Category Archives: Uncategorized

Spakmæli og hóglífi

Eiginlega nenni ég ekkert að blogga þessa dagana.  Sennilega er ég orðin of góðu vön eftir hina löngu pásu sumarsins.

Allt gengur mér í haginn, sjálfsagt af hinu nýja sláandi lífsmottó “Ég vænti einskis / ég óttast ekkert / ég er frjáls!” ?  Ég hallast að því að hinu góða slagorði sé að þakka t.d. það að ég mætti upp í skóla rúmlega átta, tók til í vinnubásnum mínum í 2 tíma (henti aðallega pappírsdrasli en raðaði einhverju í möppur), fékk svo leiðbeiningar um rosasniðugt útprentifyrirtæki á vefnum og sá þar lausn fyrir póstkortavinnuna sem ég er lögst í …

og svo nennti ég engu meir og fór heim og lagði mig.  Las af ísskápnum eitthvað um langhlaup ekki spretthlaup (geðorðasegullinn), muldraði “Festina lente” og skreið undir sæng. Mikið rosalega er þægilegt að hafa aðgang að mjög mörgum spakmælum úr ýmsum áttum sem brúka má við ólíkar aðstæður og uppákomur! Uppáhaldið mitt eru Hávamál en þau segja því miður ekkert um að maður skuli leggja sig.

Við fórum í árlegu Ráðleysubrennuna í gær, heldur fámennari en vant er því Máni og unnustan fóru til Parísar sama dag og unglingurinn kom heim af Færeyskum dögum í Ólafsvík, ósofinn en annars nokkuð vel til reika. 

Á morgun ætla ég að skvera upp kennsluáætlunum í mínum áföngum og hitta fleira fólk en í dag. Aðalmarkmið morgundagsins verður að hraðganga lengst upp í sveit og stinga bréfi í póst. Hér í okkar góða kardimommubæ fannst Íslandspósti heppilegt að flytja pósthúsið úr nokkurn veginn miðjum bænum upp í útjaðar bæjarins. Ég veit ekki hver stjórnar skipulagi bæjarins en allt stefnir nú í það að hér verði þrír miðbæir.  Sem betur fer bý ég í þessum í miðjunni. Það er náttúrlega gott fyrir mig að fá tækifæri til hunskast til að hreyfa mig eitthvað en mér hefur orðið hugsað til fólks sem er ekki alveg eins frátt á fæti. (OK – ég er ekki frá á fæti en verð það því ég skipti yfir í apótekið við hliðina á pósthúsinu in-the-middle-of-nowhere!) Það fólk verður bara að búa við það að geta ekki sent póst.

Sem sagt: Morgundagur planaður, ég komin með góða græju (sem ég á bara eftir að læra aðeins á) fyrir útgáfu á 100 póstkortum, sumum aldargömlum, og ég fékk Atla til að bera heim hljómborðið sem var í básnum mínum í morgun (sú sem fékk það lánað er búin að biðja mig að sækja það alltaf öðru hvoru í eitt og hálft ár). Ég fann góðan stað fyrir þetta bak við hurð enda ekki miklar líkur á að manneskja sem ekki nennir að grípa í sitt pjanóforte sé að glamra á rafmagnsgræju – ó, nei! En maður getur sosum ekki gert allt svo það er um að gera að vænta einskis, óttast ekkert og vera frjáls (og þá ekki eins og Sumarhúsaslektið skildi orðið).

HARPA

Ég pantaði mér tíma í klippingu og skverun, núna rétt áðan. Þekkti strax á röddinni að ég væri að tala við Hörpu, fyrrum nemanda minn en núverandi hárgreiðslukonu.  Það var laus tími hjá nema, á morgun.  Við Harpa vógum þetta og mátum sem svo að ekki væru hundrað í hættunni því engar stórfelldar breytingar á lit og klippingu væru á dagskrá. Ég hafði áhyggjur af því að nemanum þætti óþægilegt að klippa kennara (fyrrverandi sinn) en Harpa á hárgreiðslustofunni taldi það ekkert mál.  Svona í lokin spurði ég: “Hvað heitir svo neminn?” … Viljið þið giska?  Neminn heitir Harpa!

Þetta veit sennilega á stórtíðindi!

