræðingur og hefur að auki meistarapróf í alþjóðlegum mannréttindalögum frá háskólanum í Lundi. Hann er því væntanlega fullfær um að meta bæði lögfræðileg rök og siðferðileg rök sem varða mannréttindi fólks.
 

 6  Á Akranesi búa um 6.600 manns og þar eru tveir grunnskólar. Samt er engin skólanefnd í bænum. Þess í stað fer þriggja manna fjölskylduráð með málefni sem skólanefndir sinna yfirleitt, auk þess að höndla félagsleg mál, barnaverndarmál o.fl. Bæjarstjórn kýs þessa þrjá fulltrúa og þeir eru jafnframt bæjarstjórnarfulltrúar. Að öðru leyti heyra málefni grunnskólans undir Fjölskyldustofu, þar sem vinnur á annan tug starfsmanna undir stjórn framkvæmdarstjóra. Enginn þeirra hefur réttindi til kennslu eða skólastjórnunar. Í sumar voru stofnaðir þrír starfshópar til aðstoðar fjölskylduráði og var einn þeirra starfshópur um skólamál (sem hélt sinn fyrsta fund í annarri viku nóvembermánaðar). Ekkert í erindisbréfi þess starfshóps tiltekur að hann eigi að sinna grunnskólastarfi í öðru en að athuga sérfræðiþjónustu og stoðþjónustu. Formaður starfshóps um skólamál er Ingibjörg Valdimarsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar sem er einmitt líka formaður fjölskylduráðs.
 

 7 Í símtali við Ingibjörgu Valdimarsdóttur þann 24. nóv. 2011 sagði hún ástæðuna fyrir skoðun sinni vera þá að í bréfinu væru nafngreindar tvær persónur aðrar en Bjarni Þór og Hrönn og það væri ekki sæmandi að bókaðar væru upplýsingar um þessar persónur og þeirra mál, sem væri trúnaðarmál, á bæjarstjórnarfundi. Ég man ekki eftir að hún hafi fært þau rök fyrir máli sínu á fundinum en það getur vel verið, ég hef ekki það gott minni að geta fullyrt neitt um slíkt þótt ég hafi hlustað á hana í útvarpinu. Rök Ingibjargar eru fráleit. Það að tveir menn séu nafngreindir í bréfi til bæjarstjórnar eru ekki gild rök fyrir að neita að taka bréfið fyrir í bæjarstjórn. Bréf til bæjarstjórnar eru bréf til bæjarstjórnar hvort sem sérnöfnin í þeim eru fleiri eða færri.
 

 8 Þessi túlkun á hinni dularfullu bókun í fundargerð bæjarstjórnar fær stuðning í bókun fundar bæjarráðs 15. september 2011 þar sem segir: „Aðkoma hans [Sveins Kristinssonar] að málinu var skv. samþykkt bæjarstjórnar Akraness frá 25. janúar 2011, 14. tl. merkt trúnaðarmál, en um málið var fjallað á lokuðum fundi að lokinni boðaðri dagskrá fundarins.“
 

 9 Ég spurði nokkrum sinnum hvort hann meinti ekki „efni“ fremur en „efnistök“ en uppskar einungis tiltal í þá veru að hann hefði 17 ára reynslu af stjórnsýslustörfum og starfmannastjórnun en ég enga. Til öryggis tvílas ég þessa skilgreiningu hans á stjórnsýsluerindi fyrir hann og spurði tvisvar hvort þetta væri örugglega rétt, hvað hann staðfesti tvisvar. Þessi tilvitnun og aðrar beinar tilvitnanir í Guðmund Pál Jónsson eru úr símtali okkar laust fyrir hádegi 25. nóv. 2011. Allt sem ég hef eftir Guðmundi Páli las ég fyrir hann í símann og hann staðfesti að rétt væri eftir haft.

  

  

Ómunatíð. Saga um geðveiki

Svo nefnist ný bók eftir Styrmi Gunnarsson. Ómunatíð getur vísað til margs. Venjulega er orðið haft um það sem nær svo langt aftur að enginn man hvernig það var áður, eitthvað hefur viðgengist eða verið um ómunatíð. Í þessu tilviki gæti titillinn líka vísað til þess hvernig minni skerðist, til hins langa tíma sem erfitt eða ómögulegt er að muna almennilega. Eða, eins og segir í aðfararorðum Sigrúnar Finnbogadóttur, s. 9:

 Ómunatíð? Er hún til? Er hægt að muna ómunatíð? Er hún upphaf tíma, tími einhvers í lífinu, endir eða bara allur tími, heilt líf, raunveruleiki eða hugarburður? Ég held hún sé allt þetta; það er hún í mínum huga, upphaf og endir alls. Eins og fljót sem streymir fram af mismiklum krafti. Stundum þornar það næstum því upp eða að því er virðist alveg en svo fer að hellirigna. Lækir myndast, fljótið verður dökkt, stækkar og ryðst fram – þar til það eftir óratíma – ómunatíð, eygir ósinn og fellur í hann. Stoppar það þar? – Kemst það til hafs í frelsið?

Ég velti þessu stundum fyrir mér sjálf: Stoppar geðveikin einhvern tíma? Kemst ég einhvern tíma „til hafs í frelsið“? Verður fjölskylda mín einhvern tíma frjáls undan því oki að eiginkonan og mamman er geðveik? En langoftast reyni ég að bægja þessum hugsunum frá mér því þær eru of sárar.

Bók Styrmis er nefnilega saga um geðveiki eins og undirtitill segir, nánar tiltekið saga Sigrúnar Finnbogadóttur, eiginkonu Styrmis, og fjölskyldu þeirra; saga sem spannar meir en fjóra áratugi. Þessi flókna saga er brotin upp af sjúkraskýrslum, umfjöllun, vangaveltum …  og römmuð inn af aðfararorðum Sigrúnar og eftirmála dóttur þeirra. Einnig er sagt frá og vísað í ýmsan fróðleik um geðveiki og læknisráð, einkum geðhvarfasýki og þunglyndi, svo kalla má hluta sögunnar „heimildasögu“. Loks er vitnað í ýmsar ævisögur eða frásagnir af ævi geðsjúklinga og upplifun aðstandenda þeirra, stundum er reynt að bera þetta saman við upplifun þessarar tilteknu fjölskyldu.

Það hefur ekki verið áhlaupsverk að flétta þennan ólíka efnivið saman í heildstætt verk. En það hefur tekist ótrúlega vel. Þegar ég las þessa bók upplifði ég svipaða tilfinningu og þegar ég las Sýnilegt myrkur eftir Styron: Ég gat annars vegar tengt ótrúlega margt við eigin reynslu en jafnfram opnuðust mér nýir heimar og ný sýn, öllu heldur fann ég þarna orðaðar ýmsar fálmkenndar hugrenningar mínar. Ég hef lesið fjölda bóka og greina um geðveiki, aðallega þunglyndi, en þetta er í fyrsta sinn sem ég les um langa reynslu af geðveiki frá sjónarhóli aðstandenda. Það er mikill fengur í þeirri nálgun!  Ég mæli eindregið með því að sem flestir aðstandendur geðsjúkra lesi þessa bók því geðveiki setur mark sitt á alla fjölskylduna, ekki síður en alkóhólismi. Öfugt við greiðan aðgang aðstandenda alkóhólista að sjálfshjálparhópum og viðtalsmeðferð er aðstandendum geðsjúkra afskaplega lítið sinnt, kannski eiginmönnum einna síst. Kannski er ekkert óskaplega algengt að geðsjúklingar eigi eiginmenn – líklega talsvert sjaldgæfara en að geðsjúklingar eigi eiginkonur. En mjög margir geðsjúklingar eiga börn og hvar er aðstoð að finna fyrir þau?

Þótt Styrmir nefni í bókinni að líklega sé aðstandendum sinnt betur nú en fyrir fjörtíu árum held ég að sú bót sé ekki sérlega veigamikil þótt einhver sé. Það sem hefur kannski helst breyst er að brennimarkið, fordómarnir í garð geðsjúkra, hafi minnkað, a.m.k. meðal þeirra sem vilja telja sig sæmilega upplýsta. Ég veit þó ekki hve djúpt slíkt ristir, það dugir að lesa athugasemdadræsur við fréttir netmiðla til að efast um að upplýsingin sé í rauninni svo mikil sem menn vilja vera láta þegar þeir vilja koma vel fyrir. Og hluti þeirra sem hæst gjamma í netheimum les líklega ekki bækur svo þeim verður lítil upplýsing í þessari bók. Þó má vona að bókin slái á fordóma einhverra.

Mér hefur líka þótt umhugsunarvert að skv. rannsóknum verður brennimerkingin meiri, þ.e. fordómarnir aukast, þegar fólki verður ljóst að í flestum tilvikum má rekja geðsjúkdóma til erfða. Einhvern veginn er það þannig að meðan fólk hugsar „þetta kemur ekki fyrir mig“ getur það sýnt skilning og samúð þeim sem „lentu í geðveiki“, líklegast af því að hafa orðið fyrir áfalli eða hagað sér rangt. En þegar rennur upp fyrir mönnum að geðveiki er bundin í genunum og kannski hafa menn lítið um það segja hvort þeir veikjast á geði, alveg eins og menn hafa, þegar öllu er á botninn hvolft, lítið um það að segja hvort þeir fá ýmist krabbamein, þá brýst vörnin fram í fordómum. Og af því stundum er ekki hægt að lækna geðveiki, stundum er ekki einu sinni hægt að halda henni niðri með öllum tiltækum ráðum, eru fordómar í garð geðsjúkra meiri en fordómar í garð alkóhólista sem farið hafa í meðferð og ná að halda sínum sjúkdómi niðri með AA-göngu. Ótrúlegasta fólk, meira að segja fólk í heilbrigðisgeiranum, reynir hvað það getur að gera geðsjúklinginn einan ábyrgan fyrir sjúkdómi sínum vegna þess að það er miklu huggulegri tilhugsun fyrir hina að sjúklingurinn geti sjálfum sér um kennt og að hinir muni „lifa rétt“ og þ.a.l. ekki fá krabbamein eða geðsjúkdóma. (Þetta var útúrdúr – í bloggum leyfast útúrdúrar.)

