Category Archives: Saga Prjóns

Klukkuprjón, seinni hluti

Í færslunni segir af  mörgum heitum og margháttuðu eðli klukkuprjóns.

 

Klukkuprjón hefur víðast hvar verið nefnt patent – prjón, heitið giska ég á að sé komið úr hollensku eða þýsku.  Á Englandi þekktust heitin Shawl Stitch, Reverse Lace Stitch, Oriental Rib Stitch, að sögn Mary Thomas (Mary  Thomas’s Book of Knitting Patterns, 1972 s. 193, fyrst útg. 1943) en algengast segir hún þó heitin Brioche Stitch eða English Brioche. Hún bendir jafnframt á að þótt enskir vilja nota franskt orð yfir prjónaðferðina þá sé hún kölluð enskt prjón í Frakklandi, þ.e. Point d’Angleterre.

 

Hér á landi virðist klukkuprjón einnig hafa verið kallað enskt prjón, ef marka má þýðingu Sigurjóns Jónssonar á endurminningum Gythu Thorlacius eða auglýsingar á borð við Þ. Stefánsdóttur og Sigtr. Jónssonar í Stefni 3. jan. 1893 s. 4: “Frá nýári tökum við að okkur að prjóna: Karlmannspeisur með ensku prjóni […] – með ensku prjóni samsettar – […] Pilz með ensku prjóni” og er ljóst að þau hafa yfir prjónavél að ráða. Sömuleiðis kemur fram í Maren. Þjóðlífsþáttum eftir Þórunni Elfu Magnúsdóttur, sem segja frá Maren, móðursystur höfundar, að laust eftir 1915 prjónaði eiginmaður Marenar trefla með ensku prjóni í prjónavél þeirra hjóna. (Sjá Tíminn Sunnudagsblað, jan. 1972, s. 27. )


Til að flækja málin getur heitið enskt prjón  merkt annað á íslensku, sbr. uppskrift að útifötum á börn í Fálkanum 5. maí 1939 s. 10. Þar er talað um “enska brugðningu” eða “enskt prjón”. Skv. lýsingu í uppskriftinni er þarna um að ræða “Mistake rib“, sem komist hefur í tísku undanfarið ef marka má Netið, en ekki klukkuprjón.
Í My Knitting Book eftir Miss Lambert, sem kom út árið 1842 og varð gífurlega vinsæl (eins og aðrar hannyrðakennslubækur þeirrar ágætu konu) er klukkuprjón nefnt brioche og segir að heitið sé dregið af velþekktu frönsku bakkelsi, nokkurs konar bollu, sem heitir Brioche. Orðskýringu fröken Lambert er að finna í uppskrift að fótskemli, púða, sem er vissulega glettilega líkur svona franskri bollu, s. 22. (Krækt er í stafræna sjöundu útgáfu bókarinnar.) Svoleiðis klukkuprjónaðir fótskemlar virðast hafa notið mikilla vinsælda á Viktoríutímunum og voru stundum kallaðir tyrkneskir púðar (Turkish Cushion), sem gæti einmitt skýrt nafngiftina sem Mary Thomas minnist á, Oriental Rib Stitch. Í sömu bók Miss Lambert er uppskrift að rússnesku sjali með klukkuprjóni (A Russian Shawl, in Brioche Stitch) sem gæti þá skýrt af hverju heitið Shawl Stitch þekktist yfir klukkuprjón meðal enskra.

Raunar er sömu uppskrift að Brioche fótskemlinum hennar Miss Lambert  að finna í Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir, útg. 1886 (Sjá uppdrætti 250 og 269). Í íslensku bókinni segir um púðann: “Fótskör þessi á að vera kringlótt í laginu, bungumynduð, með hvilft í miðjunni, hún er troðin út með ull, vel þuru heyi eða marhálmi. Innra borðið er úr striga að öðru sterku efni, en yfirborðið er prjónað eptir 250. uppdr. og skýrir fyrirsögn á 250. uppdrætti frá, hvernig prjóna skal.” En 250. uppdráttur var einmitt leiðbeiningarnar í klukkuprjóni sem vísað var til í fyrri færslu.

Hér að neðan sjást myndir af þessari Brioche-fótskör. Önnur myndin er úr bók Miss Lambert, The Hand-book of Needlework by Miss Lambert (F.), útg. 1842. s. 200, og krækir í stafræna útgáfu bókarinnar.  Hin myndin er úr Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir.

 

Klukkuprjónaður fótskemill Klukkuprjónaður fótskemill

 

 Klukkurnar hafa runnið sitt skeið enda konur löngu farnar að ganga í brókum yst sem innst. Yngsta dæmi um íslenskar prjónaklukkur sem ég fann er frá 1944, þ.e. frétt um að stofnuð hafi verið samtök prjónakvenna á Ísafirði og kauptaxta félagskvenna. Í honum eru  “Prjónaklukkur” taldar upp undir “Kvenfatnaður:” Skutull 29. jan. 1944, s. 14.  Hafi einhver áhuga á íslenskum prjónaklukkum má benda á fróðlega bloggfærslu Steinunnar Birnu Guðjónsdóttur frá því í ágúst sl., þar sem hún birtir hluta af verkefni sínu í þjóðfræðinámi í HÍ, þ.á.m. orðrétt svör við spurningum Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins um prjónaklukkur.

 

En klukkuprjón í ýmsum útgáfum gengur nú í endurnýjun lífdaga, ef marka má áhuga á erlendum prjónasíðum. Einkanlega á þetta við um tvílitt klukkuprjón, langoftast kallað brioche, sem er sáraeinfalt að prjóna í hring , eilítið meira vesen er að prjóna það fram og til baka.
Í töflunni hér að neðan eru myndir af ýmsum afbrigðum klukkuprjóns og heitum þeirra á íslensku, ensku og skandinavísku. Litlu myndirnar krækja í myndbönd á Garnstudio.no sem sýna prjónið. Ath. að nú má stilla Garnstudio.no á íslensku og lesa textann við myndböndin á íslensku.

Aðferð Íslenskt heiti Skandinavískt heiti Enskt heiti
  • Klukkuprjón
  •  Helpatent
  • Fisherman’s Rib;
  • English Rib;
  • Brioche stitch
Klukkuprjón í hring
  • Klukkuprjón prjónað í hring

á hringprjóna

  • Patent rundt på

rundpinde

  • Fisherman’s Rib in the

round

Hálfklukkuprjón
  • Hálfklukkuprjón;
  • Klukkuprjón – hálft
  •  Halvpatent
  • Shaker Rib;
  • Half Fisherman;
  • Half Fisherman’s Rib;
  • Embossed Rib
Hálfklukkuprjón bara sléttprjónað
  • Hálfklukkuprjón eingöngu sléttprjónað;
  • Klukkuprjón einungis

með sléttum lykkjum

  • Patent kun med

retmasker

  • Fisherman’s Rib with

Knit stitches only

Falskt klukkuprjón
  • Falskt klukkuprjón;
  • Klukkuprjón – afbrigði
  •  Falsk patent
  • False Fishermans Rib;
  • Fake Fisherman
 Tvílitt klukkuprjón
  • Tvílitt klukkuprjón;
    Klukkuprjón – tveir litir
  •   Patent i tvo farver
  • English Rib in two colours;
    Brioche

 

 

 
P.S. Loks má geta þess að klukkuprjón gat hentað til annarra mikilvægra nota en að prjóna klukkur, trefla, nærföt o.þ.h., sem sjá má hér

 

 

Klukkuprjón, fyrri hluti

KlukkuprjónSvo sem rakið var í færslunni Fyrsti prjónakennarinn og fyrsti hönnunarstuldurinn  kenndi frú Gytha Thorlacius, dönsk sýslumannsfrú, Íslendingum klukkuprjón laust eftir 1800. Þær fátæklegu heimildir sem til eru um prjón á Íslandi fyrr á öldum (nokkrar flíkur og pjötlur sem fundist hafa í fornleifauppgreftri, auk ritheimilda) benda til þess að hérlendis hafi prjónakunnátta lengstum falist í einföldu sléttu prjóni í hring, einstaka sinnum brugðnu prjóni, svo klukkuprjónið hefur verið mikil tækninýjung á sínum tíma.

Í elstu íslensku hannyrðakennslubókinni, Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir, eftir þær Þóru Pjetursdóttur, Jarðþrúði Jónsdóttur og Þóru Jónsdóttur, útg. 1886, eru nokkrar prjónauppskriftir. Þar á meðal er uppskrift að “Prjóni á fótskör” (250. uppdráttur, s. 16.) Fótskör er skemill, þ.e.a.s. pulla/púði undir fæturna. Í þessari uppskrift segir að prjóna skuli með klukkuprjóni og því lýst. (Það er raunar líka eftirtektarvert að í uppskriftinni er gert ráð fyrir styttum umferðum, svo sem nú eru mjög í prjónatísku.)

Næst ber klukkuprjón í íslenskri hannyrðakennslu óbeint á góma í Kvennafræðaranum eftir Elínu Eggertsdóttur Briem, útg. 1891. Þar er uppskrift að trefli sem prjónaður er með klukkuprjóni, án þess að heiti prjónsins sé nefnt. (Sjá s. 336, titillinn krækir í þá síðu.)

 

Í auglýsingum um og fyrir aldamótin 1900 má sjá minnst á klukkuprjón, t.d.:

  • Ragnhildur Ólafsdóttir í Engey vill leiðrétta sögusagnir um verðskrá síns prjónless í Þjóðólfi 2. mars 1888  og tiltekur m.a.: “[…] skyrtur handa fullorðnum, klukkuprjónaðar 1 kr.”
  • Sigmar Bro’s &Co í Manitoba: “Klukkuprjónaður karlmanna nærfatnaður – það, sem þér þarfnist mest í kuldanum – […]” Lögberg 18. nóv. 1909, s. 8.

En af  hverju heitir aðferðin þessu sérstaka nafni klukkuprjón á íslensku? Einfaldasta skýringin er sú að klukkur hafi gjarna verið prjónaðar með þessu prjóni.

 

Klukkur

Klukka var undirpils/millipils. Slík pils voru oft prjónuð og síðan þæfð vel eins og flest annað prjónles. Mér er ekki kunnugt um hvenær íslenskar konur hófu að ganga í klukkum – eða öllu kalla undirpilsin sín /millipilsin því nafni.

Elsta dæmið sem ég fann um orðið klukka í þessari merkingu er brot úr frægu kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Illur lækur (eða Heimasetan), sem er nokkuð örugglega ort árið 1844.  Kvæðið lagt í munn smástelpu sem segir móður sinni frá læknum sem lék hana grátt. Hún segi m.a.:

Klukkan mín, svo hvít og hrein,
hún er nú öll vot að neðan;

Þótt klukkur hafi verið undirpils kvenna þá virðist sem börn hafi einnig verið látin ganga í svoleiðis flíkum, jafnt stúlkubörn sem drengbörn. Má t.d. nefna gagnrýni Jóns Thorsteinssonar landlæknis á að smábörn séu höfð brókarlaus í klukkum: “[- – -] að þegar børn eru komin á annað og þriðja ár, og þau eru farin að vappa úti, láta sumir þau gánga í klukku, sem svo er kølluð, en hún er eins og pils að neðanverðu, svo børnin eru ber um lærin og neðantil um lífið innanundir, og gýs vindur og gola því uppundir þau, svo þeim verður opt kaldt á lærum og á maganum […].” (Sjá Hugvekju um Medferd á úngbørnum samantekin handa mædrum og barnfóstrum á Islandi af Jóni Thorstensen, útg. 1846, hér er krækt í hugvekjuna í Búnaðarriti Suðuramtsins húss- og bústjórnarfélags, 1. tölublað 1846, bls. 87).

Þessi lýsing kemur heim og saman við kvæði Benedikts Gröndal (1826-1907), Æskuna, þar sem hann lýsir áhyggjuleysi bernskunnar:

Hljóp ég kátur
í klukku minni.