P.s. Og systir mín er flutt í kósí múmínhúsið á Hörpugötu, númer “afmælisdagurinn_minn” 😉 

Dularfulla systirin

Geðkvarðinn hækkaði um leið og ég fékk gömlu albúmin (það vantar samt ennþá eitt albúm, þetta með myndum frá forsetaheimsókninni í Ásbyrgi … en ég hef ekki brjóst í mér til að bögga gamalmennið meir!) og póstkortin. Myndirnar í albúmunum eru afar illa farnar og verður spennandi að sjá hverjum má bjarga og hversu langt borgar sig að ganga í fiffun.

Svo fólk haldi ekki að ég sé sjálfbjarga einhverf þá tók ég hlé í myndavinnunni til að þrífa húsið almennilega og einnig til að fara með elsku manninum í berjamó í gær. Jafnframt leituðum við að Maríuhöfn og fundum af hyggjuvitinu einu saman – heimkomin fletti ég korti Danska herforingjaráðsins og sá svart á grænu hve við hjón höfðum haft rétt fyrir okkur!

Aðallega er ég samt að skanna kort.  Það er óhugnalega seinlegt því á hverju korti þarf að skanna framhlið og bakhlið og reyna einhvern veginn að sortéra í leiðinni. Ég hugsa að þetta séu hátt í hundrað kort.

Íslendingabók er grunnurinn til að reisa svona ættarsögu. Í Íslendingabók stendur klausan til vinstri, um hana Pálínu langömmu, sem ýmist var titluð öllum sínum nöfnum eins og hér, Hildarnafninu oft sleppt, Pálína Einarsson eftir að hún giftist Jóni Einarssyni langafa … og í Legstaðaskrá á gardur.is heitir hún Pálína Einarsdóttir og er algerlega óþekkt, þ.e. fæðingardagur, dánardagur, jarðsetningardagur o.þ.h. er ekki vitað.

Mér finnst Legstaðaskrá soldið líta á hana Pálínu eins og niðursetning og ég er handviss um að hún hefði aldrei verið sátt við það!

Jæja … hafandi þessar upplýsingar reiknaði ég með að Hlaðgerður litla María, sem fæddist árið 1867, hafi dáið í bernsku. Það gæti skýrt það að dánarárs er ekki getið, í Íslendingabók.

  

Ég tékkaði samt á Legstaðaskrá og með því að gefa alla kirkjugarða landsins sem leitarstað fann ég þessar þrjár Hlaðgerðar. Hlaðgerður Laxdal var heillandi möguleiki uns ég sá að fæðingarárið passaði ekki. Svo hefði verið soldið skrítið að hafa aldrei heyrt minnst á þessa Hlaðgerði Laxdal, hefði hún verið langömmusystir mín og lifað til 1970. (?)

Textinn:

Elsku systir mín!

Jeg sendi þjer þetta kort að gamni mínu og vona að guð gefi að það hitti þig fríska eftir hætti [?]. Jeg kem oft til H [?] / K [?]*  frænku því jeg æfi mig á flygelið.

Mamma segir þjer frjettir.

Vertu blessuð og sæl elsku systir

þín Lúlla (?)

*K=Katrín Viðar?

  • Er þessi Lúlla systir Pálínu?
  • Er Lúlla stytting fyrir Hlaðgerður? (Eina Hlaðgerðurin sem ég man eftir á Raufarhöfn var kölluð Della …)
  • Ef Pálína hefur átt systur sem lifði langt fram á síðustu öld; Hvernig stendur á því að maður hefur aldrei heyrt á hana minnst? Nú skora ég á móður mína að útskýra Lúllu, Hlaðgerði eða aðrar konur sem kalla Pálínu Hildi systur sína 🙂

(Kannski er rétt að taka fram að Íslendingabók nefnir allskyns klúður í manntölum og kirkjubókum á tímabilinu 1880-1900. Sem betur fer á ég góðkunningja í Þjóðskjalasafni og ætti kannski næst að róa á þau mið?)

P.s. Ég á í bölvuðum vandræðum með að fá formatið á texta og mynd til að virka.  Nú nenni ég þessu ekki lengur og verður að hafa það þótt síðari hluti færslunni líti ekki eins lekker út og óskandi væri.