Efnisins vegna fjallar Ómunatíð. Saga um geðveiki annars vegar um óumræðilegan sársauka og kvöl sjúklingsins og hins vegar hvernig sjúkdómurinn yfirskyggir allt eðlilegt fjölskyldulíf. Af því líðan í þunglyndi er oft talin ólýsanleg, og ég reikna með að sama gildi um oflæti, eru sjúkraskýrslurnar látnar tala. En því fer fjarri að í bókinni sé einhver harmagrátur og blessunarlega er gálgahúmor einnig sleppt. Þetta er lágstemmd umfjöllun, á hógværan hátt reynir höfundur að átta sig á áhrifum sjúkdómsins á fjölskylduna og leitar í önnur verk (fræði, ævisögur) til að finna svör eða samsvaranir. Og mörgum spurningum er velt upp, t.d. hvort rétt hafi verið að gera þetta eða hitt á sínum tíma, hvort hefði átt að bregðast öðru vísi við, hvort einhverjum hafi verið brugðist. Við þessum spurningum finnast ekki svör en þær eru mikils virði í sjálfum sér.
 

Það þarf mikinn kjark til að skrifa svona bók. Þann kjark hafa Styrmir, Sigrún og dóttir þeirra. Og það þarf mikið traust á heilbrigða skynsemi og mannúð lesenda til að birta skrifin. Bókin ber þessa trausts merki. Fyrst og fremst er hún þó skrifuð af mikilli einlægni þar sem ekkert er dregið undan, án þess að dramatísera söguna; Reynt er að segja sögu um geðveiki í fjölskyldu eins látlaust og unnt er, án þess að hlífa nokkrum, án þess að ásaka neinn. Þess vegna hefur bókin ótrúlega sterk áhrif á lesandann. Þess vegna er þetta ómetanleg bók!
 
 
 
 
 

Kominn tími til að tengja: Um þunglyndi I

Þótt skömm sé frá að segja hef ég aldrei sett mig almennilega inn í fræðilegar rannsóknir á þunglyndi og læknisráðum við því, kannski af því það stendur svo nærri mér. Mér hefur þótt þægilegra að skoða eitthvað annað sem snertir mig ekki persónulega en getur verið spennandi efni per se (s.s. saga Sögu Akraness eða siðblinda). Auðvitað hef ég bloggað helling um eigin reynslu af þunglyndi og þunglyndislyfjum, sem og reynt að slá aðeins á puttana á mannkynsfrelsurum sem endalaust vilja hafa vit fyrir geðsjúklingum þegar kemur að lyfjagjöf, öllu heldur hvetja sjúklinga sem þeir hafa alls ekki menntun til að sinna til að taka EKKI lyfin sín. Það er alltaf spurning hvað maður á að nenna að elta ólar við svoleiðis lið og eiginlega nenni ég því ekki lengur. Ég hef líka eitthvað bloggað um orðanotkun tengda geðveiki eða þunglyndi, læknisráð eða skilgreiningar í sögulegu samhengi og sitthvað smálegt annað: Hef sem sagt eitthvað kynnt mér efnið en að mestu hefur það verið ómarkvisst hálfkák. En nú er kominn tími til að kynna sér þetta efni betur, tel ég. Kannski vegna þess að ég er á ákv. endapunkti, þ.e.a.s. búið að reyna flest læknisráð, þunglyndið versnar með hverju árinu og mér finnst orðið hæpið að kalla þetta ástand „djúpa endurtekna geðlægð“, nær væri að tala um „djúpa viðvarandi geðlægð“ (en ég er ekki viss um að staðlar geri ráð fyrir svoleiðis … staðlar og flokkun er eitt af því sem ég þarf að athuga, sem og forsendur og gerð prófa til að meta þunglyndi). Þeir læknismöguleikar sem hafa verið orðaðir í mínu tilviki núna eru ekki sérlega fýsilegir, a.m.k. finnst mér rétt að athuga þá vel áður en ég ljái máls á að prófa þá.

Af því ég er svo gleymin ætla ég að fara gegnum þessar vangaveltur og grams í greinum á blogginu mínu. Raunar fletti ég stundum upp á eigin bloggi, þetta er prýðileg gagnageymsla og leitarmöguleikinn virkar vel. Auk þess eru meiri líkur á að ég muni eitthvað hafi ég skrifað um það.

Ég hef svolítið verið að lesa greinar um þunglyndi og læknisráð undanfarið, aðallega úttektir á rannsóknarniðurstöðum margar tilrauna. Það borgar sig oft að skoða fyrst úttektir (Review-greinar) í öllu upplýsingaflóðinu. Það háir mér vissulega að kunna lítið í tölfræði og efnafræði, verandi máladeildarstúdent, en á móti kemur að þessar greinar eru oft á fræðilegu hrognamáli þar sem latínukunnátta kemur sér vel til að skilja latínuafleiddu ensku orðin. Það virðist vera reglan að ef valið stendur milli þess að nota algengt stutt engilsaxneskt orð eða ógagnsætt langt orð samsett úr latneskum stofnum velja menn hið síðarnefnda. Þykir væntanlega fínna. Og enskuskrifendur dýrka skammstafanir! Íslensku læknisfræði- og líffræðiíðorðin eru svo annar hjalli sem oft er torvelt að komast yfir. En það þýðir ekki að maður geti ekki reynt.

Það sem ég reyni að hafa að leiðarljósi er að skoða greinar í viðurkenndum ritrýndum tímaritum og skoða jafnframt hvaðan höfundar hafa fengið styrki til að skrifa þessar greinar eða hjá hverjum þeir vinna því það er auðvitað mögulegt að hagsmunaaðilar hafi áhrif á niðurstöðurnar, a.m.k. ágætt að hafa það bak við eyrað (án þess að ég sé samt haldin þeim ofsóknarkenndu hugmyndum að læknar og aðrir fræðingar séu sjálfkrafa á mála hjá lyfjafyrirtækjum eða framleiðendum rafmagnsdóts fyrir heilaskurðlækningar). 

Greinin sem mér finnst áhugaverðust til þessa (þótt ég sé raunar ósammála niðurstöðunni eða finnst öllu heldur að niðurstaðan sé orðhengilsháttur) heitir „Föst í sama farinu: Endurskoðun þunglyndis og læknismeðferðar við því“  (Paul E. Holtzheimer og Helen S. Mayberg. 2011. „Stuck in a rut: rethinking depression and its treatment“, birtist í Trends in Neuroscienes, 34. árg. 1. hefti, janúar 2011, netútgáfan í nóv. 2010). Ég vonast til að geta sagt frá þeirri grein í næstu færslu. Málið er þó að allt gengur frekar hægt í mínu lífi, orkan er af skornum skammti og sumir dagar snúast fyrst og fremst um að lifa þá af. Svoleiðis að það er ómögulegt að segja hvernig þessu fyrirhugaða námsbloggi mínu í þunglyndisfræðum vindur fram. 

En ég er sem sagt komin með markmið og inngang og sé miðað við að verk sé hálfnað þá hafið er er lítur þetta ekki illa út 🙂
 
 
 
 

Bækur; morð, óhamingja, drykkja og góðir reyfarar

Ég er loksins að krafla mig upp úr helvítisdvölinni … nú hef ég fengið þrjá góða daga í röð (sem helgast að hluta af þremur góðum nóttum í röð, þökk sé ágæti svefnlyfsins sem ég tek með góðri samvisku og blæs á besserwissera á borð við Vilhjálm Ara og talibanana á Vogi). Eins og venjulega er tilfinningin svipuð og að koma úr löngu kafi og ná loksins andanum. Vonandi helst þessi bati eitthvað en ég hugsa náttúrlega bara um hálfan sólarhring í einu og hvorki kvíði né vona, s.s. kemur fram í einkunnarorðum þessa bloggs (og menn geta bara gúgull-þýtt ef þeir eru jafn slakir í grísku og ég).

Sem betur fer gat ég flesta daga lesið í þessari þunglyndisdýfu þótt ýmislegt annað færi til andskotans, eins og venjulega. Líklega get ég þó endurlesið slatta af þeim bókum sem ég las í október sem nýjar, sem er aldrei nema gott, hafi þær verið góðar.

Þegar ég er svona veik er best fyrir mig að lesa fyrirsjáanlegar bækur (formúlubækur, uppskriftarbækur), þ.e.a.s. bækur sem eru byggðar á ákveðinni forskrift og ganga upp eftir henni. Aðallega les ég morðbókmenntir, sem eru álíka einfaldar og fyrirsjáanlegar og Íslendingasögur: Sumsé skrifaðar eftir nokkuð skýrri uppskrift en gefa þó kost á smá varíöntum innan uppskriftarinnar. Ég verð alltaf dálítið skúffuð þegar formúlan er brotin og uppskriftinni fokkað, t.d. var önnur bókin eftir Anne Holt svoleiðis (sú sem kom út á íslensku fyrir skömmu, ég vil ekki upplýsa hvaða regla var brotin fyrir þá sem eiga eftir að lesa hana). Hin bókin eftir Anne Holt sem ég las, Pengemanden, gekk hins vegar ágætlega upp.

Eftir að hafa lesið norræna reyfara í hrönnum undanfarið er ég orðin dálítið leið á þeirri hefðinni, þ.e.a.s. á þeirri hefð að aðalpersónan (löggan eða blaðamaðurinn eða lögfræðingurinn) sé með allt niðrum sig í einkalífinu. Þetta eru ansi trist persónur og reyna lítið að leita sér hjálpar, eiginlega er óskiljanlegt hvernig þeim tekst að leysa flókin morðmál en geta alls ekki leyst sín eigin mál. Má nefna að ég er orðin hundleið á kvíðaköstum Anniku Bengtzon (af hverju fær hún ekki kvíðastillandi lyf hjá lækni?) og er því að hugsa um að dömpa Lizu Marklund alfarið. Það eru takmörk fyrir hvað maður nennir að lesa margar lýsingar á ofsakvíðakasti í bók eftir bók … Eða Wallander greyið: Ég rétt hafði mig á hörkunni í gegnum Den orolige mannen (sem er nýkomin út á íslensku) af því sálarflækjur Kurts taka orðið allt upp í þriðjung af bókinni. Það er alltaf allt svo helvíti “jobbigt” hjá þessum Svíum … nema kannski þeim að norðan, Paganinikontraktet eftir Kepler var fín (ég held upp á aðalpersónuna Joona Limna) en ég sá einhvers staðar ritdóm um íslensku þýðinguna þar sem hún fékk frekar slaka dóma.