PrjónaklukkaHeitið klukka er komið úr dönsku og er saga klukkanna þarlendis rakin á þessa leið:

Ullarklukkan var undirpils, úr vaðmáli en á nítjándu öld var algengast að hún væri prjónuð. Heitið er dregið af því hve pilsið líkist klukku en vera má að enska heitið cloak, yfir slá eða frakka, hafi eitthvað spilað inn í nafngiftina.

Klukkum klæddust konur á veturna, milli nærserks og ytra pils, og stundum voru þær á klukkunum einum saman innanhúss. Stundum var saumaður nokkurs konar upphlutur við klukkuna svo hún líktist nærkjól. Ullarklukkur voru notaðar í Danmörku fram yfir aldamótin 1900 þótt drægi mjög úr vinsældum þeirra með breyttri tísku á síðasta hluta nítjándu aldar.  (Lita Rosing-Schow. Kradse klokker. Strikkede uldklokker fra Nordsjælland. Dragtjournalen 3. árg. 5. hefti 2009, s. 34-39.)

Myndin hér að ofan er tekin traustataki úr greininni og er af 70 cm síðri klukku, prjónaðri með klukkuprjóni. Af því það tíðkaðist að prjóna klukkuprjón fram og til baka er klukkan gerð úr þremur renningum sem svo eru saumaðir saman. Byrjað er á renningunum þar sem nú er pilsfaldurinn og tekið úr eftir því sem ofar dró, heldur er úrtakan tilviljanakennd segir í greininni en af umfjöllun má marka að reynt var að taka úr á jöðrum hvers rennings/stykkis til að minna bæri á úrtökunni. Efst á renningunum var svo prjónað 12 cm stroff og loks saumaður mittisstrengur eftir að búið var að sauma renningana saman í klukku. Þessi klukka er talin frá miðri nítjándu öld og er varðveitt á Byggðsafninu í Hillerød, Danmörku.

Kannski voru íslenskar prjónaðar klukkur fluttar út ekkert síður en sokkar, vettlingar og peysur? A.m.k. bendir þessi klausa úr sögu Hermans Bang, Ved vejen (útg. 1886) til þess (sagan gerist í ónefndum dönskum bæ og þar sem sögu er komið skellur á úrhelli og hver flýr sem fætur toga í skjól undan því):

Det var en Renden til alle Porte. Koner og Piger slog Skørterne over Hovedet og løb af med Lommetørklæderne i Firkant over det nye Hatte.
– Hej, hej, sagde Bai, nu kommer s’gu Klokkerne frem.
Pigerne stod rundt i Portene, blaastrømpede og med de islandske Uldklokker om Stolperne.

(s. 125,  krækt er í netútgáfu sögunnar).

Um svipað leyti og Herman Bang lýsti hinni erótísku sjón þegar stúlkurnar stóðu á íslensku ullarklukkunum og bláu sokkunum einum saman var Eiríkur Magnússon, herra kand. theol. í Lundúnum og fréttaritari tímaritsins Íslendings meðfram því, að reyna að fræða Íslendinga um ýmsar deilur og annað fréttnæmt utanlands;  í einni greininni stakk hann upp á orðinu klukku-þön fyrir krínólínu. (Íslendingur, 8. jan. 1863, s. 125.) Því miður hlaut sú uppástunga engan hljómgrunn þótt orðið sé óneitanlega miklu gagnsærra og skemmtilegra en útlenda slettan.

Hér er látið staðar numið í bili í umfjöllun um þá merkilegu prjónaaðferð klukkuprjón og þær skemmtilegu flíkur klukkur. Í framhaldsfærslu verður m.a. fjallað um mismunandi heiti prjónaðferðarinnar á öðrum tungum og hvernig klukkuprjón hefur verið hafið til vegs og virðingar á allra síðustu árum.

 

Fyrsti prjónakennarinn og fyrsti hönnunarstuldurinn

Hér segir af fyrsta nafngreinda prjónakennaranum á Íslandi, af upphafi klukkuprjóns hérlendis og af fyrsta fyrirhugaða prjónahönnunarstuldinum hérlendis.
Gytha thorlacius Gytha Steffensen Howitz fæddist árið 1782 í Lundbyvester á Amager og var dóttir gestgjafa/kráareiganda. Hún giftist Íslendingnum Theodorus Thorlacius, syni Skúla Thorlaciusar rektors við Frúarskóla í Kaupmannahöfn, árið 1801. Á Íslandi var Theodorus ævinlega kallaður Þórður enda heitinn eftir afa sínum íslenskum. Þórður hafði sama ár fengið veitingu fyrir sýslumannsembætti í Suður-Múlasýslu og héldu þau hjónin til Íslands og settust að í Eskifirði. Þau bjuggu á Íslandi til 1815 en fluttust þá aftur til Danmerkur.

Gytha Thorlacius skrifaði endurminningar sínar frá Íslandi löngu síðar. Því miður er frumritið glatað en tengdasonur hennar sá um að hluti endurminninganna væri gefinn út árið 1845, stytti sjálfur frásögn Gythu eftir sínu höfði og umorðaði víða. Bókin heitir Fru Th.s erindringer fra Iisland og er aðgengileg á Vefnum (hér er krækt í þá útgáfu). Árið 1930 var bókin endurútgefin undir nafninu Fru Gytha Thorlacius’ erindringer fra Island i aarene 1801-1815 og sú útgáfa var þýdd á íslensku af Sigurjóni Jónssyni lækni; kom út árið 1947 undir heitinu Endurminningar frú Gyðu Thorlacius frá dvöl hennar á Íslandi 1801-1815. Í fljótu bragði virðist, sé textinn skoðaður í heild, sem „lagfæringar‟ og skýringar þessara þriggja karla sem um textann hafa vélað, tengdasonarins, barnabarnabarnsins sem sá um endurútgáfuna og íslenska læknisins séu síst til bóta en það er ekki efni þessarar færslu.

 
Hér verður einungis staldrað við þann hluta endurminninganna þar sem segir frá því hvernig Gytha kenndi Íslendingum að prjóna fallegt prjónles í litum, ganga þannig frá því að það líktist ofnu klæði, og að prjóna klukkuprjón. Sjálfsagt má rekja klukkuprjónskunnáttu landans til hennar og mögulega náði annar lærdómur hennar í prjóni einhverri útbreiðslu.  Á móti kenndu íslenskir henni sitthvað í litun garns.

 

VormeldúkurSem sést af textanum hér að neðan var Gytha að reyna að finna aðferðir til að prjónles líktist vaðmáli/ofnu klæði, sem er skiljanlegt í ljósi þess að það er miklu seinlegra að vefa en að prjóna. Ég giska á að hún hafi verið að reyna að ná áferð vormeldúks/ormeldúks sem var mikið notaður í fatagerð á nítjándu öld. Miðað við ýmsar heimildir hafa Austfirðingar einmitt staðið framarlega í vormeldúksvefnaði allt frá miðri nítjándu öld og e.t.v. hafa þeir kunnað þá list vel á dögum Gythu. (Sjá mynd af vormeldúk í sauðalitunum hér til hliðar.)

En vindum okkur í frásögn Gythu sjálfrar. Líklega gerist þessi hluti einhvern tíma á árunum 1807-1813. Hér er fyrst birtur textinn í þýðingu Sigurjóns Jónssonar (s. 108-109 í útgáfunni frá 1947), þar fyrir neðan er stafréttur textinn úr fyrstu útgáfu endurminninga Gyðu (s. 97-99). Athugasemdir innan hornklofa í íslensku þýðingunni eru mínar. Ég hef einnig sett inn millifyrirsagnir og skipt textanum í efnisgreinar.

 

Heimilisiðja Gythu Thorlacius

Frú Th. segir líka þarna nokkuð frá vinnubrögðum sínum, bæði um þetta leyti og á fyrri árum. Hún kenndi Íslendingum „patentprjón‟ [í neðanmálsgrein segir Sigurjón Jónsson: „Í aths. aftan við útg. frá 1930 segir, að prjónles prjónað með þessum hætti sé þykkra og líkara dúk en venjulegt prjónles. Ef til vill er þetta sama sem klukkuprjón eða enskt prjón.‟ Patenstrikning er danska heitið á klukkuprjóni, sem kann einnig að hafa verið kallað enskt prjón hér á landi. Klukkuprjón líkist dúk/ofnu klæði ekki hið minnsta.] og fleiri prjónaðferðir.

 
Litunaraðferðir

Þeir kenndu henni í staðinn að lita úr jurtum, sem hinir sparsömu [hér væri nægjusömu kannski betri þýðing] eyjarskeggjar kunnu að færa sér í nyt á hugvitsamlegan hátt. „Það er víst um það‟, ritar hún, “að þeir eru miklu betur að sér en vér í þessu efni. Þegar þeir ætla að safna vætu úr mönnum eða dýrum [í neðanmálsgrein bendir Sigurjón réttilega á að frúin eigi vitanlega við þvag] til að búa til litunarlöginn, þá vita þeir upp á hár, hvaða fæðu og drykkjar hver um sig á neyta og hvaða skepnutegund á nota til að fá þennan litinn eða hinn. Þessi fróðleikur var mér bæði nýstárlegur og nytsamur.

Ég gat fengið þrenns konar eða ferns konar lit á ullarband, er ég litaði úr brúnspónslegi [Gytha talar um rauðspón, þ.e. Brasilíutré  sem stundum var kallaður brúnspónn á íslensku en stundum á orðið brúnspónn við annars konar við], með því að skola það úr misjafnlega sterku grænsápuvatni. Notaði ég það til að gera tilbreyting í prjónlesið [öllu heldur segir Gytha að hún hafi með þessu náð fram litbrigðum – sjatteringum – í prjónlesinu].

Hárautt vantaði mig illilega. En ég dó ekki ráðalaus. Maðurinn keypti töluvert af hárauðum böndum [hárauðum borðum] á uppboði í kauptúninu. Ég rakti þau upp og prjónaði úr
bandinu.

 

Hvernig láta má prjónles líkjast ofnu klæði

Mig vanhagaði um vestisefni. [Gyða talar um betri klæði, líklega spariföt, en minnist ekki á vesti.] En þegar mjúkt þelband var prjónað með röndum og prjónlesið þæft og fergt, sýndist mér það vera útlits eins og klæði. Ég gerði þetta, prjónaði rendur með litum, er vel áttu við á svörtum eða gráum grunni, þæfði, kembdi [ýfði] og fergði. Öllum þótti þetta efni nytsamlegt og dáindis fallegt. Ég gaf nokkuð af því, til þess að koma skriði á þessi vinnubrögð.‟

 

Kennsla í klukkuprjónuðum teppum

Nóg var til af ull  [ klukkuprjón er miklu garnfrekara en venjulegt slétt og brugðið prjón] á heimilinu og lét því frúin vinnufólk sitt líka prjóna „patenprjón‟ með fábreyttum litum. Þetta prjónles var líka þæft og fergt og búnar til gólfábreiður úr því grófara, en rúmábreiður úr því, sem fíngerðara var. „Við þurfum ekki að nota neitt til fatnaðar á heimilinu‟, ritar frúin, „annað en heimaunnið efni, nema í frakka handa manninum mínum‟.

 

Áformaður hönnunarstuldur

– Þegar sýslumaður var í þann veginn að leggja af stað til hins nýja embættis síns [sýslumannsembættis í Árnessýslu, um áramótin 1813/14], stakk hann upp á því við konu sína, að hún skyldi láta sig útvega yfirlýsingu embættismanna og verzlunarmanna á Eskifirði og þar í nágrenninu um það, að hún hefði orðið fyrst til þess að taka þar upp prjónaðferðir þær, sem áður er getið. en hún bað hann að gera það ekki, því hún vildi ógjarna vekja öfund annarra né gefa neinum tilefni til að ætla, að sig langaði til að fá meðmæli til að öðlast verðlaun frá Landbúnaðarfélaginu í þriðja sinn.