Dagamunurinn

Ég hef sigið neðar á geðslagsmælikvarðanum undanfarna daga. Það er hundleiðinlegt!  Eitt sem fylgir er rugl á svefni: Nú sef ég á þrískiptum vöktum og næturvaktinni lýkur kl. 5. Ég reyni að njóta rólegheitanna þegar heyrist ekkert nema tístið í litlu góðu fuglunum (við að skíta á pallinn minn) og smellirnir í bréfalúgunni þá pappírsflóðið berst. Ég get upplýst að í þessu hverfi  berst mogginn kl. 5.15 og fréttablaðið kl. 6.05.

Að sjálfsögðu ákvað ég að líta á þessa lægð sem hvurn annan dagamun. Sumir skreppa á barinn til að gera sér dagamun; ég hjúfra sófann og les, í þessu ástandi.

Las: “Hún hafði rumskað aðeins en var að koma til, hugur hennar var eins og mysa, gráhvítur og óskýr.” (Fritz Már Jörgensson. 2008. Grunnar grafir, s. 229, feitletrun mín.) Persónunni hafði verið byrlað Ropan í miklu magni en var ekki beinlínis að gera sér dagamun eða föst í dagamun en líðanin virðist svipuð. Orðsifjasinnaður heimspekingur heimilisins fór strax að fabúlera um að af þessu orðalagi og ástandi, þ.e. að hugurinn sé eins og mysa, væri dregið orðið myslyndur!

Mér finnst mysa hryllilega vond!  Mér finnst dagamunur líka hryllilega vondur. Af því leiðir að ég samþykki umsvifalaust að myslyndur sé orðsifjalega rétt stafsetning og mun hér eftir reyna að tryggja ypsilonið.

Stafræna handavinnan

E.t.v. hafa dyggir lesendur mínir gaman af því að sjá hvað ég hef verið að bardúsa upp á síðkastið. (Þessa klausu skrifa ég svo engin(n) haldi að ég sé beinlínis að fara að monta mig – ó, nei!)  Ég segi ekki að ég gangi prjónandi milli bæja en aftur á móti hugsa ég stundum um pixla, í sólbaði …

Hvor litlu myndanna krækir í stórt pdf-skjal (sem allir geta prentað út 🙂

Uppskriftin er: Óendanleg þolinmæði í að skrapa saman gömlum myndum, með jákvæðum og neikvæðum strokum; óendanleg þolinmæði í að lagfæra gömlu myndirnar; spennandi grúsk í gömlum dagblöðum, á timarit.is, skoðun frírra skrapp-mynstra á Vefnum (sjá dæmi) og så videre …

Hausinn upp úr um helgina?

Þegar synir mínir voru smákrakkar (hvor um sig) vildu þeir endilega fá að sulla góða stund í baðkerinu áður en fljótvirk sturtan skolaði af þeim sandinn o.fl. um kvöldmatarbil. Það þurfti líka að finna til skipaflota og alls konar aksjón-kalla með í baðið; stundum rétt komst krakkinn oní með öllum þessum fylgihlutum.

Ábyrgðarlaust foreldrið (eins og ég) hékk á meðan yfir tölvunni eða ritgerðaryfirferð en kallaði reglulega, eiginlega ótt og títt: “Ertu ekki örugglega með hausinn uppúr?” Svo lengi sem afkvæmið, í bleyti í baðinu, svaraði spurningunni vissi foreldrið að allt var í lagi. Augljóslega hefði ekki verið hægt að svara ef krakkaskömmin lægi í kafi.

Nú fékk sá sautján ára að fara á húllumhæ norður í landi yfir verslunarmannahelgina. Útsjónarsamir foreldrar (annarra) höfðu sett upp ansi gott plan og skaffað ansi fínar aðstæður. Samt sem áður hefur mér þótt rétt að hringja a.m.k. einu sinni á dag til að vita hvort ekki sé örugglega allt í lagi. Unglingurinn er dauðpirraður á þessu tékki og lætur móður sína finna það. Ég kann samt ekki við annað en athuga statusinn; alveg eins og í gamla daga þegar ég þurfti staðfestingu á því að 3, 4, 5, 6 o.s.fr. ára gamalt barnið væri með hausinn upp úr.

Míns er lagður af stað heim og ekur sínum bíl – krakkinn er góður bílstjóri svo ég hef ekki tiltakanlegar áhyggjur af heimleiðinni. Vonandi hafa aðrir unglingar sem flestir haft hausinn upp úr um þessa svallhelgi.