Drykkjuskapur Harrys Hole hefur hins vegar minnkað að mun og bæði Lausnarinn og Snjókarlinn (las hana á ensku, The Snowman, kemur í beinu framhaldi af Lausnaranum og ætti að koma fljótlega út á íslensku) eru flottar, sú síðarnefnda enn meir spennandi. Las svo aftur Djöflastjörnuna því mér fannst undarlegt að hafa skyndilega kúvent skoðun á Nesbø en komst að því að Harry Hole í Djöflastjörnunni pirraði mig jafnmikið og þegar ég las hana fyrst enda draugfullur megnið af bókinni. Svoleiðis að það er breyttur karakter Nesbø og miklu betur samdir reyfarar sem valda nýtilkominni aðdáun minni á þeim höfundi. Aumingja Louise Rick, sem datt örsjaldan í það í fyrstu, er farin að verða kengfull hvað eftir annað í bókum Söru Blædel (sú síðasta sem ég las heitir Kun Ét Liv) og timburmannalýsingar eru farnar að minna á fyrstu bækur Nesbø. Það er dálítið síðan ég las Åse Larson bók (hún hefur ekki gefið út neina nýlega held ég) og þar er að vísu aðallöggan ansi fín en lögfræðingsgreyið, stúlkutetur sem er búið að lenda í ýmsu, er að verða geðdeildarmatur og ansi pirrandi – vonandi verður hún bara höfð í innlögn í næstu bók og fjarri vettvangi.

Mér finnst lögguparið (löggan og eiginkona hans) í bókum Läckberg vera allt í lagi, þau eru a.m.k. frekar venjulegt og hamingjusamt fólk. Vitavörðurinn var fín, kannski sérstaklega fín af því þá hafði ég ekki lesið Náttbál Johans Theorin (en eftir á finnst manni Vitavörðurinn dálítil stæling á þeirri bók). En ameríkanísering Läckberg er ekki til bóta, þ.e. Póstkortamorðin, og tilraun hennar til að skrifa ráðgátu í Agötu Christie stíl, Morð og möndlulykt, lukkast ömurlega.

Þá er það íslenska gengið. Ég er löngu hætt að hafa gaman af Arnaldi, sálarflækjur Erlends eru ömurlegar (og fyrirsjáanlegar sé maður freudískt innstilltur), bækurnar þar sem Sigurður Óli eða Elínborg eru í aðalhlutverki gera sig engan veginn og síðustu þrjár bækur Arnalds eru hundleiðinlegar, sérstaklega sú sem kom út fyrir jólin í fyrra, þar sem Arnaldur virðist vera að reyna að skrifa sig inn í einhvern fagurbókmenntastíl. Nú er miklu lofsorði lokið á nýju bókina hans svo væntanlega er hann farinn að skerpa sig eitthvað aftur, ég vona það. Raunar hefur mér lengi fundist að bækur Ævars Jósepssonar séu miklu betri en bækur Arnalds, þrátt fyrir ansi staðlaðar týpur í lögguliðinu, einnig bækur Árna Þórarinssonar. (Byttan þar reynir a.m.k. að halda sér þurri og hefur auk þess húmor, sem aumingja Harry Hole hans Nesbøs skortir átakanlega.) Yrsa hefur haft glaðsinna lögfræðing sem aðalpersónu í flestum bókunum og þótt morðgátan sé stundum ekkert til að hrópa húrra fyrir bjargar þessi persóna miklu, a.m.k. finnst mér hún oft fyndin og skemmtileg. Ég man þig, sem kom út fyrir síðustu jól, er skrifuð í klassískum Stephen King stíl, meira að segja “kvikmyndahandritsstíllinn” er fenginn að láni (í Íslendingasögunum er sama fiff oft kennt við praesens historicum en það er af því menn vilja tala svo menntamannslega um þær, í stað þess að horfa á vestraelementið eða formúlurnar í þeim). Mér fannst Ég man þig ljómandi góð íslensk King bók og minnti á sumar af hans góðu gömlu … hann hefur tapað dampinum grey karlinn og ég er löngu hætt að komast í gegnum bækurnar hans.

Af jólareyfurunum í fyrra, sem ég las náttúrlega ekki fyrr en um vorið enda ólæs megnið af vetrinum, fannst mér Snjóblinda Ragnars Jónasson langbest, líklega af því hún var annars vegar dálítið klassísk A. Christie bók, sem gekk fullkomlega upp, og hins vegar af því sækópatinn í bókinni var svo vel hannaður sækópat. Hlakka til að lesa nýju bókina hans. Næstbest fannst mér Áttblaðarósin hans Óttars Norðfjörð en er vitaskuld ósátt við nafnið af því ég er ósátt við ruglinginn á áttblaðastjörnu og áttblaðarós. Og fattaði plottið of snemma. En það verður spennandi að sjá hvernig honum tekst upp í nýju bókinni sem var að koma út.

—–

Því miður er ég búin að lesa þær þrjár bækur Johans Theorin sem hafa komið út, í fyrirhuguðum fjórleik sem gerist á Álandseyjum. (Las eina á íslensku, næstu í norskri þýðingu og þá þriðju á ensku.) Náttbál er langbest af þessum þremur. Svo krossar maður fingur og vonast eftir að sú fjórða verði á vegi mínum fljótlega. Ég mæli eindregið með Theorin. Gamli karlinn, Gerlof, sem er held ég eina persónan sem kemur fyrir í öllum bókunum og er svolítið til hliðar við mismunandi aðalpersónur, minnir mig svolítið á Gamlingjann sem skreið út um gluggann og ég er akkúrat að lesa núna.

Og Gamlinginn sem skreið út um gluggann stendur algerlega undir væntingum! Þar eru meira að segja morð, þótt þau séu nú dálítið aukaatriði en auðvelda mér náttúrlega að færa mig aðeins úr morðgeiranum um sinn. Raunar sé ég litla tengingu við Birtíng (sem einhverjir gagnrýnendur hafa hampað) en þess meiri við Forest Gump … aftur á móti má, með góðum vilja, sosum tengja Forest Gump við Birtíng og sjálfsagt mætti finna fleiri svona ferðasögur um mannkynssöguna ef menn endilega vilja. Þetta er afar fyndin bók og aðalpersónan, gamlinginn Allan Karlsson, er yndisleg! Einna helst pirrar mig að bókin er ekki nógu vel þýdd (setningar eins og “hann fraus á hendinni” – þegar ein persónan hafði glatað mótorhjólahanskanum sínum og var að aka heim, eða þegar sagt er að forseti Bandaríkjanna dvelji á heilsuhæli “til að lina lömunarveikina” eru klúður). Þetta kom mér reyndar á óvart því ég veit að þýðandinn er sérlega vandvirkur. Kannski les ég bókina bara aftur, á sænsku.

Svo er ég nýbúin að lesa Nú kveð ég þig Slétta, sem vel að merkja inniheldur ekki eitt einasta morð 😉  Bjóst fyrirfram við að ég læsi aðallega formálann og viðtalið en svo fór að ég las allar vísurnar líka og fannst gaman að. Mér finnst útgáfan á Nú kveð ég þig Slétta líka alveg sérlega vönduð og skrifaði hjá mér slatta af ritum sem vísað er í til að skoða betur við tækifæri. En sú bók höfðar líklega ekki til almennings, hún er væntanlega miðuð við fólk sem þekkir til á þessum slóðum.

Af því ég er alæta á bækur eru hér í hillu einnig Jóri. Hestar í íslenskri myndlist, sem ég hafði gaman af að skoða og Táknin í málinu eftir Sölva Sveinsson, sem ég er talsvert búin að fletta (þetta er flettibók, ekki bók til að lesa í gegn) og finnst afar áhugaverð og vel gerð. Sölvi skrifar alltaf lipurt og það er gaman að sjá hvað hann hefur verið duglegur að tína saman upplýsingar úr ýmsum áttum.

—-

Þetta var pistill um bækurnar í lífi mínu undanfarið og vangaveltur um ótrúlegar sálarkreppur og alkóhólisma í norrænum morðbókmenntum, sem mættu gjarna missa sín. Ég ætla rétt að vona að einhver smákarlaklíka fái nú ekki flog yfir þessari færslu eins og síðast þegar ég skrifaði um bók 😉

  

Gestablogg Jósefínu Dietrich

Jósef�na DietrichEins og flestum velupplýstum ætti að vera kunnugt er ég fremst fræðikatta landsins og þekkt langt út fyrir landsteinana. Hingað til hef ég verið of önnum kafin við ýmsar rannsóknir, einkum mannfræðirannsóknir, til að eyða tíma í smotterí á borð við landsmál eða sveitarstjórnarmál. Ég hef þó einstaka sinnum viðrað stjórnmálaskoðanir mínar, sem eðlilega og með réttu byggjast einkum á því að það fressið sem er duglegast að merkja er auðvitað réttborið yfirfress og að gular læður séu fegurstar. Einnig hef ég lítilsháttar gert grein fyrir nýfemínisma, stefnu sem ég er upphafslæða að og virðist ryðja sér hratt til rúms.

Þegar ég gaf mér tvær mínútur til að líta upp úr merkilegum fræðarannsóknum mínum fyrir skömmu varð ég þess áskynja að helstu tvífættu fressin í bænum hyggjast reisa hér Keltneskt fræðasetur, á þeim forsendum að hér á þessum útnára hafi verið keltneskir kristnir landnámsmenn.