Samt atvikaðist það svo, að hún féllst seinna á tillögu manns síns. Hún hafði nefnilega gefið hjónum nokkrum sína flíkina með hverri gerð af því, er hún hafði unnið. En hún varð þess aldrei vör, að þessar gjafaflíkur væru notaðar, en aftur á móti sá hún notaðar flíkur, sem voru stæling á þeim. Einkanlega furðaði hún sig á því að sjá aldrei yfirhöfn úr fínu, brúnu ullarbandi, sem var prjónauð handa 7 ára gamalli telpu og svo vel frá gengið að allir héldu, að yfirhöfnin væri úr klæði. Hún lét í ljós undrun sína við kaupmannskonu eina, en hún svaraði brosandi: „Þér eruð á förum héðan, og það eru hjónin líka – til Kaupmannahafnar. Ég er viss um að hjónin ætla að senda flíkurnar frá yður til Landbúnaðarfélagsins, því þau eru samvalin í því, að langar til að skreyta sig með annarra verðleikum.‟

Þetta olli því, að frúin bað mann sinn seinna að æskja yfirlýsingar þeirrar, sem ofar getur. Undir hana skrifuðu presturinn, hreppstjórinn og kaupmenn og verzlunarstjórar á Eskifirði.Meðal þeirra var maðurinn, sem hafði flíkurnar frá frúnni í vörzlum sínum, og gerði hann það mjög fúslega. Yfirlýsingu þessa geymdi frúin, en notaði hana aldrei.

 

Frumtextinn úr Fru Th.s erindringer fra Iisland  (s. 97-99)

Fru Th. fortæller ved denne Leilighed Noget om sine huslige Syssler baade i denne Tid og i tidligere Aar. Hun lærte Iislænderne Patent-Strikning og andre Strikningsarter. Til Gjengjæld lærte de hende „at farve i deres Urter, Græs og Lyng‟, som de tarvelige Øeboere paa en sindrig Maade vidste at benytte. „Ja det er vist‟, skriver hun, „at de i denne henseende ere meget klogere end vi. Naar de ville samle Vædelse til at farve i af Mennesker og Dyr, veed de, hvað Enhver skal nyde af Spise og Drikke, og hvilket Dyr der giver denne Couleur, og hvilket en anden. Disse Erfaringer vare interessante og nyttige for mig. Uldgarn, som jeg farvede i Rødspaan kunde jeg give 3 à 4 forskjellige Couleurer ved at skylle det i stærkere eller svagere Grønsæbe-Vand, og dette brugte jeg til at schattere mine Strikninger med. Høirødt savnede jeg meget; men jeg fandt paa Raad. Ved en Auction paa Handelsstedet kjøbte min Mand en Deel høirøde Baand; dem trævlede jeg op, og strikkede med. Jeg var i Forlegenhed for Bestetøi; men det forekom mig, at naar den bløde, fine Uld blev strikket i Striber, valket og
presset, var det som Klæde.  Jeg iværksatte det ogsaa, i det jeg paa en sort eller graae Bund strikkede Striber med passende Couleurer, valkede, kradsede og pressede det. Alle fandt dette Tøi nyttigt og ret smukt, og for at faae det i Gang forærede jeg nogle Stykker bort‟. Da de havde Uld nok, lod Fruen ogsaa sine Tjenestefolk strikke Patent-Strikning med simple Couleurer. Disse strikkede Arbeider bleve da ligeledes valkede og pressede, og de groveste brugte til Gulvtæpper, de finere til Sengetæpper. „Paa Frakker nær til min Mand‟, bemærker Fruen, „behøvede vi Intet i Huset uden Hjemmegiort‟. – Da Sysslemand Th. vilde reise til sit nye Embede foreslog han sin Kone at tage en Erklæring af Embedsmænd og Handlende i Eskefjords-Egnen om, at hun var den Første, som havde begyndt der med de ovenfor omtalte Strikningsmaader; men hun bad han lade det være, da hun nødig vilde vække Andres Misundelse, eller give Nogen Anledning til den Tanke, at hun ønskede sig anbefalet til 3die Gang at erholde en Premie af Landhussholdningsselskabet. En Omstændighed bragte hende imidlertid til
senere at gaae in paa sin Mands Forslag. Hun havde nemlig foræret en Familie et Stykke af hvert Slags af de Arbeider, hun havde forfærdiget; men hun saae aldrig, at disse Foræringer bleve brugte, men derimod kun eftergjorte Ting. Især undrede det hende aldrig at see en Kavai af bruunt, fiint Uldgarn, strikket til en lille 7 Aars Pige, og saa smukt forarbeidet, at Alle antoge den for at være af Klæde. Hun yttrede sin Forundring herover for en Kjøbmands Kone der svarede hende smilende: „De rejser herfra, de Andre ogsaa, men – til Kjøbenhavn. Jeg veed vist, at Deres Tøi skal sendes til Landhuusholdningsselskabet, da Konen, saavelsom Manden, ville gjøre deres Navne bekjendte ved at pryde sig med Andres Fortjenester‟. Dette bevægede hende til senere at bede sin Mand at afæske Vedkommende den ovenfor omtalte Erklæring. Den blev underskreven af Præsten, Sognefogden og de Handlende ved Eskefjord. Ogsaa den Mand, som gjemte Fruens Arbeider, fandtes meget villig til at underskrive. Erklæringen har hun opbevaret, men ingensinde benyttet.

 

 

 

 

Rétttrúnaður í prjóni

Ef marka má prjónauppskriftir og prjónaumfjöllun síðustu ára skal nota þá eina rétta aðferð við handprjón: Slétt lykkja skal vera slétt og brugðin lykkja skal og vera slétt. Samt eru til margar aðrar aðferðir og er því jafnvel fleygt að hægt sé að prjóna brugðna lykkju á sextán mismunandi vegu! Þetta eru áhrif frá amrískum og enskum prjónauppskriftum og stundum hefur verið bent á að fyrirmyndin að þessum rétttrúnaði sé prjónles úr prjónavélum. Sjálfri finnst mér út í hött að handprjón eigi helst af öllu að líkjast vélprjóni! Þessi færsla er yfirlit yfir helstu prjónapólitísk hitamál:  Slétt eða snúið?; Vestrænt eða austrænt?; Gamlar prjónahefðir eða nýmóðins ameríkanísering?

slétt eða snúin slétt lykkja
Slétta lykkjan á myndinni hægra megin er í samræmi við rétttrúnað nútímans, sumsé slétt slétt lykkja. Fremri lykkjuboginn er framar á prjóninum og í hann skal prjóna.

Slétta lykkjan á vinstri myndinni er svokölluð snúin slétt lykkja. Aftari lykkjuboginn er framar á prjóninum og liggur beint við að stinga prjóninum gegnum hann.

Snúin slétt lykkja á Garnstudio Slétt slétt lykkja á Garnstudi
Smelltu á myndina til að sjá myndband á Garnstudio sem sýnir hvernig snúin slétt lykkja er prjónuð. Smelltu á myndina til að sjá myndband á Garnstudio sem sýnir hvernig slétt slétt lykkja er prjónuð.
Brugðin lykkja eins og prjónuð er á Íslandi  

Slétt brugðin lykkja 

 

Til vinstri er sýnd sú aðferð sem kennd er í íslenskum skólum og langflestir Íslendingar nota nú, að ég held.

Bandið er fyrir aftan prjónlesið, alveg eins og þegar slétt lykkja er prjónuð. Það er vitaskuld hagræði að þurfa ekki að flækjast með garnið framfyrir til að prjóna brugðna lykkju, t.d. þegar prjónað er stroff (sléttar og brugðnar lykkjur til skiptis).

Prjóninum er stungið í fremri lykkjuboga og þetta er því slétt brugðin lykkja (vestræn ósnúin brugðin lykkja).

Myndin er stilla úr myndbandi á Garnstudio og krækir í myndbandið. Þar er þetta sögð “almenn aðferð sem notuð er í Noregi og Danmörku”. Enskumælandi virðast kalla aðferðina “Norwegian purl”.

Brugðið fyrir odd slétta brugðna lykkju
Þessi aðferð hefur verið kölluð að bregða fyrir odd.Augljós ókostur við þessa aðferð er að það þarf að færa garnið framfyrir prjónlesið og þ.a.l. að flækjast með garnið framfyrir og afturfyrir þegar prjónaðar eru brugðnar og sléttar lykkjur til skiptis á sama prjóni, t.d. í stroffi eða tvöföldu prjóni.Prjónað er í fremri lykkjuboga og lykkjan verður slétt brugðin.  Í myndbandinu sem stillan er úr er þetta sögð evrópsk aðferð (continental purl). Aðferðin er vestrænt ósnúið prjón.

Smelltu á myndina til að sjá skýringarmyndbandið á Garnstudio.

Austræn ósnúin brugðin lykkja

Elsa E. Guðjónsson hefur haldið því fram að Íslendingar hafi prjónað brugðnar lykkjur eins og sést á þessari mynd allt til þess að handavinnukennsla hófst í skólumHún segir þetta vera austrænt ósnúið prjón og styðst við þessa skýringarmynd í Mary Thomas’s Knitting Book. Þetta er að því leytinu rangnefni að svona brugðin lykkja er snúin á prjóninum, þ.e. þegar garnið er veitt í gegnum lykkjuna með prjónoddinum gegnum aftari lykkjubogann.

Elsa hlýtur að hafa gert ráð fyrir að Íslendingar hafi prjónað austræna ósnúna slétta lykkju (sem nútildags er yfirleitt kölluð snúin slétt lykkja, sjá efst í þessari færslu) á móti. Sé prjónuð snúin slétt lykkja í sléttri umferð og svona snúin brugðin lykkja i brugðnum umferðum verður áferðin nauðalík venjulegu sléttprjóni (með ósnúnum sléttum og brugðnum lykkjum) og þess vegna er prjónið kallað ósnúið austrænt.  Að sögn Mary Thomas verður prjón þó þéttara með þessu móti heldur en með vestrænu ósnúnu prjóni.

Bandið er lagt fram fyrir prjónlesið en í stað þess að snúa upp á það eins og í dæminu hér næst að ofan er það einfaldlega krækt eða veitt í gegnum lykkjuna. Þetta er einfaldari aðferð en sú að ofan en sömu annmarkar fylgja henni, nefnilega að þurfa að færa bandið framfyrir.

Sjá einnig Blandaða aðferð neðar í færslunni.

Vestrænt snúið prjón eða snúið sléttprjón
Snúið vestrænt prjón (western crossed) er þannig að slétta lykkjan er prjónuð í aftari lykkjuboga (s.s. snúin slétt lykkja, sjá efst í færslunni); brugðna lykkjan er brugðin fyrir odd, sjá sérstakt dæmi um svoleiðis ofar í færslunni, en í stað þess að fara með prjóninn inn í fremri lykkjuboga eins og í því dæmi er farið gegnum aftari lykkjubogann.

Þetta kallast snúið sléttprjón í nýútkominn Prjónabiblíunni og er staðhæft að vindingur komi í flöt stykki prjónuð með þessari aðferð. Ég hef vissar efasemdir um að þessi fullyrðing standist þótt vissulega fylgi henni mynd af undinni prjónaprufu.

Mary Thomas’s Knitting Book er komin til ára sinna (fyrst gefin út 1938) sem skýrir dæmin sem hún tekur:  Hún segir að snúið vestrænt prjón sé teygjanlegra en venjulegt sléttprjón (ósnúið vestrænt prjón) og henti því betur í ýmslegt svo sem belti, sokkabönd og sárabindi 😉

Snúið austrænt prjónSnúið austrænt prjón (eastern crossed) er einfaldara/þægilegra og fallegra (finnst mér) en snúna vestræna prjónið.

