Aðalsíða

Landnám á Grænlandi
Sjá einnig staðhætti á Grænlandi.

Íslendingar námu land í Eystribyggð um 985. Byggðir norrænna manna á Grænlandi voru 2, báðar staðsettar við Suð-vesturströndina og voru kallaðar Vestri- og Eystribyggð. Í fornum heimildum eru býlin talin hafa verið um 90 í Vestribyggð sem skiptust í 4 sóknir og um 190 í Eystribyggð en þar voru sóknirnar 12. Af þessu er dregin sú ályktun að íbúarnir hafi verið um 3-4000 þegar best lét. Síðari tíma rannsóknir hafa leitt í ljós að síst er oftalið en fundist hafa menjar yfir um 200 býla í Eystribyggð og um 80 í Vestribyggð.

Sagan segir að Eiríkur rauði hafi komið til Íslands ásamt föður sínum,Þorvaldi, á flótta frá Noregi. En þá var landnám um garð gengið og því þurftu þeir að sætta sig við hrjóstrugan kofa á Dröngum, vestan Drangjökuls.  Eiríkur giftist inn í góða fjölskyldu en konan hans var Þjóðhildur Jörundardóttir úr Haukadal í Dölum.  Og þangað flutti hann eftir lát föður síns.

DrangarHvammsfjörður
[Þú getur fengið sérstakt kort ef þú ýtir á Hvammsfjörð á kortinu. Það kort er einnig gagnvirkt. Frekari upplýsingar má líka fá um Dranga. Kortið teiknaði Þórunn.] 

Eiríkur lenti í vígaferlum og var gerður útlægur úr  Haukadal. Hann flutti því vestur og nam land í Öxney fyrir mynni Hvammsfjarðar. Aftur lendir hann í málarferlum og að þessu sinni er hann dæmdur til 3 ára útlegðar á Þórsnesþingi árið 982. Hann leitar lands í vestri, Gunnbjarnaskerja, sem Gunnbjörn, sonur Úlfs kráku, hafði fundið er hann rak vestur í haf. Eiríkur hélt þar til þau 3 ár sem hann var dæmdur til útlegðar og kannaði staðhætti til búsetu.

Síðan hélt hann aftur heim til Íslands og fékk samherja til landnáms. Hann  kallaði landið  Grænland því hann taldi að menn langaði að fara þangað ef landið héti vel. Eiríkur fékk með sér 25 skip, um 5-700 manns, auk búpenings frá Borgarfirði og Breiðarfirði til fararinnar. Ferðin gekk samt illa og aðeins 14 skip náðu landi. [Myndin sýnir að Grænland getur verið grænt!  Hannes Þorsteinsson, kennari í FVA, tók myndina og leyfði okkur að nota hana á þessar síður.  Ef þú ýtir á myndina sérðu sömu mynd stærri og skýrari.]

Eins og á Íslandi, var landnám Grænlands skipulagt frá yfirstéttarsjónarmiði. Nokkrir höfðingjar skiptu landinu á milli sín og síðan fengu ættingjar og aðrir fylgismenn leyfi til að reisa bú í landi þeirra með tilteknum kvöðum. Þjóðfélagið, sem varð til á Grænlandi með landnámi norrænna manna, líktist íslensku samfélagi í öllum atriðum. Landnemarnir stofnuðu eigið þing, tóku kristni, reistu kirkjur og stofnuðu biskupstól.

Brattahlíð var höfuðstaður Grænlands á tímum Eiríks rauða og lengstum aðsetur veraldlegra höfðingja. Þing var háð á fyrstu árum landnáms á Grænlandi. Eiríki líkaði illa kristna trúin og bölvaði henni til dauðadags.

Hvað varð um norræna menn á Gænlandi?

Ýmsar kenningar eru uppi um hvarf norrænna manna frá Grænlandi. Þeirri spurningu verður líklega aldrei svarað en til er fullt af getgátum um hvarf þeirra. T.d. að þeir hafi soltið í hel, að þeir hafi úrkynjast, að þeir hafi lent í bardaga við inúítana og tapað, að enskir sjóræningjar hafi komið og stráfellt þá, að þeir hafi orðið drepsótt að bráð, að siglingar hafi lagst niður eða að veðráttan hafi hreinlega stórversnað og búskapurinn brugðist.

Á ráðstefnu fræðimanna í Santa Cruz á Kanaríeyjum komu upp nýjar kenningar um hvarf norrænna manna. Þær voru eitthvað á þá leið að portúgölsk skip sem komu til Grænlands árin 1470 og 1477 hafi tælt norrænu mennina í skip sín og selt þá á þrælamarkaði í Tenerife. Heimildir þykja styðja þetta, svo sem örnefni og minjar á Tenerife. Gagnrýnisraddir telja þó ótrúlegt að uppruninn hafi ekki varðveist í munnmælum meðal hinna norrænu manna á Tenerife.

Það eru samt engar almennilegar sannanir fyrir hvarfi norrænna frá Grænlandi og mun það líklegast halda áfram að vera ein stór ráðgáta.
 

Heimildir fengnar úr bókinni Útivist 21 frá 1995
 

English Page - Landnám - Staðhættir - Persónur - Sagnfræði - Hugleiðingar - Nemendur - Aðalsíða