Það getur svo sem vel verið að einhverjir almúgatvífætlingar hafi þvælst hingað frá Bretlandseyjum, jafnvel prímsigndir, en mér þykja þetta nú ekki stórhuga hugmyndir. Bæjarstjórafressið treystir á gjaldþrota þjóð til að veita þessu brautargengi og er sjálft skítblankt: „Ég hef trú á því á Írlandi og þar í kring – og það er slatti af fólki þar, það er töluvert fleira en á Íslandi, að þar væru einstaklingar sem fyndist ekkert leiðinlegt að taka þátt í því með okkur að rannsaka þennan þátt í þeirra sögu … Ég væri til í leggja … ef ég hefði haldið betur á peningum og ætti svona tíuþúsundkall …þá mundi ég ekki hika við að leggja hann í hlutafélag um þetta“. Hitt aðalfressið í bænum treystir á fjármagn frá alþingi til menningartengdra verkefna, auk þess sem það stingur upp á að byggja einhvern kofa uppi við Akrafjall í minningu snærisþjófs sem það heldur að sé „ein frægasta bókmenntapersóna Íslendinga“. Auk þess kemur fram í máli þess að sé eitthvert kapphlaup við aðra sem hafi fengið sömu hugmynd, þ.e.a.s. að byggja eitthvert skítómerkilegt keltneskt fræðasetur fyrir smápening. (Þið getið hlustað á bæjarstjórnarfundinn 25.10.2011 ef þið nennið eða lesið fréttina á síðu Akraneskaupstaðar.) Seint myndi Bessastaðafressið ljá máls á svona smáræði, það hafa pólitískar rannsóknir mínar löngu sýnt fram á, að vísu óbirtar enn því ég er vön að vinna verkið vel og birti aldrei neitt fyrr en eftir 14 ára yfirlegu hið minnsta. Og frægasta bókmenntapersónu Íslandssögunnar er auðvitað ekki snærisþjófur úr Hvalfjarðarsveit heldur sjálfur jólakötturinn!

Ef það vill að fleiri komi niðrá Skaga af þjóðveginum til að skoða eitthvað liggur auðvitað beinast við að byggja píramída í Garðaflóanum og minnast þannig veglega okkar egypsku róta! Skagamenn eru almennt komnir af selum (og dugir t.d. að vísa í lýsingu á augum snærisþjófsdótturinnar, sem var að vísu ekki Skagamaður en hengjum okkur ekki í smáatriði; hún var með dæmigerð selsaugu). Selir eru, eins og alkunna er, hinir drukknuðu hermenn faraós og þ.a.l. egypskrar ættar eins og ég. Í liði faraós ríkti jafnrétti, ekki síður en hjá því góða en fallna fressi Gaddafi, og eygypskar urtur hafa löngum verið lokkaðar á land og falleraðar af íslenskum almúgamönnum. Þótt stöku ritheimildir nefni Mýrdal sérstaklega sem svoleiðis nauðungar og yfirgangsstað stafar það af eðli flökkusagna: Raunverulega voru þessar egypsku selkonur einmitt staðsettar á nesinu Akranesi og formæður Skagamanna, t.d. þessi sem orti undur sorgmædd vísuna um að hún ætti sjö börn í landi og sjö börn í sjó. Auðvitað hefur nafn þessarar konu fallið niður í fornum týndum ábúendaskrám og öðrum fornum skruddum sem karlkyns tvífætlingar rituðu enda margsannað mál að þegar karlar rita sögubækur er kvenfólk mjög vantalið í slíkum bókum, hvað þá kvenfólk af egypskum urtuættum.

Umhverfið hér á Skaga rennir mjög stoðum undir þessa kenningu. Það þarf ekki annað en standa úti þefandi í sínum garði í morgunsárið til að koma auga á píramídalaga fjöll hér allt í kring: Skessuhorn, Heiðarhorn, Skarðshyrnu … og sjálft Akrafjallið er, héðan frá séð, tveir píramídar hlið við hlið. Tilviljun? Ég held nú ekki! Egypsku landnámsurturnar fluttu nefnilega ekki bara örnefnin með sér heldur umhverfi sitt einnig. Ég bendi lesendum einfaldlega á að leita í fræðiritinu wikipediu.org (sem er einmitt samið og skrifað af mér sjálfri) þessu til stuðnings og öðru fræðilegu sem menn vilja fletta upp og varðar þetta mál.

Í Garðaflóanum er ágætt pláss fyrir góðan píramída sem rétt væri að hafa einum metra hærri en Keops, til að sýna stórhug afkomenda hinna hraustu liðsmanna faraós. Tvífætlingarnir gætu haft hann úr efni úr nágrenninu, t.d. torfi (nóg er af mónum), forsteyptum einingum eða áli, allt eftir smekk forseta bæjarstjórnar en hann er einmitt mikill áhugamaður um stórbrotinn arkítektúr, hafandi bæði skoðað Kölnardómkirkju og Versali. Svoleiðis myndarlegur píramídi myndi sjást langt að og vera kjörinn til að lokka mann og annan af þjóðveginum og hingað niðreftir (sem átti að vera eitt aðalmarkmið þess vesæla Keltneska fræðaseturs). Auk þess fellur píramídi einkar vel að umhverfinu eins og ég hef þegar rökstutt.

Írar eru á kúpunni en Egyptar prýðilega stæðir og má ætla að í Egyptalandi og þar í kring, og það er slatti af fólki þar, væru einstaklingar sem fyndist ekkert leiðinlegt að taka þátt í því með okkur að rannsaka þennan áður órannsakaða þátt í þeirra sögu.

Í fyrra lífi man ég eftir skemmtilegum ratleikjum í píramídum, einkum Keops. Mætti samþætta pollamót og ýmsan æskulýðsfögnuð tvífætlinga við þessa byggingu og má ætla að píramídinn í Garðaflóa yrði oft fagurlega skreyttur af gulum og glöðum, prílandi og innkíkjandi.

Jósef�na Dietrich � svingsstellinguFyrir utan mannvirki af þessu tagi er oft svings. Nú er það svo að aðalfressin í bænum eru ekki sérlega fótógen eða frambærileg og ég sting því upp á að ég sjálf sitji fyrir þegar svingsið verður hannað. Sömuleiðis sting ég upp á að ég gegni sjálf hlutverki þriggja af hinum fimm fyrirhuguðu fræðimönnum í þessu keltneska dæmi því ég er þriggja manna maki og mun fræðilegri en aðrir sem til greina gætu komið. Af öðrum frambærilegum í svoleiðis ráð dettur mér helst í hug Dorrit, sem er af austurlenskum ættum og því afar frambærileg, auk Hönnu Birnu, sem er gul og þ.a.l. frambærileg.

Ég get auðvitað tekið að mér að umskrifa sögu Akraness með tilliti til þessara egypsku róta, í hjáverkum. Fyrir þokkalega trúlega byggðasögu af þessu tagi tæki ég líklega um 100 milljónir í laun og ef þetta á að vera almennilega rökstutt með netheimildum og uppflettibókum duga mér ekki minna en 15 ár. En það er þess virði, fyrir bæinn, fyrir breiddina og fyrir kryddið (svo ég vitni í bæjarstjórann)! Tvífætlingar af ýmsum þjóðernum munu flykkjast niðrá Akranes til að skoða eina píramídann á Íslandi. Enda eru píramídarnir í Egyptalandi ein af fáum ferðamannabrellum sem hefur ekki klikkað í 5000 ár. Líklega má eitthvað skera niður meir við trog í bænum en gert hefur verið til þessa, ég bendi t.d. á að það er alger óþarfi að rukka leikskólakrakka bara sérstaklega fyrir ávexti; Þessum kettlingum er ekki of gott að borga sérstaklega fyrir fiskinn og kartöflurnar líka! Svoleiðis má öngla saman í byrjun verkefnisins Píramídinn okkar, auk þess að hækka kaldavatnsgjaldið meira, fasteignagjöldin, hætta alfarið að henda smápeningum í Rauða krossinn og margt fleira. Safnast þegar saman kemur.

Svo ég skora á bæjarstjórn að samþykkja þessa tillögu skráðs og örmerkts íbúa Akraneskaupstaðar: Píramída í Garðaflóann strax! Styrkjum okkar egypsku rætur! Kastið krónunni en haldið í aurinn!

Skjaldarmerki Jósef�nu DietrichRitað af Jósefínu Meulengracht von Steuffenberg Dietrich þann 31. október 2011.

(Hafa má samband við mig með bréfdúfu eða skilaboðum á fésbókarsíðu minni, http://facebook.com/josefina.dietrich. Ekki reikna með bréfdúfunni til baka.)
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Frásögn af misheppnuðu geðtrixi

Þetta er færsla um persónulega reynslu sem ég hef ekki treyst til að skrifa fyrr en nú. Mér finnst alltaf ömurlegt þegar eitthvað mistekst og er yfirleitt lengi að jafna mig á því, hvort sem um er að ræða eigin mistök eða að enn ein meðferðartilraunin skilar ekki árangri í þeim sjúkdómi sem yfirtekið hefur líf mitt að mestu, djúpu þunglyndi. Lesendum sem eru að leita að einhverju sniðugu eða einhverju til að hneykslast á er ráðið frá því að lesa þessa færslu. Hún er skrifuð fyrir mig (sem skriftir og til seinnitíma uppflettingar, ég nota eigið blogg sem minnisgeymslu) og þá sem vilja lesa um hvernig þunglyndi getur lýst sér.

Upp úr miðjum september fór mér að líða heldur illa, eins og í fyrra og í hitteðfyrra og líklega árin þar á undan. Undanfarin tvö haust (a.m.k., e.t.v. eru þetta fleiri haust) hef ég þurft að leggjast inn á geðdeild upp úr 20. október, minnir að það hafi munað degi á dagsetningum síðustu tveggja hausta. En innlagnir hafa langoftast verið tengdar einhverri von, þ.e.a.s. átt hefur að prófa nýtt lyf, nýja lyfjasamsetningu eða eitthvað svoleiðis. Örþrifaráðið var prófað sl. haust, Marplan (óafturkræfur MAO-blokki sem er einungis gefinn þegar öll hin geðlyfin á boðstólum hafa ekki skilað árangri). Marplan hafði afar slæmar aukaverkanir, sumar eru fyrst að ganga til baka núna og skilaði því miður ekki árangri í nokkrurra mánaða prófun.

Af því meira að segja örþrifaráðið var fullprófað (og öll hin ráðin, þ.e. mestöll lyfjaflóran sem kemur til greina auk ýmissa stoðlyfja, raflosta, nálastungna o.s.fr., allt nema DAM og Mindfulness, sem ég hef enga trú á að virki við svo djúpri meðferðarónæmri geðlægð sem ekki verður rakin til eins né neins nema hugsanlega erfða … kannski prófa ég samt hugræna dótið einhvern tíma til að geta kvittað fyrir að hafa prófað) reyndi ég að láta mér detta í hug eitthvað … hvað sem er nánast … sem gæti mögulega tafið framrás sjúkdómsins og gert mér kleift að vera heima hjá mér en ekki inn á deild þetta haustið.