Slétta lykkjan er prjónuð slétt (þ.e.a.s. prjónuð er sú slétta lykkja sem flestir kunna og nota, þar sem prjóninum er stungið í fremri lykkjubogann).

Brugðna lykkjan er prjónuð snúin: Hér er sýnd einföld aðferð til þess sem er að leggja bandið framan við prjónlesið og veiða það gegnum lykkjuna til að prjóna nýja lykkju, gegnum fremri lykkjubogann.

Áferðin á snúnu austrænu prjóni minnir svolítið  á nálbrugðin stykki, þ.e.a.s. stykkið er eins og það sé fléttað.

Slétt og snúið prjón: Blönduð aðferðBlönduð aðferð (combination knitting)

Þekktur amerískur prjónahönnuður, Ann Modesitt, hefur lagt sig fram við að koma þessari prjónaaðferðir á framfæri. (Myndirnar eru teknar af vefsíðu hennar.) Hún heldur því fram að prjónles verði óvenju fallegt og þétt prjónað með blönduðu aðferðinni.

“Austræn slétt brugðin lykkja” er raunar snúin brugðin lykkja en sé prjónuð snúin slétt lykkja á móti verður áferðin á prjónlesinu nokkurn veginn slétt.

Það er dálítið skondið til þess að hugsa að líklega er þetta sama prjónaðferð og Íslendingar notuðu áður en farið var að kenna prjón í skólum, a.m.k. ef marka má hugmyndir Elsu E. Guðjónsson, sem minnst var á hér að ofan. Skyldu Kanar hafa uppgötvað hefðbundið íslenskt prjón núna alveg nýlega? 😉

Brugðnar lykkjur Cat BordhiÍ lokin er kannski rétt að geta þess hvernig ég prjóna sjálf: Ég prjóna snúna brugðna lykkju, með bandið fyrir aftan prjónlesið og sting í fremri lykkjubogann en sný upp á lykkjuna í stað þess að snúa bandinu um prjóninn líkt og gert er í skandínavísku sléttu brugðnu lykkjunni sem flestir landar mínir nota. Þetta eykur auðvitað hraða því hreyfingum fækkar. Þegar ég prjóna flatt stykki (fram og til baka) prjóna ég sléttu lykkjurnar snúnar svo áferðin á prjónlesinu verður slétt. Það gildir nefnilega um þetta eins og í dæminu hér að ofan um blönduðu aðferðina að tveir snúnigar gera slétt (eins og tveir mínusar í stærðfræði gera plús).

Þetta er sú prjónaaðferð sem ég lærði í bernsku af ömmu minni. Ég gef nákvæmlega ekkert fyrir rétttrúnaðarskoðanir nútímans ættaðar vestan úr Amríkuhreppi og er hæstánægð með minn prjónaskap …

Mér til mikillar ánægju hefur svo einn af þekktustu prjónatæknifræðingum heims, Cat Bordhi, tekið þessa aðferð upp á arma sína og heldur hún því fram að akkúrat svona brugðnar lykkjur séu fastari og betri en allar aðrar. Sjá má myndband þar sem hún sýnir aðferðina – smelltu á myndina til hliðar til að opna myndbandið.

P.S. Ef einhvern langar að prjóna með virkilega flottri snúinni/fléttaðri áferð þá mæli ég með:

Sléttum sléttum lykkjum á réttu;
Snúnum brugðnum lykkjum prjónuðum í aftari lykkjuboga (þ.e. gömlu íslensku aðferðinni við að prjóna brugðnar lykkjur) á röngu.

Prjónakonur hvetja til voðaverka

Þótt prjón sé einkar friðsamleg iðja má tengja það við stríð og átök. Hér á eftir er stiklað á stóru yfir þátt prjónakvenna í blóðugum átökum frönsku byltingarinnar. Í næstu færslum verður fjallað áfram um hlutdeild prjónakvenna í ófriði.

Les tricotuesesLes Tricoteuses (Prjónakonurnar) létu eftirminnilega til sín taka í frönsku byltingunni. Sagt er að fjöldi kvenna, e.t.v. þeirra sömu hungruðu og þjáðu markaðskvenna og stóðu fyrir Brauðgöngunni/Kvenngöngunni til Versala árið 1789, hafi vanið komur sínar að fallöxinni og stutt frönsku ógnarstjórnina dyggilega. Frá þeim glumdu ýmist hvetjandi reiðiöskur og fagnaðaróp yfir hverjum hausnum sem féll eða þær sátu þöglar og prjónuðu meðan þær fylgdust með böðlinum undirbúa næsta fórnarlamb.

Les Tricoteuses urðu tákngerving þeirrar óskaplegu reiði og haturs sem knúði frönsku byltinguna. Enski rithöfundurinn Charles Dickens gerir einni Prjónakonunni, heldur óyndislegri persónu, góð skil í skáldsögunni A Tale of Two Cities. Madame Defarge, kona vínkaupmannsins, liggur á hleri í vínbúðinni og prjónar nöfn óvina og njósnara með einhvers konar dulmáli í munstrið á sínu prjónlesi. Svo styðst hún við það þegar hún upplýsir um óvini byltingarinnar. Tifandi prjónarnir Madame Defarge koma mönnum á fallöxina. Hún vekur hvarvetna ugg, meira að segja meðal samherja sinna:

He always remembered with fear and trembling, that that terrible woman had knitted when he talked with her, and had looked ominously at him as her fingers moved. He had since seen her, in the Section of Saint Antoine, over and over again produce her knitted registers, and denounce people whose lives the guillotine then surely swallowed up. He knew, as every one employed as he was did, that he was never safe; that flight was impossible; that he was tied fast under the shadow of the axe …

Segja má að Madame Defarge skapi mönnum aldurtila með prjóni. Hún og vinkonur hennar eru svo dyggir áhorfendur að aftökunum með fallöxinni.

Les tricoteuses
Þessi mynd er líklega eftir franska listamanninn Jean-Baptiste Lesueur (gæti þó verið eftir bróður hans) og heitir Tricoteuses. Hún er talin gerð 1789 og vatnslitamynd sem sýnir sama mótíf er talin vera frá 1799. Á myndinni sjást Prjónakonurnar og þær eru væntanlega að horfa á aftökur í fallöxinni frægu. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.
Les Tricoteuses � kvikmynd
Les Tricoteuses � kvikmynd
Ég veit ekki úr hvaða kvikmynd þessar tvær myndir eru en líklega er það ein myndanna sem gerðar hafa verið eftir A Tale of Two Cities. Þær sýna Prjónakonurnar tvö augnablik og er auðvelt að giska á hvað muni vera á seyði á þessum augnablikum. Smelltu á hvora mynd ef þú vilt sjá stærri útgáfur.
A Tale of Two Cities eftir Dickens
Þessi myndskreyting eftir John McLenan birtist í Harper’s Weekly 3. des. 1859. Saga Dickens var framhaldssaga í tímaritinu. Þarna líkjast Prjónakonurnar þremur refsinornum (fúríum).  E.t.v. er það Madame Defarge sem stendur þarna í miðjunni.
Úr A Tale of Two Cities:

Darkness closed around, and then came the ringing of church bells and the distant beating of the military drums in the Palace Courtyard, as the women sat knitting, knitting. Darkness encompassed them. Another darkness was closing in as surely, when the church bells, then ringing pleasantly in many an airy steeple over France, should be melted into thundering cannon; when the military drums should be beating to drown a wretched voice, that night all potent as the voice of Power and Plenty, Freedom and Life. So much was closing in about the women who sat knitting, knitting, that they their very selves were closing in around a structure yet unbuilt, where they were to sit knitting, knitting, counting dropping heads. (XVI. kafli, Still Knitting, í öðru bindi, The Golden Thread.)

The ministers of Sainte Guillotine are robed and ready. Crash!—A head is held up, and the knitting-women who scarcely lifted their eyes to look at it a moment ago when it could think and speak, count One.

The second tumbril empties and moves on; the third comes up. Crash!—And the knitting-women, never faltering or pausing in their Work, count Two. (XV. kafli, The Footsteps Die Out For Ever, í þriðja bindi, The Track of a Storm.).

Treyjan Karls I

Karl I BretakonungurÞann 30. janúar árið 1649 var Karl I Englandskonungur gerður höfðinu styttri. Hann hafði átt í útistöðum við ýmsa sína landsmenn, t.d. út af sinni meintu pápísku trú sem ekki féll í kramið, og lent í átökum við breska þingið sem taldi hann stefna að einveldi. Á málverkinu hér til hliðar sést Karl eftir aftökuna. (Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.)

Sagnir herma að Karl hafi ekki viljað sjá á sér nein hræðslumerki og til að koma örugglega í veg fyrir skjálfta á þessum kalda janúardegi klæddist hann tveimur skyrtum eða treyjum innanundir fínu fötunum. Önnur treyjan er til umfjöllunar hér.

William Sanderson sem skrifaði æviminningu Karls I (útg. 1658) segir að biskupinn af London, William Juxon, hafi liðsinnt Karli við síðustu handtökin: “Biskupinn setti á hann nátthúfuna og afklæddi hann að himinbláu satín-vestinu.” Himinbláa (öllu heldur ljósbláa) treyjan komst svo í eigu dr. Hobbs, læknisins hans Karls, þegar líkið var afklætt og flíkunum skipt milli fólks sem viðstatt var aftökuna. Hún er nú geymd í Museum of London.

Það sem gerir treyjuna sérlega spennandi eru blettirnir í henni sem mögulega eru blóðblettir. Þessir blettir voru rannsakaðir árið 1959 og aftur árið 1989 en niðurstöðurnar voru ekki ótvíræðar; ekki komst á hreint hvað blettaði treyjuna. Eins og blóðblettir gera ljóma þessir fagurlega í útfjólubláu ljósi en það gera því miður einnig svitablettir og ælublettir. Fyrir þremur árum rataði sú frétt í breska fjölmiðla að gera ætti DNA-rannsókn á þessum blettum til að ganga úr skugga um hvort þetta væri í alvörunni blóð Karls. Fallið var frá DNA-rannsókninni því svo oft er búið að handleika þessa treyju í tímans rás að ómögulegt þótti að nokkuð greindist sem mark væri á takandi.

Það þykir dálítið grunsamlegt að enga blóðbletti er að finna kringum hálsmálið, eins og ætla mætti að væri raunin hefði einhver verið hálshöggvinn í þessari treyju. Vegna ónógrar þekkingar á hálshöggi get ég því miður ekki dæmt um hversu mikið blóð spýtist úr strjúpa og hvert það leitar. Hefur og heyrst sú skoðun að einhver ótíndur áhorfandi hafi klæðst skyrtunni og staðið fullnálægt þegar konungurinn var hálshöggvinn. Líklega er samt best að hafa það fyrir satt að þetta sé treyjan sem Karl I klæddist síðustu mínúturnar í sinni jarðvist og að innri skyrtan (sem var úr líni) hafi drukkið í sig blóðdropana sem láku með hálsinum …

Skyrtan (sem er oft kölluð jakki, jacket, eða vesti, waistcoat, á enskum síðum) er prjónuð úr fíngerðu ljósbláu silkigarni. Prjónafestan er 8 1/2 lykkja á sentimetra. Skyrtan er prjónuð í hring, að neðan og upp. Hún er saumuð saman á öxlum og sömuleiðis eru ermarnar saumaðar í. Þær eru einnig prjónaðar í hring.

Karl I var enginn beljaki. Treyjan er 80 cm löng og yfirvíddin er 44 cm, neðst er treyjan 70 cm víð. Ermasídd er 52,5 cm.

Munstrið er svokallað “damaskmunstur” (brocade pattern kalla enskumælendur þetta), þ.e.a.s. upphleypt einlitt munstur, myndað af brugðnum lykkjum á sléttum grunni. Svipuð ljósblá treyja frá sama tíma er varðveitt í Drummond kastala í Skotlandi og önnur svipuð en rauð að lit í danska Þjóðminjasafninu. Ekkert er vitað um uppruna þessara treyja, þær gætu verið prjónaðar hvar sem er í Evrópu.