Í gær skruppum við hjónin til þurrabúðarinnar og horfðum á Mömmu Míu.  Mér þótti þetta aldeilis frábær mynd! Spurning hvort ég ætti að fá systur mína með á fimmtudagskvöldið en þá, altént í Laugarásbíó, verður “Sing along” sýning. Einhverja hef ég heyrt væla yfir að söguþráður myndarinnar væri ómerkilegur – en ekki hvað?  Hafa óperur merkilegan söguþráð upp til hópa? Eða aðrir söngleikir?  Yfirleitt eru þetta elskendur sem ná ekki saman fyrr en í lokin eða ná alls ekki saman og syngja fimm aríur á dauðastundinni með trukki! eða eitthvað álíka. (Ég hef verið að reyna að rifja upp söguþráðinn í Rauðu myllunni / Moulin Rouge en mér er eiður sær að ég man bara eftir lögunum.”  

Enn hef ég ekki haft orku í að fínpússa útlit og linka en þetta hefst allt með hægðinni.

Snúið á ný til bloggheima

Ég ákvað að hverfa aftur til hollra lífshátta.  Hollir lífshættir eru m.a. að blogga og una sér við hannyrðir.  Þess vegna hef ég (í huganum) lagt drög að svartri klukku, klukkprjónaðri náttúrlega og rifjað upp ýmsar stillingar á þessu bloggi (ekki allar samt – man ekki hvar maður fer inn í kóðann sjálfan en reikna með að finna það fljótlega út).

Sumarið hefur annars liðið í velsæld, sem sjá má að nokkru leyti á myndasíðu mannsins, http://this.is/atli/album. Af eigin afrekum má helst nefna að ég las ævisögu mína undanfarin 4 ár (1500 bls. af bloggi). Mestallt var þetta nýtt fyrir mér og því mjög spennandi að vita hvernig ýmsum málum lyki 🙂  Þegar ég var farin að lesa í þriðja sinn setninguna “Ég var að klára Fólkið í kjallaranum. Hún er svakalega góð!” einsetti ég mér að  hía á hvern þann geðlækni sem heldur því fram að minnistap eftir raflostmeðferð dekki ekki nema nokkra mánuði!

Ég hef tekið ástfóstri við nýjar hannyrðir sem eru að búa til stafrænar úrklippubækur (“scrap”) af formæðrum mínum og for-hinu og þessu. Hef svifist einskis til að ná í heimildir!

Loks má nefna að ég hef fengið mér nýtt kjörorð eða möntru til að tyggja yfir sjálfri mér, til rósemdar og sáttar við heiminn. Ég var orðinn dulítið þreytt á “einn dag í einu”; “góðir hlutir gerast hægt / með hægðinni hefst það”, “gættu dagsins í dag því hann er lífið sjálft” o.s.fr. Í bíltúr okkar hjóna gerðum við stuttan stans í Húsafelli og þá sá ég þessi kjörorð á legsteini. Síðan hef ég komist að því að þetta er grafskrift á leiði Nikos Kazantzakis (1883 – 1957), frægasta kríska skáldsins, sem m.a. samdi Grikkjann Zorba og Síðustu freistingu Krists. Nýja mantran / tuggan er:

Ég vænti einskis; Ég óttast ekkert: Ég er frjáls. (Δεν ελπίζω τίποτε. Δεν φοβάμαι τίποτε. Είμαι λεύτερος ) 

Keypti mér 2 boli með þessari ályktun og mun kappkosta að lesa grískt letur á haus frá ofan brjósta niður á nafla þegar ég lendi í óvenju ergilegum kringumstæðum í vinnunni og slaka mér þannig niður. Ég vonast t.d. ekki til þess að allir ofvirku nemendurnir séu á ritalíni …

Jæja: Farin að fitja upp og koma mér fyrir til að horfa á hann Barnaby krúsidúllu leysa nokkur morðmál.

Farin – hætt – logguð út

  Af persónulegum ástæðum hef ég lokað blogginu.

Lesendum mínum þakka ég samskiptin á liðnum árum og bið þá vel að lifa!

Harpa

Hello world!

Welcome to WordPress. This is your first post. Edit or delete it, then start blogging!