Mér datt í hug sól. Mörg undanfarin sumur höfum við maðurinn farið til grískra eyja og oftast hefur mér liðið með skárra móti þá en gat náttúrlega ekki vitað hvort þetta væri árstíðabundinn hringur þunglyndisins eða sól og hiti sem virkuðu á þunglyndið. Eftir að hafa ráðfært mig við manninn (oft gott að fá lánaða dómgreind ef maður er ekki í toppstandi sjálfur) og komist að því að honum þótti þetta ekki alvitlaus kenning ákvað ég að þetta væri tilraunarinnar virði, pantaði hálfsmánaðarferð til Krítar og fór þangað í lok september, með danskri ferðaskrifstofu.

Þetta var í fimmta sinn sem ég kom til Krítar, hafði m.a. dvalið áður í Neðra-Hjarðarbóli (Kato Stalos), sem er með minnstu ferðamannaþorpunum út frá Hania, kannaðist strax vel við mig og leist ljómandi vel á fyrstu dagana; íbúðin mín var fín, dönsku ellilífeyrisþegarnir í sólbaðinu fínir, kyrrð og ró, frábært veður og sól skein í heiði. Ég gældi við hugmyndir um að geta kannski farið í einhverja labbitúra og jafnvel skroppið með strætó inn í Hania einhvern daginn en aðallega hugsaði ég mér að liggja í sólbaði, lesa reyfara og hafði tónlist og hannyrðir fyrir kvöldin, vitandi að versti tíminn minn er oftast þá (sný öfugt við flesta þunglyndissjúklinga að þessu leytinu).

Fyrsti dagur: Fínn! Annar dagur: Fínn en eftir langan labbitúr komu fram dæmigerð einkenni eins og jafnvægisskortur, óraunveruleikatilfinning o.þ.h. Þriðji dagur: Leið heldur illa en ákvað að fara í örlabbitúr upp í Hjarðarból (þorpið Stalos), horfa yfir Flóann og eyjuna hans heilags Þeódórs, hvar kri-kri geitur æxlast frjálsar, var meira að segja svo heppin að ganga framhjá brúðkaupi í kirkjunni …  en gerðist þó æ óglaðari í sinni. Fjórði dagur: Mætt á ströndina (sem var u.þ.b. 3 metra frá íbúðinni minni) og farin að gráta í sólbaði kl. 10 að morgni. Ekki gott! (En raunar sést það lítið þótt einhver skæli í sólbaði með lokuð augu ef það mætti vera til huggunar.) Um hádegið tók við frjálst fall ofaní helvítisgjána, jafnhratt og venjulega.

Tíminn eftir þetta er dálítið í þoku en fyrir utan þann óútskýranlega hryllilega sársauka sem fylgir djúpu þunglyndi man ég eftir að ég átti orðið mjög erfitt með gang (þetta virkar svolítið eins og slæm sjóriða, maður hefur ekki lengur tilfinningu fyrir hversu langt er til jarðar og mögulega gengur umhverfið í bylgjum), óraunveruleikatilfinningin varð mjög sterk (manni líður eins og maður sé staddur í leikmynd og þótt ég geri mér fullkomna grein fyrir að það er ég ekki er tilfinningin samt til staðar) og tímaskynið fokkaðist upp. Það var eiginlega það versta. Ég leit á klukkuna (verandi í “lifa-af-einn-klukkutíma-í-einu”-trikkinu) og svona tveimur tímum síðar kíkti ég aftur á úrið og þá voru liðnar fimm mínútur. Ég hef oft áður upplifað svona tímaskynsfokk, að tíminn frá því ég vakna og þar til ég get loks farið að sofa aftur og sloppið smá stund úr þessu helvíti sé svona 72 tímar … en aldrei svona sterkt. Sjálfsvígshugsanir poppuðu upp hraðar en ég næði að stöðva þær og ég var orðin verulega hrædd um að ég kæmi heim í kistu, með þessu áframhaldi. Og ég hætti að geta borðað … eftir að hafa logið því kurteislega á veitingastað að ég væri líklega með magapest, hafandi einungis komið niður tveimur, þremur munnbitum af gyros (upphaldsmatnum mínum) og frönskum, greip ég til þess að pína í mig banana, jógúrt og grískri eftirlíkingu af Prins póló sæmilega reglulega yfir daginn, í örskömmtum.

Sem betur fer var þessi sam-skandinavíska ferðaskrifstofa með aðstöðu þarna rétt hjá og hafði opið á miðvikudagssíðdegi. Ég mætti og tilkynnti að ég væri þunglyndissjúklingur sem hefði versnað svo mikið að ég yrði að komast heim. Var svo stálheppin að dönsk ekkja, sem ég hafði átt nokkur samskipti við, poppaði einmitt inn á sama tíma (að leita sér að bókum, hún var á svipuðu reyfarastigi og ég og hafði farið vel á með okkur) og blessuð gamla konan taldi greinilega skyldu sína að staldra við og veita stuðning. Sem mér þótti mjög vænt um. Ég átti orðið erfitt með mál og þótt ég skilji flesta skandinavísku prýðilega og geti gert mig skiljanlega við flesta þá kom í ljós að yfirmaðurinn, sem var sett í að tækla þetta mál, talaði skánsku! Þótt blessuð danska ekkjan reyndi að koma mér til aðstoðar þá skildi hún skánskuna raunar álíka illa og ég. Svo ég stakk upp á að við býttuðum yfir í ensku, hef sennilega litið nógu veikindalega út til að skánska yfirkonan samþykkti það, en þá kom raunar upp annað vandamál sem var að enskan hennar var ekki upp á sérlega marga fiska. En … fyrst bauð hún mér að kaupa nýjan flugmiða til Köben fyrir tæpar 2000 danskar krónur. Ég sagði að mér þætti það ansi dýrt, auk þess sem ég væri náttúrlega búin að greiða fyrir hálfan mánuð á íbúðarhótelinu sem ég fengi ekki endurgreitt. Hún sá aumur á mér og fann í staðinn nýjan flugmiða með sömu ferðaskrifstofu (og í sömu vél) Svíþjóðarmegin og þá kostaði miðinn 990 sænskar krónur. Ég talaði sjálf við Icelandair og tókst að breyta miðanum mínum hjá þeim, líklega hef ég fengið síðasta sætið því í ljós kom að yfirbókað var í þá vél …  En þetta gekk allt saman og ég gat farið heim á föstudagsmorgni, viku fyrr en áætlað var (ferðaskrifstofan var bara með flug á föstudögum frá Hania og ég hefði aldrei meikað að koma mér til Iraklio eða Rethymnon í flug þaðan).

Svo tók við óendanleg bið frá miðvikudagskvöldi til föstudagsmorguns þar sem öll trix voru nýtt til hins ítrasta, frá æðruleysisbæninni og “hálftími í einu” til avemaríu-hlustunar (þetta er svona verkfærasafn sem ég hef komið mér upp í gegnum tíðina). Og ég komst heim, svo hryllilega fárveik að ég fór fram á að fá að leggjast inn á geðdeild strax eftir helgina en sá svo á mánudeginum að ég væri eiginlega of veik til þess, gat ekki hugsað mér að vera í ys og þys.

Eftir á finnst mér að ég hafi dvalið marga mánuði á Krít. Fyrsta vikan eftir að ég kom heim var líka margir mánuðir. En svo fór ég að hjarna við og má segja að ég hangi réttu megin við eggina sem skilur milli heimilis míns og geðdeildar. Með því að breyta lyfjagjöf svolítið (læknirinn blessaði það eftir á en satt best að segja held ég að hann treysti mér sæmilega til að meta lyfjagjöf sjálf enda orðin sjóaður sjúklingur), sofa tvisvar á sólarhring og gera afskaplega fátt gengur þetta. En ekki meira en svo. Það þarf ekki nema örlitla aukaáreynslu til að kýla mig á kaf niður í sortann og sársaukann. T.d. var ég ansi veik á sunnudagskvöldið, líklega af því ég leyfði mér að fara á fund í ónefndum samtökum og leyfði mér að tala í síma í klukkutíma. Bara einbeitingin við svo ómerkileg verk getur tekið of stóran toll af þeirri takmörkuðu orku sem ég hef. Líkamleg áreynsla hefur sömu áhrif og þess vegna þarf ég að passa að labba ekki of langt … en það var sigur að geta tekið þátt í að þrífa húsið í fyrsta sinn í mánuð nú fyrir helgina án þess að hrynja saman á eftir.

En nú veit ég að sól og hiti á huggulegri sólarströnd virka ekki heldur á þessa “djúpu endurteknu geðlægð án sturlunareinkenna”. Það gat ég náttúrlega ekki vitað án þess að prófa og fyrst ég komst lifandi heim var tilraunin þess virði.

Mér dettur ekkert óprófað í hug í augnablikinu. Mögulega gæti ég reynt HAM eða DAM eða Mindfulness einhvern tíma á vordögum þegar ég er ekki svona veik. Núna er það útilokað. Það ráð sem læknirinn minn sér helst í stöðunni og hefur aðeins viðrað við mig er ekki sérlega lokkandi, krefst skurðaðgerðar, niðurstöður tilrauna eru ekkert alltof góðar, aukaverkanir geta verið nokkuð slæmar og líklega erum við, sjúklingur og læknir, sammála um að þetta sé ör-örþrifaráð. Eftir stanslausar tilraunir undanfarin ár sem hafa skilað litlu og stundum verið erfiðar er ég ekki tilbúin að reyna örörþrifaráðið ennþá.

En svo ég ljúki þessum harmagráti á jákvæðum nótum: Mér tókst að hafa mig í ondúleringu, þ.e. litun og klippingu o.þ.h. í dag. Skipti um háralit, það virkar að vísu ekki neitt á sjúkdóminn en því verður ekki neitað að liturinn er helv. flottur og klæðir mig vel. Það er óþarfi að líta út eins og lík þótt manni finnist maður dauður. (Í anda virts rithöfundar læt ég þess getið að í hverju svona kasti rifjast upp fyrir mér samtal bræðranna í Sumarhúsum, þegar Helgi segir eitthvað á þessa leið: Líttu í augun á mér, Nonni. Þú sérð dauðan mann! Ég horfist helst ekki í augu við sjálfa mig í spegli á kvöldin.)