Svona damaskmunstur urðu seinna mjög vinsæl á dönskum “náttreyjum” úr ull, sem eru enn hluti af mörgum svæðisbundnum þjóðbúningum í Danmörku.

Hér eru myndir af silkiskyrtunni hans Karls og henni tengdar. Smelltu á litlu myndirnar ef þú vilt sjá stærri útgáfur.

Skyrta Karls I � Museum of London
Treyja Karls I í Museum of London.
(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.)
Skyrta Karls I � útfjólubláu ljósi
Treyjan í útfjólubláu ljósi, sem sýnir (blóð)blettina vel.
Hálsmál á skyrtu Karls I
Hálsmálið á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.)
Nærmynd af ermi á skyrtu Karls I
Nærmynd af ermi á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.)
Aðalmunstur á treyju Karls I
Aðalmunstrið á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að opna pdf-skjal
með munstrinu.)
Munstur á berustykki á treyju Karls I
Munstrið á berustykkinu á treyju Karls I.
(Smelltu á myndina til að opna pdf-skjal
með munstrinu.)

 

Heimildir:

Hoffmann, Marta. Of knitted “nightshirts” and detachable sleeves in Norway in the seventeenth century. Opera Textilium Variorum Temporum To honour Agnes Gejer on her nintieth birthday 26th October 1988. Statens Historiska Museum, Svíþjóð.

Rutt, Richard. 1989. A History of Hand Knitting. Interweave Press, Bandaríkjunum. Upphaflega gefin út 1987.

Thomas, Mary. 1972. Mary Thomas’s Book of Knitting Patterns. Dover Publications, Bandaríkjunum. Önnur útgáfa, upphaflega gefin út 1943 á Englandi.<<<<<<<<<

Was this the waistcoat that Charles I was wearing when he was beheaded? 19. feb. 2010. Daily Mail.

Lengri útgáfa af sömu grein á Canadian Content, 18. feb. 2010.

Undershirt. Museum of London.

Damask Knitting – A Danish tradition. NORDIC UNVENTIONS.

Prjónaði silkijakkinn hans Ottheinrich

Upplýsingar um silkijakka þýska greifans/hertogans og kjörfurstans Ottheinrich liggja hreint ekki á lausu, hvorki á vefnum né í prjónasögubókum. Samt er þetta ótrúlega merkilegur jakki/treyja því um er að ræða elstu prjónuðu flík sem varðveist hefur í Evrópu, að frátöldum sokkum og hönskum. Og auðvitað elsta prjónaða silkijakkann sem varðveist hefur. Þessi silkijakki er ólíkt hversdagslegri en síðar tíðkaðist, sjá færsluna Útprjónaðir silkijakkar frá sautjándu öld.

Hver var Ottheinrich?

OttheinrichOttheinrich, sem hét fyrst bara Otto Heinrich, fæddist árið 1502 og dó 1559. Afi hans var hertogi af Bæheimi og Ottheinrich fékk, í félagi við bróður sinn, yfirráð yfir nýju hertogadæmi, Herzogtum Pfalz-Neuburg, þegar hann hafði aldur til. Höfuðborg þess var Neuburg an der Donau.

Ottheinrich var hálfgerður útrásarvíkingur síns tíma. Hann barst mjög á, byggði t.d. kastala og safnaði listmunum, tók þátt í ýmsu valdabrölti og hélt sér á floti með nýjum og nýjum lántökum þótt hann væri löngu orðinn gjaldþrota. Að lokum hrökklaðist hann frá völdum en endurheimti þau seinna, var hækkaður í tign og gerður að kjörfursta yfir Pfalz Neuburg. Í síðari valdatíð sinni hlúði Ottheinrich mjög að listum og vísindum, átti frábært bókasafn, lét útbúa eitt glæsilegasta biblíuhandrit allra tíma, sem við hann er kennt, og margt fleira vann hann sér til ágætis.

Kannski er líka rétt að taka fram að þótt Ottheinrich hafi verið ljómandi myndarlegur maður á yngri árum, ef marka má málverk af honum, þá fitnaði hann mjög eftir því sem árin færðust yfir hann. Talið er að hann hafi verið hátt í 200 kg þungur síðustu árin sem hann lifði.

Silkijakkinn

Silkijakki OttheinrichJakkinn ber offitu Ottheinrich vitni því yfirvíddin er 2,20 metrar! Hann er prjónaður úr ólituðu silki og munstrið er ákaflega einfalt, s.s. sjá má sé smellt á litlu myndina af jakkanum sjálfum. Nánar tiltekið er munstrið úr lóðréttum röðum af samtengdum þríhyrningum sem eru prjónaðir brugðið á sléttum grunni. Hver munsturröð er 2,5-3 cm breið og hæðin á þríhyrningunum er 1 cm. Talning á umferðum og lykkjum á myndum bendir til þess að hann sé prjónaður úr grófara garni en síðari tíma útprjónuðu silkijakkarni, þ.e.a.s. prjónafestan virðist um 5 lykkjur á sentimetra. Sé smellt á myndina af jakkanum kemur upp stærri mynd af munstrinu.

Ottheinrich hefur líklega eignast þennan jakka í kringum 1540 því hans er getið í gögnum sem varðveist hafa. Af þeirri lýsingu að dæma hefur prjónaefnið verið keypt frá Ítalíu og jakkinn síðan sérsaumaður á karlinn.
Núna er þessi merkilegi jakki varðveittur á Heimatmuseum í Neuburg an der Donau í Bæjarlandi. Hér að neðan er mynd af nútímaeftirgerð jakkans, sem, eins og sjá má, rúmar léttilega fimm krakka.

Eftirl�king af silkijakka Ottheinrich

Aðalheimild:
Feyerlein, Heinrich. 1976. Eine Strickweste des Pfalzgrafen Ottheinrich. Neuburger Kollektaneenblatt. Jahrbuch 129/1976. Heimatverein – Historischer verein. Neuburg a.d. Donau. (Myndir af jakkanum og munstrinu eru skannaðar af ljósriti þessarar greinar.)

Útprjónaðir silkijakkar frá sautjándu öld

Silkijakki frá 17. öldTalsvert hefur varðveist af skrautlegum útprjónuðum jökkum/treyjum frá 17. öld og má sjá þá á söfnum í Evrópu og Ameríku. Þeir eru munsturprjónaðir úr silki í tveimur litum eða silki og gull- eða silfurþræði. Stundum eru brugðnar lykkjur notaðar til að stykkið líkist damask-vefnaði (brókaði-vefnaði) en einnig til að draga enn frekar fram útprjónaða munstrið. (Til eru margar silkiprjónaðir treyjur með eingöngu einlitu útprjóni, svokölluðu damaskprjóni, en þær eru ekki til umræðu í þessari færslu. Stundum var saumað út í damaskprjónuðu treyjurnar.)

Mynstrin eru yfirleitt blómamynstur einhvers konar. Þau eru eftirlíkingar af munstrum ofinna silkidúka/silkiklæðis frá sama tíma, þ.e. á sautjándu öld. Silkiþráðurinn sem prjónað var úr var afar fíngerður og prjónarnir hljóta að hafa líkst nútímatítuprjónum að gildleika.

Silkitreyjurnar skrautlegu eru ekki prjónaðar í hring heldur saumaðir saman úr ferhyrndum stykkjum, sem hefur gefið þeirri hugmynd undir fótinn að efniviðurinn (stykkin) hafi verið prjónaður í prjónavél. En engar traustar heimildir eru fyrir því að prjónavélar (knitting frames) sem gátu prjónað brugðnar lykkjur hafi verið uppfundnar þegar þessir jakkar voru prjónaðir. (Krækja í stóra mynd af rauðu silkitreyjunni er neðar í færslunni.)

Sænskar heimildir nefna að árið 1685 hafi verið fluttir inn 436 prjónaðir silkijakkar, ýmist útsaumaðir eða ekki, þá væntanlega ýmist damaskprjónaðir eingöngu eða útprjónaðar með mislitu garni. Í dönskum vörulistum frá 17. öld eru taldar upp „nátttreyjur“ (orðið var notað um svona jakka, auk þess sem það merkti einlita damaskprjónaða jakka úr silki eða ull) úr silki, sumar „baldyrede“, þ.e.a. útsaumaðar með gull- eða silfurþræði. Má sem dæmi nefna skrá yfir lager kaupmannsins Eriks Jørgensen í Odense árið 1644:
 

6 stykker silche Nattrøyer med sølff och guld bardyret a 14 rdl.
6 stykker dito med flos a 19 rdl.
3 stykker store Mands Nattrøyer a 23 rdl.
1 Grøn silche Nattrøye med sølff och guld uflosset … 33 rdl.
( Østergaard, Else. 1984)

Þegar Leonora Christina var handtekin í London og færð í Bláturn (fangelsi) í Kaupmannahöfn, árið 1663, var hún klædd í silkiprjónaða „nátttreyju”. Eigur hennar voru teknar en seinna fékk hún til baka „tvende Nattrøjer, en silkebunden og den anden af hvidnuppet Tøj …“ Sagt var að Leonora Christina klæddist samkvæmt franskri tísku og má af þessari heimild ráða að silkiprjónaðar treyjur hafi enn verið hátíska seint á 17. öld, raunar voru svona treyjur/jakkar áfram notaðar talsvert fram á 18. öld. Yfirleitt er talið að Danir hafi flutt inn silkitreyjur/silkijakka, jafn damaskprjónaða sem útprjónaða í lit, frá Englandi, jafnvel Skotlandi. Enskumælandi höfundar kalla svona treyjur oft ítalska eða flórentínska jakka. Sjálfsagt eru þessar skrautlegu treyjur ekki upprunnar af einni rót heldur prjónaðir hér og þar í Evrópu þar sem listprjón hafði náð hæstu hæðum. Um þetta er raunar ekkert vitað með vissu.

Talið er að útprjónuðu silkitreyjurnar hafi tilheyrt óformlegum klæðnaði aðalsmanna (af báðum kynjum) og þess vegna sjáist þeirra engin merki á 17. og 18. aldar málverkum; fólk stillti sér nefnilega upp í sparifötunum. Margt bendir og til þess að treyjurnar hafi verið bornar innan undir jökkum eða upphlut.
 
 

Munstur á silkijakka frá 17. öldPrjónaður silkijakki frá 17. öldÍ safni Viktoríu og Alberts í London eru nokkrir svona jakkar (treyjur), allir fremur litlir (brjóstvídd er yfirleitt um 73 cm, síddin er um 55 cm). Jakkinn sem sést hér er 57 cm langur, prjónaður úr grænum silkiþræði og gullþræði (gullhúðuðum silkiþræði). Prjónafesta er 6 lykkjur á sentimetra. Neðst á bol og ermar er prjónaður borði með einföldu einlitu munstri með brugðnum lykkjum. Líklega var meiningin að líkja eftir damaskvefnaði. Jakkinn er saumaður saman og skotið inn geirum á hliðum neðst til að auka víddina. Talið er að geirarnir, sem eru ekki prjónaðir, séu síðari tíma viðbót til að tolla í tískunni. Jakkann má skoða vel á síðu The Victoria and Albert Museum.  Til hægri er teikning af munstrinu ef einhvern skyldi langa til að prjóna sér svona jakka 🙂  Sé smellt á munstrið opnast pdf-skjal.
 
 

Fleiri dæmi um prjónaða silkijakka/silkitreyjur (litlu myndirnar krækja í stórar myndir og upplýsingar um jakkana á Vefnum):
 
 

Silkitreyja frá 17. öld Silkijakki í Listasafninu í Cleveland, Ohio, Bandaríkjunum.
Náttreyja frá 17. öld Útsaumaður silkiprjónaður jakki á Þjóðminjasafninu í Osló.
Silkitreyja frá 17. öld Útprjónuð silkitreyja á Nordiska museet í Stokkhólmi.
 
