Búin með bókina, hef fullt af skoðunum á henni en mun einungis tipla kringum örfá atriði.
Yfirlýst markmið Orra Harðarsonar með þessari bók er að benda fólki á að það geti orðið edrú og hamingjusamt án þess að blanda Guði eða AA-starfi (sem er gegnsósa af guði) í þá edrúgöngu. Ég bendi á að þetta hefur alltaf verið hægt og kallast “að vera á hnefanum”. Ólíkar fylkingar í bransanum hafa svo ólíkar skoðanir á hvursu jákvætt sé að vera á hnefanum.
Orri nær þessu markmiði sínu prýðilega: Það er gjörsamlega geirneglt í haus lesanda að hægt sé að verða edrú án guðs. Rök Orra eru, merkilegt nokk, flest sótt í smiðju AA eða Oxford-hreyfingarinnar og felst röksemdafærslan í að benda á hvað hinir eru vitlausir. Það er heimskulegt að trúa á hjálp guðs, spor, bænir o.s.fr. Þess vegna er kirkjan á Staðarfelli vond kirkja og gerir mann vitlaust edrú, talibanar eru illir o.s.fr. (Ég er reyndar sammála Orra um að talibanar reiði ekki endilega vitið í þverpokunum en maður verður að hafa samúð með fólki sem hefur einungis lesið eina bók um ævina og það AA-bókina. Svo er soldið kjút þegar talibanar vilja koma saman og lesa saman í bókinni 🙂 Aftur á móti kýs ég aðra fundi en þá bænheitu talibanafundi.)
Úbbs, ég er komin út af sporinu … Nema Orri minnir mig óskaplega mikið á afa minn heitinn. Báðir trúlausir í kirkjulegum skilningi, báðum í mun að berja sér á brjóst og upplýsa trúleysið á torgum og báðir trúandi á vitleysinga; afi hélt upp á Jósef Stalín, Orri er með Þórberg á hægra brjóstinu! Mér finnst alltaf svo merkilegt þegar mestu ofsatrúarmennirnir eru yfirlýstir guðleysingjar! Og ég hef aldrei skilið af hverju Þórbergur er kallaður Meistari Þórbergur af ákveðinni intellígensíugrúppu þegar maðurinn gekk augljóslega ekki heill til skógar, hvort sem hann var nú sjálfbjarga einhverfur eða með Asberger syndróm. Af hverju þá ekki Meistari Birkiland? Eða Meistari Guð?
Bókin hans Orra er alltof hraðsoðin! M.a. má finna knúsaðar setningar og málsgreinar, sem ég veit að er sjaldgæft í hans ritstíl – yfirleitt skrifar Orri ljósan og lipran texta. Alls konar sleggjudómar eru settir í gæsalappir en það er ekki fyrr vel er liðið á textann sem farið er að vitna í heimildir. Í rauninni hefði þurft heimildaskrá í lokin því bókin er ein löng heimildaritgerð. Góður yfirlestur hefði sumsé bjargað miklu í þessari bók. Besta björgin hefði þó verið að salta textann í einhverja mánuði og ná fjarlægð á efnið. Þetta er jú bók en ekki hraðskrifuð bloggfærsla.
Afi gat ekki farið á Vog af því þar var svo mikið trúboð! (Amma minntist alltaf á Vog við mig eftir að ég komst sjálf á snúruna, fyrir tæpum 20 árum.) Þegar ég hef verið að hugsa um huggandi texta eða lífsskoðanir undanfarið þá held ég að Jósef Stalín hefði dugað ættinni skammt! Ég gæti aftur á móti vel trúað að gamli maðurinn hefði orðið hrifinn af Alkasamfélaginu, sérstaklega hugmyndunum í fyrri hluta bókarinnar þar sem verið er að sýna fram á að “þetta sé allt eitt stórt samsæri”, eins og vænisjúki Norðmaðurinn í Spaugstofunni hefði orðað það.
Orri ætlar bókina sína e.t.v. til eftirbreytni. Ég staðhæfi að það er minna gagn af lífsreglum Meistara Þórbergs en bænum, í þeirri þeytivindu sem full meðferð er. Ég skráði mig úr Þjóðkirkjunni fyrir um 30 árum. Það stóð mér ekki fyrir þrifum að hlusta á Davíðssálma í litlu kirkjunni og syngja Hærra minn guð til þín. Mér var sagt að gott væri að koma við í kirkjunni á morgnana, draga mannakorn og íhuga textann, ásamt því lesa bæn dagsins í Sálmabókinni. Mér var sagt að líta á þetta sem æfingu í að kyrra hugann. Þetta gerði ég og varð gott af.
Mér finnst svona bók eins og Alkasamfélagið Orra ansi hættuleg ákveðnum hópi. Hvað með alla þá sem segja: Ég læt afvatna mig í Líbríumþjónustu Vogs; hitti svo bara Jón og Gunnu útí bæ yfir kaffisopa og læt þetta AA batterí alveg eiga sig: Það er hvort sem er búið að sýna hvað þetta er mikið kjaftæði allt saman! Vígstaða aðstandenda verður mun verri og möguleikar á virkri íhlutun þeirra, vinnuveitenda eða annarra sem vilja bata alkóhólista. Ég er doldið hrædd um að þessi ákveðni alkahópur líti lipurlega fram hjá þrettán ára linnulitlum tilraunum til edrúmennsku eða þeim misheppnuðu meðferðum sem á endanum leiddu til niðurstöðu Orra.
Læt þá þessu tipli lokið …