   

Fallið – skrípóbók um alkóhólisma

Fékk Fallið eftir Þráin Bertelsson á því góða bókasafni í gær og las í gegn, sem tekur enga stund. (Af tilviljun sá ég að í hillu nýrra bóka var Fallið við hlið Morðs og möndlyktar Camillu Läckberg, afspyrnu lélegs reyfara og Läckberg til vansa. Sá að bækurnar eru nákvæmlega jafnstórar – öllu heldur jafnlitlar- í álíka broti, þ.e. stíf kápa um stuttan texti. Merkileg tilviljun en ekkert annað en tilviljun.)

Raunar finnst mér dálítið skrítin forsíða á bók Þráins miðað við efni. Sé ekki betur en kápumyndin sé útklippt svarthvít teikning af fræknum sundmanni að stinga sér, í rauðu hafi í átt til fagurguls titilsins, Fallsins. Líklega er þetta tilviljun.

En þá að Fallinu: Söguþráðinn þekkja flestir svo vandlega sem hann hefur verið auglýstur en hann er sá að Þráinn Bertelsson datt í það í Færeyjum, fékk flýtiinnlögn á Vog, dvaldi þar í áfengismeðferð og fór í hálfa eftirmeðferð. Þetta er ekki merkilegur söguþráður (nema kannski flýti-innlögnin veki athygli þeirra sem eru á biðlista). Þetta fall er ekki merkilegt nema frá sjónarhóli fallistans og fjölskyldu hans. Miðað við legíó fallsagna sem ég hef hlustað á gegnum tíðina er ekkert sérstakt um þetta tiltekna fall að segja og álitamál hvort það sé efni í bók eða tilefni bókar … kannski nokkrar bloggfærslur hefðu verið betur við hæfi – eða bara einföld tjáning á AA-fundum eins og við hin stundum. Ég get ekki að því gert að mér finnst felast viss athyglisýki í því að detta í það í júní og gefa út um það bók í október. (Ég er líklega svona illa innrætt af náttúrunnar hendi að láta mér detta svonalagað í hug.)

Bókin er heldur losaraleg, þ.e.a.s. hún er í mörgum stuttum köflum. Ýmist er Þráinn að velta fyrir sér ýmsum heimspekilegum viðfangsefnum meðan á meðferðinni stendur, upplýsa lesanda um eðli alkóhólisma, skotið er inn köflum með sögum af öðrum ölkum og stuttum brotum frá sjónarhóli aðstandenda. Síðastnefndu hlutarnir eru bestir, finnst mér. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við að svona bók sé brotakennd: Alkóhólískar minningar eru alltaf brotakenndar og áfengismeðferð er það erfið að það er enginn vegur að muna hana í röklegu samhengi.

Ég hef fyrir löngu fengið mig fullsadda af sniðugum sögum af karlkyns ölkum sem röknuðu úr rotinu við ótrúlegustu aðstæður, oft í útlöndum. Svona sögur eru þjóðsögur meðal alkóhólista, hugsanlega byggðar á sannleikskornum, en aðallega er fídusinn í þessum sögum sá sami og í Íslenzkri fyndni, vantar kannski helst að viðkomandi kasti fram stöku af tilefninu. Sniðugu innskotssögurnar eru bara af körlum. Af því ég veit að það er nákvæmlega ekkert sniðugt eða skondið eða fyndið við alkóhólisma fundust mér þessar sögur heldur ómerkilegt innlegg í svona bók. Ein saga er af konu en það er ekki hreinræktuð íslenzk-fyndni-saga heldur á hún að fjalla um samsjúkling Þráins á Vogi því sú persóna er nauðsynleg málpípa sjúklingahópsins sem dvelur með Þráni. (Ég ætla rétt að vona að fulltrúar alkhóhólista  í bókinni séu uppdiktaðar persónu, aðrar en Þráinn sjálfur og þessi eina sem veitti leyfi fyrir grínsögu um sig.) 

Bókin er fyndin á köflum enda augljóst að höfundur hefur lagt sig í líma við að koma að bröndurum og sniðugheitum. Líklega gætu virkir alkóhólistar haft gaman af bröndurunum og þeir örfáu Íslendingar sem ekki hafa haft kynni af alkóhólisma í fjölskyldu sinni eða nánum vinakreðsum. Brandarnir þjóna líka stundum þeim tilgangi að sýna hve höfundurinn er vel að sér, víðlesinn og velmenntaður, t.d. að myndhverfa Vog í dáraskip eða lauma inn fyndnum þýskum heitum í eina af sniðugu sögunum. Þannig geta víðlesnir virkir alkar og þeir örfáu … o.s.fr. haft gaman af henni líka.

Þráni er þó mjög í mun að sannfæra lesandann um að hann sé einn af hinum óbreyttu enda er það meginhugsun í áfengismeðferð að allir séu þar jafningjar, hver sem staða þeirra er utan Vogs og eftirmeðferðarstöðva. (Þetta er einnig meginhugsunin í AA samtökunum.) En honum lukkast engan veginn að sýna þá auðmýkt að telja sig til hinna óbreyttu, þ.e. jafningjanna sem eru að reyna að ná tökum á sama sjúkdómi. Þráinn er afar upptekinn af því að vera þjóðþekkt persóna, telur að slúðurblöð muni jafnvel birta frétt um að hann sé í áfengismeðferð fari hann í eftirmeðferð. GRÓA Á LEITI og aðrar kjaftatífur landsins af báðum kynjum með snípinn í hálsinum munu fá raðfullnægingu við að kjamsa á því að alþingismaður sé staddur á Vogi. Ég sé ekki ofsjónum yfir þeirri gleði. (s. 116.) Mögulega væri það ekki fyrir neðan virðingu DV að birta smáfrétt um þetta en líklega þætti fáum fréttnæmt nema ríkti alger ördeyða og gúrkutíð í fjölmiðlun. Tilvitnunin í bókina sýnir í hvaða stíl hún er skrifuð. 

Hann er líka ákaflega upptekinn af því að miðla lífspeki til lesandans, molum af borðum Johns Stuart Mill, Dalai Lama, Carls Jung, Dale Carnegie, Jesú Krists o.fl. Þetta er lífspeki sem hefur nýst Þráni um ævina en allar þessar skáletruðu tilvitnanir með tilvísun í heimildir eru kannski líka til að lýsa því hvað maðurinn er víðlesinn og fróður? Þær minntu mig nú helst á algenga statusa sem fólk setur á Facebook, sér og öðrum til huggunar þann daginn. Sumar tilvitnanirnar eru velþekktar klisjur í allskonar sjálfshjálparkreðsum, s.s. verði þinn vilji (raunar bætir Al-anon fólk oft við en ekki minn) og This too shall pass, sem er íslenskuð og heimildin endursögð í löngu máli  í Fallinu.

Annað sem virkar hálfgerður tvískinnungur er þegar gert er grín að manni í einni sniðugheitasögunni fyrir að reikna út alkóhólmagn í bjór versus léttöli á fáránlegan hátt (s. 182-184.) Mórallinn í þessari sögu er vitanlega sá, að alkóhólistar eins og aðrir geta reiknað yfir sig mikil vandræði með vísindalegum aðferðum. (s. 184). En sjálfur er Þráinn upptekinn af því að reikna út hve mörg ár hann hafi verið edrú og duglegur að draga föllin frá, líklega til að peppa upp sjálfsmyndina sem er vitaskuld ekki upp á marga fiska eftir fall. Hann virðist þó sjálfur sjá að þótt edrúárin séu mörg hafi fallbrautin kannski hafist á því að telja sig ekki lengur þurfa að stunda fundi reglulega. Samt er ekki ljóst hvort hann tengir saman útreikninga sína og fræðin um fallbrautina, kannski reiknar hann sjálfur yfir sig vandræði með vísindalegum aðferðum, í umfjöllun um sín mál í bókinni?

Nú hef ég lesið töluvert af alkabókum og alkóhólískum fræðum um ævina, hef því miður gleymt því flestu vegna annars sjúkdóms. Þó minnir mig að mér hafi fundist Og svo kom sólin upp (viðtalsbók Jónasar Jónassonar við ýmsa) og Þar sem vegurinn endar (eftir Hrafn Jökulsson) standa upp úr í þessum bókmenntageira. Aðall þeirra bóka er hreinskilni og einlægni sem gerir lesandanum ljósa hina sáru kviku alkóhólismans. Af bókum sem fjalla um aðra geðsjúkdóma bera Englar alheimsins og Sýnilegt myrkur höfuð og herðar yfir bækur af þeim toganum. Fyndni og kaldhæðni koma ekki í veg fyrir að slík einlægni skili sér, s.s. sjá má í Englum alheimsins, og tilvitnanir í ýmsa heimspekinga og menningarvita ekki heldur, eins og Sýnilegt myrkur sannar. Meira að segja bækur um alkóhólisma sem ég er algerlega ósammála, t.d. Alkasamfélagið eftir Orra Harðarson, grípa lesandann af því höfundurinn hefur sannfæringu og lýsir raunum sínum eða sigrum af einlægni fyrst og fremst.

Ég hef líka lesið talsvert af bókum Þráins Bertelssonar, hugsanlega allar, og þótt óminnishegrinn hafi plokkað þær úr heilabúinu (með aðstoð raflosta og annars sjúkdóms) man ég vel að mér hugnuðust vel nokkrar af þeim bókum. Svo ekki er þessi slæmi dómur sprottinn af sérstakri andúð á rithöfundinum. Mig grunar, einhverra hluta vegna, að Þráinn taki leiðbeiningum eða ráðleggingum ekkert sérstaklega vel (þrátt fyrir yfirlýsingar um að fá fúslega lánaða dómgreind hjá öðrum, öðru gæti alki raunar ekki haldið fram sé honum í mun að vera talinn í bata). Að mínu viti hefði Fallið hugsanlega getað orðið nokkuð góð bók ef lengri tími og meiri alúð hefði verið lögð í skriftirnar og ef höfundurinn hefði haft auðmýkt og hreinskilni að leiðarljósi fremur en sjálfsupphafningu.

En Fallið … hver er tilgangurinn með þessari bók? Meðan ég var að lesa hana fannst mér alltaf að sagan væri hálfsögð, að í bókina vantaði eitthvað mikilvægt og um miðja bók varð mér ljóst hvað það var: Það vantar algerlega einlægni!  Þótt hún eigi að fjalla um þessa lífsreynslu Þráins, sem hlýtur að hafa verið sár og tekið á, snerta þær frásagnir lesandann lítið því hann er ýmist svo upptekinn af því að vera sniðugur eða vellesinn (öllu heldur vel-ítvitnandi). Á einstaka stað má þó finna einlægni og auðmýkt, s.s. þegar hann segir frá örlögum briddsfélaga sinna frá í gamla daga eða þegar hann víkur að konunni sinni. Það er allt og sumt. Fallið er heldur ekki fræðslubók um alkóhólisma því hún inniheldur enga fræðslu sem ekki er löngu aðgengileg áður, raunar mun aðgengilegri fyrir þá sem eru að feta sín fyrstu spor, ýmist sem sjúklingar eða aðstandendur.