 
Prjón á 17. öld Silkitreyja á V&A safninu í London.
17. aldar prjón Þessi rauða silkitreyja er geymd á Konunglega Ontario safninu í Kanada. 
Og hér er nærmynd af munstrinu
siklkijakkar á 17. öld Silkiprjónaður kvenjakki í Museo Stibbert, Flórens, Ítalíu.
Kvenjakki í Glasgow Museum, Skotlandi.
Enn einn prjónaði silkijakkinn á V&A safninu í London.

 Eldri en jakkarnir/treyjurnar sem fjallað hefur verið um er jakki sem eignaður hefur verið þýska greifanum Ottheinrich og talinn er með elstu prjónaflíkum sem varðveist hafa í Evrópu. Jakkinn er talinn ítalskur, frá miðri 16. öld, prjónaður úr silkigarni, og af lýsingu að dæma má ætla að brugðnar lykkjur myndi láréttar rendur. Þessi jakki er ákaflega víður sem rennir stoðum undir eigendasöguna því Ottheinrich var ákaflega digur ef marka má samtímamyndir. Því miður hefur mér ekki tekist að hafa upp á mynd af jakkanum en hann er varðveittur í Heimatmuseum í Neuberg an der Donau í Bæjarlandi.

Ég reikna með að skrifa einhvern tíma framhaldsfærslur um damask-prjónuðu silkijakkana, sem einnig eru taldir frá sautjándu öld, damaskprjónaðar „nátttreyjur“ úr ullargarni, sem vinsælar urðu í Skandinavíu, og vonandi einnig færslu um silkijakkana sem tvö systkini Leonoru Christinu, þ.e. tvö börn Kirsten Munk og Christians IV Danakonungs, voru klædd þegar þau voru jarðsett laust fyrir 1630. 
 
 
 
 

Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
 

Rutt, Richard. A History of Hand Knitting. 1987. Colorado, Bandaríkjunum.

Harlow, Eva. The Art of Knitting. Garments for today from patterns of the past. 1977. William Collins Sons and Company Limited. Englandi.

Hoffmann, Marta. Of knitted “nightshirts” and detachable sleeves in Norway in the sevententh century. Opera Textilia Variorum Temporum. To honour Agnes Geijer on her ninetieth birthday 26th October 1988, s. 131-144. 1988. Statens Historiska Museum. Stockholm, Svíþjóð.

Østergaard, Else. Silkestrikkede trøjer og strømper fra begyndelsen af 1600-årene. Stickat och virkat i nordisk tradition, s. 42-45. 1984. Österbottens museum, Svíþjóð. 

Deborah Pulliam Knitted Silk and Silver: those mysterious jackets. Silk Roads, Other Roads: Textile Society of America 8th Biennial Symposium, Sept. 26–28, 2002, Smith College, Northampton, Massachusetts, Bandaríkjunum. Aðgengilegt á vef, sjá http://digitalcommons.unl.edu/tsaconf/541/
 

Útsaumaðir og útprjónaðir vettlingar

Hvorki útsaumaðir né útprjónaðir vettlingar eru sérlega gömul hefð hér á Íslandi. Hér á eftir er gerð grein fyrir því helsta sem um þetta er vitað. 

Ísaumaðir rósavettlingar

Jónas Jónasson segir í Íslenskum þjóðháttum: „Kvenvettlingar voru einþumlaðir, og þeir fínustu svartir með allavega litaðri rós, prjónaðri inn í handarbakið (rósavettlingar)“ og „Almennt var að konur prjónuðu rósir út í vettlinga og íleppa. Voru það ýmis blómamyndir með ýmsum litum eða þá sex- eða áttablaða rósir með ýmsum útbrotum.“ Hann er að lýsa vettlingum á 19. öld en þarna skjöplast þeim góða Jónasi: Rósirnar á vettlingunum voru ekki útprjónaðar heldur ísaumaðar enda ekki heiglum hent að prjóna út marglitt munstur á handarbakið eitt en hafa allt hitt einlitt.

RósavettlingarRósavettlingar eru varðveittir á Þjóðminjasafninu, byggðasöfnum og í norrænum söfnum, nokkrir frá 19. öld en flestir frá því um og eftir aldamótin 1900. Með þeim elstu er par með ísaumuðu K  ThD A á annan vettlinginn, á hinn vettlinginn ártalið 1827. Þá átti Katrín Þórðardóttir í Fljótshlíð (merkingin þýðir Katrín Þórðardóttir á) en dóttir hennar bjó lengi í Vestmannaeyjum og vettlingarnir eru varðveittir á byggðasafninu þar. Munstrið er áttblaðarós á uppábrot um úlnlið, einhvers konar rósaútfærsla af áttblaðarós saumað í þumla og áttblaðarós á handarbökum. (Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. 1984.)

Myndin að ofan er af íslenskum rósavettlingum á Norræna safninu í Stokkhólmi (hún krækir í vefsíðu með stærri mynd). Þetta eru nokkuð dæmigerðir rósavettlingar íslenskir, með áttblaðarós inni í skreyttum tígli og uppábrotið skreyta stílfærð hreindýr. Samskonar munstur má sjá á skagfirsku rósavettlingunum sem gerð hafa verið góð skil í sérstakri bók. (Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir. 2003). Fleiri myndir af íslenskum rósavettlingum á Norræna safninu sænska eru hér og hér.  Auk áttblaðarósar í ýmsum myndum eru blómamyndir/blómapottsmyndir mjög vinsælar á rósavettlingum, sjá mynd af rósavettlingum á textílsafninu á Blönduósi (af síðu Hélène Magnússon, Prjónakerling). Seinna meir er farið að blanda saman útsaumi og útprjóni í sömu vettlingana, a.m.k. bendir lýsing á vettlingum sem Þjóðminjasafninu áskotnuðust 1910 til þess:

Rósavetlingar, belgvetlingar, að mestu hvítir, en í laska, totu og þumal eru prjónaðir bekkir og blóm með svörtum, grænum, rauðum og fjólubláum lit, ennfremur eru saumuð með fléttusaum blóm með ýmsum lit á handabökin.
(Matthías Þórðarson. 1911.)

Elsa E. Guðjónsson lýsir rósavettlingum í eigu Þjóðminjasafnsins svona:

Talsvert er til af íslenzkum vettlingum frá 19. öld í Þjóðminjasafni Íslands. Flestir eru þeir belgvettlingar, margir svartir með marglitaðri, fléttusaumaðri rós á handarbaki, þ.e. rósavettlingar. Nokkrir rósaðir fingravettlingar hafa einnig varðveitzt, m.a. þeir sem hér birtist mynd af (Þjms. 5029). Eru þeir hvítir með aðallega rauðum, en einnig svolitlum fjólubláum ísaumi.

(Elsa E. Guðjónson. 1962.)

Konur með útsaumaða vettlinga á 19. öldSaumað var út í vettlingana með „gamla krosssaumnum“, þ.e. fléttusaumi. Sem fyrr segir er ekki vitað hve gömul rósavettlingahefðin er en auk þess að vita af elstu vettlingunum (að talið er) sem ársettir eru 1827 má benda á heimildir eins og bút úr þessu málverki eftir Auguste Mayer (sem var í föruneyti Paul Gaimard 1836) af heimilisfólki utan við bæinn á Hnappavöllum. Litla myndin krækir í stærri mynd og er engum blöðum um það að fletta að konurnar á myndinni eru íklæddar rósavettlingum. Sömuleiðis má benda á klausu í Grasaferð Jónasar Hallgrímssonar en sagan er talin skrifuð 1835-36. Þar segir um systurina góðu: „Það leið ekki á löngu fyrr en systir mín kom með samanbrotinn tínupoka og snjóhvíta rósavettlinga á höndunum [- – – ].“

Norðmenn virðast líka hafa saumað rósavettlinga sem eru keimlíkir hinum íslensku, ef marka má myndir á Digitalmuseum.no. Því miður eru engar upplýsingar um hversu gamlir þessir vettlingar eru en má giska á að þeir séu allir af Mæri eða úr Romsdal. Sjá dæmi hér, hér og hér.

Ef einhvern langar til að prjóna og sauma út rósavettlinga bendi ég á skemmtilegt viðtal með myndum, í Morgunblaðinu 6. desember 2005, við Helgu Þórðardóttur á Mælifellsá í Skagafirði, sem prjónar og hannar svona vettlinga, og uppskrift eftir Ingibjörgu Ólafsdóttur á síðunni Prjónakerling. Loks má nefna uppteiknað mynstur Elsu E. Guðjónsson af rósavettlingi í eigu Þjóðminjasafnsins í Húsfreyjunni 2. tbl. 1962 og annað mynstur í bókinni Íslenskur útsaumur eftir Elsu (sjónablað XIX, s. 91). Og ef menn treysta sér ekki til að sauma munstur með fléttusaumi má benda á að annars konar spor ætti að vera í góðu lagi, a.m.k. saumuðu skagfirskar konur í vettlinga með lykkjuspori árið 1918. (Margrjet Símonardóttir. 1918.)
 

Útprjónaðir vettlingar/tvíbandaprjónaðir vettlingar

Afar lítið hefur varðveist af íslensku útprjóni fyrr en kemur fram á seinni hluta 19. aldar. Það sem hefur fundist eldra er ofurlítil pjatla sem talin er frá 18. öld, mögulega frá 17. öld, og ekki er vitað úr hvers konar flík hún er. Pjatlan fannst í fornleifauppgreftri í Reykholti í Borgarfirði. Að sögn Elsu E. Guðjónsson sést á þessari prjónlespjötlu „tvíbanda bekkur í tveimur, litum […] en ofan og neðan við bekkinn leifar af einlitum, gráleitum grunni með sléttu prjóni.“ Af svarthvítri mynd sem fylgir grein Elsu má ráða að munstrið sé einfaldir samtengdir tíglar, Elsa segir síðan að „reitamunstur sömu gerðar og er á bekknum má sjá í sjónabókarhandriti frá 17. öld í eigu Þjóðminjasafnsins.“ (Elsa. E. Guðjónsson. 1992.) En raunar þarf ekki uppteiknað mynstur til að prjóna svo einfalt munstur svo tengingin við sjónabókarhandritið er líklega tilviljun sem engu skiptir.

�slenskir útprjónaðir vettlingarÍ Íslenzkum þjóðháttum, sem ætla má að lýsi því sem tíðkaðist á 19. öld, segir: „Tvíbandssparivettlingar tilhaldsstúlkna [voru] oft svart- eða rauðtíglóttir, 3 lykkjur í tígli og 3 umferðir, svo breytt um.“ (Jónas Jónasson. 1961, nmgr. s. 17.) Í sama riti segir og: „Annars konar útprjón [en ísaumaðir rósavettlingar sem Jónas telur ranglega að hafi verið prjónaðir] mun ekki hafa tíðkazt, nema stundum voru prjónaðir tvíbandaðir vettlingar með tveimur litum og voru þeir þá annaðhvort röndóttir eða tíglóttir.“ Í Norræna safninu í Stokkhólmi eru varðveittir íslenskir tíglóttir vettlingar frá 19. öld, sjá mynd hér til hliðar (sem krækir í síðu með stærri mynd). Þeir eru tvíþumla og óvíst hvort átti þá karl eða kona (konur notuðu líka tvíþumla vettlinga). Mér sýnist tíglamunstrið á þessum vettlingum vera alveg nákvæmlega eins og á litlu pjötlunni sem fannst í Reykholti og er elsta dæmi um íslenskt útprjón (sjá hér að ofan).