Fallið er fyrst og fremst skrípóbók um alkóhólisma.

P.s. Ég er sammála Þráni um að það sé illt að kapellunni á Vogi skuli hafa verið lokað. En ég held að trúarlegar skoðanir hafi skipt litlu máli, skv. orðinu á götunni fóru fram talsverð viðskipti með vímuefni í þessari kapellu – enda eini staðurinn þar sem hægt var að vera í friði – og þess vegna hafi þurft að loka henni. Veit ekki hvað er satt í þessu.

   

Eru geðlyf vond og geðlæknar spilltir?

Ég ætlaði að blogga færsluflokk um þunglyndi og óskiljanlegar árásir alls konar fólks á geðlyf og geðlækna. En nú nenni ég því eiginlega ekki, þetta verða strjálar færslur enda hef  ég margoft tjáð mig um efnið og yfirleitt verið að andmæla sama fólkinu sem heldur uppiteknum hætti í áróðri sem er nokkurn veginn svona:

  • Geðsjúkdómar eru ofgreindir;
  • Alltof mörgum eru gefin geðlyf;
  • Alltof mörgum er gefið alltof mikið af geðlyfjum;
  • Margir geðlæknar þiggja einhvers konar fríðindi frá lyfjafyrirtækjum og má því ætla að þeir séu nánast á mála hjá sömu fyrirtækjum;
  •  Síðasttalda staðhæfingin er ýmist skýring eða forsenda hinna fyrri.

Þessi áróður er klæddur í mismunandi fræðilegan búning, allt eftir hver skrifar. Gott dæmi um grein sem virðist ákaflega fræðileg, í þeim skilningi að þar er vísað út og suður í heimildir, er „Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni“, eftir Steindór J. Erlingsson, birt í Tímariti félagsráðgjafa 1. tbl. 2011, s. 5-13.  Niðurstöðurnar eru í stuttu máli þessar:

  • Geðlæknisfræði getur engan veginn sagt með vissu hver orsök geðraskana sé í raun og veru;
  • Flokkunar- og greiningarkerfi sjúkdóma (DSM og ICD) hafa haft þær afleiðingar að
    • 1) Fjöldi þeirra, sem greinast með geðraskanir og eru meðhöndlaðir sem sjúklingar virðist talsvert umfram það sem eðlilegt getur talist,
    • 2) lyfjafyrirtækin hafa nýtt sér þetta veika kerfi til að auka gríðarlega ávísun geðlyfja á Vesturlöndum og víðar.

Í greininni er svo bent á þá augljósu staðreynd að af því ekki er hægt að greina orsök geðraskana með vissu og rannsóknir á virkni lyfja gefi misvísandi niðurstöður byggi sjúkdómsgreining ævinlega að einhverju leyti á huglægu mati.

Ég hef í sjálfu sér ekkert við þessa lokaniðurstöðu að athuga, horfandi á hana sem þunglyndissjúklingur með viðamikla reynslu af lyfjaáti og öðrum aðferðum. En að mínu mati gildir nákvæmlega þetta sama um fjölda annarra sjúkdóma. Þar er hins vegar minna um að nokkrir einstaklingar fylki sér í krossferð gegn lyfjum og læknum.

En ég set stórt spurningarmerki við staðhæfingar á borð við að fjöldi þeirra sem greinast með geðraskanir og eru meðhöndlaðir sem sjúklingar virðist talsvert umfram það sem eðlilegt getur talist. Hver er þess umkominn að vita hver „eðlilegur“ fjöldi fólks með geðraskanir er? Er ekki mjög líklegt að geðraskanir hafi verið vangreindar til þessa og séu jafnvel enn?

Hvað gefur einstaklingum skotleyfi á akkúrat þennan sjúklingahóp? Þrátt fyrir yfirlýsingar á borð við að hlusta beri á sjónarmið þeirra sem nýta sér þjónustu geðheilbrigðiskerfisins „því ekki er hægt að líta á það sem sjálfsagt mál að þekking hinna faglærðu standi alltaf framar þeirri þekkingu sem notendur þjónustunnar búa yfir“ (s. 12 í fyrrnefndri grein Steindórs) kemur það alls ekki í veg fyrir að alls konar fólk fyllist forræðishyggju fyrir hönd geðsjúklinga og vilji hafa vit fyrir þeim. Sem öfgadæmi í þá áttina má nefna ýmsa umfjöllun sem heimilislæknirinn Vilhjálmur Ari Arason (sérmenntaður í sýklalyfjanotkun barna), Elín Ebba Ásmundsdóttir, iðjuþjálfi og Gunnar Smári Egilsson, blaðamaður, fyrir hönd SÁÁ, hafa viðhaft. (Í síðastnefnda tilvikinu hefur t.d.verið um beinar árásir á ADHD-sjúklinga og lækna þeirra að ræða.) Steindór J. Erlingsson hefur verið áberandi í samskonar umræðu en má eiga það að hann hefur ólíkt hinum bein kynni af þjónustu geðheilbrigðiskerfisins sem sjúklingur og  kynnir sér umfjöllunarefnið vel. Samt fellur Steindór raunar í þá óvísindalegu gryfju að fjalla einungis um efnið frá einni hlið. (Dugir t.d. að renna yfir fyrirsagnir á blogginu hans í október til að sjá hve einspora málflutningur hans er.)

Tökum sem dæmi aðra oft illlæknanlega sjúkdóma og illskiljanlega sjúkdóma. Húðsjúkdómar koma ágætlega til greina til samanburðar. Mér er ókunnugt um hvort einhver hafi haldið því fram að fjöldi þeirra sem greinist með húðsjúkdóma sé talsvert umfram það sem eðlilegt getur talist – enda blasir við sami vandinn og í geðsjúkdómum: Hver er eðlilegur fjöldi húðsjúkdómasjúklinga?

Oft er það svo að heimilislæknir er fyrsti aðili sem leitað er til. Viðtal hjá heimilislækni er í hæsta lagi korterslangt og vísast að sá ávísi á einhver húðlyf. Þegar þau virka ekki er leitað til sérfræðings í húðsjúkdómalækningum, sem ávísar sennilega á önnur lyf, eftir stutta skoðun. Ef þau virka ekki eru reynd önnur lyf. Og önnur. E.t.v. er sjúklingurinn sendur í einhver próf, t.d. ofnæmispróf, til að reyna að finna skýringuna. Hugsanlega kemur eitthvað út úr þeim prófum, hugsanlega ekki. Sjúklingurinn sjálfur reynir að afla sér fræðslu og prófar ýmsar óhefðbundnar aðferðir, frá jurtasmyrslum til þess að breyta um mataræði. (Ég tek fram að ég hef náin kynni af akkúrat svona píslargöngu sjúklings.) Þegar upp er staðið finnst kannski engin varanleg lausn; sjúklingurinn hefur kannski með tilraunastarfsemi og læknishjálp komist að einhverjum mögulegum orsökum sem koma af stað kasti og forðast þær en þær orsakir skýra ekki sjúkdóminn að fullu og hann getur alltaf blossað upp. Þá er gripið til lyfja til að slá á einkennin, oft sterkra steralyfja sem eru almennt talin heldur óholl og geta haft slæmar aukaverkanir.

Af hverju er ekki ráðist á þennan sjúklingahóp og þeirra lækna? Húðsjúkdómafræði getur ekki sagt með vissu hver er orsök margra húðsjúkdóma. Sífellt koma á markaðinn ný húðlyf og má því ætla að lyfjafyrirtæki sjái sér hagnaðarvon í markaðssetningu nýrra húðsjúkdómalyfja, sem virka á suma en ekki á aðra. Jafnvel getur verið að lyfjafyrirtæki í þessum geira snyrti til sínar niðurstöður og hagræði þeim, um það veit ég ekki. Hjálækningar í þessum málaflokki blómstra, ekki síður en í geðsjúkdómabissnissnum – jurtasmyrsl af öllu tagi, sull í Bláa lóninu, leirböð á Náttúrulækningarhælinu, detox-meðferð hjá Jónínu, fæðubótarefni alls konar … gott ef Fontana (Montana) rær ekki á sömu mið. Án þess ég viti það kæmi mér ekki á óvart þótt handayfirlagning, kristallalækningar, heilun og annað af því tagi væri líka í boði fyrir sjúklinga með slæma illlæknanlega húðsjúkdóma, jafnvel HAM, DAM og gjörhygli. Og ég reikna með að hægt sé að misnota einhver húðsjúkdómalyf, t.d. eta sterakremin, eta einhverjar pillur í óhófi eða misnota á annan hátt: Margskonar lyf er hægt að misnota ef viljinn er fyrir hendi.

Þrátt fyrir þetta hafa velmeinandi aðilar ekki verið nærri því eins duglegir að reyna að fá húðsjúkdómasjúklinga til að hætta að skipta við húðsjúkdómalækna og hætta að nota lyfin sín eins og þeir hafa hamrað á geðsjúkum. Gæti skýringin verið sú að geðsjúkir liggja miklu betur við höggi og eru ólíklegri til að bera hönd yfir höfuð sér, sjúkdómsins vegna, en þeir sem eru með ólæknandi exem? Er mögulegt að einhverjir þeirra sem hæst hafa um meinta ráðsmennsku geðlækna í garð sinna sjúklinga séu ekki hvattir áfram af velmeintum velferðarsjónarmiðum heldur einfaldri valdafíkn, þ.e.a.s. vilji fá að stjórna þessum sjúklingahópi því það er svo gaman að hafa vit fyrir fólki og fá að stjórna því? Og að svoleiðis innréttað fólk hafi séð í hendi sér að aðrir sjúklingahópar væru ólíklegir til að lúta stjórn fólks sem er stundum illa menntað eða ómenntað í þeim fræðum sem það vill endilega fá að ráðskast í?

——————————————————————————————————————————————————————–

Þetta er orðin nokkuð löng færsla og mál að linni. Ég hef þó áhuga á að blogga aðra færslu um muninn á sálfræðilegri nálgun þunglyndis og lyfjanotkun við þunglyndi, öllu heldur þau grundvallarsjónarmið sem liggja þar að baki og er kannski meginorsök þess að liðið í sálfræðibatteríinu (sálfræðingar, félagsráðgjafar, áfengisráðgjafar o.fl.) leggja allt undir til að ota sínum tota gegn geðlæknum, með dyggri aðstoð örfárra geðsjúklinga sem ekki hafa fengið bót meina sinna innan geðlækningakerfisins. Raunar held ég samt að aðalástæðan fyrir slíkri umræðu hér á landi sé fjárhagsleg: Menn eru að bítast um fé! Þeir sem lenda á milli stríðandi fylkinga, sjúklingarnir, skipta því miður oft litlu máli.

   
  
 

Af þunglyndi, reynslu og mismunandi niðurstöðu um lausnir.

Ég hef ekki getað bloggað um nokkurt skeið vegna þunglyndis. Raunar hef ég verið ansi veik í meir en ár núna án hlés en slíkt hefur ekki gerst áður. Öll lyfjaráð eru fullprófuð, sem og raflækningar, nálastungur o.fl. HAM meðferð sem ég sótti í fyrravor nýttist prýðilega til að fást við kvíða og ég nota þær aðferðir sem ég lærði þar enn þann dag í dag, þegar þarf en raunar leggst þunglyndið yfir kvíðann svo ég fæ yfirleitt ekki ofsakvíðaköst eða einkenni almennrar kvíðaröskunar nema ég sé sæmilega frísk af þunglyndi. HAM virkar hins vegar ekki baun á þunglyndið.

Fyrir skömmu ákvað ég að prófa nýtt ráð og fór í sólarlandaferð. Ég fór til Krítar, í fimmta sinn, dvaldi á stað sem ég gjörþekki, í kompaníi við indæla danska ellilífeyrisþega, á rólegum slóðum og himnesku veðri. Það kom ekki í veg fyrir að á þriðja degi dvalarinnar fékk ég slæmt þunglyndiskast, sem versnaði og versnaði uns svo var komið að ég sá að annað hvort yrði ég að leggja allt undir til að komast heim eða reikna með að koma heim í kistu. Mér tókst að breyta miðunum og stytti ferðina um viku. Niðurstaðan var sú að sól og hiti virkar ekki til bóta á mitt þunglyndi og þar með er sú aðferð einnig prófuð. Að vísu kom fram merkileg breyting sem ég hef aldrei áður upplifað: Sólarhringsferli líðanar snérist á hvolf! Ég sný öfugt við flesta þunglyndissjúklinga að því leytinu að mér líður skást á morgnana og verst seinni part dags og á kvöldin. Á Krít varð þetta öfugt, morgnar og framyfir miðjan dag voru helvíti en kvöldin skást. Umsnúningur yfir í venjulegt horf tók nokkra daga eftir heimkomu.

Síðar ætla ég að reyna að lýsa dæmigerðri líðan í djúpu þunglyndi eins og ég lifi í núna en læt það bíða að sinni.

Ég hef fylgst undanfarið með bloggi Steindórs J. Erlingssonar, Hugleiðingar um lífið og tilveruna, en hann hefur upp á síðkastið verið duglegur að blogga um eigið þunglyndi, lyf og geðlækna. Steindór skrifar vel og það er margt merkilegt sem hann segir, a.m.k. hefur margt vakið mig til umhugsunar og mér þótti hans eigin reynslusaga afar vel sögð og áhugaverð enda erum við líklega að glíma við sama eða svipaðan sjúkdóm og höfum um margt reynslu af sömu læknisráðum og sömu heilbrigðisstofnunum. En við erum, sýnist mér, algerlega ósammála um niðurstöðurnar af þessari lífsreynslu og þeirri þekkingu sem við höfum aflað okkur.

Í næstu færslum ætla ég að velta því fyrir mér hvernig geti staðið á því að við Steindór höfum komist að svo ólíkri niðurstöðu þrátt fyrir að mörgu leyti svipaða reynslu.

Ég held að eitt sem gæti útskýrt þessar mismunandi niðurstöður sé misgömul reynsla okkar beggja af áfengismeðferð. Ég fór í slíka meðferð vorið 1989 og hef stundað AA fundi allar götur síðan. Á þeim tíma var ég mjög þunglynd, hafði skömmu áður fengið greininguna “skammdegisþunglyndi” hjá geðlækni og tók henni fagnandi því ég gat að hluta afsakað drykkju með henni. Þegar ég horfi um öxl hef ég líklega verið með kvíðaraskanir og þunglyndiseinkenni frá unglingsárum en er af þeirri kynslóð að slíkt var ekki viðurkennt og auk þess alin upp við að menn eigi alltaf að harka af sér og láta ekki eins og aumingjar. (Ég get sosum ekki séð að þau viðhorf og uppeldi sem þá tíðkuðust skipti neinu máli fyrir mig í dag, þetta var almennt viðhorf og ég er löngu búin að gera upp fortíðina.) Áfengismeðferðin og veran í AA breytti mjög miklu í lífi mínu og líðan. Það er auðvitað augljóst að bara það að losna við hið dæmigerða alkaþunglyndi er mikil frelsun og AA eru stórkostleg mannræktarsamtök. Ég valdi mér ekki það hlutskipti að verða alkóhólisti, lít svo á að það sé arfgengur sjúkdómur sem ég get ekki borið ábyrgð á (og til lítils að fara að kenna einhverjum langfeðgum eða langmæðrum um röng gen). Ég ber hins vegar ábyrgð á lausninni, þ.e. að fást við sjúkdóminn, sem er aðallega fólgið í því að sækja fundi.

Svo fékk ég níu nokkuð góð ár eftir áfengismeðferðina og gat útskýrt niðursveiflur með síðhvörfum eða hafa ekki unnið nógu vel í mínum málum eða með öðrum alkaklisjum. Svo veiktist ég illa, fór á bráðamóttöku geðdeildar og var samstundis lögð inn. Síðan hefur sjúkdómurinn versnað með hverju árinu. Ég vann eins lengi og ég gat, var komin í skert starfshlutfall, var búin að leggja öll skemmtilegu aukastörfin á hilluna en loks var svo komið að ég varð óvinnufær með öllu, í desember 2009. Eftir langt veikindaleyfi, þar sem ég hélt dauðahaldi í vonina um að geta snúið aftur til starfa, þótt ekki væri nema í pínulítið hlutastarf, var ég metin 100% öryrki og eins og staðan er í dag er ekki í sjónmáli að ég geti unnið nokkurn skapaðan hlut. Nám, tómstundastarf eða annað þess háttar er líka út úr myndinni.

Það er talsvert styttra síðan Steindór J. Erlingsson fór í þá áfengismeðferð sem skilaði honum árangri og e.t.v. vara þau hughrif og frelsið undan alkaþunglyndinu ennþá honum til betri líðanar. Hugsanlega mótast viðhorf hans einnig af því sem maður lærir í slíkri meðferð, sá lærdómur var mér a.m.k. ofarlega í huga lengi eftir meðferðina. Það má segja að ég hafi trúað kennisetningum SÁÁ meira og minna allt til þess að ég varð svo veik vorið 1998 að ég gat nánast ekki talað og upplifði ofsakvíðaköst með tilheyrandi andnauð í fyrstu sinnin, a.m.k. svo ég muni. Þá hringdi ég náttúrlega fyrst á Vog, fékk að tala við lækni, sagði honum hvað ég hefði verið lengi edrú, lýsti svo líðan minni stamandi fyrir honum í símann og maðurinn sagði: “Iss, þetta eru bara síðhvörf – komdu inn á Vog og þú verður farin að hlæja að þessu eftir tvo daga!” Hefði ég farið að ráðum Einars læknis á Vogi væri ég ekki ofar moldu í dag. Sem betur fer var maðurinn minn ekki jafn heilaþveginn og ég (við Steindór eigum það sameiginlegt að eiga frábæra maka) og keyrði mig á bráðamóttöku geðdeildar.

En sem sagt: Mögulega getur mismunandi trú okkar Steindórs á fræði þau sem SÁÁ boðar skýrt að einhverju leyti mismunandi niðurstöður okkar um geðlyf og geðlækna. Og mögulega stafar mismunandi trúarsannfæringin af mismunandi löngum tíma sem liðinn er frá áfengismeðferð og því að þekking og viðhorf mótast á mjög löngum tíma innan AA samtakanna. Mætti segja að eftir því sem maður stundar þau samtök lengur og kynnist fleira fólki sem nýtir sér fjölbreyttari aðferðir til að axla ábyrgðina á sjúkdómnum alkóhólisma verði maður víðsýnni og taki ekki alveg eins mikið mark á “mainstream” hugmyndafræðinni sem er boðuð í meðferð og eftirmeðferðarstarfi. (Þetta á kannski einkum við um SÁÁ en ég hef þó grun um að svipað sé uppi á teningnum á Teigi.)

Til að slútta umfjöllun í bili vil ég gera athugasemd við nýjustu færslu Steindórs, “Enn um varasama geðlækna” þar sem hann heldur því fram að hann hafi vitneskju um geðlækni sem beinlínis banni sjúklingi sínum að prófa HAM-meðferð. Ég á afar bágt með að trúa þessu fyrir svo utan það að sjúklingurinn þarf auðvitað ekker leyfi læknisins til að skrá sig í hugræna atferlismeðferð fremur en hann þyrfti læknisleyfi til að skrá sig í Boot Camp eða jóga-námskeið eða prjónanámskeið eða hvað annað sem hann teldi að gæti gagnast sér til betri líðanar. Ef Steindór fer ekki þarna með fleipur er full ástæða til að láta Geðlæknafélagið vita af þessum geðlækni (en draga má þá ályktun af færslunni að læknirinn starfi á Íslandi) og að hann banni HAM. En er ekki líklegra að umræddur geðlæknir hafi ráðlagt sjúklingnum að láta HAM eiga sig í bili og byggi það á læknisfræðilegum forsendum? Stundum eru sjúklingar nefnilega svo veikir að það borgar sig fyrir þá að fara sér hægt og forðast áreynslu, sem HAM-meðferð óneitanlega er (hún krefst þess að sjúklingur leggi sitt af mörkum, annars virkar hún ekki).