LaufaviðarvettlingurFljótlega eftir aldamótin 1900 var orðið algengt á Vestfjörðum að prjóna vettlinga með litskrúðugum tvíbanda bekkjum. Svona vettlingar ganga núna undir nafninu vestfirskir laufaviðarvettlingar. Ekki er vitað hvenær þetta útprjón hófst og óvíst hvort rekja megi það lengra en til seinni hluta 19. aldar. Útprjónuðu bekkirnir eru með laufaviðarmunstri, eins og nafnið bendir til, fuglamunstri (dúfnastreng) o.fl. (Elsa E. Guðjónsson. 1985.) Vestfirskir laufaviðarvettlingar voru prjónaðir á fína prjóna, líklega nr. 1 ½, úr fínu tvinnuðu bandi úr góðu þeli. (Jóhanna Kristjánsdóttir. 1973.)

Á myndinni sést minn eigin laufaviðarvettlingur (litla myndin krækir í stærri mynd). Fitjaðar eru upp 80 lykkjur og aukið út í 84 lykkjur eftir að úlnlið sleppir. Vettlingarnir voru keyptir á handverksmarkaði í Hólmavík fyrir mörgum árum og satt best að segja held ég að þeir séu prjónaðir í vél (af því úlnliðsstykkið er prjónað fram og til baka og síðan saumað saman). Hafi einhver áhuga á að prjóna sér laufaviðarvettlinga bendi ég á grein, uppskrift og mynstur sem birtust í Vikunni 17. apríl 1980, Vestfirskir laufaviðarvettlingar. Á vef Þjóðminjasafnsins má sjá stóra mynd af tvennum vettlingum, aðrir eru laufaviðarvettlingar, en hvorir tveggja eru nýir að sjá.
 

Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
 

Elsa E. Guðjóndsson. Rósavettlingar. Húsfreyjan. 1. apríl 1962, síða 25-27.

Elsa E. Guðjónsson: Um prjón á Íslandi. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1985, s. 8-12.

Elsa E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Veröld. 1985.

Elsa E. Guðjónsson. Fágæti úr fylgsnum jarðar. Skírnir.Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 166:1, vor 1992, s. 7-40.

Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir. Skagfirskir rósavettlingar. Gefin út af höfundi 2003.

HANDVERK | Skagfirskir vettlingar á handverkssýningu. Blómum prýddir rósavettlingar. Morgunblaðið 6. desember 2005. Hér er krækt í greinina á mbl.is.

Jóhanna Kristjánsdóttir. Vestfirzkir laufaviðarvettlingar. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands. 1973, s. 14-15.

Jónas Hallgrímsson. Grasaferð. Jónas Hallgrímsson. Ritsafn. Helgafell. Fjórða útgáfa 1971.

Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenzkir þjóðhættir. Ísafoldarprentsmiðja. Þriðja útgáfa 1961. Bókin var fyrst gefin út 1934.

Margrjet Símonardóttir. Heimilisiðnaður. Iðnfjelag Viðvíkurhrepps í Skagafirði. Hlín. Ársrit Sambandsfjelags norðlenskra kvenna II, 1. tölublað 01.01.1918 [Ath. að tölublað og dagsetning hlýtur að vera rangt  því greinin er dagsett 10. ágúst 1918], bls. 26-28.

Matthías Þórðarson. Skýrsla um viðbót við Þjóðmenjasafnið árið 1910. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1911, bls. 70-98.

Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. Prjón. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands1984, s. 10-13

Vestfirskir laufaviðarvettlingar. Vikan 17.04. 1980, bls. 28-29. (Þetta er endurbirtur stór hluti greinar eftir Jóhönnu Kristjánsdóttur í Hugi og hönd 1973.)
 
 
 

Íslenskir prjónaðir vettlingar

 Svo skemmtilega vill til að elsta prjónles sem fundist hefur á Íslandi er einmitt vettlingur: 
 

Vettlingur frá Stóru BorgÁrið 1981 fannst sléttprjónaður einþumla belgvettlingur í uppgreftri að Stóru-Borg undir Austur-Eyjafjöllum. Hann er líklega frá fyrri hluta 16. aldar, og því elsta varðveitta íslenskt prjónles sem vitað er um. (Elsa E. Guðjónsson. 1985.)

Sem sjá má á myndinni er vettlingurinn allur sléttprjónaður og ekkert stroff enda lærðu menn líklega ekki að prjóna brugðnar lykkjur fyrr en seint á sautjándu öld, e.t.v. ekki fyrr en í upphafi 18. aldar. Hann er prjónaður gróft úr mórauðu tvíþættu ullarbandi, 3 lykkjur á sentimetra á hæðina en 4-5 lykkjur á sentimetra á breiddina. Annar einþumla belgvettlingur hafði fundist í uppgreftri á Bergþórshvoli 1927. Sá er einnig úr mórauðu spunnu ullarbandi og enn grófprjónaðri en sá sem fannst á Stóru-Borg, 3,5 lykkjur á cm á hæðina en 2,5 lykkjur á cm á breiddina. Vettlingurinn frá Bergþórshvoli er talinn heldur yngri eða frá því um 1600. Við fornleifaupparannsóknir í Kaupmannahöfn hefur fundist tugur tvíþumla vettlinga sem taldir eru íslenskt innflutt prjónles frá 17. öld. Þeir eru allir sléttprjónaði en með mismunandi lögun og úrtökum og ekkert sérlega líkir vettlingunum frá Stóru-Borg og Bergþórshvoli. (Elsa E. Guðjónsson. 1992.)

Þótt minjar séu fátæklegar er vitað að Íslendingar byrjuðu snemma að prjóna vettlinga, sjálfsagt nánast um leið og þeir lærðu að prjóna (einhvern tíma seint á 16. öld). Sokkar og vettlingar urðu mikilvæg útflutningsvara. Árið 1624 voru flutt út rúmlega 72 þúsund pör af sokkum og rúmlega 12 þúsund pör af vettlingum, nokkrar sveiflur voru í þessum útflutningi milli ára en nefna má að á dögum Almenna verzlunarfélagsins (1764-1773) voru árlega flutt út rúmlega 185 þúsund pör af sokkum og tæplega 71 þúsund pör af vettlingum. (Jón Aðils. 1971.) Óskráðir eru allir þeir vettlingar og önnur plögg sem íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn fengu send og seldu sjálfir, plögg sem Íslendingar seldu ýmissa þjóða sjómönnum við landið, sem og í vöruskiptaverslun innanlands.

Allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu: Peysur, sokka, vettlinga, húfur o.fl. Jón Aðils nefnir að menn hafi lagt stund á þessa iðju af því ekkert annað var að gera á veturna og halda þurfti fólki hvort sem var, jafnt gamalmenni sem börn „sem eigi voru til annars hæf.“ (Jón Aðils. 1971.) Síðari tíma heimildir nefna að börn urðu eins og aðrir að skila ákveðnu prjónlesmagni eftir vikuna, venjulega tveimur sjóvettlingspörum þegar þau voru átta ára og síðan meiru eftir því sem þau eltust. Gamall húsgangur er til vitnis um þetta:
 

Fyrst þú ert komin á fjórða ár
fara áttu að vinna.
Það er að læra listir þrjár
lesa, prjóna og spinna.
 

(Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. 1984.)
 

Prjónlesið (prjónasaumurinn) greindist í tvo flokka: Eingirnisles (Enkelbaandsgods) og tvígirnisles (Dobbelbaandgods). Eingirnislesið var lika kallað púlsles eða duggarales, það var unnið úr grófu ótvinnuðu bandi. Duggaralesið var miklu algengara og hlaut nafn sitt af því að það seldist mest til hollenskra duggara á vorin en var allur gangur á hvernig gekk að selja það í kaupstað til útflutnings. Tvígirnislesið, einnig nefnt smáles eða tvíbandales, þótti fínna og var unnið úr fínu tvinnuðu bandi. Í smálessendingum frá fyrri hluta 18. aldar er minnst á belgvettlinga, venjulega einþumla en stundum tvíþumla, fingravettlinga og fleira prjónles. Duggaralesið/eingirnislesið var þó miklu algengara. (Jón Aðils. 1971.)

VettlingatréSokkar og vettlingar voru þæfðir og notuð sérstök sokka- og vettlingatré til að móta plöggin í rétta stærð. Eitthvað af af sokkatrjám hefur varðveist hér á landi en engin vettlingatré. Myndin af vettlingatré hér til hliðar er af slíku verkfæri sem var til sölu á eBay fyrir skemmstu og sagt gamalt. Líklega hafa íslensku vettlingatrén litið einhvern veginn svoleiðis út. Vettlinga og sokka þæfðu menn yfirleitt í höndunum og skv. Niels Horrebow, sem rannsakaði lifnaðarháttu hér á landi á árunum 1749-51, var allt þæft í keytu (stæku hlandi) með miklu erfiði og á frumstæðan hátt. (Áslaug Sverrisdóttir. 2004.) Horrebow segir reyndar að Íslendingar hafi nýtt heitar lindir (hveravatn) til að þæfa enda bæði þófni hraðar og plöggin verði hvítari með því móti. Svo bætir hann við að menn þæfi stundum sokka og vettlinga með því að sitja á þeim og aka sér fram og aftur og til hliðar; þetta komist upp í vana og menn sitji því og aki sér í sætinu þótt ekkert sé prjónaplaggið undir þeim. (Horrebow, Niels. 1752.) Líklega hefur Horrebow eitthvað misskilið athæfið því vandséð er hvernig hægt er að þæfa plagg með rasskinnunum! Haft er eftir konu fæddri 1841 að tíðkast hafi að ganga þannig frá vestfirskum laufaviðarvettlingum: „Þegar vettlingarnir voru búnir, voru þeir lóaðir, þæfðir og sléttaðir með því að sitja á þeim, meðan þeir þornuðu úr þófinu.“ (Jóhanna Kristjánsdóttir. 1973.) Kann að vera að þessi siður sé gamall og Niels Horrebow hafi séð eitthvað svipað rúmri öld áður en misskilið.

Ljóst er að prjónlesið íslenska var afar misjafnt að gæðum og var frá upphafi útflutnings talsvert kvartað undan slælegum vinnubrögðum í íslensku prjóni og reynt að setja reglur þar um. Einþumlaðir vettlingar áttu að vera hæfilega stórir, tvíþumla vettlingar (sjóvettlingar) fullstórir og vel rónir, skv. dómi um duggarasokka frá 1606. (Jón Aðils. 1972.) Sé prjónað laust á grófa prjóna má dylja það ágætlega þegar búið er að svellþæfa flíkina, eins ef prjónið er misfast. Á hinn bóginn slitnar svoleiðis prjónles miklu hraðar en fastprjónað. Líklega hafa Íslendingar ekki gætt þess að prjóna fast og jafnt og enn er verið að kvarta undan svoleiðis vinnubrögðum seint á nítjándu öld:
 
 

Það er annars eptirtektavert með tvær þessa síðast töldu vöru tegundir [þ.e. „smáband og fingravetlinga“] hvað þær hafa selst illa erlendis nú hin næstliðnu ár, og hefir kaupstjóri Gránufjelagsins fært oss heim sanninn um það, að þetta væri mest því að kenna hvað varan hefði verið illa og óvandlega unnin. Fyrir fleiri árum síðan seldust fingravetlingar og jafnvel smáband fyrir það verð að töluverð atvinna var við að vinna þessa tóvöru enda var það þá stundað af allmiklu kappi hjer á Norðurlandi, en það var meinið að ekki var jafnframt hugsað um að láta vöruna vaxa að gæðum sem vexti, heldur þvert á móti einungis hugsað um parafjöldann og hvortveggi þessar vörur voru þá ver unnar sem fleiri stunduðu það, og meira var hugsað um að spara efnið. Á þenna lítt-nýta tóskap komst svo óorð og fyrirlitning svo hann hætti að seljast, og hafa menn þannig haft það fyrir óvandvirknina, að missa, að minnst kosti í bráð þess atvinnu, sem að vísu engan veginn gat heitið arðmikil, en þó var skaði fyrir þá að missa, er ekkert annað gátu gjört sjer að atvinnu í hins stað.
(Þingeyingur. 1880.)

Prjónaðir sokkar seldust fyrir miklu hærra verð en vettlingar frá upphafi útflutnings. Sem dæmi má nefna að árið 1616 jafngiltu: 24 duggarasokkar = 72 pör vettlingar = 48 pör valdari vettlingar = 1 hundrað fiskar.  Árið 1684 jafngiltu þrjú vettlingapör einu sokkapari. (Þorkell Jóhannesson. 1943.) Samt kepptust menn við að prjóna vettlinga uns kaupmenn sögðu stopp:

Í byrjun 18 aldar fóru Íslendingar að vinna miklu meira af vetlingum en sokkum, hvernig sem á því hefur staðið, en kaupmenn voru harðóánægðir með það og fengu því ráðið, að Íslendingum var bannað að vinna meira af vetlingum en til fimtunga við sokkana, og hélzt það upp frá því.
(Jón Aðils. 1971.)

Í verðlagsskrá frá 1861 kemur vel fram að enn borgaði sig engan veginn að prjóna vettlinga til sölu, sokkar voru mun vænlegri: Fyrir sjóvettlinga fengust aðeins 8 skildingar en fyrir eingirnissokka (duggarasokka) fengust 29 1/2 skildingur, 45 skildingar fyrir tvíbandssokka. (Verðlagsskrár. 1861.)
 

Hvernig voru vettlingarnir?

Fyrir utan fátæklegar minjar sem fundist hafa, eins og vettlingana á Stóru-Borg og Bergþórshvoli sem minnst var á í upphafi, er næsta lítið vitað hvernig vettlingar hér á landi voru gegnum tíðina eða hvernig vettlinga Íslendingar seldu út. Vettlingar eru þannig flíkur að þeim var slitið upp til agna og leifar þeirra fátíðar. Þó má e.t.v sjá vísbendingar um vettlingatísku séu skoðuð gömul málverk.

Hjón � Tálknafirði um 1700Vettlingar á 17. og 18. öldÁ myndinni hér til hliðar sjást líklega heiðurshjónin Þórður Jónsson og Guðný Einarsdóttir, sem bjuggu í Stóra-Laugardal í Tálknafirði um og fyrir aldamótin 1700. Myndirnar skreyta tvo kirkjubekki sem nú eru á Þjóðminjasafni Íslands. Bæði eru þau spariklædd og Guðný húsfreyja heldur á mórauðum vettlingum „með háum svartbekkjóttum (flosuðum?) löskum í vinstri hendi.“ (Elsa E. Guðjónsson. 1994.) Smelltu á myndina til að sjá stóra mynd af vettlingum Guðnýjar.

Það er ómögulegt að sjá af máluðu myndinni hvort Guðný heldur á prjónuðum eða saumuðum vettlingum en í ljósi þess að í Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn eru varðveittir prjónaðir fingravettlingar frá sautjándu og/eða átjándu öld sem eru mjög svipaðir þessum (sjá myndina til hægri sem krækir í myndasýningu með stórum myndum af dönsku vettlingunum) og að Gunnister-vettlingarnir skosku, frá því seint á 17. öld, eru einnig svipaðir í laginu má allt eins gera því skóna að Guðný húsfreyja í Tálknafirði hafi átt prjónaða vettlinga skv. tísku þeirra tíma. Hún hefur e.t.v. ekki haft lag á að prjóna sér fingravettlinga en hefur haldið háu uppslögunum/löskunum og kannski flosað (afbrigði af því að rýja) rendurnar efst til að gera vettlingana enn fínni.

Kona � reiðfötum 1772Tæpri öld síðar eru svona vettlingar eða hanskar með háum uppslögum enn í tísku á Íslandi ef marka má málverk John Cleveley yngri frá 1772 af íslenskri konu í reiðfötum. (Sé smellt á myndina til hægri kemur upp stærri mynd af hönskunum hennar.) Cleveley var í föruneyti Joseph Banks sem heimsótti Ísland þetta ár. Reiðkonan prúðbúna á myndinni er líklega klædd saumuðum vettlingum, með útsaumuðum eða baldýruðum uppslögum og myndarlegu kögri. Ég veit ekki hversu sennilegur þessi búningur er en hún er a.m.k. í hefðbundnum sauðskinnsskóm á myndinni.

Þótt Guðný Einarsdóttir í Stóra-Laugardal hafi þurft að láta sér prjónaða vettlinga nægja var ekki svo um háttsettar konur. Í skrá yfir þá muni sem Margrét Halldórsdóttir, dáin 21. júlí 1670, kona Brynjólfs biskups Sveinssonar, lét eftir sig eru m.a. taldir upp „fernir hanzkar, einir hvítir, einir baldýraðir, einir svart-baldýraðir og einir með gullvírsborðum.“ (Jón Aðils 1971, nmgr. s. 457.) Jón Aðils segir: „[- – -] hefur hún þó víst eigi verið neitt sérlega tildursöm eða skrautgjörn“ og víst er að Brynjólfur biskup gekk sjálfur ætíð í heimaunnum vaðmálsfötum til að setja alþýðunni gott fordæmi. (Æsa Sigurjónsdóttir. 2004.) Kannski hafa hanskar Margrétar biskupsfrúar líkst eitthvað hönskum prúðbúnu reiðkonunnar sem John Cleveley málaði öld eftir lát Margrétar.

 

Íslenskir tvíþumla vettlingar

�slenskur sjóvettlingurÁ byggðasöfnum hringinn í kringum landið má sjá tvíþumla sjóvettlinga frá því seint á nítjándu öld til byrjun tuttugustu aldar. Svoleiðis vettlinga má og sjá á söfnum erlendis og oftar en ekki eru þeir sagðir íslenskir en raunar bendir margt til að aðrar þjóðir sem seldu ríkulega af prjónlesi á svipuðum markaði og Íslendingar hafi prjónað eins vettlingar, t.a.m. eru tvíþumla vettlingar meðal þess sem Jótar prjónuðu til sölu. (McGregor, Sheila. 1984.) Á Jótlandi ríkti álíka barnaþrælkun í prjóni og hérlendis og allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu, þæfðu og seldu. Hér má sjá sænska tvíþumla vettlinga, líklega innan við aldar gamla, og hér norska tvíþumla sjóvettlinga en myndin til hægri er af íslenskum tvíþumla vettlingi á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn.

Tvíþumla sjóvettlingar voru, eins og annað íslenskt prjónles, þæfðir vandlega og þurrkaðir og mótaðir á vettlingatrjám „og voru smátré sett í þumlana“. (Jónas Jónasson. 1961.) Þeir höfðu þann kost að þegar annar þumallinn slitnaði, af róðri og volki, mátti snúa vettlingnum og brúka hinn þumalinn óslitinn. Leitt hefur verið getum að því að sjóvettlingar hafi einmitt átt að vera óþarflega langir, „fullstórir“, því þá mátti brjóta endann inn í lófann til hlýinda. (Tilvitnun í Fred Hocker, starfsmann Vasa safnsins í Stokkhólmi, á vefsíðunni Ready to wear (1640s style). Þegar fiskimenn í nyrstu héruðum Noregs (Nordland og Troms) gerðu sig klára á fiskveiðar í Lofoten prjónuðu konurnar á þá sjóvettlinga út bestu ullinni, laust spunninni og lítt tvinnaðri, á grófa prjóna. Sjóvettlingarnar voru hafðir þrefalt stærri en venjulegir vettlingar því þeir áttu að fá endanlega lögun við þæfingu, annað hvort í sóda- eða sápuvatni – í fiskisúpu á stöku stað. (Nielsen, Ann Møller. 1988.) Eins og fyrr var sagt áttu íslenskir sjóvettlingar að vera vel rónir. Niels Horrebow lýsti aðferðinni þannig: „Þeir sem róa út á sjó klæðast vettlingunum, dýfa þeim öðru hvoru í hafið og þæfa þá þannig um leið og þeir róa, milli handanna og áranna – og þurfa ekkert að hafa fyrir þessu annað en að róa.“ (Horrebow, Niels. 1752.)

 

Tv�þumla vettlingur 1772Tv�þumla vettlingur 1772Ef marka má fyrri tíðar myndverk voru hvunndagsvettlingar karla almennt tvíþumla, þurfti ekki sjómenn til. Til vinstri er bútur úr málverki John Cleveley yngri af húsi og umhverfi þess við jaðar Garðahrauns 1772. Á annarri teikningu gerðri í för Banks hingað til lands 1772 sést lítil stelpa í tvíþumla vettlingi. (Báðar myndirnar krækja í stærri útgáfur.)

Tvíþumla vettlingar hafa stundum komið erlendum ferðamönnum spánskt fyrir sjónir, t.d. þessari ensku frú sem ferðaðist um Ísland laust fyrir 1890:

Þessir vettlingar […] eru gerðir eins barnsvettlingar, með þumal beggja vegna; og ef lófi vettlingsins slitnar þegar karlmaðurinn rær eða stundar aðra erfiða vinnu, snýr hann honum einfaldlega og notar hinn þumalinn. Þessir vettlingar eru venjulega prjónaðir úr grárri ull, þumlarnir hafði hvítir, og úr fjarlægð líkjast þeir kanínuhaus með löngum eyrum. (Tweedie, Alec. 1894.) 
 

P.S. Þríþumla vettlingar tíðkuðust á miðöldum í Evrópu og eitthvað lengur. Saga þeirra er rakin hér og finna má fleiri myndir á þessari síðu með leiðbeiningum fyrir miðaldahlutverkaleiki eða á teikningu Breu frá 1535-30 á British Museum. Mér vitanlega eru engar heimildir um að svoleiðis vettlingar hafi verið notaðir á Íslandi.
 
 

Um útsaumaða og útprjónaða vettlinga verður fjallað í næstu færslu.
 
 
 

Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
 

Áslaug Sverrisdóttir. Tóskapur. Ullarvinna í bændasamfélaginu. Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Þjóðminjasafn Íslands. 2004, s.197-203.

Elsa E. Guðjónsson: Um prjón á Íslandi. Hugur og hönd 1985, s. 8-12.

Elsa E. Guðjónsson. Fágæti úr fylgsnum jarðar. Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 166:1, vor 1992, s. 7-40.

Elsa E. Guðjónsson. Kirkjubekkir frá Stóra-Laugardal. Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Þjóðminjasafn Íslands og Hið íslenska bókmenntafélag. 1994, s. 144-145.

Horrebow, Niels. Tilforladelige Efterretninger om Island med et nyt Landkort og 2 Aars Meteorologiske Observationer. 1752, s. 333-4. Aðgengileg á Google books og krækt í hana þar.

Jóhanna Kristjánsdóttir. Vestfirzkir laufaviðarvettlingar. Hugur og hönd 1973, s. 14-15.

Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenzkir þjóðhættir, þriðja útgáfa 1961. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík. Bókin var fyrst gefin út 1934.

Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. Prjón.  Hugur og hönd 1984, s. 10-13.

McGregor, Sheila. The Complete Book of Traditional Scandinavian Knitting. B.T. Batsford Ltd., London. 1984.

Nielsen, Ann Møller. Alverdens strikning – historie og teknik. Forlaged Ariadne, Fredericia. 1988

Tweedie, Alec. A Girl’s Ride in Iceland. London. 1894, önnur útgáfa. Bókin er aðgengileg á Gutenberg.org og er krækt í hana þar.

Verðlagsskrár. Íslendingur, 8. mars 1861, s. 182.

Þorkell Jóhannesson. Ullariðnaður. Iðnsaga Íslands, síðara bindi, s. 135-153. Ritstjóri Guðmundur Finnbogason. Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík. 1943.

Þingeyingur. Nokkur orð um vöruvöndun og vörumat. Norðanfari 16. júní 1880, s. 80
 
Æsa Sigurjónsdóttir. Klæðnaður og tíska. Breytingar á fatnaði í ellefu aldir. Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Þjóðminjasafn Íslands, 2004, s. 236-245. Greinina má einnig finna á vef Þjóðminjasafns og er krækt í hana hér.